Stoke 1 – Liverpool 2

Hörkufótboltaleik á Brittania Stadium í Stoke er lokið með frábærum, móralaukandi sigri á liði sem hefur virkilega verið að pirra okkar menn á undanförnum árum á þessum ágæta velli.

Dalglish ákvað að gera átta breytingar frá leik helgarinnar gegn Norwich, aðeins Reina, Carragher og Suarez héldu sætum sínum. Helst kom á óvart að Spearing og Lucas áttu að stjórna á miðjunni og Agger var látinn vera bakvörður með Aurelio á bekknum.

Liðsskipanin var þessi:

Byrjunarliðið í dag:

Reina

Kelly – Carragher – Coates – Agger

Henderson – Lucas – Spearing – Maxi

Carroll – Suarez

Bekkur: Doni, Aurelio, Kuyt, Adam, Bellamy, Skrtel, Flanagan.

Fyrri hálfleikur gat verið afritun og líming frá því þegar þessi lið áttust síðast við. Okkar menn endalaust með boltann, létu hann ganga vel sín á milli og sköpuðu sér urmul færa, bestu færin fengu Carroll og Suarez en á einhvern hátt tókst okkur ekki að skora!

Svo auðvitað kom það í bakið á okkur þegar okkar einu mistök í hálfleiknum urðu til þess að heimamenn komust yfir. Coates virtist ætla að fylgja boltanum í innkast á vinstri vængnum okkar en áttaði sig ekki á því að Walters var eins og skikkja á bakinu á honum, þessi kraftmikli framherji hristi Úrú-gæjann af sér, stakk sér upp í hornið og sendi tuðruna inní þar sem Kenwyne Jones stakk sér framhjá Carra og skallaði hann í fjærhorn óverjandi fyrir Reina. Komnar 42 mínútur og staðan 1-0 þvert á allan gang leiksins. Kunnuglegt á þessum slóðum.

Carragher varð fyrir smávægilegum meiðslum og í hans stað kom Skrtel inná í hálfleiknum.

Í upphafi seinni hálfleiks virtist vindurinn úr okkar drengjum, markið greinilega skellt vatnsgusu í andlit þeirra og allt í einu voru það Stókarar sem voru stýra leiknum.

EN. Mörk breyta leikjum, hvað þá snilldarmörk! Luis Suarez karlinn fékk okkur öll til að gleyma slakri nýtingu sinni að undanförnu á 54.mínútu. Þá tók hann við hreinsun úti á vinstri kanti, hljóp inn að vítateignum, klobbaði Shotton karlinn og snuddaði blöðruna í fjærhornið frá vítateigslínunni, 1-1. Það er bara til eitt orð yfir drenginn. Argandi snillingur!

Á næstu 25 mínútum gekk boltinn enda á milli án þess að sköpuðust hættuleg tækifæri. Stoke auðvitað hættulegastir upp úr innköstunum feykiskemmtilegu en við áttum fín upphlaup. Á mínútu 82 kom Bellamy inná fyrir Maxi og hann var strax kominn á fulla ferð tveim mínútum seinna þegar Carroll lagði bolta á hann rétt utan teigs og gott skot hans small í stönginni. Við þetta ýttum við gírnum ofar og mínútu síðar vorum við komin yfir.

Stoke menn hreinsuðu þá langan bolta beint á fótinn á Jordan Henderson á hægri kantinum sem átti magnaða sendingu í fyrstu snertingu beint á hvern, jú auðvitað Luis Suarez sem skallaði boltann fast í sama horn og hann hafði snuddað áður, staðan orðin 1-2 og fagnaðarlætin hjá okkar mönnum sýndi okkur alveg hvað þetta skipti máli.

Stoke henti Crouch strax inná og Kuyt kom inn fyrir Suarez sem haltraði útaf, mikið óskaplega verðum við nú að vona að það hafi bara verið þreytuverkur, og það sem eftir lifði reyndu heimamenn að húffa boltanum inn í boxið til að reyna að djöfla inn jöfnunarmarki.
Það tókst þeim hins vegar ekki og úr varð frábær 1-2 sigur á velli sem skipti hrikalegu máli að vinna á. Liverpooláhangendurnir fögnuðu ákaflega að leik loknum með leikmönnunum, það síðasta sem ég sá í minni útsendingu var þegar snillingurinn Suarez henti treyjunni sinni upp í stúku.

Liðið okkar lék í heildina vel í kvöld. Reina karlinn virtist þó ekki glaður lengi vel, fékk auðvitað á sig töluverðar snertingar og læti, sem virtist pirra hann aðeins. Varnarlínan komst fínt frá sínu, sérstaklega var FRÁBÆRT að sjá Agger kominn aftur, er til í að prófa vúdúlækni fyrir drenginn ef að það gæti hugsanlega hjálpað okkur að sjá hann lengur í einu í búningnum og þrátt fyrir mistök Coates var ég mjög hrifinn af stráknum. Hann er fínn í fótinn, gríðarlega góður skallamaður og sýndi nokkrar flottar tæklingar. Er sannfærður um að við erum að fara að fá flottan leikmann í honum. Carra og Skrtel voru sér líkir en Kelly hefur leikið betur.

Miðjan vann vel fram og til baka. Ég ætla formlega að taka ofan hatt minn fyrir Spearing sem lék vel, svo einfalt. Var alls ekki glaður að sjá hann í byrjunarliðinu en hann átti sinn besta leik í vetur, by far. Maxi hefur oft leikið betur en er mjög góður í að halda boltanum og Henderson er hrikalega duglegur, stöðugt að vinna og úrslitasendingin hans í leiknum var snilld.

Framherjarnir vouru allan leikinn að spila fínt, hreyfanlegir og grimmir. Carroll skipti að auki miklu máli í að verjast föstu leikatriðunum, en átti að klára færin sín betur í fyrri. Eins og Suarez auðvitað sem sýndi svo í seinni hálfleik hvers vegna hann er nýi kóngurinn á Kop! Stanslaus vinna á stráknum og nú var hann sko heldur betur að vinna liðsvinnuna. Allir eiga eftir þennan leik líka að sjá að þar fer ekki svindlari, hann hefði svo hæglega getað fengið víti en ákvað að stíga í lappirnar og í seinni hálfleik stóð hann af sér ansi margt.

Fyrra markið hans verður svo örugglega mark ársins í þessari keppni, ef ekki Englandi. Algerlega upp úr engu sprengdi hann leikinn upp og sló þögn á alla heimamennina. Sem, eins og örugglega einhver okkar, voru að búa sig undir enn einn sigur Stoke á okkar mönnum á Brittania. Ónei.

Varamennirnir Bellamy og Kuyt komu inn og lönduðu sigrinum, en auðvitað fá allir þeir verðlaun sem giskuðu á Luis Suarez sem mann leiksins, helst þrisvar. Og svo það sé á hreinu þá kyssti hann merkið frábæra þegar hann fagnaði skallamarkinu sínu. Það kallaði fram alvöru gæsahúð var það ekki?

Frábær sigur og tvö skref frá Wembley. Er alveg handviss um að þessi úrslit munu hjálpa okkur í undirbúningnum fyrir næsta deildarleik gegn W.B.A. og héðan af held ég að það sé ljóst að Carling Cup er komið ofarlega á listann okkar. Í keppninni eru nú ansi stór nöfn, Arsenal, Liverpool, Manchester-liðin tvö og Chelsea. Svo það verður gaman að drættinum um helgina – mikið væri nú gott að fá heimaleik.

En gleðjumst saman innilega yfir því að þessi Stoke-grýla hafi fengið þungt högg, og ef einhver á leið um Keili á morgun (já fjallið) takið þá með ykkur eitthvað gúmmulaði í nesti þannig að ef þið rekist á Kristján Atla í tjaldinu sínu þá getið fært honum eitthvað í gogginn…hann var aðeins að missa sig á twitter í dag strákurinn.

Myndin kemur af lfc.tv

51 Comments

  1. Mér fannst Henderson og Spearing vera hrikalega góðir í dag.  Annars var þetta enginn sambabolti sem við vorum að spila á stórum köflum, en þetta gekk loksins upp hjá okkur og Suarez með tvö mörk sem mun örugglega hjálpa til við sjálfsöryggið og stuðla að fleiri mörkum! 😀

  2. Vel gert hjá okkar mönnum í dag. Mér finnst Reina vera að standa sig frekar illa þessa dagana hann er alltaf að fara í heimskuleg úthlaup og endar yfirleitt á rassgatinu og auk þess finnst mér hann missa boltann allt of oft. Suarez flottur í kvöld að setja 2 og vonandi er hann kominn á flug núna.

  3. Suarez  Suarez Suarez Suarez, ætla ekki að drulla yfir neinn en Carroll verður að fara að gera eitthvað í fótbolta og allavegana að reyna að standa í lappirnar, það eer eitthvað að hjá honum. En flott hjá Liverpool og SUARES. 😉

  4. Mér fannst Carroll nokkuð góður.

    Að minnsta kosti í fyrri hálfleik.

    Hann barðist vel. 

  5. Ágætur leikur hjá okkar mönnum. Suarez alveg klárlega maður leiksins. Mér fannst enginn spila illa, Coates var góður fyrir utan þessi einu afdrifaríku mistök. Ég myndi segja að okkar slakasti maður hafi sennilega verið Pepe.
    Vonandi er Suarez ekki meiddur og getur afgreitt WBA um helgina. 

  6. ég sat við hliðina á skáser á Three Lions pöbbnum á Albir, hann fann allt liðinu til foráttu, Carroll lengi fram og aftur enginn gerði neitt nema  Suarez, svo þegar að fyrsta markið kom fagnaði ég eins og óður, en honum stökk varla bros. konan hans sagði að þó að að þeir væru 12 mörkum yfir væri hann samt í fýlu. En djöfull er Pulis pirrandi hann lét minnka völlinn eftir reglugerðinni bara svo að það væri styttra að taka innköst og þess háttar….

  7. Þetta var flottur baráttusigur.  Við áttum allan tímann að taka þennan leik og loksins náðum við að nýta færin..  Þrátt fyrir að Coates hafi gert stór mistök þá átti hann flottan leik og það hlaut að koma að því að Suares nýtti eitthvað af þessum færum sem hann skapar sér. Þetta er allt í rétta átt..

  8. Flottur sigur. Fimm leikir í röð án taps, þrír sigrar og tvö jafntefli (bévítans óheppni að klára þá leiki ekki). Liðið er að spila fantavel og skapa sér fullt af færum (sem vantar þó oft að klára) og er oft á tíðum að yfirspila andstæðingana. Liðið er klárlega í hörkuformi.

  9. gerðum einfaldlega fótboltaheiminum greiða með því að slá þetta leiðinlega lið út 🙂

    Suarez er náttúrulega bara frábær framherji sem gerir alltaf hið óvænta og eins og kóngurinn seigir eftir þennan leik að hann haldi að suarez muni aldrei skora með því að pota, hefði sammt ekkert að hafa einn svoleiðis center sem myndi klára þessi dauðafæri sem við fáum oft

    Mér fannst Coates fínn í heildinna hann gerði mistök og á eftir að læra af þeim og þetta kennir honum bara það að þú hefur ótrúlega lítinn tíma á boltanum í enska boltanum , Henderson átti líka fínan leik og sendingin sem hann gaf á suarez í seinna markinnu var frábær og einnig hreifingarnar sem suarez tekur án bolta eru frábærar og það er margt jákvætt sem að við getum tekið út úr þessum leik og ég er sérstaklega ánægður með það að við komum til baka eftir að hafa lent undir af því að ég man einfaldlega ekki eftir því hvenær það gerðist síðast.

    Áfram Liverpool !!! 

     

  10. Góður vinnusigur. Væri alveg til í að fá eitthvað stórt lið í 8 liða úrslit. Virðumst ráða betur við þau en litlu liðin. Síðan er kominn heilvítis djöfulsins andskotans tími á heimaleik! (afsakið blótið)
    Ég held að varnarmenn í EPL ættu að stofna sjálfshjálparsamtök sem gætu heitið:
    ÉG VAR KLOBBAÐUR AF SUAREZ 🙂

  11. Frábær sigur og frábær Suarez! Fyrra markið var eitt allra nettasta í bransanum, meina hver klobbar gæja bara fyrir utan teig og tekur banana skot upp í vinkilinn í fyrsta eftir klobbann! Og ég græt næstum úr gleði með King Kenny þegar Suarez kyssti Liverpool merkið, það var mjög falleg stund..

    YNWA meira svona! 

  12. Jói #9

    Carroll er framherji.

    Hans hlutverk er ekki að berjast.

    Hann á að skora mörk. That’s it.

    Flottur sigur í kvöld í leik sem mér var sama um. Suarez með tvö stórkostleg mörk, ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar hann skoraði það fyrra … annað eins gull af marki hef ég bara ekki séð í langan, langan, laaaaangan tíma! 🙂

    Megi Fowler gefa það að þessi meiðsli hans séu ekki alvarleg, en við eigum þá allavega Gerrard inni 🙂

    Homer 

  13. Þegar ég skrifaði upphitun hafði ég ekki hugmynd um að þetta væri líka rugby völlur en mér sýnist hann vera notaður í eitthvað þannig m.v. línurnar sem voru inni í vítateigunum! Þetta lið er með öllu viðbjóðslegt og ættu líklega bara einbeita sér að rugby. Það var ótrúlegt að lenda aftur 1-0 undir eftir nánast einu alvöru mistök hálfleiksins og töluverða sókn okkar manna. 

    En núna hrökk helvítið hann Suarez í gang og ég spái því að í framhaldinu haldi honum engin bönd, þetta fyrra mark var svo fullkomlega æðislegt að það er ekki fyndið, klobba tréhest í vörn Stoke og klína honum í hornið, snilld. Sannaði svo sannarlega í dag að hann getur þessi “köldu vetrarkvöld á útivelli gegn Stoke” og vel það.

    Annars fannst mér okkar menn betri í dag heldur en ég þorði að vona fyrir leik. Fyrir utan þessi herfilegu mistök Coates fannst mér hann flottur í dag og held ennþá að hann verði búinn að vinna sér sæti í liðinu í lok þessa tímabils. Hann þarf að hringja í Henchoz og fara aðeins yfir No-Nonsense varnarleik og þá er hann í lagi. Agger sýndi svo hvað hann er okkur viðbjóðslega mikilvægur og Kelly fannst mér bara fínn í dag.

    Henderson og Spearing voru báðir yfir væntingum og þó Maxi hafi ekki gert margt sem fer í fyrirsagnir í dag þá er að því er virðist oft betra flæði í liðinu þegar hann er inná. Carroll var síðan sprækur fannst mér í fyrri hálfleik og olli þeim miklum vandræðum. Dró af honum í seinni en þá var hann eiginlega mikilvægari hinumegin á vellinum í að skalla þessi föstu leikatriði þeirra frá.

    Maður leiksins er þannig fótboltamaður að þegar hann er í stuði þá á lið eins og Stoke og sá fótbolti sem það lið stendur fyrir ekki séns.

    Ágætt að komast áfram í þessum bikar.
    Flott að koma til baka eftir að hafa lent undir og það á Brittannia. 
    Frábært að sjá stífluna bresta hjá Suarez og það með þessum hætti. 

    Það á síðan að setja tímamörk á leikmenn sem taka innköst, eftir að þeir snerta boltann ættu að vera til svipaðar reglur og gilda um markmenn.  

  14. Þakka Magga fyrir góða leikskýrslu og umhyggjuna í lok hennar. Ég er kominn niður af Keili og heim til mín. Hér eru nokkrar pælingar um leikinn:

    • Í hálfleik var ég svo fúll að ég var reiðubúinn að hætta þessu öllu saman bara. Sama helvítis gengið og alltaf á Britannia og mér fannst ekkert benda til þess að seinni hálfleikur yrði öðruvísi.
    • Ég. Elska. Luis Suarez.
    • Draumadrátturinn fyrir næstu umferð? ANFIELD, takk fyrir. Heimaleik, og þá er mér skítsama hverjir mótherjarnir eru. Strákarnir hans King Kenny ætla sér á Wembley og það stoppar þá ekkert lið á Anfield í þessari keppni í vetur!

    Það er nú þannig.

  15. Þvílík gæði sem maður sá í Henderson í kvöld, þessi strákur á eftir að verða rosalegur með Liverpool.

  16. footyroom.com

    mörkin í öllum leikjum alltaf strax kominn inn þar.

  17. Brilliant umfjöllun um leikinn Maggi. Þetta var mjög góður sigur og fyllilega verðskuldaður. Miðað við þennan leik skilur maður ekkert í jafnteflinu um helgina. Svona á liðið að spila. Þétta miðju og pressa hátt uppi. Fannst allir leikmennirnir skila sínu og standa sig vel, fyrir utan ein mistök hjá Coates. Fremstu 4 voru þeir sem ég spáði að myndu byrja og þeir ollu mér ekki vonbrigðum. Maxi á að fá fleiri mínutur og Carroll var dýrvitlaus og einbeittur framan af. Henderson var bara algjörlega class-act, sendingar og ákvarðanir alveg 100%. Og Suarez auðvitað kláraði þetta. Ég vona bara að við fáum heimaleik sem eykur líkurnar á undanúrslitum.
     
    YNWA!!

  18. innköstin hjá Delap tóku allavega um 20 sek. hvert, hlýtur að vera einhver regla sem útilokar allan þennan tíma

  19. Ég hata þetta hjá Delap og það fydna við þetta er að boltinn er alltaf strax hreinsaður út úr teig. Það kemur aldrei neitt úr þessum innköstum hjá honum.

  20. 19

    Má Carroll þá bara ekkert berjast afþví hann er framherji?

    En annars góður sigur. 

  21. Það voru spilaðar tvisvar 39 mínútur í kvöld, plús boltapússið hjá Rory Delap.

  22. nr 20
    þessa línur sem voru í vitategnum eru gamal stærðinn á vellinum. Þeir létu nefnilega minnka hann fyrir leikinn (þetta ömurlega stoke lið) svo að það yrði auðveldara að verjast og svo að innköstinn myndu ná lengra inn í teig.

  23. og ef einhver á leið um Keili á morgun (já fjallið) takið þá með ykkur eitthvað gúmmulaði í nesti þannig að ef þið rekist á Kristján Atla í tjaldinu sínu þá getið fært honum eitthvað í gogginn… hahaha snilld! en annars var þetta virkilega góður sigur í dag! Suárez er bara… fokk veit ekki hvernig ég á að lýsa þessum dreng! og mér finnst Carroll í miklu betra formi heldur en hann var hjá Newcastle! svo er það bara WBA næstu helgi 😀 reynum nú Roy reyna taka þennan aftur! http://www.youtube.com/watch?v=6aWKyaxcfgQ&feature=related hahahaha

    Y.N.W.A 

  24. það er svo fyndið að Suarez var að klobba menn á fullu í síðasta leik en boltinn lenti í stöngunum. Stóð ekki á mönnum að hann væri lélegur slúttari og núna skorar hann og hann er orðinn snillingur. Þú veist, hvað er að?
    Þetta er bara besti framherjinn í deildinni punktur. 

  25. Tek undir það Hafliði. Vona að Pulis gráti duglega í alla nótt og bíti duglega í koddann yfir óréttlæti heimsins. Jörðin yrði miklu miklu fallegri staður til að búa á ef Stoke og Tony fokking Pulis myndu hætta í fótbolta.
    Ef dæmt væri eftir eðlilegum fótboltareglum á heimvelli Stoke væru þeir með lágmark 2-3 rauð spjöld í hverjum leik fyrir aftanítæklingar, bully skítatrikk og að hoppa stöðugt upp með olnbogann á undan sér í bakið og háls á andstæðingum. Whelan átti t.d. að vera löngu kominn með rautt spjald.

    Sennilega satt hjá Dalglish um Suarez. Hann á aldrei eftir að skora tap-in mark á löngu ferli sínum með Liverpool. Bara stórglæsilegar snuddur sem sanna að hann sé bara æðri öðrum fótboltamönnum. Djöfulsins snillingur, bara unun af horfa á þessa mannveru spila knattspyrnu.

    Coates er virkilega vaxandi, ákveðinn og fylginn sér, tók margar góðar og mikilvægar tæklingar. Vona að hann verði þetta varnartröll sem hann hefur hæfileika til að verða.

    Við unnum helvítis holdanautin og hentum þeim öfugum útúr einu keppninni sem þeir eiga möguleika á að ná árangri í, þeir falla sennilega ekki en árið er samt búið hjá þeim. Skál! 

  26. Nr. 33

    það er svo fyndið að Suarez var að klobba menn á fullu í síðasta leik en boltinn lenti í stöngunum. Stóð ekki á mönnum að hann væri lélegur slúttari og núna skorar hann og hann er orðinn snillingur. Þú veist, hvað er að?

    Er það nú samt alveg satt hjá þér? Hann klúðraði 11 færum í síðasta leik og fékk samt líklega einna minnst af gagnrýni á sig og var valinn maður leiksins hérna á síðunni. Allir sóknarmenn lenda í þurrkatímabilum og Suarez var bara í slíku. Frábært að sjá það enda í dag. 

  27. Þetta var aldrei eins og vant undanfarna leiki ný orka hjá okkar mönnum. Suarez sýndi það enn einu sinni hversu mikill snillingur hann er, ef hann einbeitir sér að því. Það versta við hann og skemmir mest fyrir honum sjálfum er þetta eilífa röfl og pirringur allan leikinn. Hann ætti að nota þá orku í að hugsa um fótbolta á léttu nótunum. Og passa rangstöðuna. Hann er mikilvægur Liverpool.
    MEÐ SKEMMTILEGRI LEIKJUM LIVERPOOL Í LANGANN TÍMA!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
    Næst er það skyldusigur á WBA og Roy Rogers!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!
     

  28. Ég veit ekki hvort ég var einn um það en mér syndist Coates vera drullu stressaður með Carragher hliðinná sér, meikar alveg sens þegar hann skilur 40% af því sem gaurinn er að öskra í eyrað á honum. Ég er alveg hættur að fýla þessa brjálæði í Carragher, hann er öruglega algjört control freak þegar hann er ekki einu sinni buinn að vera besti maður vallarins í ár eða eitthvað, ÞRÁTT fyrir að hann sé legend. Mér fannst Coates virka mikið léttari á sér og sjálfsöruggari með Skrtl hliðinná sér ótrulega en satt! ef maður setur sig í hans spor þá … skil ég hann mjög vel, annars fínn leikur mikið rosalega hata ég samt Stoke, ég hálf vorkenni stuðningsmönnum þeirra.

  29. Djöfull finnst mér menn gagnrýna Carrol alltaf hreint.   Reynum bara að njóta þess að sigra, allt liðið sigrar leiki, þó svo að einn leikmaður skori mörkin.

    YNWA

  30. Vallarminnkunin Stók til minnkunar.  En að það sé leyfilegt að boltastrákar hafi handklæði við hliðarlínuna og boltinn sé pússaður í bak og fyrir fyrir innköst get ég ekki skilið. Ótrúlega pirrandi aðgerð.
    Best að senda kvörtun á FA.
    Ánægður með mína menn.  Vonandi verða sem flestir bikarleikir í vetur og tveir á Wembley.
    YNWA 

  31. Ljúft og skylt að leiðrétta mig, Spearing á fína sendingu á Suarez í marki eitt, enn einn plúsinn fyrir þann strák í gær!

  32. Jæja, maður er búinn að sofa aðeins á þessu og mér finnst ég verða að nefna nokkra leikmenn í dag:

    Seb Coates – sáu menn hann, Skrtel og Agger halda línunni í seinni hálfleik? Var það nokkuð svo hræðilegt að spila án Carragher eftir allt saman? Ég hef gagnrýnt Carra í upphafi tímabilsins og þótt hann hafi spilað betur í undanförnum leikjum verð ég enn og aftur að ítreka þá skoðun mína að það er kominn tími á að leyfa Skrtel og Agger að spila saman í miðri vörninni, með Coates sem næsta mann inn.

    Jay Spearing – Hann gerir mjög vel það sem hann kann, sem eru varnartilburðir. Hann er sívinnandi, mikil yfirferð á honum og gaman að sjá hann éta Stoke-menn og hirða af þeim boltann trekk í trekk í gær. En hann hefur litla sem enga sendingargetu og t.a.m. var það kæruleysisleg sending hans á Carra undir lok fyrri hálfleiks sem varð til þess að Carra þurfti að redda, handlék knöttinn og fékk gula spjaldið. Spearing er líkari Mascherano en nokkurn tímann Lucas. Fínn kostur að eiga þegar við þurfum bolabít á miðjuna en of takmarkaður fram á við til að vera kostur gegn lakari liðum þar sem við þurfum að sækja. Flottur leikur hjá honum samt í gær.

    Jordan Henderson – I rest my case. Þessi strákur á eftir að vera dýnamít fyrir okkur næstu árin.

    Daniel Agger – Hjá hverjum þarf ég að sofa til að Daggerinn haldi sér í þessu formi í allan vetur? Nefnið nafnið og ég skal gera það!

    Pepe Reina – Ég sá ekki leikinn um helgina en ég sá mörkin eftir helgi og Pepe átti jöfnunarmark Norwich skuldlaust. Í gær virkaði hann frekar óöruggur. Vonandi hristir hann þetta af sér fljótlega.

    Heilt yfir þá er ég bara mjög jákvæður eftir þennan leik. Það verða aðrir en Suarez að fara að stíga upp og skora fyrir liðið, og mér finnst eins og við séum enn að leita að okkar besta miðvarðarpari, en heilt yfir er staðan mjög jákvæð. Við erum komnir í 8-liða úrslit Deildarbikarsins án þess að hafa leikið heimaleik í keppninni, erum 5 stigum frá öðru sæti í deildinni og taplausir í síðustu 6 leikjum (2 jafntefli 4 sigrar).

    Næst: Roy Hodgson. Við skuldum honum víst eitthvað svipað og við borguðum Stoke í gær. 🙂

  33. Ég verð að segja að fyrra mark Suarez er ein sú mesta perla sem ég hef séð í langan tíma, ef litla Durasell kanínan er að hrökkva almennilega í gírinn þá verði andstæðingum okkar að góðu……….

  34. Varðandi Carroll – frábært ef hann spilar vel, berst fyrir liðið og dregur menn til sín.  En sóknarmaður sem kostar 35m punda þarf að gera aðeins meira en það.  Við hljótum að gera þá kröfu.

  35. Það var fullt jákvætt í þessum leik. 

    Sammála Kristjáni með Coates – hann var góður í leiknum.  Blaðamenn dæma oft unga varnarmenn af þeirra mistökum, en ég vil frekar horfa á heildarframmistöðuna.  Það munu allir ungir varnarmenn gera klaufamistök, en það er spurning hvernig þeir skila hinum 89 mínútum leiksins.  Í gær fannst mér Coates mjög flottur á erfiðum útivelli.

    Og þetta mark hjá Suarez var stórkostlegt.

    Annars var ég aðallega pirraður útí breska þulinn, sem var á þessari útsendingu, sem ég horfði á á Canal+.  Það virðist vera komin sú lína að Suarez láti sig detta og slíkt og henni virðast dómarar vera að falla fyrir, sem og þeir sem lýsa leikjunum.  Það er hættulegt og Kenny þarf að passa sig á að verja Suarez.  Hann er sparkaður það mikið niður að það býður uppá að dómarar fari að taka vægar á brotum á honum. 

    Henderson fannst mér einnig gríðarlega jákvæður.  Hann og Carroll eru alltof oft dæmdir af verðmiðanum.  Ég tel að þetta eigi eftir að vera lykilmenn hjá okkur næstu árin. 

  36. Er eg eini sem er hraeddur um ad Suarez ad kyssa merkid se = fer fram a solu til real/barca i sidasta lagi i sumar.
    En burt sed fra djokinu godur sigur og pliz haettid ad gagnryna Carroll fannst hann gera sitt i ad tvi er virtist 90min boxbardaga vid varnarlinu stoke.
    YNWA

  37. Er alveg sammála því að í Coates erum við búnir að finna framtíðarmiðvörðinn, en ég vill ekki tengja hann Skrtel, einfaldlega því að þeir eru að mínu viti of líkir.  Ef að Agger verður heill þá erum við með framtíðarpar þar án vafa.  Ég held líka að við sjáum þetta gerast hægt og rólega í vetur, þ.e. að Coates komi sterkur inn í varnarlínuna, það er alveg ástæða fyrir því að hann er ekki enn kominn inn í deildarhópinn og ef að Agger er að koma heill fækkar mínútunum hans.
    Hinsvegar getur það breytt jöfnunni ef að Gerrard kemur inn, þá er mögulega hægt að draga úr áhrifum Carra, því hann er þjálfari inni á vellinum, það mun telja áfram honum til tekna.  En þetta fer að gerast…
     
    Svo langar mig aðeins að vangavelta því að af þeim sjö mörkum sem Suarez hefur skorað í vetur þá hafa sex þeirra komið þegar Carroll hefur verið inni á vellinum, og Carroll hefur skorað sín mörk með Suarez inná.  Þegar við stillum upp tveimur senterum þá á maður líka að horfa á þessa statistík.  Í fyrri hálfleiknum í gær sópaði mikið að Carroll og Shawcross fékk litla aðstoða með litla manninn, þar vorum við pottþétt að spila með tvo sentera upp og fara hratt upp völlinn.  Lékum miklu betur sem lið í fyrri en seinni þar sem Carroll og Suarez droppuðu stundum niður.
     
    Framherjaparið Carroll / Suarez er að myndast, það er allt annað að sjá líkamsform þess stóra og hann er alltaf að verða duglegri að vinna inn í teiginn og það er ljóst að þegar þessir tveir fara að tikka verðum við með framlínu sem er geysilega erfitt að vinna gegn, sökum fjölbreytileikans sem í þeim býr.

  38. Það er náttúrulega alveg morgunljóst að hákarlarnir eru farnir að íhuga boð í Suarez ef þeir eru eki búnir að bjóða í hann. Það sem stendur upp úr hjá honum finnst mér að maður sér ekki oft fótboltamann vera jafn teknískur og hann en líka harður af sér. Hann er alveg nautsterkur og fylginn sér. Má eiginlega segja að hann er Kuyt með hæfileika!

     

  39. Frábær sigur í gær ! Mér fannst liðið spila vel miðað við aðstæður og þann ”fótbolta” sem Stoke býður uppá.
    En mér finnst að menn geti ekki gagnrýnt Carroll fyrir þennan leik. Á alltaf að gagnrýna manninn þegar hann skorar ekki. Framherjar skora ekki alltaf og geta gert margt annað en að skora og á meðan liðið er að vinna þá getum við ekki kvartað. Carroll gerði vel í þessum leik, hann tók mikið til sín og barðist mikið. Hann býr til mikið pláss fyrir Suarez og það er ekki verra þar sem Suarez getur nánast gert það sem hann vill með boltann.
    Svo finnst mér að menn geti alveg hætt að tala um þessar 35 millur ! Hann er aldrei 35 milj. virði ! Við vitum það allir. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við borguðum svona mikið. Hann er enskur, það voru nokkrir klukkutímar eftir af glugganum og chelsea var tilbúið að borga nánast hvað sem er fyrir Júdas !
    Það er eins og menn séu búnir að afskrifa Carroll strax. Hann er ennþá ungur og getur ennþá bætt sig eins og allir. Og hann er klárlega á réttum stað til að bæta sig !
    En mér finnst algjör óþarfi að gagnrýna Carroll bara til þess að gagnrýna einhvern. Liverpool spilaði vel í gær og gerði það sem þurfti. Vinna á mjög erfiðum útivelli (eftir að hafa lent undir!) og komast áfram í bikarnum !
    Áfram Liverpool !
     

  40. fyrir menn sem voru að skíta yfir fagmanninn Tony Pulis og hans frábæra lið. Þá sagði hann þetta eftir leikinn í gær
    Tony Pulis, the Stoke manager, on Luis Suarez: “There are three players in the Premier League – [Sergio] Aguero and [David] Silva at Manchester City, and this fellow – who would grace any team in the world.” “He is a special player.”

Liðið gegn Stoke komið

Opin umræða: óskamótherjar 8-liða úrslita