Crystal Palace – Liverpool

Liverpool heimsækir Crystal Palace á Selhurst Park á sunnudag og hefjast leikar kl. 13:30.

cp vs lfc

Selhurst Park. Neil Warnock. Úff. Ég þoli ekki hvað við erum lélegir þetta tímabilið. Ég þoli ekki Selhurst Park og ég svo sannarlega þoli ekki Neil Warnock. Ég veit ekki hve oft ég hef sagt það þetta tímabilið, við bara verðum að vinna þennan leik, af svo mörgum ástæðum.

Formið

Eins slakir og við höfum nú verið þá hafa Crystal Palace verið talsvert slakari. Þeir sitja í 17 sæti deildarinnar með 9 stig eftir 11 leiki, 5 stigum á eftir okkar mönnum sem eru í 11 sæti deildarinnar. Þeir hafa fengið á sig næst flest mörkin í deildinni eða 20 stykki sem gerir rétt tæplega 2 mörk í leik. Aðeins QPR hafa fengið fleiri mörk á sig. Skemmtilega staðreynd dagsins (misskemmtileg, ég viðurkenni það) er sú að Crystal Palace hafa skorað jafn mörg mörk og Liverpool, 14 stykki (munaði ekki nema 68 mörkum í mörk skoruð tímabilið 2013/14).

Taflan, heima og úti

Bæði lið hafa verið arfaslök síðustu vikurnar, Crystal Palace hafa fengið 4 stig af 18 mögulegum á meðan Liverpool hefur tekið 8 stig af 18 mögulegum. Af þessum 4 stigum sem Palace hefur náð í kom meirihlutinn í þeirra eina sigri á heimavelli þetta tímabilið, er þeir sigruðu Leicester 2-0.

Sú var tíðin að svona lélegt form andstæðinganna hefði fyllt mann bjartsýni, en þegar maður skoðar stöðu okkar manna fer allur vindur úr manni. Þrjú töp í röð staðreynd og ekki unnið deildarleik í yfir mánuð.

Form

Ofan á þetta allt saman höfum við ekki unnið á Selhurst Park í síðustu fimm heimsóknum og þarf að fara aftur til ársins 1997 til þess að finna síðasta sigur Liverpool á þessum velli.

Crystal Palace

Crystal Palace hefur nánast úr öllum sínum leikmönnum að velja. Þeir hafa verið að spila 4-4-1-1 mikið hingað til, eða 4-3-1-2 með Puncheon, Chamakh og Frazier Campbell sem sína fresmstu og lang hættulegustu menn. Campbell er auðvitað þeirra markahæsti maður (ásamt Jedinak) með þrjú mörk í deild.

Martin Kelly, sem er okkur kunnur, er auðvitað að spila með Crystal Palace. Það var síðasta verk Pulis að kaupa hann áður en hann sagði af sér. Hann hefur haldið sér nokkuð heilum og spilað 9 deildarleiki það sem af er tímabili, má alveg búast við honum í hægri bakverði á morgun.

Þegar ég horfi á hópinn þeirra og skoða uppstillinguna í síðustu leikjum þá eru ekki margir leikmenn þarna sem heilla mig. Mér finnst í raun ótrúlegt að þeir hafi endað þetta ofarlega á síðasta tímabili. Ætli Pulis faktorinn spili ekki ansi stórt hlutverk þar.

Kop.is spáði þeim 17 sæti í vetur, þar sem þeir sitja núna, en sjálfur spáði ég þeim falli og þeir hafa gert fátt til þess að breyta þeirri spá í mínum huga, annað en okkar menn!

Ég ætla að skjóta á að stórvinur minn Warnock stilli þessu svona upp:

Speroni

Kelly – Dann – Delaney – Ward

McArthur – Ledley – Jedinak

Puncheon

Chamakh – Campbell

Liverpool

Það er svo sem ekkert nýtt að frétta af okkar mönnum. Sturridge er utan hóps eins og við erum orðnir vanir, hefur heldur betur unnið fyrir þessari launahækkun sinni nú í haust. Sakho er ekki enn farinn að æfa. Balotelli er víst eitthvað tæpur eftir að hafa spilað sig inn í landsliðshóp Ítala á nýjan leik (Borini hlýtur að vera banka á dyrnar hjá þeim m.v. þetta) en meiðst þar á æfingu. Henderson varð fyrir einhverju hnjaski með Englendingum, en á að vera orðinn leikfær. Flano er svo auðvitað áfram meiddur og verður þar til á nýju ári.

Það er ómögulegt að spá fyrir um uppstillingu hjá okkar mönnum, ég sé Brendan ekki fara í tígulmiðju með tvo á toppnum fyrr en að (ef) Sturridge kemur til baka. Þó svo að hann myndi stilla upp tveimur framherjum, eins og hann gerði t.d. gegn Swansea í Carling Cup, þá hefur Borini hingað til verið að spila sem væng-framherji, ekki sem sóknarmaður.

Ég ætla að skjóta á að Rodgers spili Lambert, eins og hann gaf í skyn á blaðamannfundi fyrir leikinn. Fyrir aftan hann verða þá Lallana, Sterling og Coutinho. Nokkuð sókndjarft lið:

liðið

Ég gæti samt séð hann fara allt aðra leið. Spila á Lucas Leiva með Gerrard á miðjunni, enda var hann ekki með landsliðinu í vikunni. Freista þess að stjórna leiknum betur og ná að þrýsta Palace liðinu upp völlinn, Henderson myndi þá fá frjálsara hlutverk.

Ef ég, sófaspekingurinn, væri að stilla þessu upp þá myndi ég vilja sjá þetta lið:

Liðið mitt

Einfaldlega vegna þess að mér finnst Sterling MUN betri í holunni, frekar en út á kannti. Ég vil sjá Henderson í aðeins frjálsara hlutverki (sbr Spurs leikurinn) og Borini, á sínum slöku dögum skilar hann amk vinnuframlaginu. Eins mikið og mig langar að öskubuskuævintýri Lambert gangi upp þá hefur hann nánast verið slakari en Balotelli í þeim leikjum sem hann hefur fengið séns, þá er mikið sagt.

Spá og pælingar

Ég veit ekki hve oft ég er búinn að spá okkar mönnum sigri, spá comebacki, spá að næsti leikur sé sá leikur sem við kick-störtum tímabilið upp á nýtt. Eiginlega vandræðilega oft, svona svipað oft og ég er búinn að spá því að Balotelli skori. Aldrei lærir maður.

Ég verð samt að segja eins og er, og er alls ekki að tala niður til Crystal Palace, en ég bara sé ekki hvernig við töpum þessum leik. Í alvöru. Meira að segja á okkar formi þá finnst mér þetta Crystal Palace lið bara svo lélegt að meira segja við eigum að geta unnið þá. Þetta segi ég þrátt fyrir að Lovren og Skrtel séu nokkuð líklegir til að láta Chamakh líta út eins og Drogba og Campbell sem Messi.

Ég ætla því að skjóta á 0-1 sigur okkar manna. Lambert með markið (Bara af því að ég gat ekki valið Balotelli, verður líklega á bekknum) og allir glaðir, eða svona næstum því.

Koma svo! Ég bið ekki um mikið. Einn leik. Einn skemmtilegan leik. Einn. Það nægir mér í bili. Bara að það sé skemmtilegt að setjast niður fyrir framan sjónvarpið. Einu sinni.

YNWA

30 Comments

  1. Fín upphitun.

    Spái 2-1 sigri. Sterling og BALOTELLI með mörkin.

    Annars var ég minntur á einn góðan brandara um daginn – Ætli Suarwz borði Aspas ? Viti menn, ég sakna Aspas!

  2. Var að horfa á helstu atriði úr Dortmund leiknum á undirbúningstímabilinu. Það væri nú gaman að sjá spil eins og sást þar, tala nú ekki um eins og 4 mörk. Mér finnst ég ekki vera að biðja um mikið.

    Og já, ég væri alveg til í að sjá Lallana og Lambert inná á sama tíma, sjá hvort þar sé ekki ennþá einhver neisti.

  3. Sá nokkrar myndir af Harry Wilson á æfingu með aðalliðinu, má ekki fara prufa gefa honum nokkrar mínútur?

  4. ER bara ekki best að óska sér jafntefli? meina 1 stig er betra síðustu sigin sem við höfum safnað okkur eru víst 0 undanfarið!

    Geri engar væntingar með þennan leik, fyrirfram á þetta að vera auðveldur leikur, Enn hey þetta er nýtt liverpool lið og engin leikur er auðveldur. Jákvæða við þetta þeir geta varla farið á verra level enn þeir hafa boðið okkur upp á þessu tímabili. Komin tími að þeir vinni einiu sinni fyrir kaupinnu sínu og spili bolta sem sómir Liverpool.

    Bara fyrirgefið síðuhaldarar ég á hrikalega erfitt með finna eitthvað jákvætt með Liverpool eftir vægast sagt erfitt haust. Búinn að brenna nokkrar helgar í röð með þvílíkar væntingar og þær eru endanlega horfnar. Frasinn Góði er á meðan er!!

  5. allveg sammála þér með liðið henda svo coutinho og markovich til að hrista uppí þessu ef ílla gengur djöfull sem það væri ljuft að sigra þennan leik og komast á smá run !

    Êg spái þessu 3-0 hef mjög góða tilfinningu fyrir þessum leik og leikmennirnir eru vonandi búnir að sætta sig við að sturridge sé meiddur út árið og fari að trúa aðeins á sjálfan sig ekki aðra. Sterling setur 2 og gerrard 1

  6. Ég er sammála byrjunarliðinu í upphituninni og held að Liverpool fari með sigur af hólmi í dag….og ég segi það bara vegna þess að Warnock er einhver mest óspennandi þjálfari á Bretlandseyjum. Ef einhver vill veðja gegn því að C.Palace falli þá sendið mér póst.

  7. Þetta verður í besta falli jafntefli. Útilokað að við höldum hreinu og enn útilokaðra að við skorum meira en eitt. 1-1 er þess vegna no brainer :/

  8. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Eyþór og hún er af því taginu að maður fyllist bjartsýni og sigurvissu við lesturinn. En nóg um það. Þessi leikur leggst vel í mig einhverra óútskýranlegra hluta vegna og ég er viss um að það verða skoruð mörk og það fleiri en eitt. Það er líklegt að vörnin okkar leki eins og gatasigti en samt – við munum skora fleiri á morgun og því er mín spá 2-3.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  9. Takk fyrir uppbyggilega og jákvæða upphitun. Langar helst að fara og drekkja mér í sturtunni núna! 😉

    Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og hef mikla trú á þessu liði okkar, sem hefur strögglað með formið sitt hingað til mínus örfáa leiki. Núna hafa menn haft góðan tíma til að vinna í göllunum og ég er algjörlega viss um að rönnið okkar fer í gang á morgun.

    Mín spá 0-2. Borini og Sterling með mörkin.
    YNWA!

  10. Sæl öll,

    Fín upphitun en það sem ég les út úr henni er að það er farið að örla á því að höfundur er farinn að efast um verkefnið. Það er svo sem ekkert skrýtið þar sem hörmulega hefur gengið í allt haust. Eins og einhverjir hafa lagt fram á þá hefur BR fallið á mörgum prófum þetta tímabilið. Ég er sammála því, hann er að mínu viti og yfirsýn (sem að sjálfsögðu er eingöngu sem sófaspekingur) ekki að prófa réttu hluti og alls ekki að byggja á aðferðafræðinni sem gekk svo vel á síðasta tímabili. Ég get bara ekki með neinu móti skilið af hverju ekki er hægt að spila með tvo uppi á topp og tígulmiðju þótt að Sturridge sé meiddur. Eins og tímabilið hefur spilast mundi það ekki skemma neitt að prufa þetta einn leik. Þó að það væri ekki nema til þess að gefa Balotelli meira vinnurými og sjálfstraust. Þessar nokkrar mínútur sem spilaðar hafa verið með tvo uppi skoraði Balotelli.

    Ég hef enga trú á því að þessi varnarleikur sem BR hefur boðið upp á allan sinn feril hjá Liverpool komi í veg fyrir að Cristal Palace skori. Því er ég að reyna átta mig á hvaðan mörkin, a.m.k. tvö eiga að koma til þess að Liverpool vinni leikinn.

    Cristal Palace leggur leikinn svona upp:
    – Liggjum aftarlega og leifum þeim að spila sýn á milli .
    – Bíðum rólegir eftir að Liverpool gera mistök, þau koma alltaf
    – Jafntefli eru góð úrslit fyrir CP
    – Þegar bakvörður Liverpool fer upp, bíður einn af sóknarmönnum CP í “holunni” sem hann skilur eftir sig.
    – Puncheon eltir SG þegar Liverpool er með boltann
    – Ef staðan er jöfn eða CP einu marki undir síðustu 10 min. Þá keyrum við á þá og pressum þá til baka. Liverpool eru brothættir andlega þegar þessi staða er uppi í leikjum.

    Eins og ég hef sagt margsinnis er von mín að Liverpool spili með tvo uppi á topp. Varnar- og miðjumönnum Liverpool vantar sárlega fleiri sendingarmöguleika framar á vellinum. Einnig þurfa fleiri Liverpool menn að vera inni í teignum þegar boltinn er á síðasta þriðjungnum. Það er alltaf gaman að horfa á fótbolta en það er orðið spennandi að fylgjast með því hvernig og hvort BR nái að klifra upp úr þeirri holu sem hann er kominn ofan í. Ef upplegg Liverpool verður það sama í þessum leik og þeim síðustu, tapast þessi leikur, jafntefli er tap í mínum huga. Ég hrópa eftir breitingum. Áfram Liverpool.

  11. Það sem Liverpool verður að gera til þess að eiga einhvern möguleika á að gera eitthvað í vetur.
    Koma Balotelli í gang. Ég veit að það er búið að reyna og reyna en Lambert og Borinu að spila sinn besta fótbolta eru bara fínir leikmenn en Balotelli að spila sinn besta fótbolta er einfaldlega heimsklassaleikmaður og okkur vantar svoleiðis.

    Koma Sterling í gang. Hann byrjaði tímabilið frábærlega en hefur verið að dala mikið og þarf að fara að vakna. Án Sturridge þá þurfum við einfaldlega að láta smá ábyrgð á þennan unga strák þótt að það sé kannski ósangjart.

    Verðum að spila Lallana, því að það býr mikið í þessum strák og ef hann og þessir tveir fyrir ofan ná sér á strik þá erum við allt í einu komnir með hörkulið.

    Ég treysti Rodgers og segji að hann nái að koma liðinu fljótlega í gang.

  12. Í fyrsta skipti í nokkur ár er mér alveg sama hvort ég missi af leik eða ekki. Það er algjörlega ömurleg og sorgleg staða.

  13. Ég man, fyrir ekki svo löngu, þegar maður spáði svona leikjum 10-0 og var ekkert að grínast. Good times…

    Nú nennir maður varla að skoða hvernig leikurinn fór, tala nú ekki um að horfa á sjálfan leikinn. Maður fer varla að skemma sunnudagsþynnkuna með að horfa á þetta, hún á betur skilið.

  14. Við erum aldrei að fara að halda hreinu og því miður sé ég ekki hvaðan við eigum að fá tvö mörk á morgun til að sigra leikinn. Reikna með 1-1 jafntefli og SG með mark úr vítaspyrnu.

  15. Sælir aftur félagar

    Það er svo mikil óhamingja og svo litlar væntingar og svo lítil trú og svo mikið af engu í þessum kommentum hjá okkur að það hálfa væri nóg. Hvernig væri að rífa sig upp og öskra út í myrkrið og nóttina. VIÐ VINNUM ÞENNAN HELV… LEIK Á MORGUN OG EKKERT HELV… VÆL
    Og taka hvaða þynnku sem er eða hvaða ástand sem er á mönnum og hafa trú og horfa á leikinn með trú og von í hjarta. Þetta er ömurlegt hérna fyrir ofan og verður að breytast – eins og reyndar leikur liðsins og það GERIST Á MORGUN.

    Það er nú þannig

    YNWA

  16. Farið og skoðið næstu 4 umferðið öll liðin fyrir ofan okkur eru að fara að mætast innbyrgðis mjög oft. Ef við náum að drullast til að vinna næstu leiki þá er aldrei að vita nema við verðum í virkilega góðum málum þannig þetta er svo mikill skyldusigur varðandi framhaldið KOMA SVO !

  17. Satt hjá #11 og #18.

    Án Sturridge er Balotelli einfaldlega eini gæðaframherjinn sem liðið getur teflt fram og það eru margir mikilvægir leikir eftir fram í janúar, þegar fyrsta tækifæri til að gera eitthvað í þessum málum opnast. Aðrir verða ekki í boði fram að því. Nú reynir virkilega á BR, bæði upp á man management og upplegg.

    Sem betur fer eru svo gott sem öll önnur “alvöru” lið en Chelsea að misstíga sig með stæl það sem af er þessu stórfurðulega tímabili. Okkar menn verða samt að detta MJÖG fljótlega í alvöru stigasöfnun. 4. sætið verður líklega tekið á MUN færri stigum en 79 (síðasta tímabil var klárlega jaðartilvik) eins og málin eru að þróast. Ég giska á að það þurfi svona 2.15 ppg form út tímabilið til að enda í 4. sæti (þá 2.25*27 + 14 = 72).

    Þurfum helst svona 9-10 stig út úr næstu fjórum deildarleikjum.

    Smá auka innskot – Balotelli er á hnefaleikabardaganum sem nú fer fram í Liverpool, mætti eftir kl 22. Vonandi nær hann góðum nætursvefni, heh!

  18. Verð að vera mjög ósammála þessum byrjunarliðum hjá þér Emre Can er buinn að vera okkar besti maður bæði á móti Real og Chelsea og á að sjálfsögðu að byrja inná í dag annað væri galið

  19. Þegar almannarómur er svona svartsýnn Þá sigrar oftast liverpool held eg, svo holdum áfram að vera svartsýnir.

  20. Agnar Freyr#18

    Án þess að vera með skítkast, þá væri það mjög skrítið ef liðin fyrir ofan Liverpool myndu ekki mætast nokkrum sinnum innbyrgðis í næstu umferðum þar sem að helmingur liðanna í deildinni er fyrir ofan okkur. En er sammála um að þessi leikur er mikilvægur upp á framhaldið, skiptir öllu að rífa liðið upp af rassgatinu í þessum leik, ef þessi leikur vinnst ekki þá fer allt í fokk held ég.

    Crystal Palace, Ludogorets og Stoke eru þrír næstu mótherjar, þarna eigum við að ná 3 sigrum í röð og bjarga orðsporinu fyrir jólatörnina.

  21. Þetta er orðinn alger lykilleikur upp á framhaldið. Hver hefði trúað því fyrirfram.
    Það er hægt að klifra í næstu leikjum ef við vinnum þennan en tap skilur okkur eftir til lengri tíma.
    Ég hef fulla trú á að menn klára þetta verkefni.
    Byrja af krafti og skila marki snemma er lykilatriði því hausinn er tæpur á mönnum og lítið þarf til að hann fer að hanga.

    Ég ætla að vera klár frá fyrstu mínútu með baráttuanda og trú. Megi streymið verða gott.
    YNWA

  22. spilum bara með engan framherja eins og barcelona gerði í den. Miðjumenn okkar hafa skilað fleiri mörkum inn heldur en framherjar okkar á þessari leiktíð. Svo væri fínt að fá Hyppia í þjálfarateymið til að kenna mönnum að verjast.

  23. Það er ótrúlega leiðinlegt að hafa ekki meiri áhuga á Liverpool í dag en þetta, en það er bara staðreynd að þessi spilamennska sem þetta lið bíður uppá gerir það að verkum að það er varla þess virði að eyða tíma eða skapi í.

    Ég vona að Rodgers stilli þessu svona upp í dag.

    Mignolet
    Manquillo Skrtel Lovren Moreno
    Can Hendo
    Lallana Sterling Coutinho
    Borini

  24. Hef trú á þessu, héld að þetta smelli í dag. Vona að Borini byrji.

  25. #29. Vá hvað ég vildi að þessi spá þín myndi rætast!

    Það er bara því miður ekkert sem bendir til þess að ástandið sé eitthvað að batna. Liðið er rúið öllu sjálfstrausti og hvorki Balotelli né Sturridge með.

    Hversu aumt er ástandið hjá okkur þegar við erum að kalla eftir því að Borini byrji leikinn?!

    Ég elska LFC og mun alltaf gera. Mun styðja þá í gegnum súrt og sætt eins og alltaf. Spái þó engu að síður og því miður 1-0 tapi. Ég bara sé ekki hverjir eiga að skora þarna í liðinu okkar. Vona svo sannarlega að BR og strákarnir troði skítugum ullarsokki upp í trantinn á mér og liðið detti í gírinn.

Léleg ending sóknarmanna Liverpool.

Byrjunarliðið á Selhurst Park