Mánaðarskipt greinasafn: jún Á

Roy Hodgson. Ekki svo slæmur? (annar hluti)

Í fyrra var verið að steggja mig og vinir mínir skrifuðu inná þessa síðu lofræðu um Roy Hodgson, sem að menn áttuðu sig á endanum á að væri djók: Roy Hodgson. Ekki svo slæmur?

Síðan þá hefur Hodgson verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins og fór með þá á EM þar sem þeir unnu Úkraínu og Svíþjóð og spiluðu almennt séð ferlegan fótbolta, sérstaklega í leiknum þar sem þeir duttu út gegn Ítölum. Hefði Capello stjórnað liði sem væri yfirspilað svona af Ítölum þá hefði hann verið tekinn af lífi.

En það gerist ekki með Uncle Roy. Hann er dýrkaður og dáður af ensku pressunni og svo virðist sem að ekkert sem gerðist á EM hafi fengið þá til að efast um hæfileika hans.

Toppurinn held ég að sé þessi grein eftir Henry Winter: England manager Roy Hodgson has restored pride and won over fans. Þessi grein er svo stjarnfræðilega fáránleg að það er varla hægt að merkja mikinn mun á henni og færslunni sem að vinir mínir skrifuðu í gríni um Hodgson.

Þetta er einfalt. Enska pressan á það skilið að Roy Hodgson sé landsliðsþjálfari þeirra. En það eru ekki nokkrar líkur á að þetta enska landslið muni fara langt á stórmótum undir stjórn Roy Hodgson.

Treyjusalan á Lægraverð.is

Eins og við sögðum frá fyrir mánuði býður LægraVerð.is upp á sölu á nýju Liverpool-treyjunum og öðrum Liverpool-fatnaði frá Warrior. Nú stendur yfir forsala á nýju varatreyjunni, þeirri svörtu og gráu, og fer hún í almenna sölu strax eftir helgi.

Treyjan er seld á kr. 10.999 í forsölu sem er frábært verð. Ég hvet þá sem ætla að fá sér þessa treyju til að nýta sér forsöluna hjá LægraVerð.is.

LægraVerð.is bað mig einnig um að koma því á framfæri að barna-, langerma- og konutreyjurnar í aðalbúningnum verða nú fáanlegar á Íslandi, en því miður varð töf á framleiðslunni frá Warrior og þar af leiðandi voru fyrrgreinar vörur ekki til í allri Skandinavíu. Hins vegar eru þessi vandræði að baki og munu Merkjavörur ehf., sem er heildverslunin fyrir Ísland, afgreiða ofangreindar vörur á föstudag eða mánudag, eða sama dag og varabúningurinn er settur í sölu á heimsvísu.

E.s.
Það skal tekið fram að þegar við fjölluðum fyrst um LægraVerð.is fyrir mánuði vorum við ekki á neinn hátt tengdir því fyrirtæki. Nú eru það hins vegar að auglýsa á síðunni hjá okkur en það breytir því ekki að við höfum sjálfir verslað treyjur hjá því og getum hiklaust mælt með, hvort sem það auglýsir hjá okkur eða ekki.

Opin umræða – Miki Roque

Ég veit ekki með ykkur, en þetta finnst mér vera yfirgengilega sorgleg mynd:

Godwin Antwi, fyrrum unglingaliðsleikmaður Liverpool, birti myndina á Twitter-síðu sinni í gær. Á myndinni eru þeir saman, frá vinstri, Miki Roque, Besian Idrizaj, Antwi og eldri maður fyrir framan þá. Myndin er tekin þegar þeir léku saman í unglingaliði Liverpool undir handleiðslu Rafa Benítez.

Besian Idrizaj lést úr hjartaáfalli fyrir tveimur árum og á sunnudag lést Miki Roque úr krabbameini. Þeir voru víst góðir vinir, þessir þrír. Nú er Antwi einn eftir. Ég man eftir að horfa á þá leika sína fyrstu leiki með aðalliði Liverpool. Það er ekkert svo langt síðan.

Ég mæli með að menn lesi frábæra grein Andy Mitten um áhrif fráfalls Roque á spænska knattspyrnu og sérstaklega Carles Puyol, sem kom úr sama smábæ og Roque og hafði greitt fyrir krabbameinsmeðferð hans. Þá minntist Rafa hans í lokin á pistli sínum í morgun.

Stundum er gott að setja fótboltann í samhengi.

Allavega, þetta er opinn þráður. Ræðið það sem þið viljið. Það er enn nákvæmlega ekkert að frétta af Liverpool eða Gylfa Sigurðssyni.

Gerrard leiðir hópinn í kvöld, slúður og opin umræða

Tiltölulega yfirvegað slúður þennan daginn og satt að segja lítið nýtt.

Gylfa-gate heldur áfram og leitt er að vitna í þessa frétt úr Daily Mail sem ég þó geri þar sem að þar kemur fram nokkuð líkleg frétt um að Spurs séu komnir sterkt inn í myndina hjá Íslendingnum. Það virðist allavega ljóst að það er snurða á LFC þræðinum.

Nokkrir „sorparar“ hafa ákveðið að Skrtel sé nú „fórnanlegur“ fyrir þær 20 milljónir sem City virðist tilbúið að bjóða í hann þar sem við eigum Coates, Kelly og Carra til að spila með Agger. Er nú ekki alveg viss um það.

Innkomuslúður er ekkert nýtt. Svei mér ef að blöðin eru ekki að reyna að fina alla leikmenn sem Rodgers hefur þjálfað og velta því upp að hann sé að ná í þá aftur. Borini og Sturridge detta reglulega upp og eitthvað heyrðist í gær af Joe Allen umræðu. Ég held nú reyndar að Rodgers sé ekki bara að horfa í fyrri lærisveina heldur að fara yfir hópinn sem hann hefur og hvað vantar. Reikna með að við verðum með seinni skipunum í leikmannakaupum en þó sjáum við einhverja nýja leikmenn komna fyrir 20.júlí þegar haldið verður til USA.

Í kvöld heldur svo Captain Fantastic inn á EM-sviðið með enskt landslið í kjölfar sér. Johnson mun örugglega byrja en netumræðan bendir til að Wellbeck verði í liðinu en ekki Carroll. Ég reyndar held að Hodgson muni nú skoða trukkinn alvarlega fyrir kvöldið því ég held að Ítalirnir kvíði því að mæta tröllinu.

Í kvöld held ég með enskum, þetta er orðið liðið hans SG og með því held ég klárlega, væri bara frábært að sjá Þýskaland — England í undanúrslitunum og það er mjög jákvætt fyrir Liverpool FC að fimm sex úr okkar leikmannahópi séu að upplifa jákvæða reynslu í stórleikjum.

Annars er þráðurinn opinn og endilega skjóta hér inn ef að einhver hefur fundið „juicy“ hluti sem ég ekki fann!

EM, Hillsboroughfréttir og leikmannaslúður – opinn þráður

Á þessum ágæta miðvikudegi er ekki úr vegi að ræða aðeins stöðuna sem uppi er í EM þetta sumarið. Englendingar tryggðu sér þátttöku í 8 liða úrslitum með sigri á Úkraínu í gær þar sem langbesti enski leikmaðurinn, Steven Gerrard, sigldi sinni skútu í höfn. Í kjölfarið hefur töluverð umræða farið í gang um gæði Captain Fantastic í þessu móti og almennt.

Skemmtilegast finnst mér að vísa í ummæli Patrick Vieira sem lýsti hrifningu sinni á Gerrard og sagðist aldrei hafa skilið vangaveltur um það hver ætti að verða fyrirliði Englands. Fyrirliði liðs eigi að vera sá sem er leiðtoginn og sýnir öðrum hvernig eigi að taka á málum og Gerrard hafi í sínum huga alltaf verið sá maður í Englandi. Flott umsögn um okkar mann, mikið sem ég vona að hann haldist heill í vetur og sýni okkur sínar bestu hliðar. Fer ekki ofan af því að Gerrard er enn í topp fimm sem miðjumaður í heiminum – mitt mat allavega.

Í dag birtist svo í staðarblaðinu Liverpool Echo staðfesting á því að þann 12.september verða birtar skýrslur um Hillsborough-slysið til fjölskyldna þeirra sem eiga um sárt að binda í kjölfar þess hörmulega atburðar. Hillsborough Justice Campaign (HJC) á enn eftir að gefa út sín viðbrögð, en í tístum frá þeim virðist gleði með það að staðið verði við tímasetningu þessa atburðar haustið 2012. Það stefnir í að áratuga barátta fyrir því að allar upplýsingar um slysið verði uppi á borði sé að ná takmarki sínu. Það er glæsilegt.

Leikmannaslúðrið í dag snýst nú mest um þá sem eru nú þegar í Liverpoolborg. Fyrst er að nefna að snillingurinn Daniel Agger var í viðtali í heimalandi sínu og lét þar í ljós áhuga sinn á að framlengja samning sínum hjá félaginu. Núverandi samningur á eftir tvö ár, en Agger segist spenntur fyrir framtíðinni hjá klúbbnum og vill vera áfram. Bara snilld.

Ekki heyrist neitt svar frá félaga hans Skrtel við leiðindaorðrómi alls konar sorpblaða um að hann vilji fara, nú er verið að nefna Dakestan-risann Anzhi sem er undir stjórn Guus Hiddink, en auðvitað á maður ekkert að vera að láta gulu pressuna ergja sig. Mig langar nú samt til að sjá svona ummæli frá Skrtel í kjölfar Danans…

Enn eitt sumarið er svo umboðsmaður Aquilani einn vinsælasti viðmælandi íþróttasíðna, nýjasta sem sú mannvitsbrekka tilkynnir er að Alberto muni mæta til æfinga á Melwood í júlí, hann muni alls ekki samþykkja samningsriftun og ekkert lið sýni honum nú áhuga. Svei mér þá, ég vorkenni þessum ágæta dreng að eiga svona hauk í horni sem umbinn er. Hann röflar stanslaust, lengi vel var það að hann yrði væntanlega áfram hjá liðinu sem hann væri í láni hjá. Þegar það virtist erfitt þá fer hann í að tala um að verið sé að „leita lausna“ til að ná samningi þó lánsliðið hafi ekki spilað viðkomandi nóg til að virkja kaupklásúlu. Svo fer hann að tala um að „eitthvað verður væntanlega að frétta fljótlega, en auðvitað á Liverpool hann ennþá“. Svo þegar allt virðist í vörðurnar rekið koma ummæli eins og þessi.

Aquilani mætir því til æfinga í júlí hjá nýjum stjóra og enn mun umræðan fara í gang um hvort hann sé nógu góður í þetta eða hitt þegar öllum er ljóst að hann vill fara heim til Ítalíu þar sem fjölskyldan hans býr. Ef að umbinn hans nær því ekki í gegn þá hlýtur eitthvað að vera að. Ég held að Aqua-man sé nægilega góður til að spila með góðu liði í Serie A og hann ætti bara að reka gaurinn í gær og ráða sér nýjan umba. Allir aðdáendur Liverpool held ég væru alveg til í að sjá hann í alrauðum búningi, en það er svo morgunljóst að það vill Alberto ekki nema að allt annað bregðist og því vona ég innilega að þessi farsi klárist í sumar.

Alltaf er svo fínt að kíkja á slúðurhornið í Liverpool Echo til að sjá á hvaða blaður þeir trúa. Þar er frétt um að við séum að skoða Aly Cissokho sem er jákvætt en afar neikvætt á móti er að AC Milan sé að skoða kaup á Pepe Reina. Ég held reyndar í dag að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af Pepe, hann virðist afar jákvæður í garð nýja þjálfarans.

Ekkert nýtt af meistara Gylfa ennþá, vonandi klárast það mál á næstu dögum, því ef að Gylfi er ekki að koma þarf Rodgers að fá tíma fyrr en seinna til að horfa í aðrar áttir með sóknartýpu.

En annars er þráðurinn opinn, en vert er líka að benda á að ef að menn hyggjast ræða meira um gæði ungra miðjuleikmanna hjá LFC þá er upplagt að skoða þráð hér að neðan en ekki lita umræðu við þennan pistil takk…