Udinese úti

Lokaleikur Liverpool í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þetta tímabil verður spilaður í Udine, rúmlega 100 þúsund manna borg sem staðsett er á NA-Ítalíu, rétt hjá landamærum Slóveníu. Með minni sveitarfélögum og bæjum í kring telur svæðið um 180 þúsund manns sem setur aðeins knattspyrnulið borgarinnar í samhengi við liðin frá stórborgunum, eða það hefði maður haldið.

Eins og annars staðar á Ítalíu er byggð á þessu svæði þekkt síðan töluvert vel fyrir Krist en meðan þeir toppa það ekki að hafa fundið upp pítsuna tekur því ekki að tala um annað en knattspyrnulið borgarinnar, Udinese.

Félagið er næstelsta knattspyrnulið Ítalíu, stofnað árið 1896 rétt á eftir Genoa. Þrátt fyrir það er saga félagsins ekkert til að hrópa húrra fyrir og hafa þeir aldrei unnið til neinna verðlauna sem tjáir að nefna, raunar má segja að þeirra blómaskeið sé núna.  Það sem gerir Udinese mjög áhugavert, sérstaklega núna undanfarin ár er hvernig félagið hefur verið rekið undir stjórn núverandi eiganda, Giampaolo Pozzo. Þar er kappi sem veit hvað hann syngur og hans nafn  hefur pottþétt borið á góma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hjá stjórn Arsenal, Liverpool og eflaust mun fleiri klúbba.

Pozzo sem er 71 árs gamall Ítali sem keypti Udinese árið 1986. Félgið var að ítölskum sið flækt í veðmálahneyksli sem varð til þess að dregin voru af þeim 9 stig. Eitthvað sem þeir máttu ekki við það tímabil því þeir féllu niður í Serie B fyrir vikið.  Undir stjórn Pozzo var félagið aftur flækt í veðmálabrask árið 1990 sem varð til þess að dregin voru af þeim 4 stig. Pozzo dró sig þá út úr daglegum rekstri, fól syni sínum (Gino) ásamt manni að nafni Franco Soldati þann hluta þó Pozzo sé og hafi alltaf verið mjög virkur á bak við tjöldin sem forseti Udinese. Þessir menn hafa rekið félagið með því að finna ódýra leikmenn sem geta hækkað í verði og selja þá síðan með miklum hagnaði. Það sem meira er þá eru þeir betri í þessu en flestir aðrir.

Neyðin kennir naktri konu að spinna og stærð Udinese gerði það að verkum að Pozzo varð að finna nýjar og frumlegar leiðir til að halda liðinu samkeppnishæfu á hæsta leveli á Ítalíu. Sala aðgöngumiða á leiki félagsins er talin skila svipað miklu í kassann á heilu tímabili og Man Utd nær á einum leik svo dæmi sé tekið. Rétt eins og á Englandi og á Spáni þá er Serie A ekkert auðveld fyrir liðin sem teljast ekki meðal „stóru 6“ og Udinese er ekki eitt þeirra liða.

Eitt af því sem er erfitt fyrir minni liðin er að laða að sér bestu ungu Ítalina og þar sem félagið hefur ekki heldur haft bolmagn til að taka þátt á leikmannamarkaðnum hafa þeir komið sér upp gríðarlega öflugu njósnaraneti út um allann heim þar sem þeir leggja mesta áherslu á löndin fyrir neðan þessi allra stærstu. Sérstaklega í Afríku og S-Ameríku.

Með þessu er átt við að þeir skoða markaðinn betur í Chile og Kólumbíu frekar en t.d. Braselíu og Argentínu enda mun fleiri að fylgjast með þar, eða t.d. Sviss og Slóveníu í Evrópu sem hefur gefist þeim mjög vel. Með þessu fá þeir inn unga leikmenn sem eru tilbúnir að sætta sig við mun lægri laun fyrir tækifæri í stærri deild og stærri söluglugga. Þessir leikmenn annaðhvort margfaldast í verði eða fara án þess að skilja eftir sig sviðna jörð. Udinese er með um 50 aðalnjósnara sem hafa svo tengsl við hundruði aðila á hverju svæði fyrir sig og hafa þannig náð yfir gríðarlega stóran markað.

Persónulega vill ég ekki sjá þetta fyrirkomulag hjá Liverpool enda þýðir þetta að liðið er alltaf tilbúið að selja sína bestu leikmenn. Á móti hefur þetta þýtt að rekstur félagsins stendur undir sér og liðið hefur undanfarin ár verið að fikra sig hægt og þétt ofar og ofar. Sem dæmi má nefna að undanfarin tímabil hefur hagnaður af sölu leikmanna skilað sex sinnum meiru í kassann heldur en hagnaður af  sölu aðgöngumiða.

Þetta fyrirkomulag Udinese skilar sér auðvitað í því að þeir hafa á skrá hjá sér ótrúlegan fjölda leikmanna. Það tækla þeir jafnan með því að lána þessa stráka strax eftir að þeir hafa tryggt sér þá og þá helst til liða sem eru nær heimahögunum. Alexis Sanchez sem fór til Barcelona í fyrra er gott dæmi um þetta. Hann gekk til liðs við Udinese 16 ára en var strax lánaður til Colo Colo í Chile og þaðan til River Plate árið eftir til að fá reynslu erlendis en samt ekki of langt frá Chile.

Pozzo og félagar lána reyndar svo marga leikmenn að undanfarin ár hefur hann keypt tvö lið sem hann notar núna til að þjálfa upp leikmenn sem eru á mála hjá Udinese. Þetta er spænska félagið Granada sem Pozzo keypti 2009 og enska félagið Watford sem hann keypti á þessu ári. Bæði lið eru með á sínum snærum fjölda leikmanna Udinese. Granada hefur sérstaklega komið sér vel enda í spænskumælandi landi eins og margir þeirra leikmanna sem keyptir hafa verið .

Viðskiptamódel Udinese fór samt ekkert að virka strax og félagið var keypt. Frá ´86 til ´96 skoppaði liðið milli deilda áður en það náði að festa sig í sessi undir stjórn Alberto Zaccheroni sem stýrði liðinu í þriðja sæti árið 1997 þökk sé mörkum þýska stálsins Oliver Bierhoff.

Luciano Spalletti tók við liðinu í mars árið 2001 og lét liðið spila skemmtilegan sóknarbolta. Hann fór um haustið og við tóku m.a. sex hræðilegir mánuðir þar sem Roy Hodgson var við stjórnvölinn. Ræðusnilld Hodgson varð honum að falli á Ítalíu (sem og annars staðar). Hugmyndir Udinese hafa verið allt of framandi fyrir Hodgson sem hefur jú gert þetta allt saman nákvæmlega eins sl. 98 ár og er hann sagður hafa látið þetta út úr sér er hann stýrði Udinese:

“Obviously I’m very happy to be back at this level of football, but I could have chosen a better club to come back to. It’s an extremely strange club.” (Hann var þarna ný hættur hjá FCK og nýlega búinn að stýra Inter með slæmum árangri).

Spalletti tók við aftur árið 2002. Hann skilaði liðinu í UEFA Cup og raunar hafa þeir náð í Evrópukeppni tíu  sinnum á sl. 16 árum. M.a. í Meistaradeildina árið 2005 undir stjórn Spalletti og svo aftur undanfarin tímabil.

Sala á bestu leikmönnum liðsins fer eðlilega ekki vel með uppgangi sama félags innan vallar og þannig hefur það lengi verið hjá Udinese. Til að setja þetta í samhengi má skoða að meðan við erum ósátt við eigendur Liverpool þegar liðið kemur bara út á sléttu í seldum leikmönnum vs. keyptum þá hefur Udinese selt fyrir rúmlega helmingi hærri fjárhæð undanfarin áratug heldur en þeir hafa keypt. Eins er launakostnaður þeirra með þeim lægstu í Seria A og margfalt minni en hjá stóru liðunum.

Meðal leikmanna sem þeir hafa fengið til sín á kúk og kanill en selt með miklum gróða eru m.a. David Pizzarro (Inter), Marek Jankulovski (Milan), Per Krøldrup (Everton), Vincenzo Iaquinta (Juventus), Sulley Muntari (Portsmouth), Andrea Dossena (Liverpool), Asamoah Gyan (Rennes), Fabio Quagliarella (Napoli), Gaetano D’Agostino og Felipe (Fiorentina),  Gokhan Inler (Napoli), Alexis Sanchez  (Barcelona), Cristian Zapata (Villarreal) og  Kwadwo Asamoah og Mauricio Isla  (Juventus). M.ö.o. þeir hafa selt fyrir rúmlega 250m Evra en keypt fyrir um 100m Evra.

Udinese fær eins og áður segir lítið sem ekkert í aðgangseyri og raunar hefur miðaverð haldist óbreytt eða lækkað sl. áratug. Félagið er að fá um 15 þúsund manns á leiki þó völlurinn taki töluvert meira sem kannski útskýrist að hluta til á því hversu fámenn Udine er. Eins fá þeir bara sýnishorn í auglýsingatekjur eða í gegnum sölu á varningi m.v. stóru félögin á Ítalíu (hvað þá annars staðar í Evrópu).

Sjónvarpsréttindi eru þeirra langmikilvægasta tekjulind (u.þ.b. 64% árið 2011) sem og sala lykilmanna og samt er þetta lið búið að vera í toppbaráttu á Ítalíu undanfarin ár, hefur spilað í Meistaradeildinni (sem hefur skilað þeim mjög miklu í kassann á þeirra mælikvarða) og er talið spila einn skemmtilegasta boltann á Ítalíu.

Til að setja þetta í samhengi þá höfðu fimm lið skilað hagnaði sl. fimm ár í Serie A. Af þessum fimm liðum hefur Udinese skilað meiri hagnaði en hin fjögur samanlagt.(tölur frá því í fyrra, koma bara betur út ef þessu tímabili er bætt við). Þannig að eitthvað vita þeir hvað þeir eru að gera.

Með betri árangri verða kröfurnar þó alltaf meiri og lið sem leggur upp með að selja sína bestu leikmenn á hverju ári er líklegt til að fá þung högg í kjölfar góðra tímabila í Serie A eða Evrópu. Stuðningsmenn Udinese misstu t.a.m. aðeins þolinmæðina fyrir þetta tímabil þegar þeirra bestu leikmenn voru enn eina ferðina seldir á meðan eigandinn var að dunda sér við það að kaupa Watford og endurbæta völlinn þar. Þeir sendu mótmælabréf þar sem Pozzo var m.a. spurður hver metnaðurinn væri og af hverju verið væri að nota pening í að kaupa Watford sem frekar gæti farið í liðið. Pozzo svaraði því til að þessir leikmenn hefðu viljað fara og hann hefði engu um þetta ráðið.

Þannig að þetta er ekkert allt saman rósrautt í kringum rekstur Udinese og raunar skilur maður að þetta sé bara gríðarlega pirrandi. Arsenal er svipað dæmi um svona félag (á stærri mælikvarða auðvitað) og þar erum við sko að tala um mjög pirraða aðdáendur. Engu að síður er félagið líklega fyrirmynd fyrir Financial Fair Play-reglurnar sem á að innleiða. Þær gætu á móti gætu verið vondar fréttir fyrir Udinese sem með þeim fengi harðari samkeppni og færri stórar leikmannasölur.

Eins og gefur að skilja er ekkert voðalega spennandi að tala um núverandi hóp Udinese. Þeir selja alltaf þá leikmenn sem maður þekkir nöfnin á um leið og þeir geta eitthvað . Þó eru tveir sem ekki er hægt að horfa framhjá þegar fjallað er um Udinese undanfarin ár. Annar þeirra er stjórinn Francesco Guidolin sem tók við liðinu vorið 2010 eftir að hafa stýrt Parma upp um deild og náð fínu tímabili þar á eftir. Hann hafði áður þjálfað Udinese 98/99 en síðan flakkað milli liða. Guidolin stýrði Udinese í topp 4 fyrstu tvö tímabilin sín með liðið og gerði það með því að spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta.

Hinn maðurinn sem tekur því svo sannarlega að nefna er kóngurinn í borginni, Antonio Di Natale. Hann er núna 35 ára og hefur verið hjá liðinu síðan 2004 sem verður að teljast kraftaverk m.v. hversu góður leikmaður Di Natale er og hvernig stefna félagsins er. Hann hefur bara batnað með árunum og hefur verið að hlaða inn hátt í 30 mörk undanfarin þrjú tímabil (undir stjórn Guidolin). Á þessu tímabili er hann nú þegar kominn með 11 mörk.  Hann hefur jafnframt verið fyrirliði liðsins síðan 2007 og jafnan skærasta stjarnan sem leikur liðsins gengur út á, a.m.k. síðan Guidolin tók við.

Það segir kannski sitt um hversu mikill kóngur Di Natale er að hann tók við ábyrgðinni á fatlaðri systur Piermario Morosini, liðsfélaga hans hjá Udinese er hann lést í júní 2012. En með fráfalli bróður síns átti hún engan annan að.

Eitthvað vesen hefur þó verið á þessum tveimur í upphafi þessa tímabils því Guidolin og Di Natale lenti saman fyrir rúmlega mánuði sem varð til þess að Di Natale var tekinn úr liðinu eina umferð. Hafa verður þó í huga að rifrildi milli tveggja Ítala telst varla fréttaefni og þeir sættust strax.

Eftir þennan lestur kemur hópur Udinese í dag líklega ekki svo ýkjamikið á óvart. Þarna eru sex Brassar, tveir Slóvenar, tíu Ítalir, einn frá Gana, einn frá Svíþjóð, einn frá Marokkó, einn frá Argentínu, tveir góðir frá Kólumbíu, einn Frakki og tveir Pólverjar. Ofan á þetta eru leikmenn úr öllum heimshornum á láni frá Udinese eða í varaliðinu. Til að toppa þetta eiga þeir svo sex leikmenn sameiginlega með öðrum ítölskum liðum. Ég náði að skilja það dæmi þegar við keyptum Borini en man ekki núna hvernig það fyrirkomulag hljómaði gáfulega.

Udinese spilar heimaleiki sína á Stadio Friuli sem er fjölnota íþróttavöllur 4 km fyrir utan miðborg Udine. Völlurinn var byggður árið 1976 og getur tekið rúmlega 40 þúsund manns í sæti og var m.a. notaður á HM ´90 (E-riðill). Því frábæra móti sem endaði svo vel. Í dag er engu að síður ekki opið fyrir nema rúmlega 30 þúsund áhorfendur og til stendur í lok þessa tímabils að endurbæta völlinn nánast frá grunni og það sem furðulegra er minnka sætafjöldann. Þeir ætla að leggja stúku yfir hlaupabrautina og þrengja þannig völlinn og gera hann að alvöru knattspyrnuvelli sem á að lokum að skila af sér 25 þúsund manna velli sem hægt verður að stækka í 35 þúsund í framtíðinni ef þörf er á því.

Udinese hefur ekki verið eins sterkt í upphafi þessa tímabils og þeir hafa verið undanfarin ár, eins og þeirra er siður eftir gott gengi. Þeir sitja í 9. sæti í deildinni eftir 15 umferðir og eru á botninum í Europa League riðlinum og dottnir úr leik. Þeir eru þremur stigum á eftir bæði Young Boys og Liverpool en tvö töp gegn Swisslendingunum þýða að þeir geta ekki náð þeim. Þeir hafa því að engu að keppa.

Fyrri leikur liðana var copy/paste af okkar leikjum undanfarin misseri. Liverpool stjórnaði leiknum nánast frá fyrstu mínútu og spilaði heilt yfir mjög vel. Shelvey skoraði gott mark í fyrri hálfleik en sá seinni var varla byrjaður þegar Di Natale var búinn að skora. Suarez og Gerrard komu inná í kjölfarið og var Suarez rétt búinn að skora strax, Shelvey náði að verja frá honum á línu.

Coates toppaði það þó þegar hann skallaði boltann af öryggi framhjá Reina og kom Udinese í 1-2 fullkomlega upp úr þurru. Di Natale sendi síðan félaga sinn, Pasquale í gegn til að ganga endanlega frá leiknum áður en Suarez minnkaði muninn úr aukaspyrnu. Sterling kom svo inná í restina og klúðraði báðum færunum sem hann fékk.

Sem sagt bara nokkuð hefðbundinn Liverpool-leikur þar sem okkar menn spörkuðu blöðrunni sín á milli í 691 skipti á meðan leikmenn Udinese gerðu það bara í 173 skipti.

Lið Liverpool í þessum leik var svona: Reina, Johnson, Coates, Carragher, Robinson, Henderson (Gerrard – 65′), Downing, Allen, Shelvey, Assaidi (Suarez – 65′), Borini (Sterling – 79′).

Það er því ansi erfitt að spá í þennan leik. Rodgers vill klárlega fara áfram í þessari keppni og með sigri ættum við að ná því, eins gæti jafntefli dugað fari svo að Anzi sigri Young Boys í Sviss, sem er ólíklegt þar sem Rússarnir eru þegar komnir áfram.

Leikur gegn Udinese sem hefur að engu að keppa telst því vera dauðafæri sem ég hef þó fulla trú á að Liverpool geti gloprað niður með sínum 30 skotum í átt að marki.

Suarez myndi ég segja að væri sá eini sem er alveg 100% öruggt að spili (þökk sé banni í næsta deildarleik) en ég er ekki eins viss með aðra. Líklega verður þetta sterkt lið blandað nokkrum leikmönnum sem hafa meira verið á bekknum undanfarið.

Prufa að setja þetta svona upp:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Downing

Henderson – Sahin
Assaidi – Gerrard – Enrique
Suarez

Þrátt fyrir mjög lítinn hóp þá gæti þetta þess vegna allt verið rangt nema Suarez. Ég trúi því ekki að Lucas byrji þennan leik líka enda þarf hann að spila West Ham-leikinn. Allen verður að fara að fá hvíld þó hann spili þennan leik nú líklega og eins er Shelvey líklegur til að spila þennan leik. Hef hann ekki í byrjunarliði því ég tippa á að hann verði frammi gegn West Ham í leiðinlegasta leik allra tíma. Raheem Sterling og Suso gætu báðir verið inni í myndinni í þessum leik líka á kostnað Assaidi og Sahin t.a.m. Tippa samt á að Sterling verði aftur á bekknum gegn þeim eins og í fyrri leiknum.

Mín spá: Ég vona nú að Liverpool vinni eins og maður gerir alltaf. Framhaldið ætti ekki að vera of íþyngjandi komist Liverpool áfram þó ég hati það að eyða orku leikmanna í þessa ómerkilegu keppni meðan við höfum ekkert efni á því í deildinni, við höfum nú þegar tapað stigum í deildinni sökum þreytu eftir Evrópudeildina. Við höfum oft komið inn á að þessi hópur hjá Liverpool er alls ekki nægjanlega stór/góður og raunar man ég ekki eftir Liverpool liði sem er eins illa í stakk búið fyrir mikið leikjaálag. En ég ætla að tippa á 1-2 sigur í þessum leik. Downing og Gerrard með mörkin.

Babu

Helsta heilmild: Swiss Ramble (+ svona 5-10 aðrar síður).

39 Comments

  1. Bravó fyrir þessari upphitun. Takk kærlega fyrir góða lesningu í öllum Evrópu upphitununum í vetur. Held að Suarez klári þetta með þrennu. 3-0 Liverpool. Annars er ég ekkert að missa mig yfir þessari Evrópu keppni. Væri miklu frekar til í þrjú stig um helgina. Ynwa Ingó

  2. Mundi vilja sjá okkar menn hvíla nokkra lykilmenn en……………. Þegar við höfum verið a gera það þá hefur liðið ,einfaldlega ekki getað neitt….

    Tippa á þetta lið:

    Reina-Wisdom-Carra-Skrtel-Enrique-Sahin-Hendo-Suso-Shelvey-Assaiti-Suarez

    4-2-3-1

    Með Assaiti og Shelvey á Köntunum…..

    Held að þetta lið ætti að getað náð úrslitum á Ítalíu.. þá á ég við ,, SIGUR ,, Udinese geta ekki farið áfram og hvíla vonandi DiNatale og fleiri góða:)

    Með þessu liði mundum við hvíla: Johnson-Agger-Allen-Lucas-SG-Sterling sem er alveg slatti… En vonandi reddast þetta, þó svo að maður sé ekkert ýkja spenntur fyrir Europa League þá vill maður samt sem áður sjá Liverpool ganga vel…

    Spakmæli dagsins: Ef Stewart Downing er ekki inn á, þá er allt hægt!!!!!

    Twitter(English)
    @ragnarsson10

  3. Ég er að segja ykkur það, við þurfum svona tvö tímabil af Evrópukeppnum í viðbót og svo ætla ég að taka þessa pistla saman og gefa þá út. Babú í Evrópu – metsölurit. 🙂
    Annars nokkuð sammála spánni. Þetta á alveg að vera séns og ef vörnin getur haldið sínu hreinu gætum við laumast burtu með sigur. Lykillinn að þessum leik verður að halda þeim niðri því ef þeir skora 1-2 eigum við ekki séns. 0-1 líklegast ef við vinnum að mínu mati.

  4. Vil gera smá athugasemd við þessa setningu í upphituninni:

    “Rodgers vill klárlega fara áfram í þessari keppni og með sigri ættum við að ná því, eins gæti jafntefli dugað fari svo að Anzi sigri Young Boys í Sviss, sem er ólíklegt þar sem Rússarnir eru þegar komnir áfram.”

    Ef Liverpool vinnur þá komumst við áfram. Ef YB vinna líka þá er Liverpool, YB og Anzi jöfn með 10 stig. Liverpool myndi þá vinna riðilinn því við höfum fengið 7 stig úr innbyrðisviðureignum þessara liða Anzi 6 og YB 4.
    Ef við gerum jafntefli þá er nóg að YB geri líka jafntefli því innbyrðis viðureignirnar eru okkur í hag.
    Ef við hins vegar töpum þá verðum við í neðsta sæti sama hvernig hinn leikurinn fer.

  5. ef LFC vinnur og YB mundi vinna Anji (stafsett skv. uefa.com) 2:0 þá er Anji með jafnt úr innbyrðisleikjum gegn LFC og YB. LFC yrði með betra innbyrðis gagnvart YB. Er ég að rugla eða færi Anji þá ekki áfram með LFC þar sem innbyðismarkamunur þeirra er núll en LFC með plús 2 og YB mínus 2.

  6. Komið út hverjir fóru til Ítalíu. Gerrard, Lucas, Johnson og Agger urðu eftir. Allir aðrir heilir fóru með. Bara Kelly og Borini meiddir. Veit ekkert um Joe Cole, er sama.

    Líklegt lið: Reina – Wisdom, Skrtel, Carra, Enrique – Sahin, Henderson, Allen/Shelvey – Suso, Suarez, Downing.

    Þetta lið á alveg að geta eitthvað í fótbolta.

  7. Komast áfram og fá pening í kassann.
    Nota samt áfram unga stráka í þessari keppni, það hljómar vel 🙂

  8. Við Liverpool aðdáendur höfum það svo svakalega gott að geta farið inn á svona síðu eins og kop.is
    Virkilega gaman að lesa svona upphitanir.
    Vel gert.

  9. Við megum bara alls ekki gleyma því að algerlega óháð okkar eigin skoðunum á Europa League þá er það einfaldlega staðreynd að leikmenn frá mörgum öðrum löndum í álfunni horfa til þeirra liða sem ná árangri.

    T.d. talaði Jerzy Dudek um 5-4 sigurinn okkar í Dortmund á sínum tíma hafi minnt hann töluvert á LFC. Var í Ungverjalandi nú um nokkurra daga skeið og þar þekktu menn bara þau lið sem eru í Evrópukeppnunum, en W.B.A. reyndar líka út af Gera.

    Þess vegna held ég að gott væri að við kæmumst áfram í keppninni, þar sem næsta umferð verður eftir janúargluggann þá ættum við að vera komin í betri mál hjá liðinu þegar sá dagur rennur upp.

    Spái jafntefli, 1-1 sem mun duga því Rússarnir munu ekki tapa í Sviss.

    Frábær Babú, frábær!

  10. Þu hefur gert margar frabærar upphitanir babu en þessi er sennilega su allra besta, alveg frábær.

    Eg vil lika vinna þennan leik og spai 0-1 og ætli suarez klari þetta ekko fyrir okkur

  11. Veiku hlekkirnir skildir eftir heima. Restin tekur spagettímafíósana. Brendan búinn að lofa sigri.

  12. Frábær upphitun og er maður nokkuð spenntur fyrir þessum leik því ég lít á þetta sem nokkurskonar úrslitaleik, Verðum bara að vinna hann, vona að þeir komi grimmir til leiks og með því hugarfari að vinna. Vil sjá sterkasta liðið sem Liverpool getur boðið upp á inn á í þessum leik, þeir eiga alvega að getað einstökum sinnum spilað 2 leiki í viku, allvega virðast önnur lið geta það.
    En hvernig líst ykkur á þessa frétt;
    https://www.facebook.com/photo.php?v=324122887703269&set=vb.162090440479202&type=2&theater

  13. Góð og ítarleg umfjöllun, þetta udinese lið er nokkuð skemmtilegt en ætti ekki að vera mikil fyrirstaða að því gefnu að þeir eiga ekki séns á að komast áfram. Væri til í að sjá liðið nokkuð blandað:

    Reina

    Wisdom Skrtel Coates Enrique
    Henderson Sahin
    Shelvey
    Suso Suarez Downing

    Sahin þarf að fá fleiri sénsa, mjög hæfileikaríkur leikmaður sem þarf að spila í gang eins vil ég sjá Shelvey meira í liðinu. Leikurinn fer 1-3 þar sem Udinese kemst yfir eftir vond mistök frá Downing. Liverpool gerir síðan hið ómögulega og kemur til baka með mörkum frá Downing, Suarez og Shelvey!

  14. Bíddu er það alveg öruggt að Udinese komist ekki áfram? Jú vissulega eru þeir með verri árangur gegn Young Boys en eru með betri árangur gegn Liverpool ef þeir vinna. Á sama tíma væri Liverpool með betri árangur gagnvart Young Boys en verri gagnvart Udinese.

    Ef Udinese vinnur og Makkakkala vinnur ungu strákana verður það ekki markatala sem ræður ríkjum?

  15. Frábær upphitun.

    Nr. 17 já fari hann þá er hægt að fá góðan pening fyrir hann núna, ekki að ég vilji sjá eftir honum en hann hefur verið svolítið mistækur undanfarið vonandi bara tímabil sem er lokið.

    Ekki sammála meistara Babú með evrópu keppnina. Finnst að við eigum að halda áfram og vinna sem flesta leiki, ungir leikmenn fá góða reynslu. Reyndar er rétt að hópurinn er þunnskipaður og því meira leikja álag á menn. Komi 2-3 góðir leikmenn sem smellpassa inní hópinn í næsta glugga þá sé ég enga ástæðu að við ættum ekki að vera í þessari keppni. Reynsla og peningar í kassann hljóta að skipta máli en að sama skapi má leikja álagið þá koma niður á deildinni (verðum að drullast uppí að minnstakosti 5-6 sæti það ætti að vera ásættanlegt).

  16. Það eru svo margir snillingar hérna sem nota sopcast til þess að horfa á boltann, málið er að það hefur alltaf virkað vel hjá mér en núna byrjar það alltaf að loadast og svo crashar það nánast í hvert einasta sinn sem ég prófa það.
    Hefur einhver hérna lent í þessu ?

  17. Mér finnst eins og ég sé að fara í próf á morgun eftir að hafa lesið þetta 🙂
    Glæsileg upphitun

  18. Þetta er nú meira grínið þetta Chelski lið!

    Var að horfa á highligts úr leiknum hjá þeim og FCN , þessir menn brosa varla þótt þeir séu að vinna 6-1 í meistaradeildinni á heimavelli!

    Virðist ekki vera svo gaman hjá Júdasi í London þótt hann sé að spila í meistaradeildinni og meiraðsegja skorandi mmörk eftir allt saman.

    http://www.101greatgoals.com/gvideos/chelsea-6-fc-nordsjaelland-1/

  19. Sammála Bjamma, próf á morgun. Babú brunabíll, yndisleg lesning 🙂

    Andskotinn hafi það !!

  20. Vá. Bravó!
    Stórkostleg lesning.

    Eftir að hafa lesið um Udinese og stjörnu þeirra, Di Natale, langar mig bara að halda með þeim………. fyrir utan leikinn á morgun.

    Vona innilega að við tökum leikinn, alveg sama hvernig. Vonandi að Suarez verði í réttum skóm og að vörnin haldi út leikinn.

  21. Ætla að eyða mestum tíma mínum í að hrósa og hampa þessari dæmalausu upphitun. Þetta hugsa ég að sé besta upphitun fyrir leik sem ég man eftir, og er ég 168% viss um það að ef einhver annar fengi það verkefni í hendurnar að afla heimilda um Udinese og skila því frá sér sæmilega kæmist sá hinn sami ekki með stóru tásina sína þar sem Babu hefði hælana.

    Ætla samt að spá 1-2 fyrir Liverpool.

  22. Glæsileg upphitun Babu !

    Ég spái þessum leik 1-1 og vonandi er það nóg fyrir okkur til þess að komast
    áfram í þessari keppni. Downing eða Cole með mark LFC.:-)

  23. 10 Johnson fór með út.

    Annars hefur maður blendnar tilfinningar gagnvart þessari blessuðu Evrópudeild en LFC á að fara í alla leiki til að vinna.

    Þessvegna spái ég 1-3. Udinese kemst yfir en Lúí Súí skorar tvö og Shelvey eitt.

  24. Flott upphitun eins og alltaf!

    Ég hvet alla til að mæta á Górilluna í kvöld, sem og fyrir alla aðra Liverpool leiki.

    Ég hef tekið eftir því að mætingin hefur of oft ekki verið uppá marga fiska sem mér finnst vera nokkuð slæmt.

    Sumir hverjir hafa kvartað yfir því að það sé ekki Liverpool leikur á öllum skjám þegar við spilum, en ég hvet menn aðeins að hugsa þá hugsun til enda. Þegar mætingin er ekki nema hálfur staðurinn af púllurum og svo restin einhverjir aðrir, af hverju ættu Górillumenn ekki að bjóða uppá annan leik samhliða Liverpool leiknum?

    Miklu frekar er að við Púllarar fyllum staðinn, myndum stemningu og þrýstum þannig á Górillumenn að sýna leikinn á öllum skjám, enda mætingin eftir því!

    Ég tek það fram að ég er á engan hátt viðriðinn stjórn klúbbsins, né Górillunni, þó að maður sé fastagestur þar.

    Að lokum, menn eiga ekki að bara fara á Górillunna þegar við erum bara að spila við stærstu liðin og erkifjendurnar. Það að Liverpool FC er að spila á að vera nógu góð ástæða til að fara á heimavöllinn okkar!

    YNWA
    Andri Freyr

  25. Lucas var að stíga upp úr meiðslum og svo viljum við hafa hann ferskan í deild 🙂

  26. The Reds team in full is: Reina, Johnson, Enrique, Carragher, Skrtel, Henderson, Sahin, Allen, Suso, Downing, Suarez. Subs: Jones, Cole, Coates, Sterling, Shelvey, Assaidi, Wisdom.

  27. Helvíti góður pistill! Þið sem stjórnið þessari síðu eruð frábærir!

    Ég hef verið í vandræðum með þetta fjandans Sopcast svo það væri dásamlegt ef einhver setti góðan link hér inn (segir einn sérplæginn)! Áfram Liverpool!!!

  28. Byrjunarliðið komið. Af heimasíðu LFC.
    Luis Suarez starts for Liverpool in their crucial Europa League clash with Udinese in Italy tonight – listen live online from 6pm GMT.

    The Uruguay striker leads the line, though Brendan Rodgers makes five changes to the side that beat Southampton 1-0 at the weekend.

    The Reds team in full is: Reina, Johnson, Enrique, Carragher, Skrtel, Henderson, Sahin, Allen, Suso, Downing, Suarez. Subs: Jones, Cole, Coates, Sterling, Shelvey, Assaidi, Wisdom.

  29. Takk fyrir mig ! Mjøg frædandi og skemmtilegur lestur. Flott leid sem Udinese er ad fara og ekkert nema virding fyrir tví hvernig teir gera tetta. Og Di Natale – stór madur í litlum búk 🙂

Opin umræða

Liðið gegn Udinese