Mánaðarskipt greinasafn: maí Á

Brendan who?

Brendan Rodgers verður næsti stjóri Liverpool Football Club. Kenny Dalglish, goðsögn meðal goðsagna félagsins var rekinn til þess að maður sem var rekinn frá Reading árið 2009 gæti komið inn í staðin.  Ekki nóg með það heldur líst mér bara þræl vel á þessi skipti og það hvernig FSG er að breyta félaginu.

Það að reka Dalglish frá Liverpool er eitthvað það umdeildasta sem hægt er að gera hjá Liverpool, það er oft fín lína milli hugrekki og heimsku og aðeins tíminn mun leiða í ljós hvoru megin þessi ákvörðun FSG lendir. Síðasta tímabil ásamt tímabilinu þar á undan gefur nýjum eigendum engu að síður góða ástæðu til að vilja breytingar hjá félaginu og það að fá tiltölulega óreyndan Brendan Rodgers í stað Roy Hodgson sem FSG þurfti fyrst að vinna með og svo Kenny Dalglish er nálægt því að vera eins mikil breyting og hægt er að taka. Sérstaklega ef skoðað er muninn á Hodgson og Rodgers.

Því meira sem ég hef lesið um Brendan Rodgers síðan hann kom aftur inn í myndina því betur lýst mér á hann. Eins finnst mér þessi ráðning gefa til kynna að FSG vissi vel hvað þeir vildu og vilja innleiða hjá klúbbnum. Mig langar aðeins að reyna að koma þessu yfir á Íslensku og skoða feril og hugsunarhátt Rodgers betur.

Brendan Rodgers er fæddur á í Antrim, litlu þorpi á Norður – Írlandi og smitaðist ungur af áhuga föður síns af Hollenskum og Braselískum fótbolta áttunda áratugarins.  Hann var liðtækur knattspyrnumaður og  spilaði með unglingalandsliðum N-Íra og fór m.a. á trial hjá United og var á atvinnumannasamningi hjá Reading þegar hann ákvað þá að hann væri ekki nógu góður til að ná langt sem leikmaður og vildi frekar einbeita sér að því að verða eins góður og hann gæti orðið sem þjálfari. Hann var á þessum tímapunkti tvítugur með konu og barn á leiðinni og fékk vinnu hjá Reading sem þjálfari og vann sig upp hjá þeim.

Telegraph fjallaði um Rodgers og Swansea fyrir úrlsitaleik þeirra gegn fyrrum lærisveinum Rodgers í Reading um sæti í Úrvaldseildinni 2011 þar sem Rodgers útskýrði aðeins leikstíl sinn og rætur hans. Eins tóku þeir hús á honum í janúar 2012 og hef ég þessar greinar sem og fleiri aðeins til hliðsjónar til að byrja með (líkt og reyndar fleiri sem eru í dag að fjalla um Rodgers). Ákaflega upplýsandi og góðar greinar btw.

“I was brought up in a traditional British way, 4-4-2 and kick the ball up the pitch,”

“Whenever I was playing as a youth international with Northern Ireland we would play Spain, France, Switzerland and the like. And we were always chasing the ball. In my mind, even at that young age, I remember thinking ‘I’d rather play in that team than this team’.”

Þetta er að mínu mati einn besti kosturinn við Rodgers og eitthvað sem gerir hann að afar óvenjulegum breskum þjálfara. Hann lærði í skólum enska og skoska knattspyrnusambandsins og fór auk þess oft til meginlands Evrópu til að auka þekkingu sína. Sérstaklega er hann hrifinn af Spáni, hann talar tungumálið og fór oft til Barcelona, Valencia, Sevilla og Betis sem hann segir vera bestu fótboltaskóla í heiminum og var auk þess í Hollandi. Hjá Barcelona vann hann mikið með og talaði við þjálfarana og drakk í sig allann fróðleik um þeirra módel af fótbolta og hefur alltaf notað það sem grunn í sinni þjálfun síðan. Hann var mikið frá ungri fjölskyldu sinni sem hann segir hafa verið erfitt en var á móti alltaf að reyna öðlast reynslu og læra eitthvað nýtt sem sýnir gríðarlegan metnað.

Roy Hodgson var reyndar áratugum saman að þjálfa í Evrópu en öfugt við Rodgers fór hann meira í lönd eins og Svíþjóð, Noreg, Danmörku, Finnland og Sviss og alltaf til að troða sínum hugmyndum að og hefur svo sannað það þegar hann snýr aftur að hann hefur ekki lært nokkurn skapaðan hlut.  M.ö.o.  ferilsskrá Rodgers sem hefur aldrei stýrt liði á megin landi Evrópu er meira spennandi en þjálfara sem hefur ca. 30 ára reynslu í Evrópu.

Rodgers orðaði þetta svona fyrir nákvæmlega einu ári síðan:

That was the ideology of football that I liked. I educated myself, watching, studying and learning. I knew my basic principles but because I had stopped playing early I had the time to go and learn from the very best. And the model was always Spain.”

Hljómar eins og tónlist í mín eyru enda þarf engan vísindamann til að sjá hvaða land er stungið af í þróun knattspyrnunnar. Spánn er Evrópu og heimsmeistari landsliða og U21 árs liðið vann EM líka. 5 af 8 liðum í undanúrslitum Europa League og Meistaradeildarinnar á þessu ári voru spænsk. Ásamt því auðvitað að besti fótboltinn og árangur Liverpool sl. 20 ár var undir stjórn Spánverja með lið hlaðið Spánverjum. Raunar sýnist mér að metnaður Benitez og Rodgers sé ekki svo ýkja ósvipaður þó þeir séu líklega gjörólíkir annars og af sitthvorri kynslóðinni.

Það eru tveir ungir stjórar í ensku úrvalsdeildinni sem hafa verið að ná árangri með mjög litlum tilkostnaði og aðhyllast báðir spænska módeilið. Ef þið hugsið þetta þannig þarf það líklega ekki að koma á óvart að FSG hafi fyrst leitað til þessara manna þegar þeir fóru að velja nýjan stjóra. Báðir eiga það sameiginlegt að vera ungir og eiga (vonandi) eftir að toppa á sínum ferli. Er það ekki eitthvað sem FSG varð frægt fyrir að gera hjá Boston Red Sox og sagðist vilja gera hjá Liverpool líka?

Barcelona módeilið hafði mikil áhrif á Rodgers og mótaði hans hugmyndir, hann vill sjá sín lið spila þessa hápressuvörn þegar andstæðingurinn er með boltann en um leið geta haldið honum innan liðsins og þannig hvílt sig í sókninni. Þetta var m.a. hugmyndin þegar hann tók við Swansea:

“My idea coming into this club was to play very attractive attacking football but always with tactical discipline,”

“People see the possession and they see the penetration, the imagination and the creativity, but we’ve had 23 clean sheets this year. So in nearly 50 per cent of our games we haven’t conceded a goal.

 

Við annað tækifæri sagði hann þetta sem passar líka vel við

“I like to control games. I like to be responsible for our own destiny. If you are better than your opponent with the ball you have a 79 per cent chance of winning the game.

„For me it is quite logical. It doesn’t matter how big or small you are, if you don’t have the ball you can’t score.”

Hjá Swansea hefur markmaðurinn spilað sem sweeper og vörnin er mikið hærra uppi en t.d. vörn Liverpool hefur verið. Reina er t.a.m. líklega að taka araba-flikk-flakk-heljarstökk yfir fréttum dagsins enda ætti þessi varnarleikur að henta honum mikið betur og sanniði til hann verður aftur einn besti markmaður í heimi á næsta ári og ekki eins oft í baráttu við sóknarmenn andstæðinganna alveg inni á markteig. Swansea hélt búrinu 13 sinnum hreinu á þessu tímabili sem er mjög gott m.v. mannskap og þetta er augljóslega engin tilviljun. Rodgers talar um að hjá Swansea séu 11 leikmann inná í einu á meðan flest önnur lið hafa tíu leikmenn plús markmann.

Svona útskýrir hann t.a.m. kaupin á markmanni Swansea sem í dag eru talin ein bestu kaup tímabilsins

“British people had said to me he was too small, which was good for me because it probably meant he was good with his feet. When we got the chance to see him I realised he was perfect. He was 27, humble, and makes saves that a 6ft 5in keeper won’t make because he’s so fast. But, importantly, he can build a game from behind. He understands the lines of pass.”

Á móti held ég að Jamie Carragher sé að renna yfir atvinnuauglýsingarnar núna eða eins og einhver orðaði það á Twitter í dag:

„Somewhere, in a Blundellsands mansion, a Bootle-born defender is practicing his short passing. Just 9 footballs in next door’s garden so far“

Rodgers líkt og kollegar hans á Spáni vill spila boltanum út úr vörninni og þó þetta virki oft glæfralegt á köflum er það staðreynd að heilt yfir tímabil skilar þetta betri árangri heldur en að bomba boltanum ítrekað fram til andstæðinganna. Svipaða sögu má segja um hornspyrnur t.d. sem skila afar litlu eins og við þekkjum of vel eftir síðasta tímabil en það er efni í annan pistil og aðra umræðu.

Þetta litla dæmi er t.a.m mjög áhugavert og eitthvað sem ég vona að hann geri helling af næsta tímabil, þ.e. að svara spekingunum sem fjalla um leikina og grafa undan „visku“ þeirra.

“People will jump on us whenever we make a mistake. We had it against Manchester United. Angel Rangel had the ball at his feet and the commentary after the game is that he’s got to kick it into row Z.

„He had time on the ball, why would he smash it up the pitch? He just made a mistake. We need to give our players confidence in their ability. To play this way you can have no fear. The players respect that if there are any goals conceded through playing football I take the blame“

Allir leikmenn liðsins þurfa að vera vel spilandi með trú á sjálfum sér og verða að geta treyst á samherja sína. Kerfið takmarkast mjög mikið við veikasta hlekkinn eins og Rodgers sagði sjálfur:

„That’s something that we’ve then been able to roll out to here and defensively we play with high pressure and high aggression. Everyone knows their function within the system. It is like an orchestra, if one of them isn’t doing it, you don’t hit the right note.”

Þetta snýst samt ekki allt um að halda boltanum og alveg eins og við höfum séð hjá Barcelona þá gengur þetta kerfi mikið til út á brjálaðan varnarleik þegar liðið er ekki með boltann. Allir pressa og liðið verst sem ein heild. Eitthvað sem ætti að falla vel í kramið hjá gömlum stuðningsmönnum Liverpool sem tala enn um Ian Rush og hvernig hann var frábær sem fyrsti varnarmaður liðsins þegar Liverpool var ekki með boltann. (Það er ekkert verið að finna upp hjólið btw. hjá hvorki Barca eða Swansea, fótboltinn er bara að þróast).

“People don’t notice it with us because they always talk about our possession but the intensity of our pressure off the ball is great. If we have one moment of not pressing in the right way at the right time we are dead because we don’t have the best players. What we have is one of the best teams“.

Lokaorðin í viðtali Rodgers við Telegraph í jan 2012 eru síðan ákaflega góð og endilega hafið Luis Suarez í huga þegar þið lesið þennan sannleik og heimfærið á Liverpool:

“The strength of us is the team. Leo Messi has made it very difficult for players who think they are good players. He’s a real team player. He is ultimately the best player in the world and may go on to become the best ever. But he’s also a team player.

„If you have someone like Messi doing it then I’m sure my friend Nathan Dyer can do it. It is an easy sell.”

Brendan Rodgers er fæddur árið 1973 sem gerir hann 39 ára, m.ö.o. SSteinn er orðinn svo gamall að stjóri Liverpool er yngri en hann. Hann er vissulega reynslulítill en hann er alls ekkert óþekktur innan knattspyrnuheimsins og hann var ekkert að detta fyrir tilviljun á eitt gott tímabil hjá Swansea. Hann hefur unnið sig mjög skipulega uppá við og alveg lent í mótlæti rétt eins og meðbyr undanfarin ár.

Hann var allt í allt 14 ár hjá Reading, kom þanngað 18 ára sem leikmaður og vann sig upp sem þjálfari innan félagsins. M.a. eins og áður segir með því að kanna heiminn aðeins utan Englands og hugsa jafnan út fyrir boxið.  Á endanum var hann farinn að stjórna akademíu Reading þegar Steve Clarke nokkur, þáverandi aðstoðarþjálfari Chelsea stakk upp á honum fyrir unglingalið Chelsea. Þetta var árið 2004 eða sama ár og Jose Mourinho tók við Chelsea og Roman var á fullu í sinni uppbyggingu með félagið.

Mourinho hefur það mikið álit á honum að hann líkti honum við sjálfan sig og innan tveggja ára var hann tekinn við varaliði Chelsea. Rodgers hefur eðlilega mikið álit á Morinho líka og orðaði þar svona hvernig það var að vinna undir hans stjórn:

“I always say that working with Jose was like going to Harvard University”.

Hann vill samt alls ekki kannast við að vera ný útgáfa af honum eða eingöngu af Mourinho skólanum og raunar er Guardiola engu minni fyrirmynd eins og leikstíll Swansea gefur til kynna. Svona orðaði hann Mourinho tenginguna í maí 2011:

“I’m not sure how long the protege stuff will go on for. I’m proud that he saw something in me, but we’re totally different. He’s one of the most charismatic characters in the world; I’m just a rough Irishman who’s trying to carve out a career as a young manager.

‘‘I’ve always had to do it the hard way anyway and there’s no doubt that if I get to the Premier League people will say it’s him who’s got me there.

„I hope over time, and I’m not being disrespectful to him, I’ll be seen as my own man and someone who has achieved on his own merit.”

Við getum líklega lofað Rodgers því að allt tal um Mourinho hefur að mestu dáið út og stuðningsmenn Liverpool eru ekkert að fara taka það upp af fyrra bragði.

Mourinho á samt sinn þátt í því að Rodgers tók skrefið og varð stjóri hjá aðalliði. Hann vissi að Rodgers vildi fara hærra upp og stakk upp á honum þegar Watford var að leita að nýjum stjóra árið 2008. Hjá þeim vann hann aðeins 2 af fyrstu 10 leikjunum en náði þeim þó á skrið eftir það og endaði tímabilið ágætlega. Það vel í raun að hans gamla lið Reading fékk hann til að koma aftur og stýra aðalliðinu þegar Steve Coppell fékk leið á fótbolta, Reading borgaði Watford 1m.p. í bætur sem er nú töluvert í Championship deildinni og hvað þá fyrir óreyndan þjálfara. Eins voru stuðningsmenn Watford allt annað en sáttir. Continue reading

Opinn þráður – Rodgers núna (uppfært)

BBC staðfesta í dag að FSG hafa sett sig í samband við Brendan Rodgers hjá Swansea á nýjan leik og að hann er til í að ræða við þá í þetta sinn eftir að hafa neitað þeim fyrir tæpum tveimur vikum. Duncan Jenkins, sem þykir nokkuð skotheld heimild, staðfesti þetta einnig á Twitter fyrr í dag.

ESPN slógu því upp í dag að Liverpool hyggist kynna nýjan knattspyrnustjóra (og hugsanlega fleiri nýja starfsmenn) á föstudag og að það verði ekki gert fyrr af því að þann dag er Warrior-samningurinn opinberlega kominn af stað og því hægt að hafa vörumerki Warrior með þegar kynningin fer fram.

Hér er skýrimynd af því hvernig Rodgers stökk fram fyrir Roberto Martinez í goggunarröðinni og hér er ágætis grein um það af hverju Rodgers gæti hentað Liverpool vel.

Slúðrið heldur áfram. Það virðist styttast í að hlutirnir verði ljósir. Ræðið það sem þið viljið.

Uppfært (Maggi)

Allir miðlar flytja nú fréttir af því að í dag hafi Swansea gefið Brendan Rodgers tækifæri á að tala við Liverpool um starf framkvæmdastjóra og í framhaldi af því samtali hafi Rodgers tilkynnt formanni Swansea, Jenkins að nafni, að hann óski eftir að fá að taka tilboði um starf á Anfield.

Nú virðist bara vera spurningin um þær skaðabætur sem Liverpool FC mun þurfa að reiða fram til að ná Rodgers, talað er um u.þ.b. 5 milljónir punda.

Eigum við ekki að tippa á að málið verði klárað á morgun og strákur verði svo tilkynntur formlega á föstudag!

Heysel

Í dag minnumst við þess að liðin eru 27 ár frá harmleiknum á Heysel-leikvanginum í Brussel. Þá létust 39 knattspyrnuaðdáendur, flestir þeirra Juventus-stuðningsmenn, þegar veggur hrundi í kjölfar óláta milli stuðningsmannahópa Liverpool og Juventus sem voru að leika til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða. Yfir 600 manns slösuðust einnig.

Juventus vann leikinn 1-0 en það var enginn sigurvegari þann dag. Knattspyrnan tapaði.

Við erum vanir að minnast Heysel á þessari síðu. Ég skrifaði grein í fyrra um þennan harmleik og svo finnst mér vert að minna á frábæra grein sem Einar Örn skrifaði 2004, eða fyrir átta árum síðan, hér á Kop.is.

Við sendum Juventus-stuðningsmönnum nær og fjær góðar kveðjur í dag.

Um stöðu knattspyrnustjóra

Ef eitthvað er að marka slúðrið síðustu daga megum við eiga von á að nýr kafli í sögu Liverpool FC hefjist í komandi viku. Þessa vikuna eiga John W Henry og Tom Werner að vera staddir í Englandi til að ganga frá endurskipulagningu klúbbsins og væntanlega tilkynna um ráðningar í ýmsar stöður. Stuðningsmenn bíða óþreyjufullir eftir því að þessu ferli ljúki, menn þola illa óvissuna og hafa kvartað yfir ýmsu, ekki síst þeim mönnum sem orðaðir eru við stöðu knattspyrnustjóra Liverpool.

Mér hefur hins vegar fundist gagnrýnin á þau nöfn fara stundum inn á villigötur og því finnst mér tilvalið að reyna að útskýra aðeins, rétt áður en fyllt er í þessar stöður, að hvaða leyti starf knattspyrnustjóra Liverpool mun breytast. Það er að mínu mati lykilatriði þegar nýir menn eru dæmdir að hafa í huga að sá sem tekur við af Kenny Dalglish sem knattspyrnustjóri mun ekki sinna sama starfi og Dalglish gerði, eða Hodgson, Benítez, Houllier o.sv.frv. þar á undan.

Staða knattspyrnustjóra er að breytast.

Fyrir þessar pælingar skulum við gefa okkur að slúðrið undanfarna daga sé satt. Ef allt reynist rétt sem við höfum heyrt síðustu daga getum við dregið upp eftirfarandi mynd af því sem koma skal:

Luis Van Gaal verður ráðinn „director of football“, eða yfirmaður knattspyrnumála.
Pep Segura verður ráðinn „technical director“ eða tæknilegur stjórnandi, hvernig sem þið viljið þýða það.
Roberto Martinez verður ráðinn „manager“ eða knattspyrnustjóri.

Við skulum líta aðeins á hlutverk hvers og eins. Ég er enginn sérfræðingur um þessi mál en mér sýnist á öllu sem ég veit og skil og hef lesið mér til um að störf þeirra muni vera skilgreind nokkurn veginn á eftirfarandi hátt:

Van Gaal er sá sem á að sjá um að samræma stefnu klúbbsins, frá unglingaliðunum upp í aðalliðið. Ákveðin heimspeki verður í gangi (t.d. tiki-taka hjá Barcelona, leikstíll þeirra sem er alinn upp í leikmönnum frá unga aldri) og það er hans starf að sjá til þess að sú stefna sem er tekin sé innleidd á öllum sviðum.

Segura er nú þegar „Academy technical manager“ þannig að hans núverandi hlutverk myndi í raun bara stækka og ná yfir allan klúbbinn. Það þýðir í raun að hann myndi starfa náið með Van Gaal við það að innleiða samræmda stefnu yfir allan klúbbinn og Segura myndi sennilega einbeita sér meira að unglingaliðunum og varaliðinu á meðan Van Gaal myndi einbeita sér að aðalliðinu.

Martinez kæmi svo inn sem knattspyrnustjóri en hér kemur stóra breytingin. Hingað til höfum við vanist því að knattspyrnustjórinn sé miðpunktur klúbbsins, í kringum hann snýst allt annað. Það er hann sem leggur línurnar fyrir leikstíl aðalliðsins og vara- og unglingaliðin eiga að fylgja því, það er hann sem leikur aðalhlutverk í að velja leikmenn fyrir aðalliðið og undir stjórn Benítez gekk það svo langt á árunum 2007-2009 (hans bestu ár) að hann réði því nær algjörlega einn. Hann er algjörlega miðsvæðis, höfuðið sem limirnir snúast eftir.

Þetta mun breytast. Síðan Benítez hætti fyrir tveimur árum hefur þetta í raun ekki verið svona og þessi staða knattspyrnustjóra sem algjör miðdepill í raun verið í ólagi. Fyrst var ráðinn já-maðurinn Hodgson sem setti sig ekki upp á móti Christian Purslow og því hvaða leikmenn hann fékk í hendurnar sumarið 2010. Síðan tók Dalglish við en þurfti að vinna með Damien Comolli, þótt stundum væri erfitt að sjá að hvaða leyti stefnur þeirra samræmdust, og eins og hefur komið á daginn var sýn þeirra á stefnu liðsins ekki samræmanleg við sýn eigendanna og því fór sem fór.

Núna mun hins vegar bregða nýtt við. Hvort sem mennirnir í þessum stöðum heita Van Gaal, Segura og Martinez eða eitthvað annað mun áherslan færast frá knattspyrnustjóranum yfir á þennan yfirmann knattspyrnumála. Það er að segja, Van Gaal fær það verkefni að vera höfuðið sem stýrir limunum. Hann verður ráðinn til að framfylgja þeirri sýn sem eigendurnir hafa og á að koma þeirri sýn áfram til knattspyrnustjórans, undirmanna hans og leikmanna.

Þetta finnst mér mikilvægt að hafa í huga ef t.d. Martinez verður fyrir valinu. Það er ekki verið að ráða hann til að móta stefnu klúbbsins frá A til Ö og vera einhver messías sem rífur klúbbinn upp eins og t.d. Arsene Wenger gerði hjá Arsenal fyrir sextán árum. Það er verið að ráða hann til að þjálfa aðalliðið og stýra því í gegnum tímabilið, látandi það leika þá knattspyrnu sem eigendurnir og Van Gaal vilja að það leiki.

Við getum notað Barcelona sem gott dæmi um þetta. Þegar Pep Guardiola tók við þeim 2008, eða jafnvel þegar Frank Rijkaard tók við þeim árið 2003, þá var það ekki þeirra hlutverk að móta klúbbinn og búa til þetta gullaldarlið. Þeir tóku vissulega þátt í að velja leikmannakaupin, sem hluti af hópi, og ég kem betur inn á það á eftir, en þeir voru ekki einvaldir. Þeir þjálfuðu liðið og létu það spila ákveðna knattspyrnu sem var hreinlega krafist af þeim hjá Barca og þeir skiluðu því. Allan þennan tíma unnu þeir undir stjórn forseta – fyrst Joan Laporta og nú Sandro Rosell – og yfirmanns knattspyrnumála – fyrst Txixi Begiristain og nú Andoni Zubizarreta – sem vinna hörðum höndum að því að framfylgja stefnu klúbbsins innan og utan vallar og skapa Guardiola (og nú arftaka hans, Tito Villanova) rétt umhverfi til að ná árangri með aðalliðið.

Að sama skapi myndi Martinez hjá Liverpool vinna undir stjórn eigendanna Henry og Werner og yfirmanna knattspyrnu- og tæknisviða, Van Gaal og Segura, sem myndu allir reyna að skapa rétta umhverfið fyrir hann að ná árangri með aðallið Liverpool.

Þetta er mikil breyting. Í stað þess að vera allt í öllu hjá félaginu eins og við erum vön að líta á knattspyrnustjórann væri hann sá sem fengi liðið í hendurnar (og tekur vissulega þátt í að velja leikmenn sem eru keyptir, en ræður því langt því frá einn) og ætti svo að þjálfa það og undirbúa fyrir leiki svo að það spili sem best.

Það eru fjögur og hálft ár síðan Rafa Benítez gagnrýndi eigendur Liverpool fyrir að heimta að hann einbeitti sér að því að „þjálfa og undirbúa liðið“. Þetta fannst honum vera mikil aðför að starfi hans innan félagsins, og það var það á þeim tíma. En í dag er þetta að verða staðreynd, knattspyrnustjórinn á í raun að einbeita sér að því að þjálfa og undirbúa liðið og láta yfirmenn sína um önnur málefni.

Annað sem er vert að nefna eru leikmannakaupin. Ég hef séð menn víða á netinu vera að býsnast yfir því að Martinez sé ekki nógu stórt nafn til að laða að sér leikmenn, að það að ráða hann sem knattspyrnustjóra muni þýða að við fáum engin stór nöfn í sumar. Þetta er byggt enn og aftur á þeim misskilningi að knattspyrnustjórinn muni vera alvaldur í þessum efnum. Hann verður langt því frá og ég skal útskýra af hverju.

Í bókinni Soccernomics er kafli sem heitir „Wisdom of crowds“ og fjallar um velgengni fyrrverandi smáliðsins Lyon í Frakklandi. Þar er farið yfir að ólíkt mörgum öðrum liðum í Frakklandi sé Lyon stýrt þannig að hópur manna taki þátt í að velja leikmenn til kaupa til félagsins. Jean Auel eigandi og stjórnarformaður, yfirmaður knattspyrnumála og knattspyrnustjóri, hverjir sem það eru á hverjum tímapunkti, og svo einn eða tveir aðrir úr stjórn félagsins. Þarna ríkir algjört lýðræði – ef ákveðinn leikmaður fær ekki meirihluta atkvæða í þessum hópi er hann ekki keyptur, jafnvel þótt það séu eigandinn eða knattspyrnustjórinn sem séu í minnihluta.

Þannig verður þetta hjá Liverpool. Martinez myndi vissulega hafa atkvæðisrétt en hann væri langt því frá einvaldur, og Van Gaal ekki heldur. Segjum til dæmis að Martinez myndi mæla með Victor Moses í sumar, þar sem hann hefur þjálfað hann áður og hefur mikið álit á honum. Þá yrði það nafn lagt fyrir hópinn sem væntanlega myndi samanstanda af Henry, Werner, Van Gaal, Segura, Martinez og jafnvel Ian Ayre líka og ef meirihluti eða allir væru sammála um að kaupa Moses væri farið í að bjóða í hann, og þá yrðu það væntanlega Ayre og Van Gaal sem myndu vinna með eigendunum í að semja um rétt verð og laun og allt slíkt til að fá leikmanninn til Liverpool, á meðan Martinez gæti einbeitt sér að sínu starfi á æfingasvæðinu og hliðarlínunni á Anfield.

Auðvitað vitum við ekki hvernig nákvæmlega svona hópákvarðanir munu koma til með að virka hjá Liverpool; verður Henry alltaf með úrslitaatkvæðið, eða mun meirihlutinn ráða? En það er nokkuð ljóst að það er verið að setja upp þennan hóp og hann mun taka svona ákvarðanir að miklu eða öllu leyti saman. Martinez ræður ekki öllu en hann ræður heldur ekki engu, og sama gildir um Van Gaal.

Eitt að lokum finnst mér ég verða að nefna og það eru þessar áhyggjur manna um að Martinez sé ekki nógu stórt nafn og muni ekki laða að sér nógu góða leikmenn. Ég hafði að vissu leyti sömu áhyggjur en ég varð strax rólegri þegar ég sá Van Gaal bendlaðan sterklega við starf yfirmanns knattspyrnumála. Nöfnin gerast ekkert mikið stærri í bransanum en Van Gaal og nærvera hans myndi alveg bæta upp skortinn á þungavigtarnafni í stöðu knattspyrnustjóra. Frank Rijkaard var nú ekkert risanafn í þjálfaraheiminum þegar hann tók við Barcelona en þeir gátu samt samið við Ronaldinho, Samuel Eto’o og fleiri og Pep Guardiola var ekki beint nafn sem laðaði menn að þegar hann tók við Barca fyrir fjórum árum sem hálfgerður nýgræðingur. Ári seinna hafði Guardiola slegið í gegn með liðið og allir bestu leikmenn Evrópu slógust um að fá að spila fyrir liðið.

Kannski er Martinez ekki nafn sem laðar að sumarið 2012 en Van Gaal er það og Liverpool-klúbburinn er ennþá það stórt nafn að það ætti að laða að líka. Ef plan eigendanna gengur upp ætti svo Martinez að standa sig vel með liðið í vetur og þá strax yrði eftirsótt að fá að spila undir hans stjórn, ef liðið er að spila skemmtilegan fótbolta og ná árangri. Þannig að sú hugsun að ungur og efnilegur knattspyrnustjóri muni ekki laða að stór nöfn eða góða leikmenn í sumar fellur um sjálfa sig ef risanafn eins og Van Gaal gengur einnig til liðs við félagið.

Næstu dagar verða athyglisverðir. Verður Van Gaal yfirmaður knattspyrnumála? Verður staðfest á þriðjudag á blaðamannafundi hjá Wigan að Roberto Martinez verði knattspyrnustjóri Liverpool? Við vitum það ekki en ef þeir tveir koma til liðs við Liverpool bið ég menn um að anda aðeins rólega og einblína ekki á þá einu staðreynd að Martinez sé ekki risanafn. Staða knattspyrnustjóra Liverpool er að breytast og í þá stöðu er greinilega verið að leita að ungum, hungruðum og metnaðargjörnum þjálfara sem getur gert rétta hluti með aðalliðið á æfingasvæðinu og hliðarlínunni. Martinez uppfyllir þær kröfur betur en flestir sem hafa verið nefndir til sögunnar og ef hann kemur fær hann stuðning minn allan.

Það er ómögulegt að segja til um, ef þessir menn koma, hvað verður. Van Gaal er þekktur fyrir að hafa mikið skap og sterkan persónuleika og sú ráðning gæti hæglega endað í rifrildum og innanbúðarpólitík. Martinez gæti náð árangri með liðið og hann gæti líka farið lóðrétt á hliðina, við vitum það ekki fyrr en á reynir. Það eina sem við getum gert er að gefa þeim sem verða ráðnir í þessar stöður tíma og dæma þá af því hvernig liðinu gengur á næsta tímabili, ekki fyrr.

Endilega hafið þetta í huga þegar þið metið ráðningu næsta knattspyrnustjóra Liverpool FC. Við erum ekki að leita að messíasi, goðsögninni sem umbyltir klúbbnum frá A til Ö. Við erum að leita að frábærum þjálfara sem samræmist stefnu eigendanna og getur unnið í hópi sérfræðinga að sameiginlegu markmiði. Það er mikill, mikill munur þar á.

Höldum okkur fast. Það er örugglega afdrifarík vika fram undan.

Warrior-treyjan á Lægraverð.is

Það hefur verið mikið að frétta undanfarið en í öllum hamaganginum hefur samningurinn við Warrior eiginlega gleymst svolítið. Þetta eru stórfréttir fyrir klúbbinn og það er vert að minna á að í næstu viku, strax í byrjun júní, kemur nýja heimatreyjan í almenna sölu. Ég skrifaði um þetta fyrir tveimur vikum þegar treyjan var kynnt og mér finnst vert að minna á þetta aftur.

Þessar treyjur eru dýrar, þær hafa undanfarin ár verið að seljast á svona 13-15 þúsund krónur í almennri sölu hér á landi og ég býst við að þær muni gera það áfram núna. Hins vegar finnst mér ég verða að benda þeim sem eiga kannski eftir að sjá það á að LÆGRAVERÐ.is er með treyjuna í forsölu núna á kr. 9.999.-! Ef aðrir eru að selja treyjuna á 13-15 þúsund krónur eru þeir því í raun að bjóða 25-30% afslátt af treyjunni.

Síðan tekur á móti forpöntunum núna og hefur gert undanfarin hálfan mánuð en þetta tilboð þeirra gildir aðeins fram yfir næstu helgi. Ég hef þegar pantað mér treyju þaðan og ég mæli með því að fólk nýti sér þetta tilboð.

Ég veit að það eru mjög margir þarna úti sem versla þessar treyjur á hverju ári og það þarf ekki annað en að kíkja á Górilluna yfir leik til að sjá að nýjustu treyjurnar eru á hverjum skrokki. Þessar treyjur eru rándýrar á Íslandi og því finnst mér hreinlega sérstök ástæða til að benda fólki á þegar verið er að selja glænýja treyju á svona góðum afslætti.

Endilega kíkið á þetta. LÆGRAVERÐ.is:

E.s.
Það skal tekið fram að ég er hvorki í vinnu fyrir Lægra Verð né að fá borgað fyrir að skrifa þetta hérna inn. Mér finnst bara sjálfsagt að benda góðum, íslenskum Púllurum á að það er hægt að eignast nýju Liverpool-treyjuna án þess að láta okra á sér. :)