Léleg ending sóknarmanna Liverpool.

Daniel Sturridge er stórstjarnan hjá Liverpool í dag, besti sóknarmaðurinn og sá sem skorar langflest mörkin í liðinu miðað við núvernadi hóp. Hann hefur með frammistöðu sinni náð að skipa sér í afar fámennan hóp leikmanna sem hægt er að kalla stórstjörnu framherja Liverpool. Leikmann sem hægt er að stóla á að skori um og yfir 20 mörk á tímabili þegar hann er heill heilsu.

Mig langar að skoða aðeins þennan fámenna hóp síðan Ian Rush var óumdeilt besti sóknarleikmaður Liverpool því ég held að það hvíli álög á þessari stöðu hjá Liverpool. Endingin á þessum mönnum er aldrei í líkingu við einmitt Ian Rush. Þessar stjörnur skína skært en brenna hratt upp hjá okkur.

Ian Rush kom 1980 og var hjá félaginu samfellt til 1996 utan eins árs leyfis sem hann tók á Ítalíu. Fyrri part ferilsins skoraði hann að vild og seinni árin var hann ennþá að skila sínum mörkum þó visulega hafi hann dalað með árunum eins og eðlilegt er.

Fyrir mér hafa aðeins sex sóknarmenn verið á mála hjá Liverpool sem hafa spilað í grend við það level sem Rush var að vinna með. Þetta er bara huglægt mat hjá mér og einhverjir af þessum sex leikmönnum hafa rétt náð að nýtast Liverpool í 1-2 tímabil.

Robbie Fowler – Guð er auðvitað fyrstur og ef eitthvað er var hann betri en Rush, bara í verra liði. Hann kom fram á sjónarsviðið með látum 18 ára gamall 1993 og spilaði á fullu gasi í fjögur tímabil og var með um og yfir 30 mörk samanlagt á hverju tímabili. Eftir það lenti hann í meiðslum og spilaði rétt rúmlega helming leikja Liverpool eða minna og var aldrei meira en skugginn af sjálfum sér eftir það og markaskorunin í takti við það þó enn hafi hann vitað hvar markið var. Þessi mikla vonarstjarna Liverpool og einn vinsælasti leikmaður í sögu félagsins var farinn 26 ára gamall og náði aldrei aftur fyrri hæðum. Sorgleg ending miðað við hversu góðu hann lofaði.

Stan Collymore – Næstur í röðinni er með mjög miklum herkjum Stan Collymore. Hann var mjög góður þessi tvö tímabil sem hann var hjá Liverpool og lofaði samvinna hans og Fowler mjög góðu fyrra tímabilið hans. Hann skoraði bara 19 mörk fyrra árið og 16 mörk seinna árið en lagði annað eins upp og skapaði pláss og tíma fyrir Fowler. Það var aðeins á síðasta tímabili sem Liverpool hefur átt betri sóknardúett síðan Collymore og Fowler. Stan Collymore tognaði hinsvegar illa á heila og náði aldrei heilsu aftur og var farinn frá Liverpool 26 ára. Engin ending í honum miðað við gæði og því einnig farinn rétt um það leiti sem hann ætti að vera toppa sem leikmaður miðað við aldur.

Michael Owen – Svei mér þá ef Owen var ekki meira efni en Fowler þegar hann kom líka 18 ára fram á sjónarsviðið. Hann spilaði reyndar sjö tímabil hjá Liverpool og þó hann hafi aldrei náð því að skora 20 deildarmörk á einu tímabili var hann að skila á milli 20 og 30 mörkum samtals á tímabili. Þessi uppalda vonarstjarna vildi 25 ára fara skoða heiminn og yfirgaf félagið fyrir klink rétt áður en hann varð samningslaus. Enn einn leikmaðurinn sem fór áður en hann komst á hátind ferilsins ef miðað er við aldur og raunar fór ferill hans í vaskinn eftir 25 ára aldurinn rétt eins og hjá Fowler.

Fernando Torres – Þarna hittum við loksins á alvöru sóknarmann. 23 ára leikmaður sem skoraði 20+ mörk í deildinni alveg heilt tímabil á ferli sínum hjá Liverpool, fyrsta árið. Næstu þrjú tímabil missti hann af 14-16 deildarleikjum á hverju tímabili og skilur því ekki eftir sig mjög merkilegt marka record. Verra en marga grunar gæti ég trúað. Enn einu sinni var ein helsta vonarstjarna Liverpool farinn á þeim tíma sem maður myndi ætla að bestu árin væru eftir. Torres var 27 ára þegar hann fór og við vissum það ekki þá að hann yrði enn einn sóknarmaður Liverpool sem yrði bara skugginn af sjálfum sér árin á eftir.

Luis Suarez – Nú var ekki eins löng bið milli stórstjörnu sóknarmanna og Luis Suarez fékk mann til að gleyma Torres um svipað leiti og hann var búinn að kyngja þessum Norðmanni sem hann borðaði í Hollandi. Hann var eins og Torres á flottum aldri þegar hann kom, 23 ára gamall. Hann náði 3,5 árum hjá Liverpool og eftir rólega byrjun þá skoraði hann 30+ mörk síðustu tvö tímabilin þrátt fyrir að vera töluvert mikið og lengi í banni. Miðað við leikmann sem var svona góður, sá besti af öllum þessum sóknarmönnum og það að vera aldrei meiddur er með ólíkindum hversu mikið vesen Suarez var þessi 3,5 ár sín hjá Liverpool. Rétt eins og með Torres, Collymore og Fowler fékk félagið góðan pening fyrir hann en enn einu sinni erum við að missa sóknarmann þeim aldri sem talað er um að leikmenn séu að toppa. Suarez verður 27 ára í janúar.

Daniel Sturridge – Ferill Sturridge í þessum hópi virðist vera búinn nánast áður en hann hefst. Sturridge hefur meiðst þrettán sinnum síðan hann kom til Liverpool og hann hefur bara verið 22 mánuði á mála hjá félagnu. Hann spilaði 29 deildarleiki á síðustu leiktíð, oftar en ekki nýkominn úr meiðslum og skoraði 21 mark. Það er líklega stórvini hans Jesús Kristi að þakka að hann náði þó 29 deildarleikjum í fyrra því þetta virkar í dag á mann sem kraftaverk. Sturridge er 25 ára núna og ég þori að fullyrða að hann verður ekki aðalmaðrinn í sóknarleik Liverpool þegar hann verður 27 ára á tölfræðilegum hátindi ferilsins, líklega verður hann ekki einu sinni leikmaður Liverpool þá ef við lærum eitthvað af sögu þeirra sem ég hef skoðað á undan og sett í sama flott og Sturridge.

Allir vorru þessir leikmenn farnir 27 ára eða yngri nema Sturridge sem er að sverja sig heldur betur í ættina.


Aðrir sóknarmenn
Þetta eru auðvitað ekki einu sóknarmenn Liverpool frá því Ian Rush hætti. Með því að skoða rest er hægt að sannfærast alveg um að þessi staða er andsetin hjá Liverpool. Skoðum af handahófi best of the rest undanfarin ár.

Heskey – Eflaust vilja einhverjir setja Heskey í þennan flokk og hann skoraði vissulega 22 mörk samtals eitt tímabilið. En þar sem þetta er huglægt mat hjá mér er ekki glæta að Heskey flokkist sem stórstjarna hjá Liverpool, fáa leikmenn hef ég þolað eins illa enda deildarmörkin alltaf undir 10 mörkum meðan hann staulaðist um völlinn í búningi Liverpool nema eitt árið, þau voru 14 deildarmörkin þetta eina ekki slæma ár hans hjá félaginu.

Anelka – Þessi væri pottþétt í flokki okkar stórstjarna ef Houllier hefði verslað með opin augun árið 2002. Frekar fengum við Diouf á meiri pening en hægt var að fá Anelka á.

Diouf – Hann kostaði 10m árið 2002. Ekki skoða hvað það er mikið á núvirði! Þessi átti að verða stórstjarna en varð á endanum helsta ástæða þess að allt fór í vaskinn hjá Houllier með Liverpool.

Djibril Cisse – Síðustu kaup Houllier án þess að hann spilaði leik undir hans stjórn. Þetta var stórt nafn og dýr leikmannakaup sem Benitez erfði. Hann náði auðvitað að fótbrotna tvisvar áður en hann náði að sýna nokkurn skapaðan hlut hjá Liverpool og var farinn áður en hann náði “besta” aldri. Hann hefur aldrei náð þeim hæðum sem hann var að vinna með í Frakklandi.

Baros var fljótur og spennandi ungur leikmaður þegar hann kom og var skítsæmilegur, aldrei meira en það. Peter Crouch tók óratíma að skora svo mikið sem eitt mark en var ágætur eftir það og hélt fljótlega áfram að ferðast milli liða. Moriantes voru spennandi kaup áður en hann kom en ótrúlegt satt hægari leikmaður en Rickie Lambert. Bellamy kom tvisvar og gerði ágætlega í bæði skiptin. Borini, Lambert og Aspas fara svo fljótlega í svipaðan flokk og þessir leikmenn.

Dirk Kuyt er ekki talinn með hérna þar sem hann einfaldlega spilaði ekki sem eiginlegur sóknarmaður. Samt var hann keyptur sem sjóðandi heitur sóknarmaður sem skoraði að vild í Hollandi og það sem meira er þá spilaði hann sín bestu ár hjá Liverpool, líka eftir 27 ára aldurinn.


Peningasóunin
Keane – Undarlegur díll við Tottenham í hálft tímabil sem bjargaðist þar sem Harry Redknapp tók við Tottenham í millitíðinni og borgaði nánast sömu upphæð fyrir að fá Keane aftur og Liverpool lagði út fyrir honum. Ótrúlega vond nýting á 20m á vondum tíma því þetta var 2008/09. Betri leikmaður þarna hefði mögulega skilað okkur titlinum sem við vorum svo nálægt því að landa. Eftir að Keane fór til Spurs í janúar kom ekkert í staðin sem er eins mikið ekta Liverpool og hægt er að hafa það. Þarna voru Gillett og Hicks farnir að draga saman seglin, hvað hefðu vel heppnuð 20m leikmannakaup í janúar 2009 skilað okkur það árið?

Carroll – Svipað og með Keane, ofborgað verulega illa fyrir leikmann þar sem hann er breskur. Carroll var reyndar mjög spennandi 21 árs sóknarmaður en var keyptur meiddur og seldur þessa einu viku sem hann var ekki meiddur. Hann hefur verið meiddur síðan hann fór.

Balotelli – Já við getum flokkað Balotelli strax sem skelfilegt flopp, hann er 24 ára núna og ef hann verður ennþá leikmaður Liverpool árið 2015 þá fer hann árið 2016. Ég óttast að sagan dæmi Balotelli svipað og Diouf þó hann sé ekkert farinn að hrækja á fólk (já eða bíta andstæðinginn). Frekar út frá því að þarna hafi komið kolrangur leikmaður á versta tíma. Þetta er svo hroðalega lélegt að hann gæti komið Rodgers í svipuð vandamál og Diouf og félagar komu Houllier. Þ.e. Balotelli verði það sem lifi eftir í minningunni úr vondum glugga rétt eins og Diouf gerir í glugga sem taldi líka Diao og Cheyrou.


Vonarstjörnur
Endum þetta örlítið jákvætt enda Liverpool líklega aldrei átt eins efnilegt lið.
Origi – Blessunarlega eigum við gríðarlega spennandi leikmann í Frakklandi sem gæti alveg komið nánast fullskapaður inn á næsta tímabili. Þetta er strákur sem 18-19 ára er að halda úti sóknarmönnum í landsliði Belga sem eru lykilmenn í EPL liðum. Við getum verið mjög spennt fyrir þessum 3-4 fjórum tímabilum sem við fáum vonandi frá honum áður en hann meiðist eða verður seldur.

Raheem Sterling – Ég er sannfærður um að þarna sé alltaf framtíðar sóknarmaður á ferðinni svipað og Ronaldo og Messi flokkast sem sóknarmenn í dag þrátt fyrir að hafa verið meira kantmenn til að byrja með. Því fyrr sem Sterling verður settur fremst því betra og meðan Sturridge er meiddur og ekkert nothæft er til vara er no brainer að henda Sterling fram, þetta getur ekki versnað við að prufa það.

Lazar Markovic – Hugsa hann svolítið svipað og Sterling og vona að þetta sé leikmaður sem geti sprungið út hjá okkur þó hann hafi ekki sannfært mann neitt enn sem komið er.

Meiðsli Sturridge eru kveikjan af því að ég fór að velta þessu fyrir mér og eins og staðan er núna er ég verulega svartsýnn á feril hans hjá Liverpool. Félagið getur hreinlega ekki stólað svona mikið á leikmann hefur meiðst þrettán sinnum á 22 mánuðum. Það er ekki eins og hann hafi verið eitthvað hreystimenni áður en hann kom til Liverpool.

36 Comments

  1. Fín pistill verð samt að vera ósammála því að Sterling sé eða verði 9, fyrir mér er alveg klárt að hann hentar miklu betur sem 10. Hann er einfaldlega bara alltof lítill til að vera 9 þrátt fyrir góðan líkamstyrk.

  2. Nr. 1

    Það má vera en Leo Messi sem ég tók sem dæmi þarna er 170 cm rétt eins og Raheem Sterling. Michael Owen er 173 cm. Sanchez hjá Arsenal er 169 cm. o.s.frv.

    Þannig að nei.

  3. Alveg er ég viss um að Mourinho er með Voodoo dúkku í líki Sturridge, og rétt áður en hann á að verða leikfær aftur þá stingur hann nál í lappirnar á honum. Hlær svo díabólískum hlátri.

    Er sénsinn að þetta sé eitthvað sálrænt hjá honum? Nú er alveg heilt lið sem er að reiða sig á hann, frammistöðukvíði sem smitast í lappirnar?

  4. Flott samantekt. Vantar samt Litmanen á þennan lista. Hefði orðið legend ef hann hefði verið heppnari með meiðsli og þjálfara (Houllier)
    Annars er maður ekki alveg búinn að afskrifa Balotelli. Hann á skilið að vera dæmdur eftir að hann fær að spila í liði sem getur eitthvað örlítið í fótbolta.

  5. Svei mér þá Daníel, ég er bara bráðum inni á því.

    Þetta er langt frá því að vera eðlilegt og ef hann hefur nú tognað enn og aftur í læri þá er stutt í að hraðinn fari að yfirgefa hann og þá hræðist maður sömu örlög hans og Owen/Torres.

    Flottur pistill…og alveg ömurlegt að hafa ekki náð að halda lengur í þá tvo sem nýjast voru frábærir.

  6. Þetta er alveg gríðarlega áhugavert umræðuefni að mínu mati og heilt yfir sorgleg niðurstaða þessi pistils væntanlega aðalástæða þess að Liv hefur ekki unnið ensku deildina síðan ’90.

    Það er auðveldara að horfa á þau tímabil sem liv hefur verið nálægt því að vinna deildina og greina það.

    Tímabilið 90 – 91 Voru Rush og Barnes okkar helstu menn og skiluðu báðir 16 mörkum í deild í hús. Flott framtak en ekki nóg og dugði einungis í annað sætið (með þó þannig hætti að síðasta tímabil endaði eins og jólin miðað michael thomas helförina ’91).

    Tímabilið 95 – 96 Fowler 28 og Collymore 14 í deild. Frábær árangur, sérstaklega hjá Fowler. Tryggði okkur 3 sætið, líklegast var lítil þátttaka annarra leikmanna í markaskorun hluti af því að við fórum ekki lengra ásamt því að united og newcastle tjölduðu ansi miklu til og voru skrefinu á undan.

    Tímabilið 97 – 98 Náðum þriðja sæti þrátt fyrir glettilega litla markaskourn, Owen 18, fowler 9 og Mcmanaman 11. Liv var þó 12 stigum frá efsta sætinu og mun nær liðunum fyrir neðan og því aldrei raunverulegur kandidat að sigri.

    Tímabilið 01 – 02 Owen með 19 og aðrir minna en þó nokkuð góð dreifing og ansi þéttur varnarleikur okkar manna undir stjórn Houlliers gerði það að verkum að þetta dugði til 2 sætis. Frábær varnarleikur en einungis 5-7 sætis markaskorun.

    Tímabilið 08 – 09 Frábært lið með öflugan framherja og besta miðjumann evrópu. Torres gerði 14 mörk en frábær Gerrard 16 mörk. Dirk kuyt solid með 12 mörk. Árangurinn var frábær á þessu tímabili og hefði stigafjöldi liv dugað til vinna deildina einhver ár áður. United var þó skrefi á undan. Hér eru 3 leikmenn sem skila virkilega flottri niðurstöðu þó svo að enginn þeirra komist yfir 20 marka múrinn.

    Tímabilið 13 – 14 Suarez 31 og Sturridge 21. Ekkert nema hræðilegur varnarleikur og endalaus einstaklingsmistök sem gerðu það að verkum að þessi ótrúlega góða markaskorun tryggði klúbbnum ekki titilinn.

    Lið sem keppir á öllum vígsstöðum þarf að hafa 3 – 4 framherja að mínu mati. Tveir þurfa að geta verið solid í PL og amk alltaf annar þeirra að geta spilað nokkuð ferskur. Síðan er gott að hafa 1 – 2 til þess að rótera í bikarkeppnum og minni meistaradeildarleikjum. Ljóst er að álagið getur orðið mikið þegar stórir leikir eru í evrópu ásamt því að mikilvægir leikir eru í deild nokkrum dögum síðar. Það er hárfínt að púsla þessu saman og benítez reyndi mikið að halda mönnum ferskum og var með nokkuð breiðan hóp þó svo að hann hefði virkilega getað þegið annan striker í Torres klassa en kuyt var miklu frekar miðjumaður (eins og kemur fram í pistlinum) og markaskorun hans hjá liv að hluta til vítaspyrnur. Til þess að vera með raunverulega ógn á toppnum út tímabilið er ljóst að tveir af þessum 4 strikerum þurfa að vera TOPP klassa menn. Hinir tveir þurfa síðan að hafa eiginleika sem nýtast og fitta hlutverkin sín. Í fyrra hafði liv tvo TOPP klassa strikera sem þurftu nánast bara að einbeita sér að deildinni og árangurinn þeirra var ekkert minna en stórkostlegur.

    Sú staðreynd að liv hefur ítrekað annað hvort keypt góða framherja með potential að verða klassa framherjar í takt við það að nota uppalda efnilega/góða stráka og kaupa svokallaða squad framherja sem fylla upp í hópinn hefur gert það að verkum að afar sjaldan er liðið með 2 frábæra framherja innanborðs þ.e. tveir leikmenn sem eru á þannig stað á sínum ferli að þeir séu báðir world class. Þegar það hefur gerst þá er liðið yfirleitt frábært. Ef við horfum á topplið í evrópu þá held ég að við sjáum nánast alltaf tvo toppframherja.

    Það er vissulega mikil bölvun sem virðist fylgja framherjum liv og ennþá erfiðara er að sætta sig við það að í dag lendir klúbburinn svo líka í þeim vandræðum að ef hann á heimsklassaframherja þá er afar ólíklegt að hann geti haldið honum til lengri tíma (eitthvað sem kannski var ekki jafn mikið vandamál fyrir nokkrum árum).

    Mín niðurstaða með þessari romsu er að klúbburinn verður að geta keypt world class framherja og kannski 2 til þess að eiga raunhæfan möguleika á PL titli. Það virðist vera erfitt að vera alltaf að vonast til þess að við bæði eigum einhvern uppaldan snilling sem er að blómsta á sama tíma og einhver leikmannakaup á góðum leikmanni þróast yfir í að vera kaup á leikmanni sem varð world class. Í þessu svartnætti sem blasir við manni þessa dagana þá tek ég samt undir orð pistlahöfundar að ég sé pínu ljós í því að vera Sturridge, Sterling og Origi sem okkar framherja trékant.

    YNWA
    alexander

  7. Þurfa góðir sóknarmenn ekki bara að læra að það borgar sig ekki að fara frá Liverpool? 🙂

  8. Velti fyrir mér hvort Liverpool hefði ekki getað gert betur heldur en Balotelli, Bellamy, Collymore, Cissé og Diouf. Finnst eins og þessir gæjar hefðu gert betri hluti hjá Newcastle í fangelsisbúningi.

  9. Fín grein en það er rétt að sóknarmennirnir eru ekkert að endast vel hjá okkur og ef þeir eru að brilla(Suarez/Torres) þá eru þeir farnir.

    p.s Fowler er einn af mínum uppáhalds allra tíma en ég tek samt alltaf Ian Rush fram yfir kappan. Fowler er einn af top 5 markaskorurum í sögu fótboltans á Englandi í minni bók en ég er með Rush númer 1 fyrir að vera hinn fulkomni markaskorari. Ótrúlega klár að klára og þefa upp marktækifæri, alltaf á hreyfingu, alltaf að taka hlaup, hraður, fljótur að hugsa og það sem er mest vanmetið við hann var vinnuseminn án bolta bæði í sókn og vörn.

  10. Liverpool eyddi um 120m pundum í sumar, en reiðir sig samt sem áður á einn leikmann. Það er virkilega sorglegt.

    Við getum talað um að hinn og þessi verði góður í framtíðinni, en málið er að okkur bráðvantar klassa framherja núna. Þegar Suarez spilaði fyrir okkur að þá vissum við að við hefðum klassa leikmann inni þegar Sturridge væri meiddur. Í dag höfum við bara Balotelli og Borini.

    Annars flottur pistill og ég er meira en minna sammála því sem stendur í honum. Ég hef hamrað lengi á því að Sterling ætti að fá séns í “níunni”.

  11. Takk fyrir þennan vægast sagt ömurlega pistil Babú. Vel skrifað að sjálfsögðu, en það var ömurlegt að lesa þetta og rifja upp þessa glæstu framherjasögu okkar eða hitt þó heldur.

    Það er tvennt sem maður tekur frá þessu: fyrst það að eins og þú bendir á virðist nákvæmlega enginn þessara leikmanna standa sig vel eftir að hann yfirgefur Liverpool. Torres vann einhverja titla í aukahlutverki hjá Chelsea (Owen líka) en annars hefur Liverpool táknað toppinn á ferli þeirra allra, ekki síst hvað varðar að spila sinn besta fótbolta á ferlinum.

    Kannski brýtur Suarez þetta upp og verður jafn góður með Barcelona og hann var hjá okkur og Ajax á undan (hefur þó farið hægt af stað á Spáni). Annars ætti að tromma þetta inn í hausinn á öllum strækerum sem slá í gegn hjá Liverpool: þú hefur það hvergi jafn gott og hér.

    Hitt sem situr eftir er auðvitað þessi nöturlega staðreynd að missa þessa menn alla á besta aldri. Rush sá eini sem við fengum að njóta allt sitt blómaskeið (fyrir utan árið á Ítalíu), jú og auðvitað meistari Kuyt.

    Eftir þennan lestur situr samt mest í mér þessi ömurlega staðreynd: í vor vorum við með einn af þremur bestu leikmönnum heims frammi og með honum einn af a.m.k. tíu bestu framherjum Evrópu. Og í dag erum við með hvorugan þeirra.

    Það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif Sturridge-meiðslin hafa á janúargluggann, ef nokkur (ég er ekki bjartsýnn). Annars er lítið annað að gera en að anda rólega yfir erfiðleikana þessar vikurnar, krossleggja fingur og tær og vona að Sterling/Origi verði orðnir næstu Suarez/Sturridge eða Fowler/Collymore eftir 12-18 mánuði. Þ.e.a.s. áður en við seljum þá svo rétt fyrir þeirra bestu ár.

  12. Alexandre Lacazette á að vera maður sem við eigum að eltast við í janúar. Sjóðandi heitur striker á góðum aldri. Svipuð týpa og Sturridge og er að raða inn mörkum í frönsku fyrir Lyon.

  13. Takk fyrir þennan flotta pistil.

    Ég hefði reyndar viljað sjá þig kafa aðeins dýpra Babu varðandi vonarstjörnur Liverpool, og skoðan þá pilta sem við eigum í yngri flokkunum og gætu brotið sér leið inn í lið stóru strákana.

    Það er kannski efni í annan pistil, Nudge, nudge. Wink wink 🙂

  14. Þetta er svo sorglegt að maður á ekki til aukatekið orð. Vorum með stórkostlegt lið í höndunum í fyrra og tvo langbestu framherjana sem skoruðu leik eftir leik. Liggur við að maður hafi orðið fúll ef liðið rótburstaði ekki andstæðinginn.

    Í dag er þetta liðin tíð enda Suarez horfinn á braut og líkami Sturridge að bregðast honum. Framherjarnir okkar virðast einfaldlega ekki kunna það að skora. Segir allt þegar Sturridger er sá eini með mark í deildinni í öllum þessum meiðslum. Þetta tímabil er einfaldlega á “highway to hell” eins og Bon Scott orðaði það í laginu góða.

    Þetta er klárlega e-ð genatengt eins og Sturridge talaði um einhverntímann í haust en frændi hans Dean Sturridge var gjarn á sambærileg meiðsli.

  15. Það sem hefur samt loðað við Liverpool svo alltof fokking lengi er að kaupa “efnilega” leikmenn sem eru alls ekki penginganna virði og hafa lítið impact strax.

    Menn þurfa bara að taka United á þetta í janúar og kaupa fokking súperstjörnu sem kemur inní liðið og keyrir allt í gang.

  16. Nú segja Liverpool Echo, og aðrir traustir miðlar, að lausn janúarmánaðar sé að fá Divock Origi fyrr frá Lille. Borga þeim aukalega til að fá hann strax í janúar.

    Ég hef tvennt við það að athuga:

    Fyrst, þá er Origi 19 ára (tvítugur í apríl n.k.). Hann hefur skorað 3 mörk í 12 landsleikjum Belga (2 á HM og svo gegn Íslandi í síðustu viku) og alls 9 mörk í 40 leikjum með Lille (3 á þessari leiktíð). Hann er augljóslega gríðarlegt efni, það vita allir sem hafa horft á hann, en hann er bara 19 ára og alveg óreyndur, hefur ekki einu sinni spilað 25 deildarleiki á ferlinum enn. Að ætla honum að koma inn og laga það sem er að í sókn Liverpool í janúar er glapræði.

    Hitt er svo hvar Origi passar inn í hópinn. Það eru fjórir framherjar hjá Liverpool í dag. Sá besti er alltaf meiddur og hinir þrír hafa verið vonlausir hingað til en það er nokkuð ljóst að Origi kemur ekki inn í janúar nema annar víki. Og ef við ætlum að kaupa annan framherja en Origi í janúar og fá strákinn næsta sumar eins og upphaflega stóð til þarf að rýma til tvö pláss í framlínunni á næsta ári.

    Hverjir víkja? Fer Borini annað í janúar eftir að hafa verið frystur fyrir áramót? Og þá er pláss fyrir einn, Origi eða e-n annan. Og hvað svo? Ég gæti alveg séð fyrir mér að Borini, Balotelli og Lambert verði allir farnir frá Liverpool haustið 2015 og í staðinn verði Sturridge, Origi og (vonandi) 1-2 aðrir í staðinn. En þeir hljóta að fá meiri séns en bara fram í janúar. Ég á erfitt með að ímynda mér að Balotelli og Lambert fari í janúar, þótt Borini sé örugglega að fara eitthvert.

    Þetta er bara martraðastaða sem er komin upp. Heimsklassamaðurinn alltaf meiddur og hinir þrír sem hafa ekki getað blautan eru annað hvort nýkomnir eða vilja ekki fara. Og nú á að treysta á að 19 ára Belgi með enga reynslu geti komið inn og Torresað þetta tímabil í gang? Úff.

  17. Syndsamlegt að gleyma gömlu meisturunum og beyttustu vopnunum hans Húlla: Erik Meier og Titi Camara.
    Svo auðvitað áttu hinir en óslípuðu demantar Pongolle og Voronin að setja mark sittt á sóknarleik liðsins á sínum tíma.
    Ég skil vel hins vegar að David N´gog hafi ekki fengið pláss í umfjölluninni.

  18. Eins frábær og þessi pistill er og mikil vinna sem fer í hann stingur mig verulega að tala um þunglyndissjúkdóm sem Stan Collymore hefur átt við að eiga, og á enn í mikilli baráttu við sem tognun á heila. Ég skora á ykkur að breyta þessu. Hann þarf að fást við fordóma og árásir enn í dag sem eru flestar vegna vanþekkingar. Við eigum og getum gert betur!

  19. Okei með þessum nýjustu fréttum í kringum Origi er verið að tala um það kosti 5m punda í víðbót að fá hann strax í janúar. 15 mill punda fyrir þennan dreng? 20m Markovic (Suarez kostaði 22) Hvað hafa þessir menn gert til að verðskulda þessar upphæðir? Fyrir utan að vera “efnilegir”. Á meðan kaupa Southampton Pellé á 8 mill.

  20. Sammála #19. Collymore hefur glímt við geðhvarfasýki en er ekki “tognaður á heila”.

  21. Steini H (#19) segir:

    „Eins frábær og þessi pistill er og mikil vinna sem fer í hann stingur mig verulega að tala um þunglyndissjúkdóm sem Stan Collymore hefur átt við að eiga, og á enn í mikilli baráttu við sem tognun á heila. Ég skora á ykkur að breyta þessu. Hann þarf að fást við fordóma og árásir enn í dag sem eru flestar vegna vanþekkingar. Við eigum og getum gert betur!“

    Steini, ég get lofað þér að Babú var alls ekki að vísa til þunglyndis Collymore þegar hann talaði um tognun á heila Collymore. Já, hann þjáðist af þunglyndi og gerir enn og á hrós skilið fyrir það starf sem hann hefur unnið við að auka skilning á því í fjölmiðlum.

    Hins vegar gerði Stan Collymore ýmislegt skrýtið sem þunglyndi getur ekki afsakað. Þegar hann kom til Liverpool neitaði hann t.a.m. að flytja til borgarinnar og ætlaði að keyra til/frá Nottingham á hverjum degi. Það er ekki þunglyndi, það er tognun á heila. Þá var hann, eftir tíma sinn með Liverpool, kærður fyrir að ráðast á kærustu sína og berja hana hressilega. Þunglyndi afsakar það ekki heldur, né þegar hann var handtekinn fyrir að hóta að drepa konuna sína, né þegar hann missti starf sitt á BBC fyrir áratug eftir að upp komst að hann stundaði kynlíf með ókunnugum í almenningsgörðum (þekkt sem ‘dogging’ í Bretlandi).

    Það var nákvæmlega enginn að gera grín að þunglyndi hér en ef það má ekki skjóta aðeins á skrautlega fortíð Stan Collymore þá erum við orðin fullviðkvæm hér að mínu mati.

  22. Flottur pistill Babu.

    Að mönnum hafi dottið í hug að fara inn í tímabilið með Sturridge sem main man er svo mikið dómgreindarleysi að það er nánast ófyrirgefanlegt. Allt momentum, farið. Vinna síðustu 18 mánaða nánast farin í vaskinn. Við erum í svipuðum málum, ef ekki verri, en í nóv/des 2012, þ.e. áður en Sturridge var keyptur.

    Ég hef sagt frá því í sumar að Sturridge getur aldrei orðið aðalmaðurinn. Hann verður að vera númer tvö, því miður.

    Annars er ég hjartanlega sammála KAR með Origi. Hvernig í veröldinni er hægt að fara úr SAS í að eyða 100 milljónum punda+ en samt vera svo illa staddir fjórum mánuðum inn í tímabilið að við ætlum að kalla óreyndan ungling til baka úr láni til að redda málunum.

    Allt er þegar þrennt er. Í kjölfar tímabils þar sem við erum góðir og komnir með lið sem á að geta gert atlögu að titlinum eru teknar svo hræðilega ákvarðanir sem senda okkur nokkur ár aftur í tímann. Alveg merkilegur andskoti. Anelka/Diouf, Alonso/ Aquilani & Glen Johnson, Suarez/Suarez peningurinn í heild sinni, sérstaklega sóknarmennirnir.

  23. Nr. 19

    Stan Collymore á ekki mikla virðingu skilið meðan hann var leikmaður Liverpool og ef það hneykslar að kalla það tognun á heila verður bara að hafa það. KAR svarar þessu fyrir mig og ég var enganvegin að tala um þunglyndi hérna og datt það raunar ekki í hug. Athafnir á almennings bílastæðum, eilífðar vesen hvað félagið varðar og já það að berja konuna sína var mér ofar í huga.

  24. ég ætla ekki í rökræður hér um þennan sjúkdóm. enda hef ég ekki þekkingu á honum eða neitt í höndum til að standa í slíku. ég veit þó og hef séð að þunglyndissjúkdómar eru ekki alltaf bundnir við það að vinna sjálfum sér líkamlegt tjón, en aftur með athöfnum sem eru almennt ekki viðurkennd hegðun sbr. dæmin sem þú bendir á. Manic depression sjúkdómar leiða oft einnig til alkoholisma sem við vitum öll að getur leitt til ýmissa athafna sem ekki er æskilegar.
    Að þessu sögðu dreg mig í hlé og vona að umræður hér verði þó um efnis pistilinn en ekki þetta einstaka mál, sem mér fannst þó fullt tilefni til að benda á og hef ekki breytt um skoðun. ég hefði þó að betur athuguðu máli átt að senda það á pistilshöfuninn beint, frekar en setja það inn sem athugasemd, því ég hefði viljað að umræðan yrði um efni pistilsins, ekki þunglyndissjúkdóma og afleiðingar þeirra í nútímasamfélagi !

  25. Skil hvað þú ert að fara Steini þó mér leiðist svona réttrúnaður alveg óskaplega. Ég set bara alls ekki samasemmerki á milli þess og að drulla aðeins yfir Stan Collymore og að gera lítið úr öllum sem eru að berjast við þunglyndi. Þarna verðum við bara að vera ósammála og það er ekkert stórmál. Það er ef út í það er farið til háalvarleg og fræðileg greining á flesta sem haga sér undarlega og/eða gera eitthvað af sér og líklega hægt að gera fórnarlamb úr hverjum sem er, meira að segja Stan Collymore.

    Ég las ævisögu Collymore á sínum tíma sem er ein mesta vitleysa sem ég hef gert og hef lítið álit á honum blessuðum. Hann sá alveg um að eyðileggja feril sinn hjá Liverpool (sem og annarsstaðar) og líklega er tognun á heila ekki fræðilega orðið yfir ástæður þess. So be it.

    En já, áfram með raunverulegt efni þessa pistils.

  26. ég held að Liverpool reyni núna að fá Origi í jan þar sem okkar helsti stiker verður ekki reddý fyrir á næsta ári.

  27. Þessi listi og viðbætur í kommentum er náttúrulega skelfilega sorglegur. Við þetta má líka bæta að Steven Gerrard hefur spilað með nánast þeim öllum. Og þegar sumir þeirra hafa getað eitthvað þá hafa þeir farið. Frekar svekkjandi fyrir hann. Ég held við verðum bara að feisa það, milljónahundruðum punda hefur verið sturtað í klósettið síðustu 25 árin hjá félaginu. Og það er í sjálfu sér ekkert sem bendir til þess að það breytist. Öll kaup eru happdrætti og það er ansi sjaldan að Liverpool fái vinning. Það er frábært að fá svona samantekt og ef stuðningsmenn liðsins almennt hefðu vitneskju um þessa óstjórn á klúbbnum væri þolinmæðin orðin af skornum skammti.

    Það er líka hárrétt sem Eyþór bendir á og persónlulega var ég ekki búinn að spá í þetta svona – að það að fara með Sturridge sem aðalsenter inn í tímabilið væri dómgreindarleysi. Auðvitað áttu menn von á því að Balotelli kæmi sterkari inn en hann hefur gert. Menn bjuggust líka við því að spilamennska liðsins í heild væri betri en raun ber vitni. Þar ber auðvitað Balotelli töluverða ábyrgð. Það sýnir líka dómgreindarleysi eins og bent hefur verið á, að kaupa ekki “like-for-like” senter sem færi í buxurnar hans Suarez, þótt hann væri aldrei á neinu kaliberi jafn góður. Ég held samt að við höfum leikmann, sem er kannski 40% af Suarez – kannski 10 marka maður á tímabili, duglegur og aggresívur, og myndi henta liðinu betur en Balotelli. Það er auðvitað Borini. En hvort hann verði einhvern tímann nógu góður fyrir þetta lið er önnur saga. Það væri hægt að brúa bilið fram í janúar amk.

    Kaupin í janúar

    Ég er hjartanlega sammála Kristjáni Atla að það er algjört glapræði að ætla Origi að leysa öll vandamál heimsins. Ef takast á að leysa sóknarvandamálin þá þarf að fá klassasenter, hreyfanlegan skorara (Aguero/Tevez-týpu) sem pressar grimmt og passar inn í leikstíl liðsins og byrjar að skora undir eins. Leikmann sem getur spilað einn uppi á topp og líka með Sturridge þegar hann er heill heilsu. Engar smá kröfur, þetta er leikmaður sem færi aldrei undir 40 milljónir. Berahino er kandídat – hann er samt bara með 13 mörk í 42 leikjum fyrir WBA, þar af 7 í haust. Hann er líka bara 21 árs og ótvírætt mikið efni. En efni er ekki það sem við þurfum núna.

    Rekstur fótboltaklúbba er samt svo furðulegur. Þú veist aldrei hvaða pakka þú færð þegar þú ræður fólk í vinnu. Gallarnir eru yfirleitt ekki teknir fram á CV-inu og ég veit ekki hvort fyrrum vinnuveitendur séu mikið að benda á galla ef þeir græða á að selja starfsmanninn. Þessvegna verður þetta alltaf bölvað helvítis happdrætti með allt of litlum sigurlíkum.

  28. Bíddu bíddu

    Er eitthvað athugavert við það að stunda kynlíf með ókunnugum á bílastæði..??

    Insjallah..
    Carl Berg

  29. Skil ekki rökin að einhver þurfi að víkja ef Origi kemur í janúar, ef hann kemur í janúar þá erum við með 5 framherja sem er vissulega frekar mikið en ég sé ekki að einhvern verði þá að fara held í raun að enginn af þeim sé á neitt svakalegum launum að við verðum að losna við hann. Ef Borini eða Lampert verða reiðir að það séu komnir alltof margir framherjar þá er örruglega hægt að lána einn af þeim út tímabilið

  30. Ef Balotelli, Borini og Lambert fara ekki að skora fljótlega í deildinni. Þá vil ég sjá leikmenn úr unlingaliðinu fá sénsinn, t.d. Jerome Sinclair. Höfum engu að tapa og hver veit nema einhver af þessum strákum grípi sénsinn.

  31. Held að stærsti gallinn við að fá fá Origi fyrr á einhverjar auka fimm milljónir er að þá er hann orðin 15 milljóna punda framherji sem þýðir töluvert meiri pressa og við erum með nóga marga leikmenn sem eru með háan verðmiða hangandi yfir sér.

  32. Sælir félagar

    Var að lesa að Glen Johnson hafi neitað að skrifa undir nýjan samning með launalækkun. Það er auðvitað skiljanlegt að hann vilji halda- eða jafnvel hækka laun sín miðað við framlag hans undanfarin misseri. Las einnig að hann vildi fara til Roma og þá munu nú launin hans hækka verulega held ?!?

    Mér er ekki mikill missir að GJ og ef við seljum hann til Roma fáum við ef til vill einhvern alvöru mann í staðinn. Ívörnina – sóknina eða á miðjuna. Sama er mér bara að það sé alvöru fullþroskaður leikmaður sem skilar sínu frá fyrsta degi. Annars er ég bara góður og bíð eftir upphitun fyrir leik helgarinnar.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  33. Skil ekki þetta með Orgi, hann er það úngur, með það fá mörk á þessu leiktímabili að það eina sem maður sér fyrir sér að sé að fara að gerast er að hann verður brotinn niður og ekkert verði úr honum, við verðum bara að hora á þetta rökréttum augum, ef enginn staðgengill Suarez verður keyptu, þá berður Borini okkar helsti framherji.

  34. Tek undir þau sjónarmið að fá góða greiningu og kynningu á þeim sem eru líklegir til að brjótast úr yngri flokkunum upp í aðalliðið í kjölfarið á Sterling.

    Er einhver af ykkur KOP-Pistlahöfundasnillingum sem er vel inni í þessum málum ?

    Það væri vonandi jákvæð og hugreystandi lesning…..ekki veitir af í skammdeginu (bæði hinu náttúrulega og hinu ónáttúrulega LFC skammdegi 🙂

Sturridge meiddur enn eina ferðina

Crystal Palace – Liverpool