Útlegð

AnfieldCL

Liverpool FC lék síðast leik í Meistaradeild Evrópu þann 9. desember 2009. Það eru næstum því fimm ár síðan. Það kvöld tapaði liðið á heimavelli fyrir Fiorentina og datt þar með út úr Meistaradeildinni, í 3. sæti riðilsins, og inn í Evrópudeildina þar sem liðið fór í undanúrslit á sama tímabili. En þetta kvöld í desember 2009 skrifaði ég leikskýrslu og lauk henni á þessum vongóðu orðum:

“Ég ætla mér allavega að taka mér svona mánaðarfrí frá Evrópupælingum og svo ætla ég að sökkva mér í Evrópudeildina og gleyma því alveg að Meistaradeildin sé til … fram á næsta haust. 😉 “

Þetta véfengdi líka enginn sem las færsluna. Við ætluðum okkur langt í Evrópudeildinni áður en við mættum aftur til leiks í Meistaradeildinni haustið 2010.

Svo fór nú aldeilis ekki. Haustið 2010 var Rafa Benítez farinn, þessi gæi hér tekinn við, félagið stóð í eigendaskiptum og lagabaráttu um, hreinlega, framtíð sína, og Meistaradeildin var ekki bara fjarlæg heldur horfin.

Næstu fjögur tímabilin lék Liverpool tvisvar utan Evrópukeppna alfarið og tvisvar í Evrópudeildinni, en fóru stutt í bæði skiptin. Á endanum tókst Brendan Rodgers að rífa deildarformið í gang á síðasta ári og eftir að hafa náð 2. sæti og verið hársbreidd frá titli í vor er liðið ekki aðeins komið aftur í Meistaradeildina heldur er það komið með hvelli, svo eftir var tekið.

Og mikið er ég feginn.

Þessi fimm ár hafa ekki verið auðveld. Meistaradeildin er skemmtilegasta knattspyrnukeppni hvers tímabils og það hefur verið drepleiðinlegt að horfa á hana án þess að geta tekið þátt í dramatíkinni með sínu liði. Auk þess hafa erkifjendur okkar í Englandi skemmt sér konunglega yfir þessari Útlegð síðustu árin. Það var því kannski ákveðið karma fólgið í því að grimmustu erkifjendurnir skuli hafa verið þeir sem gáfu eftir sitt sæti svo við kæmumst loks inn í ár. Sá hlær best sem síðast hlær og allt það.

Það eru tveir dagar í að Liverpool spili Meistaradeildarleik á ný, gegn Ludogorets Razgrad. Babú er að sjálfsögðu að smíða eina af sínum klassísku Evrópu-upphitunum (enn ein ástæða þess að það er gott að vera komin aftur í Meistaradeildina) og birtir hana á morgun, en ég vildi bara nota tækifærið og fagna því að okkar menn séu komnir aftur á meðal þeirra bestu, þar sem þeir eiga að vera.

Hér er að lokum stutt upprifjun um hvernig Liverpool hefur gengið í Meistaradeildinni frá því að hún var stofnuð árið 1992 (og tók við af Evrópukeppni meistaraliða, sem okkar menn höfðu unnið fjórum sinnum). Það tók Liverpool reyndar níu ár að komast í Meistaradeildina frá stofnun hennar, en vorið 2001 vann liðið frábæra þrennu og tryggði sér um leið þátttökurétt í Meistaradeildinni með 3. sæti í Úrvalsdeildinni. Næstu árin fór liðið mikinn í Evrópu:

  • 2001-02: Inn í 3. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit CL.
  • 2002-03: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.
  • 2003-04: 5. sæti EPL, spilað í Evrópudeild.
  • 2004-05: Rafa mættur. Inn í 4. sæti EPL, sigurvegarar CL.
  • 2005-06: Inn sem meistarar, komst í 16-liða úrslit CL.
  • 2006-07: Inn í 3. sæti EPL, komst í úrslit CL.
  • 2007-08: Inn í 3. sæti EPL, komst í undanúrslit CL.
  • 2008-09: Inn í 4. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit Cl.
  • 2009-10: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.

Þegar Liverpool datt óvænt út úr riðli sínum í desember 2009 var liðið skráð efst allra liða í Evrópu, byggt á frammistöðu liða í Meistaradeild í fimm ár á undan því tímabili. Liðið hafði unnið einu sinni, farið tvisvar í úrslit, einu sinni í undanúrslit og einu sinni í 8-liða úrslit á þeim tíma. Þetta gengi var betra en öll önnur lið í Evrópu á sama tíma, sem verður að teljast magnaður árangur miðað við það sem á undan fór og ekki síður það sem kom á eftir.

Í dag er Liverpool í 45. sæti á þessum lista, enda bara með einn CL-riðil, undanúrslit EL, 16-liða úrslit EL og tvisvar utan Evrópukeppni sl. fimm ár.

Ég ætla að spá því að liðið verði talsvert ofar en í 45. sæti á þessum lista eftir ár. Ég held að liðið fari upp úr þessum riðli og útiloka ekki að það fari lengra. Og vonandi, vonandi, vonandi verður þetta ekki eina árið okkar í Meistaradeild Evrópu að sinni. Ég get ekki aðra Útlegð.

Í dag skulum við samt fagna því að þessar stundir eru komnar aftur á Anfield:

Stevie, Brendan, strákar: MAKE US DREAM!

20 Comments

  1. Búinn að kaupa miða á útileikinn gegn þessu Ludo liði. Við fáum reyndar ekki að fara í RASSGAT en Sofia frænka er næsti bær við. Mikið djöfull hlakka ég til að sjá liðið aftur í Meistaradeildinni…

  2. Ég og Labradorinn minn erum alltaf jafn bjartsýnir á árangur en hvor með sínum hætti. Labbinn gerir sér ávallt sér vonir um aukabita og ég geri mér ávall vonir um glæstan árangur LFC.

    Eftir leikinn í gær er maður samt töluvert hugsi. Ef Paul Lambert, af öllum mönnum, getur mætt á Anfield og leikið illa á Brendan taktískt á hverju er þá von þegar að okkar maður á í höggi við suma af reyndustu stjórum okkar tíma? Vonandi var leikurinn í gær einstakt tilfelli en í sannleika sagt var hrikalegt að sjá hvað leikurinn var illa upp settur taktískt.

    En ekkert raus! Að sjálfsögðu verður veturinn í CL æðislegur. Voff, voff!

  3. Afsakið þráðránið en djöfull hefði verið fínt að hafa hann núna! [img]http://www.fotmob.com/match.jsp?ct=France&id=1709740[/img]

  4. Æi klikkaði eitthvað. Allavega Divock Origi að brillera í þessum töluðu ????

  5. Stórkostlegar minningar í Meistaradeildinni árin 2004-2009 og vonandi skrifa Brendan og co hnausþykkan og spennandi kapítula í Evrópusögu liðsins, kafla sem endar vel. Mínar væntingar eru að komast upp úr riðlinum en umfram allt að fá góða reynslu af leikjunum í vetur og tryggja það að vera með í pottinum að ári.

  6. Flottur pistill og ekki síður ánægjulegt að (flott) leikskýrsla síðasta leiks blasi ekki við manni þegar síðan er opnuð, enda leikur sem vonandi verður einstakt tilfelli.

    Mikið hlakka ég til að horfa á okkar menn labba út á þéttsetin Anfield undir hljóma CL lagsins. Eins og fram kemur hér að ofan vona ég að liðið komist upp úr riðlinum, en fyrst og fremst verður þetta lærdómsríkt ferli fyrir leikmenn liðsins og þjálfarateymið. Ég vona að deildin verði í forgangi í vetur og allt kapp lagt í að útlegð Liverpool úr meistaradeildinni sé lokin og liðið endi í topp 4 í vor.

    Ég hef bara fylgst með þessari frábæru síðu undanfarið ár og hlakka því mjög mikið til fyrstu evrópuupphituninar í boði Babú á morgun 🙂

  7. Verðum að njóta meðan er. Ansi hræddur um að Utd endurheimti Evrópusætið sitt á þessu tímabili enda hópurinn þeirra óhugnarlega sterkur eftir sumarkaupin. Erum aldrei að fara að keppa við City og Chelsea enda munu þau ein berjast um titilinn. Þá virðist Wenger hafa áskrift af þessu sæti einhverra hluta vegna þrátt fyrir að missa lykilmenn nánast á hverju ári.

    Að missa Suarez er einfaldlega of mikið. Hvaða einasta lið í heiminum myndi finna fyrir því að missa slíkan gæðaleikmann. Misstum Benz gæðakerru sem bilar aldrei en fengum bíl í staðinn sem virkar einn daginn en fer ekki í gang þann næsta. (Balotelli).

  8. Þá eru nýju mennirnir farnir að láta til sín taka hjá manu, og svo er eitt stk world class striker á bekknum klár!!
    Nú er bara að vona að okkar kaup fari að skila einhverju því annars gæti þetta orðið tímabil svekkelsis og brostinna drauma!

  9. QPR er lélegasta liðið í deildinni og ég skal borða hund ef þeir falla ekki.

  10. Og nú velti ég því fyrir mér hvers vegna ég á mér ekki meira líf en að hanga heima þennan sunnudag til þess eins að “slysast” til að horfa á Man utd leikinn og fyllast ótta og kvíða um komandi tímabil!

    En hei…verður maður ekki að setja þetta í samhengi áður en ég gefst upp á tímabilið og segi upp áskriftinni af sport pakkanum. Utd er með gríðarlega sterkt lið og eru að spila á móti afra slöku liði QPR. Átti aldrei von á öðru en að þeir kæmu sterkir tilbaka eftir síðasta tímabil, sérstaklega eftir sumargluggann félagsins.

    Þetta er besta deild í heimi og geri ráð fyrir baráttu allt til síðasta umferðar.

    Næsti leikur okkar manna getur ekki komið nógu snemma og þvílík dásemd að sá leikur sé í meistaradeildinni!

  11. nennir einhver að koma með nokkra bjartsýnis punkta fyrir komandi timabil og afherju við ættum að na top 4 svona rétt áður en maður treður ss pulsu þar sem sólin skín ekki

  12. Þó svo að Liverpool hafi tapað heima gegn Villa og United er að vinna QPR auðveldlega þessa helgina er ég enn voða rólegur. United hefur spilað annan hvern leik síðasta árið jafn illa og Liverpool í gær.

  13. Þetta er pistill um CL, getum við haldið Utd utan við umræðuna – þeir eru ekki í þeirri keppni.

  14. Æi Eyþór mér finnst allt í lagið að hafa Man utd í umræðuni en það er skilda að tala um að þeir séu ekki í meistaradeildinni 😉

    Það verður geðveikt stemmning á þriðjudaginn á Anfield og spái ég veislu hjá okkar mönnum sem þakka stuðninginn með öruggum 3-0 sigri þar sem Balotelli opnar markareikninginn fyrir framan Kop.

  15. Þetta var klárt vanmat gegn Villa á laugardaginn að hvíla Sterling. Held að Rodgers hafi ætlað að sýna og sanna breiddina hjá liðinu. Samt lélegt að skora ekki gegn liði sem er með álíka lélega vörn og Þórsarar í Pepsi deildinni, hvort sem Sturridge eða Sterling voru með eða ekki.

    Vona að Rodgers nái að hvíla menn eins og Henderson og Sterling gegn Ludogorets. Þetta á að vera leikur fyrir aukaleikarana að sanna sig og sýna enda arfaslakt lið sem við erum að fara að keppa við og á ekki heima í deild þeirra beztu. Okkar langbestu menn í dag eru Sterling, Henderson og Sterling. Aðrir eiga langt í land.

  16. Þetta var klárt vanmat gegn Villa á laugardaginn að hvíla Sterling. Held að Rodgers hafi ætlað að sýna og sanna breiddina á liðinu. Samt lélegt að skora ekki gegn liði sem er með álíka lélega vörn og Þórsarar í Pepsi deildinni, hvort sem Sturridge eða Sterling voru með eða ekki.

    Vona að Rodgers nái að hvíla menn eins og Henderson og Sterling gegn Ludogorets. Okkar langbestu menn í dag eru Sterling, Henderson og Sturridge. Aðrir eru þeim einfaldlega skrefi aftar. Veit eiginlega ekki hvernig miðjan okkar verður ef Henderson tekur t.d. upp á því að meiðast en það er önnur saga.

    Best væri að vinna þennan leik naumleg enda er liðið þekkt fyrir að drulla upp á bak í næsta leik á eftir stórsigri. Það sást núna um helgina og nokkrum sinnum í fyrra. YNWA

  17. Vinnum þennan leik vonandi ekkert mikið meira en 1-0. Það er hætt við því að menn vanmeti West Ham ef þeir slátra Ludogorets. Liðið virðist einfaldlega alltaf brotlenda eftir stórsigra. Sáum það gerast í fyrra og svo aftur núna eftir góðan sigur á Spurs, kom brotlendingin gegn Villa í næsta leik.

  18. Gaman að segja frá því að Razgrad á slóvensku þýðir Niðurbrot. Ekki það að þetta skipti nokkru máli þar sem Búlgarar tala Búlgörsku en ekki Slóvensku.

    Þetta var gjörsamlega tilgangslausasta komment dagsins, takk fyrir mig.

    ps. Úrvals upphitun!

Liverpool – Aston Villa 0-1

PFC Ludogorets frá Razgrad