WBA 1 – Liverpool 1

Eftir frábæran leik gegn Everton þá voru það vonbrigði að ná bara jafntefli á útivelli gegn WBA í dag.

Brendan stillti upp óbreyttu liði frá Everton leiknum og Joe Allen kom inná bekkinn eftir meiðsli.

Mignolet
Flanagan – Skrtel – Touré – Cissokho
Henderson – Gerrard – Coutinho
Sterling – Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Kelly, Ibe, Allen, Alberto, Aspas, Moses.

Daniel Sturridge skoraði mark okkar í leiknum eftir flotta sókn þar sem Suarez gaf frábæra sendingu á hann. Ég hélt að þetta yrði auðvelt eftir það enda fór Liverpool aldrei uppúr öðrum gír. En í seinni hálfleik voru okkar menn afleitir og WBA sóttu meira og meira og Mignolet varði á tíðum glæsilega.

Ég var í hausnum á mér farinn að skrifa leikskýrslu þar sem ég myndi hrósa okkar mönnum fyrir að ná loksins að hanga á næmri forystu (einsog ég ræddi um í síðustu leikskýrslu að við gerðum aldrei). En þá allt í einu uppúr engu þá gaf Kolo Toure WBA mark með því að gefa glórulausa sendingu beint á Anichebe sem skoraði jöfnunarmarkið. Eftir það höfðum við hálftíma til að skora, en vorum aldrei sérstaklega nálægt því.

Enn og aftur sannast það því að ef sóknin okkar á ekki stjörnuleik og skorar 3-4 mörk þá nær þessi blessaða vörn aldrei að drullast í gegnum einn leik án þess að gera einhverja skandala. Einsog Opta Joe benti á:

Þetta er svo pirrandi að það nær engri átt. Alltaf tekst varnarmönnum okkar að fokka hlutunum upp og enn einu sinni missum við forystuna á aulalegan hátt.

Maður leiksins: Ég ætla að kjósa Sterling enn einu sinni því hann var okkar hættulegasti maður í þessum leik þar sem að Suarez og (sérstaklgea) Sturridge voru heillum horfnir.

Ef að ég á að segja eitthvað jákvætt þá er það sennilega að þeta WBA lið hefur spilað vel gegn stærri liðunum í vetur, náð að gera jafntefli gegn Chelsea, Everton og vinna Man U svo að það er enginn heimsendir að gera jafntefli á þessum velli sem hefur reynst okkur gríðralega erfiður.

En það er í raun það eina jákvæða sem ég get skrifað því þetta var aulaskapur frá A-Ö. Bæði léku okkar menn illa og svo gáfu þeir WBA jöfnunarmarkið með aulaskap. Það er gríðarlega svekkjandi. Núna er bara að vona að menn mæti Arsenal um næstu helgi með sama krafti og Everton því að svona frammistaða skilar okkur ekki árangri.

97 Comments

  1. Er Kolo slakasti varnarmaður sem hefur spilað í Liverpool treyju? Allavega í einhvern tíma

  2. Kolo Toure var hrikalegur í dag, burt séð frá markinu sem hann gaf.

    Liverpool liðið skapaði ekkert, settu sennilega met í sendingum á andstæðinga.

    1 stig er tap þegar maður spilar gegn liði í fallbaráttu.

    Cissokho var ekki lélegastur a vellinum.

  3. Jafntefli eru sanngjörn úrslit í þessum leik en við hefðum unnið ef ekki hefði verið fyrir mistök Kolo Toure. Áhyggjuefni hversu illa liðinu gengur að halda hreinu á útivöllum.

  4. Jæja Toure út úr stöðu hálfan leikinn og svo á síðan 100% sök á marki WBA, jæja það væri gott að fá Sakho og Agger til baka núna.

  5. Farðu burt Kolo Toure og komdu aldrei aftur. Svona mistök eiga ekki að sjást hjá liði sem ætlar sér að berjast um meistaradeildarsæti.

    Annars arfaslakur leikur hjá okkar mönnum. Hins vegar hefði þessi frammistaða alltaf átt að duga til sigurs – enda þetta WBA-lið algjörlega hörmulegt.

    Þetta stefndi í góðan vinnusigur þangað til Kolo Toure ákvað að skíta á sig – og það einni stærstu og mestu rennisktitu sem sést hefur. Ömurlegt Kolo Toure – algjör helvítis hörmung!

  6. Djöfull var þetta svekkjandi að gefa þetta frá okkur. En Suarez var líka frekar lélegur í dag og var ekki líklegur til þess að klára þetta fyrir okkur.

    Enn eitt stig á útivelli er meira en United fengu í gær þannig að eitt stig í plús eftir þessa umferð.

  7. Gamla góða Liverpool mætt aftur. Ná engan vegin að gíra sig upp í leik eftir að hafa verið brjálaðir á móti erkifjendunum. Alveg merkilegur fjandi.
    Toure bara hlýtur að hafa fengið eitthvað borgað fyrir þessa sendingu. Þetta gerist ekki einu sinni í sjötta flokki.

    AAARRRRGGGHHHHHH!!!!!!!

  8. Tek til baka það sem ég sagði fyrir leik, þetta er alveg fullkomlega típískt Liverpool rétt eins og áður. Vá.

  9. Gjöf en engin ástæða til þess að fara og svekkja sig à þessu. Tvö töpuð stig en liðið var bara í öðrum gír. Það átti að duga herfileg mistök Toure voru liðinu dýrkeypt. Svekkjandi en svona er nú boltinn. Slátru!m Arsenal eftir viku.

  10. Ég get svarið fyrir það að Touré var svo slakur í dag, meira að segja áður en hann gaf þetta mark, að ég hef sjaldan séð annað eins. Tapaði boltanum trekk í trekk þegar hann var að reyna að koma honum upp völlinn. Þessi gjöf frá honum til WBA var svo til að kóróna HERFILEGA frammistöðu hans í dag.

    Segi ekki meira………..

  11. Sælir félagar

    Það er orðið ansi hart í ári þegar Sisso lítur út eins og snillingur miðað við varnartröllið Kolo Touré. Enda blöskraði honum eigin frammistaða sem var með þeim hætti að hann tapaði boltanum oftar en tölu verði á komið. Því sá hann þann kost vænstan að leggja boltann upp í dauðafæri fyrir framherja andstæðinganna. Liverpool 1 – 1 Touré.

    Það er ekki þrautalaust að þurfa að vera með menn í þessu liði eins og Touré og Sisso. Ekkert er eins aðkallandi eins og það að Sakho fari að komast á fæturna. Hitt er líka annað að BR verður að hafa svör við hápressu andstæðinganna. Hann hefur ekki haft þau hingað til nema í Everton leiknum ef til vill. Br lærði af AV leiknum og átti auðvitað líka að læra af síðasta leik.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  12. Þetta var bara hörmung í dag. Miðjan átti varla einn einasta bolta þar af leiðandi fengu framherjar úr litlu að spila,, en gengur bara betur næst þó þetta gæti hafa orðið ansi dýr stig.,

  13. Gjöf en engin ástæða til þess að fara og svekkja sig à þessu.

    Afsakið en jú, það er töluverð ástæða til að svekkja sig bara nokkuð hressilega á þessu í dag.

  14. Lélegur leikur hjá Liverpool heilt yfir. Sköpuðum ekki færi í seinni hálfleik fyrir utan eitt hjá Suarez. Áttum ekkert betra skilið úr þessum leik. Pirrandi að menn nái ekki að gíra sig upp í alla leiki í þessari deild, eins og menn fatti ekki að þeir hafa allir sama vægi. Ótrúlega heimskulegt.

    Kolo Toure er svo náttúrulega bara brandari. Þessi mistök hjá honum komu mér ekkert á óvart, alveg við þessu að búast. Hann er bara úti í túni í öllum leikjum. Frábært að fá þennan gimstein til okkar, enn ein rósin í hnappagatið hjá Brendan Rodgers og FSG þegar kemur að leikmannamálum.

  15. Babu, alveg eins og ég/þú óttaðist, þegar liðin í kringum okkur tapa stigum, þá töpum við stigum. Jafntefli var það sem ég óttaðist, og það varð að veruleika, alls ekki góð frammistaða hjá liðinu, nú þarf að bæta fyrir þetta á móti arse.

  16. Svona aðeins til að verja “gamla” manninn þá átti Mignolet aldrei að kasta boltanum til hans. Það eru þrír á þrjá og þetta var í raun glórulaust hjá honum. Toure hins vegar fer síðan ekki eftir bendingu Gerrard að senda boltann til baka. Annars sanngjörn úrslit þar sem eitthvert slen var í mínum mönnum. Engin heimsendir en slæmt að tapa þessum stigum (eins og öllum stigum)

  17. Það var nátturulega ljóst frá byrjun að Kolo Toure var ekki tilbúinn í verkefnið. Hann gaf lélegar sendingar og valdaði menn illa. Hefðum átt að taka hann út af í hálfleik.
    Maður hefði kanski búist við svona mistökum hjá leikmanni sem er 10 árum yngri en Toure, hrikalega vandræðalegt.

    Liðið var andlaust framávið í dag, en hefðum getað sloppið með 0-1 sigur þrátt fyrir spilamennsku sem var ekki nema um 60-70%. Þetta hefur sést hjá betri liðum deildarinnar undanfarin ár að þau klára leiki þrátt fyrir að vera ekki upp á sitt besta.

    Hefði ekki verið ónýtt að henda inn á öðrum sóknarmanni þegar Coutinho og Sterling voru orðnir þreyttir. En vanhæfni stjórnenda klúbbsins á félagaskiptamarkaðnum kom í veg fyrir það.

  18. Það er ekkert hægt að vera bjartsýnn og jákvæður eftir svona varnarleik. Kolo…… þú ert kominn í páskafrí!!!

  19. Þetta er alltaf svona. Ef það eru hagstæð úrslit úr öðrum leikjum þá ákveður Liverpool að skíta. Óþolandi helvítis helvíti.

  20. Ekkert að frammistöðunni þannig séð. Kannski engin glans spilamennska en liðið yfir 0-1 og með leikinn. Sigurinn hefði verið okkar ef allt væri eðlilegt. Toure gefur þeim stigið sem er afar dýrt, því það var þannig séð engin ástæða til þess að WBA myndi fá nokkurn skapaðan hlut út úr þessu eins og leikurinn var að spilast.

  21. Mér fannst liverpool vera að spila þetta mjög skynsamlega í dag.
    Þeir ná forustu og svo eru engar áhættur. Jú það voru föst leikatriði en þeir voru aldrei nálagt því að opna vörnina hjá okkur.
    Toure einfaldlega gaf þeim þetta stig og tók tvö af okkur.

    Já þetta var ekki eins opinn leikur og á móti Everton en málið er að WBA voru ekkert að sækja á mörgun mönnum og varnarlínan þeira var mjög aftarlega(algjör ansdstæðan við Everton). Svo að liverpool ákváðu bara að vera solid og átti þetta Sturridge mark að duga.

    Mignolet 7 frábær markvarsla í stöðuni 0-1 en á í erfileikum með að sparka í boltan
    Cissokho 6 hans besti leikur í liverpool búning.
    Toure 1 skúrkur dagsins
    Skrtel 7 – var solid í dag
    Flanagan 6 – fín varnarlega en fór varla yfir miðjuna
    Gerrard 8 – okkar besti leikmaður í dag. Var út um allt að vinna bolta og láta hann ganga.
    Henderson 6 – á fullu en kom lítið úr honum framarlega
    Coutinho 5 – á í erfileikjum þessa dagana
    Sterling 7 – flottur leikur hjá stráknum og þurftu þeir að brjóta á honum trekk í trekk til að stopa hann.
    Sturridge 6 – flott að skora en var ekki að skapa mikið
    Suarez 6 – ekki hans besti leikur. Var nálagt því að klára leikinn með góðum tilþrifum.

    Allen 7 – virkilega góður eftir að hann kom inná
    Kelly 5 – virkaði stressaður.

    Jæja græddum stig af Man utd, gerðum sama og Tottenham en töpuðum tveimur til Everton.

    Næst er það bara Arseanl og vona ég að Sakho verður tilbúinn í þann leik .

  22. Ég verð að viðurkenna að ég óttaðist þetta fyrir leikinn. Það vantar alla stabíleseringu í þetta lið. Miðjan átti dapran leik og ég nenni ekki að ræða Toure. Verði Sakho ekki orðinn góður fyrir leikinn á móti Arsenal þá verður hann að setja Kelly í miðvörðinn með Skrtel.

    Suarez og Sturridge sáust ekki í seinni hálfleik enda fengu þeir litla þjónustu frá miðjunni. Coutinho var slakur og náði því miður ekki að fylgja eftir frábærri frammistöðu á móti Everton. Allen kom allt of seint inn á, þ.e. BR var alltof seinn að bregðast við lélegri frammistöðu liðsins í seinni hálfleik.

    Eigum rosalega erfiðan leik um næstu helgi, Arsenal. Það þaf margt að breytast til að við eigum einhvern möguleika á að vinna þann leik.

    Ég ætla svo sannarlega að vona að við náum þessu 4. sæti, en það er langur vegur í að það sé í höfn. Hef miklar áhyggjur af lítilli breidd í liðinu og er enn ógeðslega fúll út í eigendurna að hafa ekki verslað leikmenn í janúar-glugganum. Við vitum allir hvað verður um Suarez ef 4. sætið næst ekki.

  23. haha svipurinn á Kolo samt.. Gat ekki verið reiður við hann þegar ég sá svipinn

  24. Ótrúlega ódýrt að segja að ef við hefðum keypt þá…….. man utd keyptu, ekki hjálpaði það þeim í gær. Arsenal fengu Kim Mikael Källström, hann hjálpar lítið til eins og er. Ég er kannski bara að verða svona gamall að ég þoli ekki lengur þessa sleggjudóma. Við erum með svo ömurlegan mannskap þegar við töpum stigum en sömu menn eru frábærir þegar við vinnum….skil ekki alveg þessa speki. Er alveg sammála að KT var meira og minna út úr stöðu í dag og hugsanlega hefði mátt skipta honum út af, veit samt ekki hvort ég hefði endilega treyst Kelly í miðvörðinn. Athyglisvert sem bresku þulirnir sögðu. Liverpool á flestar misheppnaðar sendingar á eigin vallarhelming sem verða til þess að andstæðingurinn nær skoti á mark. Mætti aðeins fara yfir þann þátt í leik okkar.

  25. Heismkulegt að kenna Mignolet um þetta þegar það var engin pressa á Kolo og gaf hann þvert yfir boxið

  26. Sammála#28 – Þessi leikur var eign Liverpool. WBA eiga einn skalla eftir hornspyrnu en ekkert annað í öllum leiknum. Liverpool stjórnaði honum í rólegheitum allan tímann og ef ekki fyrir lélegustu varnarmistök á leiktíðinni þá vinnst þessi leikur 1-0.

    Skil ekki hvað menn eru að drulla yfir liðið eða leikmenn.

  27. hahahhahah verður matröð í næstu viku ef að Kolo Toure byrjar. Hann og vinir hans í vörninni þurfa bara að stoppa Giroud, Cazorla, Özil, Podolski og e.t.v. Walcott!!

  28. Þetta sýnir það hversu slæmt það var að fá enga nýja leikmenn í janúar. Ekki beint bekkur sem getur breytt leikjum. Helv. fúll 🙁

  29. Róa sig niður. Liverpoolliðið er einfaldlega ennþá jójólið. 11 stig úr síðustu 5 leikjum, þar sem fékkst 1 stig í fyrra er bara ekki sem verst.

    En leikurinn var ekki góður. Suarez var fastur í fyrsta gír og kannski helst Cissokho sem kom sterkur inn. Rodgers var ekki með svör í dag enda lítið við að vera á bekknum. Ég hefði viljað sjá hann gera Allen-breytingu eftir að þeir fengu tvö góð færi til að jafna til að ná betri kontról á miðjunni, sem náðist aldrei í dag. Ég kalla líka ennþá eftir Babú-miðjunni – þeas. demantamiðju með Coutinho fyrir aftan SAS, sérstaklega þegar við eigum erfitt með að byggja upp spil og halda bolta.

    Menn verða að muna að Kolo Toure er fjórði haffsent hjá okkur og það er ekkert hægt að gera brjálaðar kröfur til hans. Þótt vissulega séu svona glórulausar sendingar eitthvað sem á ekki að gerast hjá klúbbi í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

    Ég vil miklu frekar kenna Suarez, Coutinho, Gerrard og Henderson um þessi töpuðu stig því þeir eiga og verða að sýna miklu meira sóknarlega. Það var nánast vitað fyrir leik að við þyrftum meira en eitt mark til að vinna leikinn í dag. Sturridge og Sterling voru þokkalegir fram á við.

    En, 11 stig úr síðustu 5, menn voru að gera kröfu um 15 en ég held að þessi 11 séu nokkuð góður árangur og halda okkur on track í 4. sætinu. Ég talaði reyndar um það í byrjun janúar að 10 stig úr þessum 5 leikjum væri fínt.

  30. Rólegir. Öll lið tapa stigum. Svo erum við víst “bara” 7 stigum á undan Scum United. 8 ef við tökum það með í reikninginn að markatalan okkar er mun betri!

  31. Við vorum ekki að skapa okkur neitt að viti gegn WBA og hverja hafði Rodgers til að setja inn á? Jú, Jones, Kelly, Allen, Alberto, Aspas, Ibe og Moses. Hvaða leikmaður af þeim getur komið og breytt hlutunum? Það er engin furða á að Rodgers nýtti ekki allar skiptingarnar í dag.

    Jafntefli voru annars sanngjörn úrslit en langt frá því að vera ásættanleg.

  32. Fúlt að ná ekki 3 stigum. En Pollýanna segir mér að þetta sé stigi meira en við náðum í sama leik í fyrra.

  33. Held ég bíði með að reyna gera þennan leik eitthvað upp til morguns. tökum upp podcast þá og förum líka fyrir leikmannagluggann. Þátturinn verður að öllum líkindum bannaður yngri en 23 ára.

    Stig per se úti gegn WBA þarf ekki að vera hræðilegt en þessi frammistaða og ævintýraleg varnarmistök enn eina ferðina gera þetta sannarlega að tveimur töpuðum stigum, fullkomlega glötuðu tækifæri að stækka bilið á liðin fyrir neðan okkur og það sem er mest pirrandi er hversu rosalega típískt þetta er fyrir Liverpool.

    Staðan á liðinu er betri en hún hefur verið undanfarin ár það er alveg rétt, en á móti gæti hún svo auðveldlega verið betri og töpuð stig eins og í dag eru að fara afar illa með okkur og geta auðveldlega kostað okkur gríðarlega í maí.

  34. gaman af því að einn leiðinlegasti lýsandi sem nokkurn tímann hefur lýst fótbolta á stöð2 sport kom með nokkuð hræðilega tölfræði um liverpool….. að þeir hafa gert langflestu varnarmistök af öllum liðum í ensku deildinni eða 30 stk. sem hafa skilað marki…..
    eru það ekki öll rauð ljós blikkandi eða hvað…….

    kolo toure er klárlega kominn af léttasta skeiðinu og er orðinn hálfgerður kettlingur í dag miðað við hvað hann var…… en samt sem áður þá átti hann ekki einn lélegan leik í dag…. það var akurat ekkert öryggi og engin gredda í liðinu í dag…. eins og svo oft áður þá sá maður strax í byrjn að liðið var ekki að fara leggja sig 100% í þennan leik… allar sóknir tóku hálfan mánuð í undirbúning og enginn hreyfanleiki á liðinu, bilið fá miðju og sókn var alltof mikið og skilaði það sér í hrottalega hygmyndasnauðum og ógeðslega leiðinlegum leik þar sem sjálfstraustið var akkurat ekki neitt….. og úrslitin eftir því…

  35. Tók samt enginn eftir því hvað Mignolet er lélegur í að koma boltanum í umferð? Útspörkin hans voru mörg alveg skelfilega léleg og útköstin sömuleiðis.

  36. Hefðum getað sýnt það að víð séum með sterkari kjarna en United og Tottenham eftir leiki gærdagsins með sigri á útivelli í dag.

    Sammála skýrslu Einars, það verður bara ekkert litið framhjá því að þessi einstaklingsmistök Kolo karlsins tapaði þessum tveimur stigum, mér fannst WBA klárlega vera að draga úr orkunni sinni þegar þessi hryllilega ákvörðun var tekin.

    Það er vísir sterkra liða að spila illa og vinna samt. Við gerðum það ekki í dag og verðum að lifa við það að slíkt gerist ennþá og kannski ekki líklegt að við náum að brasa það almennilega upp og til fram á vorið. En eigum enn góðan séns á 4.sætinu og þar gæti eitt stig alveg hjálpað.

    Allt held ég sagt hér að ofan, Cissokho var að eiga einn af sínum betri leikjum, við vorum að mínu mati að spila fínt síðasta hálftímann í fyrri hálfleik og vorum að ná ákveðinni lendingu finnst mér þegar þetta hryllilega atvik kom upp og stigin tvö duttu útbyrðis.

    Varnarlínan og leikurinn var eftir það mjög shaky að miklu leyti, Kolo er náttúrulega klárlega hafsent númer fjögur hjá okkur og hefur algerlega staðfest það. Ég hins vegar skil ekki að nokkur maður biðji um það að Martin Kelly taki stöðu hans.

    Innkoma Kelly var algerlega hryllileg, hann er að mínu mati algerlega dottinn úr allri leikæfingu, lætur toga sig endalaust út úr stöðu og ákvarðanirnar eru fálmkenndar. Vona bara innilega að Flanagan verði klár í slaginn gegn Arsenal um næstu helgi til að spila allan leikinn.

    Og það verður auðvitað erfitt ef enginn hefur bæst í hópinn hjá okkur, því við erum að keyra á varabakvörðunum okkar og á fjórða hafsenti þessa dagana.

    Þar liggur vandinn finnst mér og við verðum bara að naga naglaböndin áfram held ég…

  37. haha mér finnst alveg magnað að sjá þetta, burt með Kolo, lélegasti maður sem sést hefur í liverpool treyju og svo framvegis…. jújú hann var ekki með þetta í dag en ég vil frekar minnast á andlausasta manninn á vellinum, SUAREZ var ekki með í þessum leik og varla nokkur maður minnist á það.

    Sterling og Cissohko voru flottir í þessum leik, Migno varði eins og meistari skallann eftir hornið, Sturro kláraði færið sitt en meira er ekki hægt að segja um frammistöðu leikmanna sem virkuðu einstaklega latir og þreyttir í þessum leik.

    Ég ætla segja eitt stig unnið á erfiðum útivelli (höfum skitið upp á bak þarna síðustu árin) þar sem við áttum alls ekki 3 stig skilið eftir skituna í seinni hálfleik og ef leikurinn hefði verið lengri hefði WBA líklegast unnið.

    Rodgers hefði mátt setja Allen fyrr inn á og jafnvel breyta um taktík, en mikið rosalega var leiðinlegt að horfa á okkar menn svona rosalega andlausa og lata.

    Næsti leikur er crucial á móti skyttunum og verðum við að taka þrjú stig þar.

  38. Menn ættu að reyna bara að hafa smá stjórn á tilfinningum sínum. Þegar Liverpool vinnur er það besta liðið í öllum heiminum en þegar það gerir jafntefli eða tapar þá er liðið algjört djöfuls drasl!

    Ein mistök varnarlega kostuðu okkur stig, en það má líka segja að Suarez hefði átti að klára leikinn stuttu áður. En ekkert benti til þess að West Brom ætluðu að ná stig í leiknum, þó svo Liverpool spilaði í öðrum gír.

    Ég ætla ekki að svekkja mig á þessu jafntefli, bæði nenni ég því ekki og sé ekki ástæðu til þess. Eins og Ívar Örn #37 bendir hér að ofan mátti gera ráð fyrir 10-12 stigum úr þessum fimm leikjum, fengum 11. Tökum Arsenal á laugardaginn, liðið verður dýrvitlaust eftir þennan leik.

  39. Nr. 33 segir “Heismkulegt að kenna Mignolet um þetta þegar það var engin pressa á Kolo og gaf hann þvert yfir boxið”
    Mér finnst það ekki heimskulegt og ég las að BR finnst það ekki endilega heimskulegt……en þar fyrir utan á KT að gera betur……en í knattspyrnu er nú oftast ekki hægt að kenna nákvæmlega einu atviki eða einum leikmanni um. Núna er bara að fara að gíra sig upp fyrir næsta leik og ég get ekki neitað því að mér þætti óskaplega vænt um að einhverjir varnarmenn færu nú að koma úr meiðslum. YNWA

  40. Mér fannst þetta mjög svipað og Everton leikurinn! Gáfum eftir miðjuna og ætlum að beita skyndisóknum.

    Munurinn fannst mér vera sá að Everton nánast kláruðu leikinn sjálfir með því að vera með vörnina hátt uppi á móti sóknarlínu eins og okkar, á meðan WBA liggja aftarlega og fengu ekki þessi endalausu hlaup á bak við sig.

    Þegar við höfðum ekki þetta svæði fyrir aftan vörnina til að hlaupa í var ekkert plan B, sem veldur mér áhyggjum.

    Á móti kemur að leikur Arsenal er mun nær Everton en WBA. Klárum þann leik með þessu uppleggi, en það verður að nota annað upplegg á lið sem liggja aftar ef við eigum að ná í 4 sætið. Það gerðum við fyrr í vetur.

  41. Ok… skítlegt jafntefli í dag í leik þar sem okkar menn virtust bara ekki byrja leikinn.

    En ég hreinlega þoli það ekki þegar lið eins og WBA jafna leikinn að okkar menn virðast ekki hafa það í sér að skipta um gír. Þegar eru 5-10 mín eftir að leiknum að þá lítur út eins og menn ætli að sækja af krafti en viti menn þá ákveða menn að senda aftur til Mignolet eða Toure tekur bolta, veit ekkert hvað hann á að gera og neglir honum síðan bara útaf… þvílík helvítis snilld.

    Þó ég þoli ekki Man U að þá var það algjörlega undantekningalaust, ef liðið var undir eða það var jafnt, að boltanum var komið snöggt fram, hvort sem það var með langri hárri sendingu eða boltanum spilað upp. Sama var með Arsenal, Man City, Chelský og þessi sterkari lið. En hjá Liverpool virðist aðalatriðið að koma boltanum aftur á markmann og svo… ekki neitt. Steingeldir þegar við þurfum á marki að halda… eins og Toure sýndi í lok leiksins… hljóp áfram með boltan og vissi ekkert í sinn haus hvað hann átti að gera

  42. Veit einhver hvort að Sakho, Agger eða Enrique eru að fara að koma aftur?

  43. Jæja það þýðir ekki væla of lengi um úrslitin þó það hafði verið svekkjandi að tapa tveimur stigum útaf varnar mistökum.
    Þetta skrifast þó á hreint og beint á metnaðarleysi FSG i leikmannamálum og taktískum mistökum BR þó ég verð að hrósa BR því hann hefur komið með flottan sóknarbolta.. Sorrý en það er augljóst veikleikar i liði Liverpool sérstaklega tengd vörninni og kaup eins og Kolo og Ally leysa ekki vandan heldur eykur hann.
    Sama sagan um miðjunna. Þetta átti FSG vita og átti styrkja okkur bæði i sumarglugganum og núna í janúar. ég tel með kaupanum á Alberto og Moses og sölu Downing og Shelvey þá veiktist miðjan hjá okkur. Sama með kaupin á Kolo og Ally. Vörninn veiktist.
    Ég tel með réttum kaupum þá værum við ennþá i fyrsta til öðru sæti að berast um TITILLINN enn ekki vonast eftir fjórða sætið.
    Hlakka til næsta leik.

  44. Áttum okkur á því að Ally og Toure voru aðeins til þess að aukabreyddina hjá okkur. Ég er 100% viss um að Rodgers myndi stilla upp með Glen Skrtel Sakho/Agger Enrique í vörninni ef þessi menn væru heilir en það vantar fjóra af 5 sem hann vill líklega nota.

    Liverpool eru enþá fyrir aftan lið eins og Chelsea og Man city (þótt að við hefðum keypt þessa tvo leikmenn sem við vorum að reyna að fá). Svo að tal um að við ættum að berjast um titilinn í ár finnst mér ekki réttar kröfur. Lið fara sjaldan úr 7.sæti í 1.sæti.

    Það eru spennandi leikir framundan og held ég að við verðum í baráttuni um 4.sætið allt til enda.
    Arsenal(H), Fulham(ú), Swansea(H), Southampton(Ú), Sunderland(H), Man utd(ú), Cardiff(Ú), Tottenham( H), West Ham(ú), Man City(H), Norwitch( Ú), Chelsea(H), Palace(Ú) og Newcastle (H)

    14 leikir eftir = 42 stig í pottinum. Við munum vinna glæsta sigra, við munum tapa leikjum og í sumum leikjum verðum við að sætta okkur við jafntefli í einhverjum en rúsibanaferðin heldur áfram og er gaman að fá loksins að fara í svona ferð(höfum þurft að horfa á aðra undanfarinn ár fara í leiktækið)

  45. Svo er alveg spurning hvort Liverpool eigi skilið að enda í 4. Sæti miðað við frammistöðuna hjá leikmönnum í leiknum í dag. Liverpool var að spila á móti WBA!

  46. 4 stig á móti everton á Anfield og wba úti með markatöluna 5-1 er eitthvað sem ég hefði ALLTAF tekið fyrirfram!

    Vissulega er svekkjandi að missa niður forystu á þennan hátt en Kolo er nú ekki vanur að gera þetta daglega, er það? Það er einfaldlega bannað að gefa þvert yfir eigin vítateig í fótbolta, svona A LA Jesper Olsen á móti Spáni fyrir 30 árum.

    Næsta verkefni er verðugt eins og allt í vetur, ég hef fulla trú á góðum úrslitum þar enda spilar liðið okkar betur á móti sterkari andstæðingum.

    Það er nú bara þannig 🙂

  47. Súrt og svekkjandi … mér fannst reyndar Túre koma boltanum ágætlega frá sér í leiknum að þessu tilviki frátöldu. Snilldarlangsending á nafna sem var hársbreidd frá því að innsigla það sem hefði verið glæstur sigur. Hefði boltinn ratað í markið þá hefði leikurinn þess vegna getað endað 4-0.

    Sjúddhefkúddhef.

    En aftur að raunveruleikanum. Erum enn í fjórða sætinu og ætlum okkur ekkert þaðan. Tvö stig af fjórum glötuð og hinn smái spámaður lýsir því yfir að aðeins eitt jafntefli er eftir sem verður vonandi sársaukalaust.

    Restina vinnum við. Ehaggi?

  48. Er sammála ansi mörgu hér að ofan. Fannst liðið í dag ekki spila vel en í stöðunni 0-1 á útivelli hefði maður viljað sjá liðið sigla þessu heim – sérstaklega þegar Suarez fær dauðafæri rétt áður en jöfnunarmarkið kemur. Suarez og Sturridge sennilega að spila samanlagt sinn versta leik fyrir okkur – Sterling var síógnandi, Coutinho síógnandi, Gerrard var frábær í stöðu djúpa miðjumannsins og Skrtel sópaði endalaust upp eftir aðra. Já og Cissokho var að spila sinn besta leik fyrir okkur.

    Við verðum líka að setja hlutina í samhengi – einhver bendir á það hér að ofan að varnarlínan okkar undanfarna leiki hefur verið second-choice línan (Toure-Cissokho-Flanagan) eru amk ekki í mínu sterkasta liði og ég trúi að svipað sé um Brendan Rodgers að segja.

    Í seinni hálfleik misstum við aðeins miðjuna – fórum að hætta að vinna seinni boltann sem er svo ofboðslega mikilvægt í svona leikjum og því hefði ég viljað fá Allen inn fyrr fyrir Coutinho enda ekki jafn mikið svæði fyrir hann að vinna sér í þarna í stöðu fremsta miðjumanns (f.framan Gerrard og Henderson) og var í síðasta leik á móti Everton. WBA lágu það aftarlega og vildu greinilega ekki bjóða upp á sömu veizlu og Everton.

    En jæja – 1 stig á velli sem við skitum á okkur í fyrra – það er framför í mínu bókhaldi. 4.sætið er enn í okkar höndum.

    YNWA

  49. Svekkjandi en það þýðir ekkert að dvelja í fortíðinni þó það hefði verið huggulegt að ná í þessi þrjú stig.

    Arsenal er svo næst á Anfield, lágmarks krafa er jafntefli. Sem betur fer mætast Tottenham og Everton í næstu umferð þannig að ég reikna með að við höldum þessu 4 sæti enn um hríð.

    Í umferðinni þar á eftir eigum við Fulham úti, en Utd spilar við Arsenal og Tottenham á Newcaslte úti. Þetta verður barátta um 4. sætið fram í rauðan dauðan spái ég. En við eigum ákveðið forskot á Tottenham, Everton og Utd að vera ekki í evrópukeppninni og ég held að það eigi eftir að vega ansi þungt á lokametrunum.

  50. Rodgers á þetta að mínu mati.

    Lagt var upp með sama skipulag og í síðasta leik, sem er allt í lagi að mínu mati. Og það gekk alveg ágætlega í fyrri hálfleik, Suárez eða Sturridge skiptust á að verjast á vinstri kantinum og þannig gat miðjan spilað nokkuð þétt, Gerrard og Henderson fyrir aftan Coutinho (en Henderson þó duglegur við að pressa fram líka).

    Í seinni hálfleik hættu Suárez og Sturridge að bakka aftur á vinstri kantinn, allt í einu var Henderson mættur þangað trekk í trekk og miðjan þá að sjálfsögðu galopin (sorry, Gerrard og Coutinho á miðjunni er alveg hrikalega léttvæg miðja).

    Þarna fór eitthvað úrskeiðis. Taktíkin sem lagt var upp með, að bakka og sækja á skyndisóknum, eins og á móti Everton, hefði að sjálfsögðu átt að spilast áfram í stöðunni 0-1.

    En auðvitað værum við ekkert að svekkja okkur á þessu ef Suárez hefði komið Liverpool í 0-2.

  51. það verður nú ansi svekkjandi ef ekki næst að halda þessu fjórða sæti með besta fótboltamann í heimi sem er búinn að skora 23 mörk nú þegar og svo er sá næstmarkahæsti í deildinni i liðinu líka og kominn með 14 stykki..

    Það virðist komin þreyta í liðið eins og oft gerisst á þessum árstíma og það veit stjórinn og vildi styrkja liðið i janúar en eigendurnir styrktu bara sjálfa sig með kleinuhringjum.
    Það var þó ákveðið að láta líta út sem þeir ætluðu að kaupa einn leikmann fyrir okkur á síðasta degi gluggans og og sendisveinn var sendur til Ukrainu en það “gleymdist” svo bara að senda pening með honum og sendisveinninn mátti fara tómhentur heim.

    Ég vorkenni Rodgers að þurfa að koma fram oft i viku og verja þessa eigendur sem hafa ekki gert mikið til að hjálpa honum og svo brugðust þeir endanlega núna þegar mest á reið,megi þeir yfirgefa Liverpool Fc sem fyrst því ef þeir ekki selja klúbbinn þá fer ekki bara Suarez í sumar, ég er hræddur um að Rodgers fari líka ef fjórða sætið ekki næst.
    Hann hefur bara það mikinn metnað að hann fer þangað þar sem hann verður einhvers metinn.

  52. Coutinho blessaður átti að vera farinn útaf fyrir nokkrum ljósárum síðan. Tapaði boltanum eilíflega. Toure var gersamlega útúr kortinu, taldi amk 4 skipti sem hann ákvað (hægasti maðurinn á vellinum að báðum þjálfurum meðtöldum) að reyna að leika á menn og sækja upp á eigin spýtur. Það er eitt að hamra boltanum yfir völlinn og búa til assist þannig. Allt annað að ætla að sóla. Coutinho spilaði aldrei með liði í dag. Hann var einn í innanhúsbolta. Toure átti að fá skipunina “gerðu allt einfalt” í hléi. Coutinho átti þá að fá “þú færð 10 mín, ef ekkert gerist þá er það sturta.” Og út af með hann. Allen inn. BR átti slakan leik, ekki síður en latir/þreyttir (seriously? þreyttir?) leikmenn. Dapurt. fókusleysi. girða sig takk. Og já – eins og leikurinn var framan af (wba voru ekki góðir) eru þetta 2 töpuð stig, hvernig sem við stóðum okkur á síðustu leiktíð.

  53. Afsakið þetta rakst óvart á enter takkan:P en 1 stig á úvivelli er bara allt í lagi.Þegar deildin byjaði spáði ég Liverpool 1.sæti en í dag er ég 100% viss um að við náum 4.sætinu! Liverpool spilar góðan bolta og eru að vinna líðin í kringum sig.Á meðan er Man.utd er að tapa þá hvarta ég ekki.Everton er ekki að fara ná 4.sætinu og komast í Cl.Og aii spurs er bara upp og niður.Erum betri en þeir(Staðfest) En kannski er ég bara bjarsýn! En verð að taka fram finnst það frekar lélegt þegar menn á liverpool.is eru að spá sínu líði tapi eða jafntefli.Fæ kjáranhroll!

  54. Skítur skeður! Upp með hökuna og áfram gakk! Þýðir enginn andskotans barlómur!!! 4. sætið er enn okkar og það erum við sem stjórnum því hvernig þetta fer!!! Við vinnum nallarana næstu helgi og berum höfuðið hátt í þeim leikjum sem eru eftir!!! Og munum að við fengum stig!

  55. First world problem. Við lifum ekki í fullkomnum heimi – það er margt verra en að tapa stigum í fótboltaleik. Liverpool!

    P.S. Stay strong Kolo, you’ll bounce back!

  56. æji ég veit ekki hvað maður á að segja. Gríðarlega svekkjandi að liðið skili inn klassa frammistöðum eins og á móti everton en hreinlega gleymi svo að mæta til leiks í leiki eins og á móti aston villa og í dag á móti WBA.

    Ég var nokkuð sáttur með fyrri hálfleikinn, við vorum yfir og heimamenn ekki ógnað af neinu viti markinu. Í seinni hálfleik fannst mér strax sem við værum í miklu basli með að halda boltanum og ítrekað fannst mér coutinho lenda í basli og virka mjög stressaður að reyna einhverjar erfiðar sendingar í stað þess að gefa til baka og leyfa liðinu aðeins að leika með boltann. Þess í stað missti hann boltann fljótt og reyndi of erfiða hluti. Henderson fannst mér lítið koma við sögu sóknarlega en kannski heldur ekki höfuðáhersla í hans leik þessa dagana. Ég hefði viljað sjá Allen skiptinguna miklu fyrr en játa það svosem að ég hef ekki hugmynd um hvort það hefði breytt nægjanlega miklu, allavegana fékk liðið varla færi eftir hann kom inn á í stöðunni 1-1.

    Ef ekki hefði verið fyrir flotta markvörslu hjá Mignolet þá hefðum við tapað þessum leik. Vörnin heldur áfram að leka mörkum og þegar einn reynslumesti hafsent í ensku úrvalsdeildinni gefur mark eins og hann gaf í dag þá er asskoti erfitt að taka þrjú stig. Það er alveg skelfilegt hvað við höfum verið daprir í varnarleiknum okkar í vetur (og síðasta vetur). Ótrúleg klaufamistök hafa kostað okkur svo mikið og sérstaklega í dag þar sem WBA náði ekki að fá mörk dauðafæri þá hefði game-planið getað skilað 3 stigum í hús.

    Ég get eiginlega ekki séð annað en að maður þurfi bara að viðurkenna það að þessi frussuskita Toure var tveggja stiga virði í dag. En ljósi punkturinn er klárlega flottur leikur hjá okkar ungu leikmönnum, flanagan og sterling. Sterling var magnaður. Ítrekað losaði hann sig við varnmenn og komst framhjá öðrum. Hann þarf að bæta ákvörðunartöku og afgreiðslu á síðustu sendingum/skotum en það vonandi kemur með meiri leikjum og reynslu.

    Það er óþolandi að BR hafi ekki neina kosti af bekknum til þess að bregðast við þegar lítið gengur. Hann er búinn að hafa klúbbinn í tæp tvö ár og ég neita að hlusta á afsakanir frá honum um þunnan hóp o.s.frv. Hann starfar hjá risaklúbbi þar sem gerð er stöðug krafa um árangur og það að kaupa 10 – 15 leikmenn og nota síðan einungis 3 – 5 þeirra af einhverju viti er bara einfaldlega hans klúður (eða hjá transfer comittee) og stuðningsmenn hafa engan áhuga á því að heyra það væl.

    Það að janúarglugginn hafi verið að vinnast á síðustu sekúndunum var líka bull. Liðið hafði mánuð til þess að klára þessi mál, punktur. Þið getið ekki endalaust kennt öllum öðrum um, þið bara eruð ekki að standa ykkur nægjanlega vel í að styrkja liðið, annað hvort missið þið af takmörkunum eða kaupið of marga leikmenn sem ekki virðast styrkja liðið og eiginlega ekki hópinn þar sem mörgum þeirra er ekkert spilað.

    Eftir þessa útrás mína vil ég þó líka segja að liðið er í 4 sæti og einungis 14 umferðir eftir og ekki langt í efsta sætið. Það er bara alveg frábær árangur hjá BR og leikmönnunum. Þessi árangur er framar mínum björtustu vonum og kemur í ofanálag á mikil meiðsli hjá fullt af leikmönnum liðsins. Þetta gefur svo sannarlega von um bjartari tíma þó svo að maður verði helvíti fúll þegar menn spila eins og þeir gerðu í dag.

    Vonandi verður þessi leikur til þess að menn koma dýrvitlausir í næsta leik enda veitir sko ekki af.

    YNWA

  57. Ég er enn pirraður yfir þessum leik, þess vegna er best að reyna að skrifa sig frá þessu.

    Ég lít á þetta sem tvö töpuð stig, ekki eitt unnið stig. Sorry, just the way how I feel og glasið mitt er klárlega háltómt. Miðjan var ekki að virka í þessum leik og þetta var Aston Villa hörmungin all over again. Stend fastur á því að það eigi að refsa Toure og taka hann úr liðinu fyrir næsta leik. Skiptir í því sambandi engu máli hvort Sakho verður orðinn góður eða ekki. Hann tók margar furðulegar ákvarðanir í leiknum og var ítrekað að hlaupa sig í vandræði. Er nokkuð viss um að það verði allt gert til að gera Sakho kláran fyrir þann leik. Er sammála með að Kelly er ekki fýsilegur kostur í miðvörðinn en ég treysti ekki Toure og hann þarf að fá hvíld (ekki síst til að jafna sig andlega eftir þessa hörmungarframmistöðu í dag).

    Það þarf margt að breytast fyrir næsta leik og liðið þarf að eiga algeran toppleik ef ekki á illa að fara á móti Arsenal. Vil að Allen byrji þann leik, setja Sturridge á bekkinn og spila með 5 manna miðju. Við erum búnir að koma okkur í þá stöðu að verða bara að vinna Arsenal. Jafntefli væru ekki ásættanleg úrslit þar sem Everton andar ofan í hálsmálið á okkkur og Tottenham og Manjú eru ekki langt þar á eftir.

    Ljósið í myrkrinu var samt frammistaða Cissokho (hans langbesti leikur með LFC en sendingargetan er döpur) og Sterling átti mjög góðan leik enn og aftur.

  58. Menn eru aðeins og snöggir að skjóta að Kolo Toure, hann gerði vissulega slæm mistök en er langt frá því að vera slakasti varnarmaður sem hefur spilað í LFC treyju, þessi ummæli sýna greinilega hversu stutt þessi einstaklingur man aftur í tímann. Kolo var fenginn til LFC sem Back-Up, Squad Player með mikla reynslu og hefur staðið sig vel.. hann byrjaði frábærlega og er fínasti varnarmaður. Svo þarf maður ekki nema að horfa á Paul Konchesky, hann var klárlega 20 sinnum slakari heldur en Kolo. Svo koma líka menn eins og Degen, Jan Kromkamp, Julian Dicks, Torben Piechnik og Andrea Dossena sem voru talsvert slakari heldur en Kolo Toure hefur verið.

    Það er aðeins og fljótt skotið að manninum, Ef þetta hefði verið Gerrard þá hefðuð þið fyrirgefið honum eins og skot.

  59. liðið átti ekki skilið fleiri stig í dag, það var jafn litil barátta í liðiu og hún var mikil á móti everton

  60. Ég hugsa að ég tjái mig ekkert um leikinn fyrr en eftir Arsenal leikinn um næstu helgi. Ef þessi úrslit verða til þess að sparka í r*******ð á mönnum þannig að þeir taki þann leik, þá er þetta þess virði.

  61. Eitt stig á erfiðum útivelli (þar sem önnur stórlið hafa tapað stigum) og enginn meiddist. Þetta hefði klárlega getað endað verr.

    YNWA!

  62. Ég held að menn verði aðeins að átta sig á því að við erum lið sem höfum endað síðustu fjögur tímabil í 7., 6., 8. og 7. sæti og að vera ennþá í fjórða sæti þegar svo langt er liðið á þetta tímabil verður nú að teljast nokkuð gott. Við erum enn fyrir ofan meistara síðasta árs og Spurs og Everton hafa einnig verið að enda fyrir ofan okkur þannig að við getum varla kvartað mikið er það ?

    Ég hef amk alltaf litið á þetta þannig að ef okkur tekst að enda fyrir ofan liðið sem vann deildina á síðasta tímabili þá hlýtur það að vera nokkuð gott. Vissulega er það lið búið að vera í tómu rugli með nýjan stjóra og allt það en að lið sem hefur verið svo dóminerandi í enska boltanum í 20 ár skuli svo allt í einu bara hrynja er nánast einsdæmi. Okkar menn náðu jú 2. sæti deildarinnar tímabilið eftir að síðasti meistaratitill kom í hús og svo fór allt í rugl.

    En hvað um það, við erum enn í þessu mikilvæga fjórða sæti og það er okkar að halda því, verðum að treysta á okkur sjálfa og engan annan í þeim efnum. Tökum bara fyrir einn leik í einu og gerum okkar besta þar.

    Um næstu helgi fáum við efsta liðið (þegar þetta er skrifað) í heimsókn og auðvitað gerir maður kröfu um sigur þar en það verður mjög erfiður leikur. Spurs og Everton mætast svo innbyrðis þá helgi og annaðhvort eða bæði tapa stigum þar.

    Þessi fimm leikja hrina gegn Stoke, Villa, Everton, WBA og Arsenal skilaði heilu stigi í hús á síðasta tímabili, núna hafa komið inn 8 stig og einn leikur eftir þar sem við eigum alveg jafn góðan séns á sigri eins og gestirnir (sem hafa reyndar mjög gott record á Anfield undanfarin ár).

  63. Correct me if I´m wrong ! Hefur þessi blessaði Ian Ayre ekki verið með drulluna upp á baki í þónokkurn tíma núna. Finnst BR nokkuð góður .. Fenway virðast vera að bakka þá ágætlega upp, peningalega og andlega .. bendir þá ekki allt á greyið Ian ??

  64. Grétar nr. 80. Ég held að allir hér á þessu spjalli séu sammála um að Liverpool hefur tekið gríðarlegum framförum á milli ára og oft æðislegt að horfa að lið okkar spila. Ástæða þess má að mjög stórum hluta rekja til þess að við erum sennilega með einn af 3 bestu knattspyrnumönnum í heimi innan okkar raða.

    Vissulega yrði það eitt að enda fyrir ofan United stórkostlegar framfarir og algerlega frábært. En það myndi engu að síður ekki telja rassgat að vera fyrir ofan United ef við næðum ekki einnig 4. sætinu. Fyrir utan peninganna sem við verðum af þá myndum við einnig missa Suarez. Það er hin ískalda staðreynd.

  65. Já auðvitað væri ömurlegt að ná ekki fjórða sætinu miðað við hvernig tímabilið hefur þróast það sem af er. Liðið búið að vera í toppbaráttu frá byrjun og ljóst að Suarez er farinn um leið og lokaflautan gellur í síðasta leik ef liðið endar ekki í topp fjórum.

    Það er hinsvegar ágætt að horfa aðeins á heildarmyndina, deildin verður sífellt erfiðari og meira spennandi og að stökkva frá 7. sæti upp í topp fjóra væri frábært afrek. Núna í febrúar byrja önnur lið í kringum okkur (fyrir utan Everton) að spila í Evrópukeppnum og það ætti vonandi aðeins að hjálpa okkur. Meira leikjaálag á þau á meðan við fáum meiri hvíld sem veitir klárlega ekki af nú þegar meiðslavandræðin eru gríðarleg.

  66. Auðvitað voru þessi úrslit vonbrigði og með sigri væru okkar menn einu stigi frá þriðja sætinu, en ef allt fer eins og eins og cosmosið spáir þá verðum við heilum þremur stigum á eftir liðinu í þriðjasætinu eftir lokaleik umferðarinnar í kvöld.

    Þegar öllu er á botnin hvolft þá er það prýðileg staða að mínu mati.

  67. Það eru 14 leikir eftir í deildini fullt af stigum í bóði.Hugsum um okkur.Sjáum hað gerist svo í maí.En það yrði reyndar grátlegt ef liverpool mundi lenda í 4.sæti og man.utd í 5.sæti og man.utd mundi svo vinna cl..ég myndi ekki vera eldri!

  68. Þórhallur og Bjössi hér að ofan: Nei, Liverpool klúðraði ekki málunum varðandi kaupin á Kono, sjá http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/yehven-konoplyanka-transfer-ian-ayre-6661179 . Ekki éta allt upp sem kemur fram í fjölmiðlum. Auðvitað eru Dnipr menn að fegra sína stöðu.

    Annars svaf ég illa í nótt út af þessu jafntefli. Ætlaði ekki að láta það gerast, en stundum fer heilinn á skrið. Ég segi enn og aftur, Liverpool hefði unnið þennan leik 1-0 ef ekki hefði verið fyrir mistök Toure. (Má líka segja að ef (þessi ef) Suarez hefði skorað og komið liðinu í 2-0 þá hefði leikurinn einfaldlega klárast.) Varð allt í einu annar leikur í stöðunni 1-1 og Liverpool náði ekki að leysa það.

  69. Menn og konur almennt svo neikvæð að það hálfa væri samt hellingur. EF ekki er hægt að agnúast út í leikmann eða leikmenn þá er það stjórinn sem er ómögulegur, framkvæmdarstjórinn og/eða eigendurnir. Nú svo ef þetta dugar ekki þá er hraunað yfir kommentum frá félögunum hérna inni sem setja fram sína skoðun með rökstuðningi. Hvurslags bölsýni er þetta, smá jákvæðni takk og áfram Liverpool gegnum súrt og sætt!

    Kannski er skýringin sú að almennt er of mikil neikvæðni í gangi og fréttamiðalar eins og fotbolti.net og 433.is eru td. með einkunargjafir eftir leiki og tilgreina í fyrirsögn þann sem fékk lægst í einkun í stað þess að hampa þeim sem fékk hæðstu einkun. Það er sem sagt meira eitt púðri í “copy paste” frá gulu pressunni í Englandi heldur en ég hefði kosið, en það er einungis mín skoðun. Selur virkilega betur að vera með sjokkerandi (neikvæðari) fyrirsagnir heldur en rökstuddar vangaveltur og uppbyggjandi umfjöllun um lið leiki og einstaka leikmenn og er alveg bannað að hrósa.
    Það er hinsvegar rétt að hrósa þessum sömu miðlum sem ég nefndi hér að ofan fyrir umfjöllun um íslenska boltann sem mér finnst jákvæðari og umfjallanir ekki eins litaðar af ensku pressunni, skiljanlega. Flottar umfjallanir að vori um liðin sem eru að mæta til leiks og spá fyrir tímabilin sem og álitsgjafar með meiru, mjög flott.
    Hlakka til vorsins og næsta leiks okkar manna á Anfild.
    Áfram Liverpool, áfram Ísland og næsti leikur takk.

    Annars vona ég og hef fulla trú á að mínu liði vegni vel og að sjálfsögðu ekki sáttur við mistök og himinlifandi yfir góðum úrslitum.

  70. #34
    Skil reyndar ekki hvernig lýsandinn fékk þessa tölfræði. Við höfum “aðeins” fengið á okkur 29 mörk svo varla hafa 30 varnarmistök gefið mark. en hörmuleg varnarframmistaða á tímabilinu samt.

  71. #89

    Enda er þetta einfaldlega rangt hjá honum Dodda.

    Þessi tölfræði hjá Opta, 29 eru mistök sem vörnin hefur gert sem hafa leitt til marks EÐA marktækifæris hjá andstæðingnum.

  72. Var ekki hægt að byrja að tala við Rússana nokkrum dögum fyrr? Man ekki betur en að það hafi verið yfirlýst að ná að styrkja liðið á fyrstum dögum gluggans. Samt gott hjá Ayr að ná að klófesta Aspast Ilori í sumarglugganum

  73. Eftir að hafa horft á Willian á móti City græt ég hann ekki mikið. Ef þeir sem við náðum ekki að kaupa í síðasta glugga eru af svipuðum gæðum get ég þerrað mín tár. Leið reyndar ekki ekki nógu vel við að horfa á leikinn, rosalega eigum við langt í land, tel að Liverpool mannskapurinn hefði ekki átt roð í hvorugt liðið í dag. Sárt að þurfa að segja þetta en sorry, þetta er bara spurning um peninga hér eftir. Hófum gott félag, góðam stjóra að ég tel en vantar hitt 🙁
    Vil samt ekki útiloka 4. en allt þarf að ganga upp og kannski rúmlega það…?

    Guð blessi Liverpool.

  74. Já sorrý strákar mínir… Mark eða marktækifæri.. En það geta allir verið sammála um að þetta er hrikaleg tölfræði.. Fékk gubbuna uppí háls …

  75. #43 DoddiJr, þessi lýsandi sagði það fyrst en leiðrétti það um leið og sagði að þetta væru mörk og marktækifæri andstæðinga. Skafa úr eyrunum áður en menn fara að hrauna.
    Finnst Rikki vera eini sem gefur Gumma Ben einhverja samkeppni í lýsingum. Hann er amk hlutlaus lýsandi þrátt fyrir að ég viti að hann haldi með United. Finnst hann frábær lýsari.

  76. já… skafið fór sýna leið… ég allavega get ekki gert af því að mér finnst þessi lýsandi alveg drepleiðinlegur… hann reynir svo mikið eitthvað greyið.. og tekst ekki hjá honum

  77. Menn eru ekkert allra. Þessi gæji er samt minn uppáhalds lýsari ásamt Gumma Ben að sjálfsögðu.
    Finnst hann koma með fáranlega ferska vinda inn í þetta, fáranlega tilfinningaríkur og lifir sig sjúklega inn í leikinn. Kemur með stemminguna í sófann hjá mér og getur gert hundleiðinlega leiki spennandi. Þetta er t.d. móment sem ég horfi á nokkrum sinnum þegar mér leiðist, hehe fáranlega gott atriði og skemmtilegt. Einhver nobody leikur en honum tókst að gera hann spennandi.
    Eigum að fagna svona innkomu manna í lýsingar í staðinn fyrir að hrauna yfir þær.
    http://www.433.is/frettir/island/rikki-g-fer-a-kostum-i-utsendingu/

  78. Ég persónulega setti á mute á sjónvarpinu þegar 25 mín voru eftir. Meikaði ekki meira af honum.

Liðið gegn West Brom

Auglýsing: Útsala hjá Jóa Útherja & ReAct!