Næsta mál á dagskrá…Chelsea

Já, það hefur svo sannarlega verið mikið líf og fjör í kringum þetta blessaða félag okkar undanfarið, hvort sem um er að ræða Kop.is, samfélagsmiðlana Twitter og Facebook eða hreinlega heimspressuna. Það er löngu hætt að koma mér á óvart hversu mikið bál getur orðið af smá neista. Liðsuppstilling Brendan Rodgers gerði það að verkum að menn eins og fyrrverandi þjálfari Vals hér á Íslandi hefur vart sofið síðan og fleiri mikilmenni hafa þurft á aðstoð að halda við að koma sálarlífi sínu í samt lag. Ætli menn geri sér grein fyrir þessu á æfingasvæðinu á Melwood? Verst að ég er búinn að týna gemsanúmerinu hans Brendan, annars væri ég fyrir löngu búinn að lesa yfir honum og segja að vegna hans þá sé neyðarástand hérna á klakanum og víðar: “Hey Bren. The famous Icelandic trumpet cannot sleep anymore mate, please make sure that Stevie and wee Raheem start next game, or else you are disrespecting The Queen, The Who, The Icelandic Gymnastic Club of Hafnarfjordur and the entire population of Hrisey”.

Heimurinn er fullur af skoðunum, sem betur fer, og það er fátt skemmtilegra en að skiptast á þeim. Best er þó þegar menn færa rök fyrir máli sínu og halda umræðunni á málefnalegum nótum, hversu ósammála eða sammála sem menn eru. En þessi blessaði leikur gegn Real Madrid er búinn, hann tapaðist, það er bara ansi hreint SKÍTT og ég hef ekki hitt einn einasta stuðningsmann Liverpool sem var ánægður með að tapa leiknum. Það var nú samt í umræðunni hér á landi, þ.e. hjá einhverjum fjölmiðlungum. Mér var engu að síður skemmt yfir öllu þessu. Það veitti mér mikla ánægju hversu gríðarlega mikil áhrif Liverpool FC hefur á íþróttaheiminn, bæði hér heima og erlendis. Það kom mér á óvart hversu mikið hjartans mál þetta var fyrir mörgum sem ég taldi vera algjöra andstæðinga félagsins, eða var jafnvel alveg sama um það. Það er jákvætt, mjög jákvætt. Menn geta allavega ekki neitað fyrir það.

Næst á dagskrá er “uppáhaldið” mitt, Chelsea með hinn gjörsamlega óþolandi Motormouth við stjórnina. Að vissu leiti hefur maður á svipaðan hátt alltaf skoðun á honum blessuðum, hann vekur upp hjá manni ákveðnar kenndir sem ég get samt ekki flokkað sem ánægjulegar. Engu að síður, þá veit maður alltaf af honum þarna. Ég veit þó fyrir víst að mér hefði ekki getað staðið meira á sama, t.d. á síðasta tímabili, ef hann hefði ákveðið að breyta um 7 menn í liði sem hann ætlaði að stilla upp gegn Barcelona eða eitthvað álíka. En hann sem sagt mætir með bláliðana sína á Anfield og munurinn á liðunum hingað til hefur verið alveg ótrúlega mikill. Chelsea hefur nánast ekki stigið feilspor á meðan okkar menn hafa endalaust verið að stíga á reimarnar og huga aldrei að því að reima þær á milli skrefa, heldur bara halda menn áfram að flækjast í þeim og detta. REIMIÐ FREAKING SKÓNA.

Hvað getur maður sagt um þetta Chelsea lið? Allavega lítið sem ekki hefur áður verið sagt. Menn halda vart þvagi yfir liðinu og margir telja að enginn muni standast þeim snúning í vetur. Nú hef ég góðan vettvang til að koma því á framfæri að ég sé þessu ósammála. Ég er alveg sannfærður um að þeir eigi eftir að rekast utan í veggi í vetur og munu ekki bara hlaupa með titilinn undir hendinni til Abbró. Er ég orðinn galinn? Mjög líklega, já, en það stafar nú af öðrum hlutum og ætla ég ekki að fara út í þá sálma hérna. Það sér enginn fram í tímann, en ég er bara ekki sammála því að þeir séu með svona mikinn yfirburðamannskap og haldið er fram. Ekki misskilja mig, þeir eru með frábæran hóp, enda hefur miklu verið til kostað og þeir verða í baráttunni um þennan titil allt til enda og gætu vel tekið hann. En ég hef trú á að það verði ekkert easy ride hjá þeim.

Skoðum aðeins betur þetta Chelsea lið. Það eru allir sammála um það að meiri gæði og önnur eins breidd finnist ekki þegar kemur að markvörðum, og er það öflugt og óumdeilt. Það er þó bara annar þeirra sem spilar í hvert skipti. En gott og vel. Hvað með vörnina þeirra? Hvað ef Chelsea myndu lenda í smá vandræðum með meiðsli í vörninni? Þeirra sterkustu 4 þegar kemur að þessum stöðum eru þeir Ivanovic, Cahill, Terry og Azpilicueta. Gríðarlega öflug vörn, þrátt fyrir að Terry sé ekkert að yngjast neitt og sé að verða 34 ára gamall eftir mánuð. Fyrir utan þessa fyrstu fjóra eru þeir með Filipe Luis, Kurt Zouma, Nathan Ake og Todd Kane. Já, þeir hafa verið heppnir með meiðsli í vörninni, en ég myndi segja að breiddin þarna sé nú ekki upp á mörg þorskígildi. Þeir eru með meira cover þegar framar á völlinn kemur í mönnum eins og Ramires, Obi Mikel, Schurrle, Salah, Remy og Drogba, en það er að mínum dómi ekkert neitt yfirburðar. Þannig að Chelsea eru með feykilega sterkt byrjunarlið, en byrja svo að veikjast ansi fljótt ef eitthvað hellist úr lestinni. Þetta er allavega ekki þessi yfirburðahópur sem látið er af vera.

Gengi okkar manna og Chelsea það sem af er tímabili ætti þó að þýða eitt jákvætt atriði þegar leikur þessara liða hefst í kringum hádegisbil. Væntanlega munu menn Mourinho ekki byrja að tefja strax á 2. mínútu leiksins eins og síðast. Þeir koma vonandi með því hugarfari að spila fótbolta. Taktík er eitt, en að byrja að tefja strax á annarri mínútu leiks, er það ekki eitthvað sem gæti flokkast undir þessa frægu vanvirðingu sem mönnum hefur orðið svo tíðrætt um síðustu dagana? Nei, ég segi bara svona. En hvað um það, ljóst er að Liverpool FC er að fara að taka á móti toppliðinu á sínum heimavelli og nú þurfa menn bara að fara að girða sig. Betra tækifæri býðst hreinlega ekki til að koma sér á réttan kjöl í vel reimaða skó með rembihnút. Mér að vitandi, þá er það bara Loic Remy sem er pottþétt fjarverandi vegna meiðsla, þannig að þeir mæta með sitt sterkasta lið.

En þá að stóru spurningunni, okkar liði. Hvað gerir Brendan núna? Verður hann ekki að velja sama lið og síðast til að halda andliti? Hann setti jú sitt traust á þessa menn og sumir stóðu sig virkilega vel. Vitið þið hvað ég held? Ég held að hann sé ekkert mikið að spá í því lengur. Ég held að hann sé ekkert að spá í taktíkinni sem hann notaði gegn Real Madrid því þetta Chelsea lið spilar svo allt öðruvísi bolta. Ég er til dæmis handviss um að hann muni setja varnarlínuna ofar í þessum leik, þar sem ekki er um að ræða jafn eldsnögga framherja eins og gegn þeim spænsku. Ég er líka á því að hann muni segja bakvörðum okkar að hafa aðeins varann á með hlaup sín fram á völlinn þar sem Hazard/Willian/Oscar eru duglegir að nýta svæði sem geta myndast þar. Ég er svo reyndar að vonast eftir að hann detti í tveggja framherja kerfi, aðeins til að rugla Móra í rýminu, en ég er ekki vongóður um það. En hvað, ekki er það bara taktíkin sem er spurningamerkið? Nei, það munu allir bíða með gæsina í hálsinum yfir því hvaða menn Brendan muni nú velja. Droppar hann einhverjum eftir frammistöðuna gegn Real Madrid? Refsar hann skúringastráknum sem gleymdi að skúra geymsluna? Ég held að þeir Kop félagar mínir hafi hitt naglann beint á höfuðið á Twitter í dag með það að líklegast hefur aldrei verið jafn erfitt að giska á eitt byrjunarlið eins og núna. En maður reynir nú samt.

Þeir Enrique, Suso, Sturridge, Sakho og Flanagan eru allir fjarri góðu gamni. Ætli Mignolet blessaður sé ekki sá eini sem er klár með sitt sæti? Við höfum úr 3 bakvörðum að velja, tveir ungir Spánverjar og einn reynslumikill Englendingur. Ef ég mætti velja, þá myndi ég spila þeim Manquillo og Moreno gegn Chelsea, en það er eitthvað sem segir mér að Johnson verði fyrir valinu hjá Brendan. Manquillo átti í talsverðum vandræðum í síðasta leik og ég hugsa að nú verði reynslan tekin framyfir hraðann og gredduna. Sama dæmi er þegar kemur að miðvörðunum, við erum með 3 slíka í boði akkúrat núna. Ef ég mætti ráða, þá myndum við bara hreinlega sjá sömu uppstillingu og í síðasta leik og ég held hreinlega að það verði ofan á og að Lovren fái bara að horfa á úr stúkunni áfram. Kingo Kolo fær bara sviðið áfram.

En þá fyrst vandast málið. Hvaða taktík? Hversu margir miðjumenn? Hversu djúpir? Hversu margir sóknarmenn? Tígulmiðja? Ég hugsa að Brendan setji Stevie aftur inn á miðsvæðið fyrir framan vörnina, þótt svo að ég sé alveg ósammála honum með það. Væri sjálfur til í að sjá Lucas þar áfram með Stevie og Hendo að djöflast fyrir framan hann. Hendo kemur svo inn fyrir Allen og Can heldur sæti sínu. Sem sagt, smá hrókeringar, en ekkert svaðalegt. Þó svo að ég væri til í að sjá Borini og Balotelli saman uppi á toppnum með Sterling fyrir aftan þá, þá er ég nokkuð viss um að svo verði ekki. Þetta er blint skot út í loftið, en skot engu að síður. Líklegast verður þetta skot mitt ekki varið, ég er allavega vona að þetta sé ekki í innkast hjá mér.

Mignolet

Johnson – Skrtel – Toure – Moreno

Henderson – Gerrard – Can

Sterling – Balotelli – Lallana

Sem sagt, ég væri til í að sjá þetta öðruvísi, en vonandi tekur heimsbyggðin gleði sína að nýju. Það sem aðal máli skiptir í þessum leik er ekki endilega hvaða 11 leikmenn byrja þennan leik, heldur meira hvaða hugarfar þessi leikmenn koma með inn á völlinn. Ef menn koma með hausinn hangandi, eins og um síðustu helgi, þá skiptir engu hverjir spila, það fer allt illa. Ef menn koma vel stemmdir til leiks, ákveðnir í að gera sitt allra allra besta og berjast um hvern einn og einasta freaking bolta, þá er þetta bara fínn möguleiki. What the heck, við VINNUM þetta Chelsea lið ef menn skrúfa bara hausana á sig og berjast fyrir Liverbird sem er á brjósti þeirra. Það fengu nokkrir leikmenn smá kinnhest síðast, veitti hreinlega ekki af. Sýnið nú og sannið að það sé hreinlega óráðlegt að droppa ykkur aftur. Gerið ykkur bara ómissandi. Þetta er ykkar risa tækifæri. Verið á tánum. Verið klárir ef einhver rennur til á vellinum. Svo mikið er víst að mótherjar okkar verða klárir og þeir verða svo klárir að ef við verðum það ekki, þá verður bara keyrt yfir okkur. Setjum lyklana í svissinn, ræsum kvikindið og KEYRUM yfir þá.

Ég ætla að vera bjartsýnn fyrir leikinn og segi að við tökum þetta 2-1. Balotelli mun skora sitt fyrsta deildarmark og Stevie setur hann úr víti. Mikið er þetta nú góður draumur maður, stundum rætast draumar, það er voða voða gott. En til að þeir geti ræst, þá verður að dreyma þá fyrst. Það verður líka að hafa smá trú á að þeir geti ræst. Ég trúi. Trúir þú?

47 Comments

  1. Jess! Ég varð allt í einu djebbað bjartsýnn á að lesa þessa upphitun. 2-0 takk fyrir!

  2. „Hey Bren. The famous Icelandic trumpet cannot sleep anymore mate, please make sure that Stevie and wee Raheem start next game, or else you are disrespecting The Queen, The Who, The Icelandic Gymnastic Club of Hafnarfjordur and the entire population of Hrisey“.

    Hahaha takk fyrir mig, you made my day 🙂

    Já ég trúi líka, 2-1 með sigurmarki í viðbótartíma.

  3. Ég held að Chelsea taki þennan leik nokkuð auðveldlega. Einfaldlega langbesta liðið í þessari deild og númeri of stórir fyrir okkur. Verður samt fróðlegt að sjá hvernig Rodgers kemur til með að stilla þessu upp á laugardaginn eftir leikinn í Madríd.

  4. Sorry enn eg skil ekki hvad faer menn til ad vera bjartsyna…vid verdum heppnir ef vid sleppum vid minna tap en med 2-3 morkum…eigum sens a stigi ef vid pökkum i vörn

  5. Ég trúi líka !, 2,1 fyrir okkar elskulega LFc Liði !, super marió með 2 mörk !.

  6. Eins gott að þessi skilaboð komist til skila! Hafið þið séð reiðan, vanvirtan Hríseyjing?
    Ekki fögur sjón!

  7. Ég hef séð slíkt Sævar, reyndar var hann Olli okkar í glasi þá, en það var samt ekki fögur sjón.

  8. Svartsýnin á mig allan þessa dagana, held að Chelsea sigli þessum leik í höfn í tilþrifalitlum leik hjá okkar mönnum. Ég sé bara ekkert í spilunum sem gefur mér ástæðu til að búast við sigri um helgina. Móramenn hafa reyndar ekki verið neitt stórkostlegir undanfarið en hann kann að leggja upp svona leiki. Reyndar held ég að þessi leikur verði svipaður leiknum í vor, með öfugum formerkjum þó, við liggjum til baka og treystum á skyndisóknir. Gæði Chelsea eru því miður of mikil eins og er og þeir klára þetta eins og síðast 2-0. Ó Fowler hvað ég vona að ég hafi kolrangt fyrir mér og Liverpool komi brjálaðir í leikinn og lækki nú rostann í Móra, sá þarf á flengingu að halda!

  9. Mignolet

    Johnson – Skrtel – Toure – Moreno

    Henderson – Gerrard- Can

    Sterling – – Marcovic

    – Lambert

    Ég er að vonast með því að hafa tvær eldsnöggar rakettur á sitthvorum kantinum þá er hægt að virkja Lambert með því að senda meira af hliðarsendingum á hann. Lambert er bæði mjög góður í loftinu og svo hann með mjög góða sendingargetu sem gæti nýst vel í spili og því ekkert athugavert að hafa hann í byrjunarliðinu þar sem Balotelli hefur verið upp á ansi fáa fiska.

    Ég væri sáttur með jafntefli í þessum leik.

  10. Þetta lið tekur Chelsea og síðan deildina

    Borini – Coutinho (Lallana, Lambert)
    Sterling (Markovic)
    Allen Henderson (Can)
    Gerrard (Lucas)
    Moreno Lovren Skrtel G.Johnson (K.Toure, Manquillo, Enrique)
    Mignolet (B.Jones)
    Á meiðslalistanum: Sturridge, Sakho, Flanagan

    aðrir eru óþarfir

    Algjört lykilatriði er að breyta sóknarleiknum. Við erum búnir að spila einhverja 10 leiki í röð með algjöra skitu fyrir framan markið. Það hljóta að vera breytingar í nánd og vonandi var Real Madrid upphafið.

  11. 1-1 Jafntefli og ég er sáttur, við meigum ekki tapa leikjum á heimavelli, ef þetta fer ekki að lagast held ég að FSG þurfi að fara að skoða þessi leikmannakaup, ef það er Rodgers sem ræður því, þá er hann bara ekki rètti maðurinn í starfið, hann er frábær þjálfari en alveg úti að skíta á markaðinum…

  12. Takk fyrir mig.

    Ég fer glaður út í daginn eftir þennan lestur 🙂

    YNWA

  13. sælir félagar

    Sammála því að ómögulegt er að giska á líklegt byrjunarlið.

    Ég væri persónulega alveg til í að sjá lucas og can aftur saman á miðjunni, mér fannst þeir ná ágætlega saman í síðasta leik. Lucas hefur spilað einhverja 3 – 4 leiki á þessu tímabili og mér hefur í raun fundist hann komast vel frá þeim öllum og holning liðsins virkað betur með hann í stað SG. Hinsvegar hefur SG gríðarlega öfluga sendingargetu ásamt spyrnuhæfileikum umfram lucas en ég hef bara ekki séð mikið af því undanfarið hjá okkar ástsæla fyrirliða.

    Einnig held ég að Borini hafi svosem alveg sýnt næga baráttu til þess að byrja á kostnað Balo þó svo að það væri líka spennandi að sjá þá báða á topp.

    Ég held að Sterling kallinn þurfi hvíld, amk mætti geyma hann annarsstaðar en lengst úti á kanti þar sem hann týnist auðveldlega. Hreyfanleiki hans er lykilatriði á því að hann nái að valda usla og það hefur stórlega vantar þennan hreyfanleika í síðustu leikjum (líkt og hjá fleirri leikmönnum).

    Síðan held ég að Henderson komi aftur inn fyrir Allen.

    YNWA
    al

  14. Jà èg trúi og spái 3-2 í einhverjum svakalegum dramaleik þar sem tvö rauð fara à loft.

  15. Ég ætla að vera svartsýnn fyrir þennan leik, en vonast til að liðið blási á allar svartsýnisraddir og brilleri. Spái 0-1 fyrir Chelsea.

  16. Ég ætla að leyfa mér að vera smá sófaspekingur og spá því að Móri láti lið sitt sitja tilbaka, beiti skyndisóknum og reyni að tefja leikinn. Þeir pota inn einu marki og liggjast alfarið í vörn. Alveg eins og hefur virkað vel fyrir önnur lið á móti okkur. Svona svipað og hann gerði á móti City fyrr í vetur og gegn Liverpool í fyrra. Treystir á varnarmistök hjá okkur, sem væri alls ekki vitlaus leikur hjá honum.
    Ég vona hins vegar að ég hafi rangt fyrir mér.

  17. smá þráðrán, afsakið.

    Coutinho valinn leikmaður október-mánaðar hjá Liverpool!!?? Hvað segir það um spilamennsku liðsins þann mánuðinn?!

  18. Takk fyrir frábæra upphitun, engu við hana að bæta nema ég hjó eftir innsláttarvillu sem stakk mig semi hestamanninn þú hefur óvart skrifað “hellast” en ekki “heltast úr lestinni”. ég er að púrra mig upp í bjartsýni og gengur nokkuð vel, samt hræddur um að okkar menn verði full ákafir að hefna og sá titlalausi á síðasta tímabili er einmitt mjög góður að ergja lið sem spila þannig.

  19. Er ekki bjartsýnn fyrir leikinn enn þetta er liðið sem ég myndi vilja sjá:

    Mignolet
    Manquillo – Skrtel – Toure – Johnson
    Henderson – Lucas- Can
    Sterling
    Balotelli – Borini

    Vona að Moutermouth “detti” í þetta sinn og fari heim með fyrsta tap sitt á árinu.

  20. Ef við höldum áfram sömu spilamennsku eigum við ekki séns í þessum leik. Ég er ekki bjartsýnn en vona innilega að liðið okkar vakni til lífsins, þá er allt hægt. Ég vil sjá Gerrard spila framarlega á miðjunni með Lucas, Can og Henderson á miðjunni. Borini verður svo að vera frammi með Balotelli. Þvílíkur munur þegar við spilum með tvo frammi. Varðandi vörnina, þá er aðal málið að King Kolo verði með.

    Takk fyrir frábæra upphitun.

  21. Sælir félagar

    Ég er svo algerlega sammála Ssteini að það er að bera í bakkafullan lækinn að hafa einhvar orð þar um.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  22. Er ekki bjartsýnn fyrirfram. En verðum að vera fyrstir til að pakka þessum Chelsea mönnum saman.

    En ef við töpum leiknum og Rodgers segir í viðtali eftir leik að liðið hafi spilað “frábærlega” þá æli ég!!

  23. er ekki mjög bjartsýnn, en það er aldrei að vita nema balotelli sýni loksins hliðina sem allir hafa beðið eftir að sjá og vinnur þetta bara uppá eigin spýtur

  24. Sem harður Chelsea maður verð ég að segja að ég er mjög áhyggjufullur fyrir leikinn gegn Liverpool. Þetta er bara spurning um hvenær þið vaknið til lífsins, enda eruð þið með frábært lið og eigið harma að hefna. Vonandi vaknið þið ekki á morgun, en megi betra liðið vinna 🙂

  25. Markmaðurinn heldur sínu plássi eftir ágætis spilamennsku undanfarið.
    Johnson kemur í hægri bak annars sama vörn.
    Henderson, Can, Gerrard og Lucas djúpur.
    Og pastaæturnar saman frammi.
    Gerrard fer svo útaf eftir frábærar 60 mín enda að eldast og hefur ekki þol lengur í 90 mín. Spurning aðfara að nota þennan frábæra fyrirliða skynsamlega, wake up and smell the coffee Hr.Rodgers.
    Rústum Chelsea 3-1
    og Motormouth grenjar að hann hafi fengið einum degi minna í undirbúning.

  26. Innà með Lucas, King Kolo og Can. Balotelli, Sterling og Borini frammi. Gerrard byrjar à bekknum en kemur sterkur inni í seinni.
    Vörn, Glen, Skertl, Kolo, Moreno.
    Miðja, Can, Lucas og Coutinho.
    Frammi, Balotelli, Sterling og Borini.
    Þà tökum við þetta 2-0
    YNWA

  27. Ég ætla ekki að biðja um mikið úr þessum leik, enda ekki hægt miðað við hvernig liðið er þessa dagana. Eina sem ég vill er að Liverpool skapi sér færi og nái góðu spili.

    Kolo og Can eiga skilið að byrja þennan leik þar sem þeir spiluðu seinasta leik bara nokkuð vel. Ég vona að Lovren og Allen detti út. Liverpool keypti Allen á ágætis pening fyrir 2 árum, hann hefur lítið sannað þar sem hann er takmarkaður bæði sóknar- og varnarlega. Ég held og vona að þetta sé hans seinasta tímabil, nema hann fari að sýna ótrúlegan stöðugleika.

    Raunsæ spá segir okkur tapa leiknum 2-0. Bjartsýn spá segir 1-1, yrði mjög ánægður með þau úrslit.

  28. Ég vona að maggi gylfa fyrirgefi þér þessa liðsuppstillingu Sigursteinn. Þessi uppstilling er greinileg uppgjöf hjá LFC.

    Ég spái því að dýrvitlaust Liverpool lið mæti á Anfield á morfun og taki þetta 2-1.

    Það hlýtur að koma að því að þetta falli fyrir okkur. 🙂

  29. Liðið sem ég vil sjá er svona:

    Mignolet
    Johnson-Kolo-Skrtel-Moreno
    Lucas
    Hendo Gerrard
    Lallana
    Balo Borini

    Liðið sem ég held að spili:
    Mignolet
    Johnson Skrtel Lovren Moreno
    Gerrard
    Hendo Coutinho
    Sterling Lallana
    Balo

  30. Fletti því upp hvenær Liverpool vann Chelsea síðast í deild og komst að því að það gerðist þann 8. maí 2012. Minnir að hinn hárfagri Shelvey hafi meira að segja skorað í þeim leik!

    Hugsa að eitthvað svipað verði uppá teningnum á morgun þar sem ég hef bullandi trú á plani Rodgers fyrir þessa vikuna. Efast reyndar um það að Shelvey skori en ætla að giska á svipaða hetju í vini mínum Borini. Hann á það eitthvað svo skilið þetta krútt. Komaso

  31. hvað er að mönnum flestir sjá ekki Coutinho inni samt er hann búinn að vera okkar besti maður undanfarið og var valinn besti leikmaðurinn okkar í október eru menn ekki að horfa á leikinn? Svo eru menn að stilla Johnson í bakvörð hann e enginn varnarmaður . Spila 442
    Mignolet

    Manquillo – Skrtel – Toure – Moreno

    Sterling-Henderson – Gerrard – Coutinho

    – Balotelli – Lallana

  32. Góðan daginn gott fólk….. Það er alveg ótrúlegt hvað maður sveiflast til þegar kemur að þessu blessaða fótboltaliði sem manni þykir svo vænt um!!! Er buinn að vera nokkuð svartsýnn á þennan leik alla vikuna, en vaknaði líka svona bullandi bjartur í dag og ætla að spá þessu 2-1 Balo og Sterling með mörkin… Vona innilega að Toure byrji á kostnað Lovren í dag og hef fulla trú á því að liðið komi tilbúið til leik og menn verði á tánum……FULLA FERÐ RAUÐIR!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  33. Úff úff. Hazard, Costa, Fabregas og Ivanovic gegn varnarleik Liverpool. Raunhæft mat er að það er lítil ástæða til bjartsýni 🙁 Ekki bætir úr skák að okkur virðist fyrirmunað að skora þessa dagana.

    Kalt mat mitt er tap. Vonandi þarf ég samt að kyngja þessum hrakspám eftir leik. Myndi gera það með glöðu geði.

  34. Best að bregða sér í bjartsýnu buxurnar í dag. Þetta verður massívur 2-1 sigur. Chelsea eru á leiðinni að bæta félagsmet og það setur aukna pressu á þá alveg eins og gerðist með Ronaldo á þriðjudaginn. Þeir verða í nettu rugli og við göngum á lagið og vinnum leikinn. Hvernig liðið verður er ómögulegt að spá en Kolo, Can og Borini mega alveg byrja mín vegna.

    Varðandi Balotelli, þá las ég í vikunni grein eftir Sigga Ragga, um Jonathan Glenn. Hann var ansi lengi í gang hjá Eyjamönnum en kom svo til – vegna þess að Siggi Raggi hafði trú á honum og spilaði honum í gegnum þurrkatíð. Velti fyrir mér hvort Rodgers sé að gera það sama með Balo og að hann muni komast í gang fyrr en síðar. Kannski verður það í dag.

  35. Aldrei vaknað jafn bjartsýnn á ævinni, við tökum þetta, ég trúi, coutinho með þrennu, Móri settur upp í stúku.

  36. Ein smá pæling, væri ekki bara best að hafa fyrirliðann fremstann? Hann er sennilega skotvissastur í liðinu þessa dagana eða þangað til Berahino og Origi koma til okkar.

  37. Er í Hlíðunum Hvaða stað mæla menn með til að sjá leikinn í nágrenni?

  38. Óskauppstillingin í dag:

    http://img.startingeleven.co.uk/u/545dfe94d1e8f.jpg

    Það er búið að sýna sig að þetta er ekki lið sem að leggst í vörn og nær 0-0 jafnteflum og 1-0 sigrum. Við lekum alltaf inn 1 til 3 mörkum í leik og af hverju þá ekki að reyna að vinna miðjuna og sækja af einhverjum krafti. Þessi uppstilling myndi allavega bjóða uppá skemmtanagildi í lagi!

  39. Spái Glen öfugum. 4-4-2
    Manquillo Skrölti Kolo Johnson
    Hendo Lucas Gerrard Lallana
    Borini Balotelli

    Bakverðir þétta betur vængina og inn á varnarmiðsvæðið og sækja minna.
    Þess vegna verður Glen öfugur.

    Þetta mun gefa öruggan 1-0 sigur
    YNWA

  40. Ég held að við vinnum þennan leik 2-1 og það verða mjög líklega 2 rauðspjöld í leiknum.

    Að öðru veit einhver um síðu þar sem maður getur horft á leikinn i Ipad

  41. Byrjunarliðið komið, hvað finnst mönnum.
    Mignolet, Johnson, Moreno, Skrtel, Lovren, Gerrard, Can, Henderson, Coutinho, Sterling, Balotelli.
    subs: Jones, Toure, Lucas, Allen, Lallana, Borini, Lambert.

    Ég er ánægður að sjá Can inná, en hefði viljað sjá Toure í stað Lovren

Könnun: Var rétt af Rodgers að breyta liðinu?

Liðið gegn Chelsea