Ströggl

Þegar Phil Jagielka fékk boltann 40 metra frá Liverpool markinu á 92.mínútu fótboltaleiks í Liverpool borg í gær, þá sat ég fyrir framan sjónvarpið inní stofu heima hjá mér í Stokkhólmi. 2 ára sonur minn var þreyttur við hliðiná mér og í fanginu hélt ég á 4 mánaða gamalli dóttur minni.

Ef þau hefðu ekki verið þarna hefði ég helst viljað kasta einhverju þungu í vegginn. Eða öskra. En það gat ég ekki gert og þrátt fyrir að fólk finnist þessi fótboltaáhugi minn á stundum jaðra við einhverja veiki þá lærði ég í gær allavegana að ég hef nægilega sjálfstjórn til að öskra ekki þegar ég held á litlu stelpunni minni í fanginu. Mér tókst einhvern veginn að standa upp, láta konuna mína fá stelpuna, labba svo fram á gang og öskra einhvern veginn innra með mér. Svo horfði ég á síðustu mínútu leiksins og fór svo í göngutúr til að reyna að jafna mig eftir þessi vonbrigði.

Þetta eru talsvert aðrar tilfinningar en ég fann þegar að Ludogorets og Middlesboro skoruðu sín mörk og jöfnuðu gegn Liverpool. Þá voru viðbrögðin að ég hálf partinn hló að því hversu vonlaust þetta Liverpool lið væri. En í gær var þetta öðruvísi. Í gær spiluðu okkar menn virkilega vel og áttu svo innilega skilið að vinna leikinn. Og það er þegar að slíkir leikir detta niður í jafntefli sem að vonbrigðin eru mest og maður verður sárastur og reiðastur þegar að okkar menn fá á sig mörk.


Það er dálítið erfitt að meta þetta tímabil en það skrítna er að ég er talsvert bjartsýnni í dag en ég var á föstudag. Á föstudag hafði ég bara séð þetta Liverpool spila vel í 90 mínútur síðan að við töpuðum fyrir Chelsea. Eftir Ludogorets leikinn skrifaði ég:

27.apríl töpuðum við gegn Chelsea á Anfield og þá endaði ótrúleg sigurganga þessa liðs. Síðan þá höfum við leikið eftirfarandi leiki: Crystal Palace (j), Newcastle (s), Southampton (s), Man City (t), Tottenham (s), Aston Villa (t) og Ludogorets (s). Þetta eru 7 leikir – við höfum unnið 4, tapað tveimur og gert eitt jafntefli. Það er ekki góður árangur. Og það sem meira er að við höfum í raun bara leikið vel gegn Tottenham af þessum 7 leikjum. Hinir 6 leikirnir voru slappir.

Kannski situr eitthvað í þessu liði – kannski er það áfallið að tapa niður titlinum á síðasta tímabili, kannski byrjuðu menn að trúa því að Suarez væri ómissandi. Eða kannski eru menn bara svona óvanir að spila með hvor öðrum. En það er alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast.

Síðan þá höfum við spilað gegn West Ham og Boro (sem voru mjög slappir leikir) og svo kom leikurinn í gær.

Fyrir leikinn í gær var ég verulega stressaður yfir því að það vantaði eitthvað mikið í þetta lið. En eftir gærdaginn er ég bjartsýnni á að Rodgers sé að ná einhverjum tökum á þessum stóra hópi og fá nýju mennina til að spila einsog liðið gerði á síðasta tímabili.


Á okkar ótrúlegu sigurgöngu í fyrra spiluðum við oftast svona:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho/Agger/Toure – Flanagan

Gerrard(c) – Henderson
Sterling – Coutinho – Suarez

Sturridge

Ég sagði oft á þessari sigurgöngu að það væri erfitt að sjá hvernig við ættum að bæta þetta byrjunarlið (fyrir utan vinstri bakvörð). Í sumar seldum við Suarez, en ég held að ósk Brendan Rodgers hefði verið að halda liðinu sem mestu óbreyttu en taka nýja menn smám saman inn. Fá þá til að læra inná leikstíl Rodgers og smitast af leikgleðinni og baráttunni í liðinu. Þetta sást ágætlega í fyrsta leik þegar að aðeins tveir nýjir menn voru í liðinu – Lovren og Manquilo. Það sama gerðist gegn City (Lovren og Moreno), en gegn Tottenham voru nýju mennirnir orðnir fjórir (Moreno, Lovren, Manquilo og Balotelli) þar sem að Glen Johnson var meiddur og Balotelli orðinn löglegur.

Þetta var á þeim punkti ekkert alltof slæmt. Ágætis þrír leikir – tveir sigrar og eitt tap. Og tveir nýjir leikmenn í fyrstu tveimur leikjunum.

En svo kemur landsleikjahlé og hlutirnir fara að versna. Gegn Villa er 3/4 af vörninni áfram nýjir (Moreno, Manquilo og Lovren) og ÖLL sóknin eru nýjir leikmenn (Balotelli, Lallana og Markovic). Sex nýjir leikmenn, sem er alltof mikið. Af hverju? Jú, bakverðirnir frá í fyrra (Johnson og Flanagan) báðir meiddir, Allen meiddur þannig að Coutinho fer aftar og svo Sturridge meiddur (ásamt því að Sterling var hvíldur). Í West Ham leiknum voru svo 5 nýjir menn (ef við teljum Borini nýjan) og gegn Everton voru sex nýjir leikmenn.


Þetta tel ég helstu ástæðuna fyrir misjöfnu gengi okkar manna. Það er ekki einsog Rodgers hafi bara getað haldið áfram einsog hann hætti á síðasta tímabili (nema að kannski bæta einhverjum inn fyrir Suarez) heldur hafa meiðsli valdið því að hann hefur þurft að gera miklu meiri breytingar á liðinu heldur en hann kannski ætlaði. Það er kannski ekki furða að við spilum ekki sama blússandi sóknarbolta gegn Aston Villa þegar að öll sóknarlínan er ný. Allt menn sem hafa nánast ekki spilað mínútu af fótbolta saman.

Ástæða númer tvö fyrir slæmu gengi held ég svo að sé sálfræðileg. Liðið varð fyrir gríðarlegu áfalli gegn Chelsea og að tapa titlinum í kjölfarið. Flestir leikmenn áttu svo slæma HM keppni (fyrir utan Sakho kannski) og þurfa eflaust að lesa það í blöðum að Luis Suarez hafi verið eini maðurinn með viti í liðinu. Það að Rodgers hafi þurft að henda alltof mörgum nýjum mönnum inn og þetta sálfræðilega plús það að Rodgers hefur ekki verið klár á sínu besta leikkerfi, hefur valdið misjöfnu gengi liðins.


Ég er samt þokkalega bjartsýnn fyrir framhaldið.

Staðan í deildinni er ekki góð. Við erum í 13.sæti með 7 stig eftir 6 leiki. Við erum 9 stigum á eftir Chelsea. Einhverjir myndu segja að titillinn sé farinn – sérstaklega ef að Chelsea heldur svona áfram (sem ég held að þeir muni ekki gera). Við höfum misst okkar langbesta leikmann og nýju leikmennirnir hafa margir hverjir átt erfitt uppdráttar.

En svo getum við horft á þetta öðruvísi.

Við erum búnir að fara á Etihad og White Hart Lane auk þess að spila við Everton á Anfield í fyrstu 6 leikjunum – og að auki höfum við spilað við tvö lið sem hafa reynst okkur mjög erfið í Southampton og Aston Villa. Í keppninni um efstu fjögur sætin erum við 4 stigum á eftir Man City, 3 stigum á eftir Arsenal, og einu stigi á eftir Tottenham og Man United. Og við höfum spilað erfiðara prógramm en öll þessi lið.

Og að mínu mati lofa margir nýju leikmannanna verulega góður. Mér hefur fundist Lallana lofa ótrúlega góðu og sama má segja um bakverðina tvo. Lovren hefur verið mistækur, en ég hef trú á að ef að hann og Skrtel fái nokkra leiki í röð þá verði þeir góðir saman. Balotelli fannst mér líka vinna rosalega vel í gær. Markovic og Can hafa lítið sýnt, en gleymum því ekki að Markovic er bara níu mánuðum eldri en Raheem Sterling! Þetta er bara strákur, sem er að spila í nýrri deild. Og Can hefur verið meiddur.

Við erum vonandi að fá Sturridge tilbaka, sem og Allen. Með vörn sem hefur spilað saman, Allen og Hendo á miðjunni og Sturridge frammi þá held ég að þetta lið sé í fínum málum.

Framundan í deildinni eru Hull (heima), Newcastle (úti), Chelsea (heima), Crystal Palace (úti), Stoke (heima), Leicester (úti) og Sunderland heima áður en við keppum við United og Arsenal rétt fyrir jól. Þarna er erfiður leikur gegn Chelsea á Anfield á milli sex leikja sem við eigum að vinna.

Rodgers þarf núna að halda þessari vörn sem hann vill augljóslega hafa (Moreno, Lovren, Skrtel og Manquilo/Johnson), hætta að horfa á töfluna og reyna að ná upp sömu ákefð og baráttu og á síðasta tímabili. Ef að það gerist og við fáum Sturridge þarna uppi með Balotelli þá er ég fullviss um að mörkin fara að koma og að Liverpool fer að klifra upp töfluna aftur.

Fyrir mér er glasið hálffullt í dag. Vonbrigðin gegn Everton eru mikil, en það má ekki láta eitthvað bull mark af 40 metra færi valda því að menn gleymi frammistöðunni. Það er vonandi að Rodgers nái að peppa menn saman í útileikinn gegn Basel, því það verður að teljast líklegt að leikirnir gegn Basel muni skera úr um hvort við komumst áfram í Meistaradeildinni.

53 Comments

  1. Frábær pistill og eg se þetta nkl eins og þú Einar, liðið flott í gær og auðvitað var eg svekktur með þetta bull jöfnunarmark en einhvernveginn þá brjalaðist eg ekkert því liðið var ad spila vel og eg held þetta se að smella saman. Liðið verður allt annað þegar Sturridge kemur inn og þá fær Balotelli meira pláss lika, held að þeir fari baðir að skora slatta af mörkum rett eins og Sturridge og Suarez í fyrra. Lykilatriði er auðvitað samt að halda Sturridge meira heilum.

    Vinnum Basel i vikunni og förum þannig langt með að tryggja okkur uppur þessum riðli og tökum svo nokkra sigra i röð i deildinni i kjölfarið.

  2. Finnst hálfpartinn lélegt að kenna “of mörgum” nýjum leikmönnum í liðinu um slæmt gengi liðsins. Hvað misstu Southamtpon marga lykilmenn í sumar og hversu marga keyptu þeir?
    Þeir skiptu meira að segja um stjóra en eru samt á fljúgandi siglingu í deildinni.

    Hugsa að Utd og Liverpool hafi eingaldlega skipt um hlutverk í vetur. Þetta gengi er a.m.k. farið að minna mig verulega á hvernig Utd voru í fyrra. Þeir náðu ekki að díla við að missa Ferguson og við erum langt frá því að díla við að missa Suarez.
    Þá eru þeir án CL í ár, með frábæra sókn og skelfilega vörn, eins og jú við í fyrra.

  3. Flottur pistill og nákvæmlega sama upplifun og ég hef af leiknum í gær og næstu leikjum. Fór líka í göngutúr eftir leik en það var þó til að kenna SStein golf.

    Það er voðalega erfitt að setja út á margt í spilamennsku okkar manna í gær, þetta var miklu nær því Liverpool liði sem við þekkjum frá því í fyrra.

    Vörnin var miklu meira sannfærandi núna en allt þetta tímabil og vonandi eru þeir að læra betur inn á hvern annan. Botna reyndar nákvæmlega ekkert í því að hafa Toure á bekknum frekar en Sakho og trúi varla að Sakho sé okkar 4. kostur í vörninni en það er aukaatriði. Bakverðirnir eru síðan að virka mun betur á mig en það sem við sáum á síðasta tímabili.

    Lallana var maður leiksins fyrir mér og frábært ef hann er að finna taktinn hjá okkur. Miðað við hans leik í gær er frábært að eiga hann sem kost í þessa stöðu með Henderson á miðjunni, miklu betra en við höfum fengið að sjá frá Lucas. Gerrard er líka alveg hægt að velja manna leiksins og skoraði auðvitað frábært mark. Trúi ekki að hann hafi fengið gult fyrir að svara söngvum Everton manna með því að fagna eins og hann gerði.

    Lazar Markovic þarf greinilega tíma til að finna sig á Englandi, hann mun gera það. Coutinho kom inná í gær og var líkari sjálfum sér sem er jákvætt og dugar líklega til að taka stöðuna af Markovic.

    Balotelli var mikið líflegri í þessum leik einnig og gerði nánast allt rétt nema að pota fjandans blöðrunni í netið. Hann verður að fara gera það fljótlega, m.v. leikinn í gær er ekki langt í að hann hrökkvi í gang.

    Þetta lið gæti samt ekki saknað Sturridge mikið meira og ég er handviss um að við værum með mikið meira en 1 stig eftir síðustu þrjá leiki með hann innanborðs.

    Rodgers þarf að tilkynna þá meidda fyrir næsta landsleikjahlé, mér er sama þó að England verði (mjög) óvænt að spila til úrslita á HM í næsta leik.

    Jöfnunarmark Everton var hreinn viðbjóður, það verður bara ekki mikið verra en flautumark í leik sem okkar menn áttu frá A-Ö. Rán um hábjartan dag.

    Eins er ekki hægt að gefa dómara leiksins háa einkun, hvernig Barry hékk inná vellinum allann leikinn er með ólíkindum og það að hann hafi ekki dæmt víti eftir glæsilega markvörslu hans inni í teig var afar svekkjandi. Það breytir því ekki að Liverpool átti bara að klára þennan leik þrátt fyrir að fá þessa dóma ekki með sér. Fótboltinn er grimmur og svona mörk eins og hjá Jagielka er lítið hægt að gera við.

    7 stig eftir 6 leiki er martraðar byrjun á mótinu, vonandi erum við að horfa rétt í stöðuna með því að örvænta ekki strax. Fyrsti deildarsigurinn í allt of langan tíma kemur um næstu helgi og verður sannfærandi. Djöfull hlakkar mig til.

  4. Ef maður horfir á þetta með hlutlausum augum þá erum við ekki búin að eiga erfiðasta programið af toppliðunum eins og þú kemur fram á. United búið að eiga langauðveldasta. En City t.a.m eru búnir að spila við okkur, chelsea og arsenal s.s öll liðin sem voru í top 4 í fyrra. Arsenal er rétt eins og við búnir að spila við everton,tottenham og city auk minni liða rétt eins og við og chelsea er búið með city og everton. Leggjumst ekki á svona lágt plan að nota endalausar afsakanir. Það eru fleiri lið með marga nýja leikmenn, utd voru til að mynda með 6 leikmenn í byrjunarliðinu í gær sem voru keyptir í sumar og einn strák sem var að þreyta frumraun sína og kemur úr unglingaliðinu. Sem gerir 2 leikmenn að spila sinn fyrsta leik og 5 aðra sem eru búnir að spila 2-4 leiki með liðinu. Annars er ég sammála það var vissulega bæting á liðinu í gær og vonandi þetta sem koma skal.

  5. Mikið er ég ofboðslega feginn að einn penninn kom með svona færslu! Þetta er nákvæmlega eins og ég túlka það.

    Margt jákvætt í þessum leik sem hægt er að taka fyrir. Eins og flestir benda á var vörnin mjög góð og hef ég ekki enn séð jafn lítinn mann ÉTA jafn stóran mann í leik, sbr. Moreno vs Lukaku! Þessi strákur verður hrikalega góður, þ.e.a.s Moreno (þó ofvaxna nautið verði það líka). Vörnin gerði það svo að verkum að Mignolet þurfti ekki að fara í einhver úthlaup sem eru alls ekki hans sterkasta hlið sem og átu miðverðirnir alla háa bolta inná teiginn.

    Bara það að vörnin sé að ná saman er nægilega ljós punktur til þess að horfa á glasið hálffult. Svo kemur Studge fljótlega inní þennan hóp og þá getur eitthvað farið að gerast! Balotelli þráir að fá snöggan og skapandi mann með sér þarna uppá topp aðallega vegna þess að þeir munu opna svo mikið af plássi fyrir hvorn annan.

    Hlakka til að sjá okkar lið svona líflegt í næsta leik!

    YNWA – In Rogers we trust!

  6. Í fyrra vorum við án Suarez í fyrstu leikjunum en vorum samt að ná stigum. Sturridge er án efa stærsta ástæðan fyrir slæmu gengi/markleysi en það er fleira. Við höfum ekki fyrr en á móti Everton getað svarað því að:
    a) Andstæðingarnir pressuðu okkur hátt uppi
    b) Gerrard með mann á sér

    Ég er sammála mati ykkar á Everton leiknum. Við vorum óheppnir að klára ekki þann leik.

    Það jákvæða við þetta tímabik er Moreno. Hann er að spila virkilega vel. Ótrúlegt hvað hann spilar vel miðað við aldur. Aðrir nýjir leikmenn taka lengri tíma að sýna sitt rétta andlit.

    Mér fannst Balotelli virkilega góður á móti Everton, ef ekki væri fyrir ótrúlega markvörslu Howard þá væru allir að tala um hversu mikill snillingur Balo væri og 3 stig í húsi.
    Lovren var sömuleiðis miklu meira sannfærandi í síðasta leik en í fyrri leikjum.

    Sakho veldur mér hinsvegar áhyggjum. Hvar er Sakho sem spilar með franska landsliðinu? Eru þetta tungumálaörðugleikar. (Valencia er búinn að vera í 8 ár í enska boltanum og talar ekki enn ensku!

    Lallana var sömuleiðis góður en það mun taka Markovich einhvern tíma að ná áttum.

    Ég ætla að láta tvo næstu leiki klárast áður en ég fer að hafa miklar áhyggjur.

    Við vorum að mörgu leiti lánsamir a síðasta tímabili. Við spiluðum á 13-14 mönnum allt mótið. Það gerist ekki aftur. Það er alveg ljóst að Rodgers þurfti að breikka hópinn. Hópurinn er breiðari núna en nýjir leikmenn þurfa tíma. Það hefur sömuleiðis áhrif að vera án Sturridge og Suarez. Þeir skoruðu yfir 50 mörk á síðasta tímabili!

    Ég er mjög svekktur að við náðum ekki þrem stigum um helgina en mér leið vel að sjá hvernig að við spiluðum.

    In Rodgers we trust. YNWA

  7. Frábær pistill og þörf orð. Eins og ég sagði í ummælum við leikskýrsluna í gær þá má þetta undramark Jagielka ekki skyggja mönnum sýn á þær staðreyndir að liðið lék mjög vel í gær og að við erum bara 4 stigum á eftir meisturum City í þriðja sætinu. Hef engar áhyggjur af liðinu í öðru sæti og það eina sem við getum sagt á þessum tímapunkti er að það er orðið langsótt að ná Chelsea í toppsætinu. Langsótt, en ekki ómögulegt. Við vorum 8 stigum á eftir Arsenal í byrjun febrúar á þessu ári, enduðum 5 stigum á undan þeim. Þannig að það er ennþá allt galopið í þessu, ennþá bara september.

    Ég er bjartsýnn. Þetta getur ekki verið mikið verra og þá er leiðin bara hratt upp á við á töflunni. Bring it on.

  8. Hjúkk mar! Fleiri að horfa á hlutina með sömu augum og ég. Frábær pistil og ég hef nákvæmlega engu við hann að bæta. Takk fyrir mig.

    Bring on Basel!

  9. Góðar pælingar og full ástæða til hóflegrar bjartsýni. Varðandi prógrammið framundan gleymast reyndar næstu 2 deildarleikir sem eru WBA heima og QPR úti – þetta eru leikir sem klárlega eiga að vinnast sem styður enn frekar við niðurstöðu Einars um að glasið sé amk. hálffullt og Liverpool eigi að geta klifrað upp töfluna aftur.

  10. Sammála því sem hér hefur komið fram.

    Vil þó bæta því við að betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi og allt það, þó næstu leikir eigi að heita “léttir” á pappírnum, þá er staðan í þeim öllum 0-0 enn sem komið er, það byrja 11 inná í báðum liðum og ekkert tryggt þegar kemur að stigafjölda úr þeim. Spyrjið bara van Gaal. En að sjálfsögðu vonar maður það besta og ég treysti liðinu til að sýna sínar bestu hliðar.

    Síðan finnst mér afskaplega leiðinlegur tendens hjá fólki að taka alltaf einhvern einn leikmann fyrir, fyrst í haust var það Johnson, svo er það Mignolet, síðan Markovic… enginn þeirra fullkominn að sjálfsögðu, en gagnrýnin má gjarnan vera makleg og uppbyggileg.

  11. liðið þarf að fara að hætta þessu kæruleysi og fara aftar og aftar með vörnina á síðustu 10 min , fengum mark á okkur gegn aston villa, west ham, ludogrets , boro og everton allt frá 85-90 en nú reynir á hópinn að ferðast til basel á miðvikudaginn og svo eigum við laugardagsleik

  12. Þetta var líka klaufalegt að taka Balo útaf hann helt boltanum vel uppi á topp, skil ekki af hverju sú skipting átti sér stað, það var það sem að pirraði mig eftir leikinn.. En án efa besti leikurinn á tímabilinu hjá Liverpool. Svo finnst mér líka að Markmaðurinn okkar hefði átt að taka þetta skot… hefði bara þurft að snerta boltan, hann er ekki með neytt sjálfstraust greyið.

  13. Sammála að maður sá bætingu á spilamennskunni í þessum leik enn mér finnst okkur vanta ansi mikið fram á við, þennan beitta sóknarleik þar sem við vorum að skapa fullt af færum.

    Ég myndi vilja sjá okkur spila með tvo framherja. Vil sjá Sterling notaðan í þetta hlutverk þegar annar hvort Sturrideg eða Mario eru ekki með. Sturridge/Mario, Sturridge/Sterling eða Sterling/Mario. Höfum fullt að leikmönnum til að spila í holunni með þessari uppstillingu.

    Annað sem ég held að hafi hjálpað varnarleiknum var að Henderson var aftar og að hjálpa Gerrard. Fannst við meira vera spila með tvo afturliggjandi miðjumenn.

  14. Æ, mér finnst svo lame þegar menn eru með hugleiðingar um að liðið sé í áfalli eftir að hafa tapað leiknum gegn Chelski á síðasta tímabili, og þess vegna sé það að tapa leikjum í dag. Þetta eru atvinnumenn for-kræing-át-lát!! og eru ekki að spila sína fyrstu leiki á ævinni, þó manni finnist það stundum um þá suma.
    Þetta tal um Balotelli og Stuuridge er eins og að hanga neðan í þyrlu í tvinnaspotta; menn halda að það breyti einhverju þó Daniel komi inn í liðið. Ég hef ekki trú á því. Mér finnst attitjúdið hjá þeim Balo og Sturridge vera þannig að þeir geti aldrei verið það sem Liverpool þarf í sókninni. Við þurfum mann eins og Suarez, eða bara hann sjálfan aftur, hvorki meira né minna, mann sem drífur liðið áfram með dugnaði og áræðni. Þeir tveir áðurnefndu eru ekki menn sem búa til færi eins og Suarez, þeir stilla sér upp í teignum og bíða eftir að aðrir búi til færin fyrir þá, líta á sig sem einhverja klósera, en Liverpool hefur aldrei spilað með svoleiðis menn. Því miður er ég svartsýnn á tímabilið og hræddur um að við eigum eftir að sjá liðið ströggla meir en við höfum áður séð það gera, en auðvitað lifir maður í voninni og ég vona að ég hafi rangt fyrir mér.

  15. Það er stundum erfitt að lesa í það sem menn eru að hugsa, nú sé ég að einhver kennir Mignolet um markið hjá Everton. Það er algerlega óskiljanlegt. (nóg var nú um að einhver kenndi Lovren um það eftir leik)

    Mér finnst leiðinlegt hvernig farið er með Sakho, mann með 90% sendingahlutfall og spilar honum alltaf framávið eftir jörðinni, engar neglur fram. Að hann sé fyrir aftan Skrtl og núna Toure er stórfurðulegt. Maður keyptur á 20 milljónir með fáránlegt “potential”, líkamlega sterkur, góður í loftinu og fljótur. Vonandi fær hann fleiri leiki á kostnað Skrtl (og sérstaklega Toure). En auðvitað afsakar ekkert þessa hegðun, vonandi verður hann frystur í svona 2-3 leiki og kemur sterkari til baka.

    Vonandi fara þessir menn sem ALLTAF eru að leita að blórabögglum og sökudólgum að hætta að skrifa svona mikið, er hugsanlegt að ritstjórn og ritskðun verði aðeins harðari yfir síendurteknu væli?

    Svo að lokum…

    Mikið hlakka ég til að sjá Gerrard, Henderson, Lalllana og Sterling á miðjunni, með Balo og Sturridge fyrir framan sig.

    Þá verður sko dansað.

  16. #14 „Svo finnst mér líka að Markmaðurinn okkar hefði átt að taka þetta skot… hefði bara þurft að snerta boltan, hann er ekki með neytt sjálfstraust greyið.“

    Er þér alvara? Ef það er eitthvað mark sem ekki er hægt að kenna Mignolet um síðan hann kom til okkar að þá er það þetta mark. Myndi frekar spyrja afhverju einhver varnarmaður gat ekki flækst fyrir þessu skoti.

  17. Voru menn ekki að horfa á Sturridge í fyrra? Skoraði eins og óður maður þegar að Suarez var ekki með.

    Maður sem smellir 22 mörkum í deild með engu víti, er “ekki það sem Liverpool þarf í sókninni”

    Hvað í ósköpunum þarf þá?

    Ég skil ekki neitt.

  18. #20 Siggi:
    Tæknilega séð fékk Sturridge að taka eitt víti (á móti Everton). Hann bara klúðraði því…

    … en ég er hins vegar alveg sammála þér. Fyrir mér er Sturridge eini maðurinn sem getur tekið við af Suarez. Balotelli getur svo tekið við af Sturridge.

  19. Ahh satt hjá þér Daníel, hann tók eitt víti 🙂

    Ég sagði hins vegar “22 mörk með engu víti”, sem er alveg rétt enda ekkert markanna úr víti 😉

    Því hafna ég þessari leiðréttingu og er brjálaður yfir henni.

  20. Flottur pistill !

    Takk fyrir það. Ég er sammála þér í því að glasið er enn hálffullt og það dropar í það á meðan liðið er að slípst saman.

    Og ég er ekkert brjálaður þó Daníel sé brjálæðislega brjálaður en ég vona að LFC verði brjálæðislega bandóðir á móti Basel í Basel……. !!

    :O)

  21. Vá hvað ég er sammála þér Einar Örn. Lýsingin þarna í byrjun er eins og talað útúr mínu hjarta. Ég hélt bara ekki á barni, heldur bjór sem mig langaði að kasta í vegginn. Ég var miklu miklu svekktari yfir þessu marki en þeim mörkum sem við höfum fengið á okkur í undanförnum leikjum. Þetta var virkilega sárt.

    En frábær pistill og ég er viss um að okkar menn fara að komast á gott run og ég held líka að við tökum Chelsea á Anfield í ár.

  22. Ákaflega vel ritað og dáist að bjartsýninni.

    Ætla ekki að skapa nein leiðindi en ég er á annari skoðun. Hef fylgt þessu liði í yfir 25 ár og það er vægast sagt hægt að segja að það sjóði á mér núna.

    Eftir “frábært” síðasta tímabil þar sem hrein unun var að horfa á liðið þá satt best að segja voru það gríðarleg vonbrigði að klára ekki titilinn. Efa það að Liverpool verði næstu árin/áratugi í jafnmiklu dauðafæri á að taka deildina og í fyrra – þarna var sénsinn á að ljúka þessari allt allt of löngu bið. Við í rauninni klúðrum þessu, grátlegt en tökum það góða frá tímabilinu og jú spilamennskan og CL sætið frábært.

    Það var mikil tilhlökkun eftir sumrinu enda gáfu menn það út að járnið yrði hamrað á meðan það væri heitt. Reyndar byrjar þetta ekki vel er Suarez fer og að mínu mati bara versnar eftir að hver kaupin á fætur öðrum eru kláruð án þess að koma inn með “world class” leikmann. Ekki misskilja mig, Lallana, Moreno, Lovren eru flottir leikmenn en með þeim vantaði “world class” kaupin. Markovic, Origi & Manquillo eru leikmenn til framtíðar, ungir/efnilegir og Lambert þessi til að styrkja hópinn (takmörkuð gæði þar eins og berlega hefur komið í ljós). Ennþá var beðið eftir þessu “world class” sign – Þá kom Balotelli. Troddu sokk uppí mig drengur! Sá hefur jú ekki skilað okkur mörkum, né stoðsendingum (jú mark gegn Ludo). Er mikið efni en fer að vera á síðasta séns að sýna það og sanna að hann sé heimsklassa spilari. Höfum við efni á að taka þá áhættu? Jú ef við hefðum fengið einhvern annan með honum sem ekki meiðist eins mikið og Sturridge.

    Sem sagt, ég er ekki nema 75% sáttur við kaupin, hópurinn styrktur, meiri breidd en þessi “gæði” – þessi leikmaður sem ber af..hann vantar. Hverju veldur það að þessir stóru vilja ekki ennþá koma til Liverpool? Borgum við ekki launin? Er það Rodgers? Þeir amk koma ekki.

    Eftir sárgrætilegt 2 sæti á síðustu leiktíð get ég ekki verið sáttur með þetta að vera í tómu tjóni í upphafi leiktíðar. Merjum Southamton….tap gegn City, Flott gegn Tottenham….Villa dapurt….West Ham skelfilegt…..Everton..jú mun betra en þarna skorti gæðin til þess að ganga frá þessu. Áttum aldrei að vera bara einu yfir með 5 mínútur eftir, lágmark 2-0. Skrifa það á skort á gæðum.

    Vona að fleiri en Balotelli troði sokk uppí mig, þrái það að liðinu gangi betur. Afsakið það samt að ég deili ekki bjartsýninni. En ítreka það ég óska þess að eftir 3-4 vikur komi ég hingað aftur inn með skottið á milli lappanna.

  23. Frábær pistill og mikilvægt að meta hlutina eins og þeir eru…ekki láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur.

    Eitt sem ég vill bæta við er að ég tel að Man City sé búið með erfiðara prógramm en við. En það er bara ég:
    Newcastle 0 – 2 Man City
    Man City 3 – 1 Liverpool
    Man City 0 – 1 Stoke
    Arsenal 2 – 2 Man City
    Bay Munich 1 – 0 Man City
    Man City 1 – 1 Chelsea
    Hull City 2 – 4 Man City

    Þeir eru búnir að spila við okkur, chelsea og arsenal í deildinni. Mættu svo Bayern úti í meistard. Aftur á móti sýnist manni að Chelsea og Man City berjist um titilinn. Aftur á móti erum við í góðum gír í baráttunni um meistaradeildarsæti og mín spá að við verðum það í vetur.

  24. Það er hrikalega erfitt, og sárt að hugsa til baka á síðasta tímabil og sjá hvernig við töpuðum Titlinum, Þetta var svo vont, svo afar, afar, afar vont.. Þetta átti loksins að hafast og svo kemur Risaeðlu Bolti frá Jóse og Tony sem að skemma þetta algjörlega fyrir okkur, Og bara allt í kringum það var rosalega vont að melta og Ég held bara satt að segja að Menn séu enþá í hálfgerði lægð eftir það. Svipuð saga (Þó ekki) er þegar Ísland tapaði fyrir Króötum hér um árið, það var ákaflega vont, og Það tók sinn toll og flest allir Landsliðsmenn okkar duttu niður í hálfgert Spennufall eftir það og það tók þá bara tíma að ná sér.

  25. http://www.mbl.is/sport/enski/2014/09/29/eitt_mark_i_63_markskotum/?utm_source=dlvr.it&utm_medium=facebook

    Balotelli með 10 markskot á móti Everton, 63 í heildina hjá Liverpool. Er engin að pæla í því hvort að LIÐIÐ væri komnið með fleiri en þetta eina mark hans ef að hann myndi stundum kannski gefa á næsta mann eða hreinlega reyna fara á menn enda ágætur einn á einn…

    Sú gamla saga að þú skorir ekki nema að skjóta á ekki alltaf við, ég persónulega hef reyndar ekki sérstaka trú á því að Balo passi inn í boltann sem Rodgers hefur viljað.

  26. Innilega sammála þessum punktum.

    5 eða 6 nýjir leikmenn inn í 11 manna lið eru miklar breytingar og hvað þá hjá liði sem missti sinn besta leikmann.

    Svo fynnst mér vert að benda á það að flest af liðinum í ensku úrvalsdeildinni sem áttu marga fulltrúa á HM hafa verið að ströggla. Sbr. Tottenham, Arsenal, City og Liverpool.

    Munurinn liggur fyrst og fremst í því að Liverpool hefur fengið erfiðara leikjaprógram til að byrja með. Þegar Rodgers verður kominn með sitt allra sterkasta lið þá hef ég litlar áhyggjur af okkar mönnum.

  27. Balotelli er helvíti sterkur leikmaður, en verður seint sakaður um að vera mikill markaskorari sbr. 1 mark í 63 skotum…næsti Emile Heskey anyone hehe?

    Nei nei, ef hann stendur sig sæmilega þá kannski á hann framtíð hjá liðinu. Hann hefur verið betri en ég reiknaði með hingað til en liðið verður þá líka að fara vinna einhverja leiki með hann innanborðs.

  28. Sælir félagar

    Hefi engu við þetta að bæta Einar en furða mig á sumum kommentum hér. En það er bara dagsformið hjá mér. Stundum er maður sjálfur í neikvæða gírnum svo mér ferst ekki.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  29. Finnst furðulegt hvernig menn geta komið með sleggjudóma um einstaka leikmenn svona snemma á þeirra FYRSA tímabili hjá nýju liði.

    Jú, Balo, Lambert og Lallana hafa spilað í ensku deildinni sem og Lovren en voru þeir að spila með sama mannskap og þá? Aldeilis hræddur um ekki.

    Balotelli er held ég að venjast því hvernig okkar lið spilar og hvernig samherjinn hreyfir sig hvert sinn. Þetta tekur einfaldlega mislangann tíma hjá hverjum og einum einstakling.

    Lazar er einungis nokkrum mánuðum eldri en Sterling og ekki hægt að ætlast til að allir leikmenn á þeirra aldri geti skilað frá sér sömu getu og Sterling. Lazar þarf einfaldlega að fá fleiri bikarleiki og minni leiki til þess að komast inní þessa deild, en ég hef alveg tröllatrú á þeim leikmanni.

    Lambert er hinsvegar þarna til þess að auka breiddina og gerir það klárlega. Þegar að Studge verður kominn til baka verður þetta hinsvegar allt öðruvísi. Lambert/Borini verða mennirnir sem auka breiddina á meðan að Sterling, Balo og Studge leiða sóknina. Lambert er búinn að segja það sjálfur að hann sé ekki uppá sitt besta enda er hann ekki að fá jafn mikinn spilatíma og hann gerði hjá þeim liðum sem hann hefur verið hjá áður.

    Finnst Can oft gleymast í þessari upptalningu á nýjum leikmönnum en það er kannski bara mitt mat. Hann var virkilega óheppinn að meiðast á þessum tímapunkti því ég held að þessir leikir með Gerrard, Can og Henderson hefðu spilast allt öðruvísi heldur en með Gerrard, Lucas og Henderson.

    Höfum glasið hálffullt og horfum á það að menn eru að slípa sig saman. Persónulega er mér alveg sama þó svo að einhver segi ,,Southampton skiptu um stjóra og marga leikmenn en eru að gera það gott.”. Af hverju ætti það að koma okkar liði við?
    Eins og ég sagði hér að ofan þá eru menn mismunandi eins og þeir eru margir og mögulega er aðlögunarhæfni leikmanna S’ton betri en hjá okkur. Ég meina, Moreno og Manquillo voru snöggir að koma sér inní þetta form spilamennsku. Þetta er allt persónubundið.

    Gefum mönnum séns og smá tíma!

    YNWA – In Rogers we trust!

  30. Sæl og blessuð.

    Sá leikinn í endursýningu eins og gamla daga þegar maður var að byrja að horfa á Hansen, Kennedíarnir, Dalglish og hin goðin. Margt gladdi augað en óneitanlega var hryggilegt að sjá hversu snöggt skyndisóknirnar lognuðust út af þegar markið var komið. Það er af sem áður var þegar féndur voru felldir samúræstæl með nokkrum snörpum sveiflum. Nú er eins og maskínan sé komin með nýjan hugbúnað og í stað þess að þeytast þvers og kruss um lendur andstæðinganna þá staldra menn við. Horfa um öxl eða til hliðar og koma boltanum í “öruggt” skjól.

    Víst verður Jónssyni ekki kennt um þetta að þessu sinni en það er einhvern veginn eins og hann hafi verið gerður að töflustjórnanda eftir að hann laskaðist. Það mætti halda að hann stjórnaði spilinu af hliðarlínunni.

    En við skulum ekki gleyma okkur í heimtufrekjunni. Nú taka við sjö magrir mánuðir eftir hina sjö feitu sem við nutum í fyrra. Að því loknu kemur Órígí og þá spyrjum við okkur í forundran hverjum hafi dottið í hug að manna sóknina með þeim tröllum sem eru þarna núna, brothætt á líkama og sálu. Órígí, Sterling og Sturrigde verða hið nýja SOS og þá kemst hið gamla skrið á sóknina og við gleðjumst að nýju.

    Þangað til … sjö mánaða bið.

  31. Herramenn, herramenn. Ef mér leyfist að spyrja? Hvenær er næsta hlaðvarp?
    Afsakið forvitnina, kv. Krulli.

  32. Podcasti aflýst vegna veðurs.

    Nei við náum ekki að taka upp núna og Einar Örn tók þetta vel saman hér. Það er svosem nóg að gerast á síðunni fyrir því. Steini er með upphitun á morgun og svo er leikur á miðvikudag. Líf og fjör.

  33. Gott að enda pistilinn á fréttum af glasinu góða. Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvað væri mikið í því.

  34. Ég verð að viðurkenna að ég hálf vorkenni Alan Pardew þjálfara Newcastle, virðist ekkert ganga upp hjá honum og stuðningsmennirnir ekki að bæta leik liðsins með að singja um brottrekstur stjórans í miðjum leik, það er greinilega engin YNWA regla hjá þeim…

  35. Voru tapparnir i messunni i alvörunni að reyna að klina þessu marki jagielka a mignolet. Segja svo að cech og courtois hefði tekið þetta skot auðveldlega.

  36. Þurfum svo virkilega á 3 stigum næstu helgi var að vitna aðeins inní umferðina við eigum wba heima á laugardaginn svo á sunnudaginn er man utd – everton , og chelsea – arsenal

    spáiði samt í þessu ef við sigrum wba þá förum við úr 14 uppí 4/5 sæti

  37. Nr. 40

    Hann tók nú fram að hann væri kannski frekar ósanngjarn en þetta voru áhugaverðir punktar hjá Neville og hann tók þrjú dæmi um sama hlutinn. Maður þarf ekki að vera sammála enda bara einn vinkill á þetta en ég hafði gaman af þessu.

    Ógeðslega gott annars að vera svona spekingur í sjónvarpssal eða eins og við í sófanum heima, efa að Mignolet eða þjálfarateymi Liverpool missi mikinn svefn yfir þessu.

    Annars mættu þeir alveg fara yfir nokkrar vörslur frá Mignolet frá því í fyrra sem komu á mjög góðum tíma og skiluðu okkur stigum.

  38. Ja babu skil allveg að hann hefði kannski att að vera betur staðsettur en það er þa hægt að segja þetta við öll mörk sem eru skoruð “hann hefði hatt að standa þarna” eða “ef hann hefði ekki tekið þetta auka hliðarskref” eg persónulega held ad enginn markvörður i heiminum hefði varið þetta skot ekki einu sinni manuel neuer.mer finnst gagnrýni a að mignolet verji ekki nog af skotum fyrir utan teig vera frekar ósanngjörn þar sem mer finnst veikleikar hans vera fyrirgjafir og að loka a menn sem sleppa a 1 à 1. Og hann a virkilega mikið af úrslita vörslum sem vinna leiki eg er sannfærður um að ef hann hefði ekki varið vitið i fyrsta leiknum a sidasta timabili hefði liverpool ekki byrjað svona vel hann nanast vann fyrstu 3 leikina a síðasta tímabili asamt sturridge. Og svo einnig atti hann úrslita vörslu a moti southampton i fyrsta leik a þessu tímabili.
    Eg er mjog hrifinn af honum sem markmanni og ef hann nær að laga uthlaupin sin þa held eg að hann geti orðið stórkostlegur markvörður.

    Sammála þer með að efast um að þeir seu að missa svefn yfir þessu. Stor efast um að þeir seu að reyna vinna i þvi að bæta hann i að verja 40 metrana enda margt meira mikilvægara þar sem það koma nu ekki morg svona skot a leiktíð.

  39. #43

    Mér finnst í fína lagi að velta sér aðeins uppúr þessu og skoða Mignolet betur. Neville (má maður skrifa þetta nafn á síðuna?) segir reyndar ekkert neikvætt um staðsetninguna á honum heldur stöðuna þegar skotið ríður af. Hann beygir sig óvenju mikið niður fyrir skot af þessu færi og hefur því lengri leið að fara með líkama og hendur þegar skotin koma uppi. Að sama skapi má segja að hann er betur settur til þess að verja skot sem koma niðri. Aftur á móti eru ekki margir sem geti haldið föstu skoti niðri af þessu færi(untant. Steve G) og því líklegra að skotin komi uppi og hann sé vitlaust staðsettur.

    Annað sem ég hef tekið eftir með Mignolet er að hann á það til að taka skref í öfuga átt við skotið. Nú hef ég ekki sömu græjur og Carra og félagar en ef þið skoðið myndbandið þeirra frá Jag markinu þá sjáið þið að Mignolet færir hægri fótinn út til hliðar áður en hann hendir sér svo til vinstri. Ég veit að það er ekki samasem merki milli skota utan af velli og vítaspyrnum en ef þið skoðið vítin líka frá því um daginn þá sjáið þið þetta sama. Hann velur sér horn og tekur skref í öfuga átt áður en hann hendir sér. Það þýðir að þótt hann velji rétt horn þá er mjög erfitt fyrir hann að verja vítið nema það sé þeim mun lélegra. Þetta fór mjög í taugarnar á mér í vítunum um daginn af því að hann valdi nokkrum sinnum rétt horn og hefði varið spyrnurnar -að mínu mati- ef hann hefði sleppt þessu auka skrefi.

    Hef mjög gaman að því að sjá svona pælingar hjá þeim félögum og fagna þeim frekar en að vera fúll yfir að leikmaður okkar sé gagnrýndur.

    Yfirferð JC og GN fyrir þá sem ekki hafa séð… http://www.dailymotion.com/video/x26wpj4_jc-and-gn_tech

  40. #44

    Eg er alls ekki full yfir ad leikmaður liverpool se gagnrýndur eg er sjálfur buinn ad gagnrýna hann mikid fyrir hversu litid vald hann hefur a teignum en hann ma eiga þad kallinn að hann et virkilega goður að verja skot. En er hann ekki svona langt nidiri i þessu marki til þess að sja boltann lets face it það er ekki sjálfgefið að sja boltann þegar það eru 18 leikmenn fyrir framann markmanninn.

  41. Finnst Mignolet helst mega bæta stökkkraftinn hjá sér….finnst hann varla lyftast frá jörðinni. Þar fyrir utan er hann að verja eins og titlingur yfirleitt.

  42. Ég var mjög ánægður með spilamennsku Liverpool gegn Everton, hinsvegar skorti gæði til að klára leikinn. Ég ætla að bíða rólegur yfir því hvernig næstu leikir verða þar sem þetta var bara einn leikur sem við spiluðum vel í (fyrir utan Spurs). Vonandi fer Balotelli að nýta þessi færi sem verið er að skapa fyrir hann, þessi leikmaður á alltaf að hafa “instant” áhrif og á ekki að þurfa aðlögunartíma eins og Moreno, Markovic eða Manquillo.

  43. Sturridge kemur öflugur inn og landar sigri fyrir okkur næstu helgi.Þetta er allt að smella!

  44. Ágætt að umræðan um hæfileika Mignolet er að detta upp á yfirborðið. Nokkuð merkilegt að þeir sem taka upp hanskan fyrir Mignolet benda á 2-3 vörslur yfir heilt tímabil. Góður markvörður tekur góða vörslu í hverjum leik og maður gerir einmitt þá kröfu til markvarðar sem er að spila með topp klúbbi. Spurning hvort að óöryggi í varnarlínunni megi ekki að einhverju leyti rekja til vantrausts gagnvart manninum í markinu? Mitt mat á Mignolet er að hann er ekki meira en meðalmarkvörður og markmannsstaðan ein aðalstaðan sem þarf að bæta. Vonandi kemur hann mér þó á óvart og fær mig til þess að éta hattinn minn.

  45. Mignolet er því miður ekki topp topp markmaður eða hefur allavega ekki sýnt það hjá LFC. Hann hefur átt góða leiki og mikilvægar markvörslur enn hann virkar bara ekki öruggur í sýnum aðgerðum. #50 er með góðan punkt um að varnarmenn LFC treysti honum ekki. Allir bestu markmenn LFC yfir tíðina hafa gert mistök enn þeir hafa alltaf haft traust þrátt fyrir það.

    Carra talaði um þetta og gagnrýndi Mignolet. Sagði t.d. að ef hann hefði varið skot Negredo þá hefði LFC unnið titilinn. Þá hefði við verið með 85 og City 84 enn á móti þá varði Mignolet víti á móti Stoke sem þýddi 3 stig í staðin fyrir 1 og þá væri staðan við 83 og City 84. Enn þá hefðum við kannski unnið Crystal Palace enn ekki verið að reyna við markatölu svo við erum aftur með 85 og City 84.

    Það þýðir víst lítið að vera pæla í EF þetta og EF hitt. Það eru svo mörg smáatriði sem vinna titla.

  46. Er hægt að gagnrýna markmanninn þegar hann er aldrei með sömu vörnina fyrir framan sig?

    Það þarf að ná stöðugleika í vörnina, finna okkar sterkasta varnar kombó og þá er ég viss um að vörslurnar kikka inn.

  47. Algjör snilld að sjá Neville kenna Mignolet um markið hans Jagielka, held að Mignolet sé síðasti maðurinn sem kenna ætti um.

Liverpool 1-1 Everton

Basel á morgun