Birmingham 0 – Liverpool 0

Okkar menn fóru til Birmingham í dag og gerðu enn einu sinni jafntefli við Birmingham.

Roy stillti liðinu svona upp í byrjun:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Konchesky

Maxi- Poulsen – Lucas – Jovanovic
Gerrard
Torres

Fyrri hálfleikurinn var, einsog aðrir fyrri hálfleikir á þessu tímabili, verulega slappur. Torres átti reyndar að fá vítaspyrnu þegar hann var felldur í teig Birmingham manna, en ekkert var dæmt. Fyrir utan það, þá áttu Birmingham miklu fleiri hættuleg færi og við máttum þakka Pepe Reina fyrir það að leikurinn var markalaus í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki mikið betur og Birmingham héldu áfram að vera sterkara liðið. Þegar leið á hálfleikinn náðu okkar menn þó undirtökunum, en það skilaði litlu af sér.


Einsog í síðasta leik þá náðu Poulsen og Lucas alls ekki saman á miðjunni. Mereiles kom á endanum inn fyrir Lucas og hann lofaði góðu. Sérstaklega fannst mér Poulsen slappur í þessum leik.

Konchesky átti ágætis fyrsta leik áður en hann fór meiddur af velli, en í hinni bakvarðarstöðunni var Glen Johnson á köflum alveg hræðilegur. Missti boltann hvað eftir annað.

Torres og Gerrard fengu svo sem litla þjónustu frammi, en þeir gerðu líka lítið úr því sem þeir fengu. Á köntunum voru svo Milan og Maxi afleitir.

**Maður leiksins**: Það kemur bara einn til greina: **Pepe Reina**. Hann hélt okkur inní þessum leik.


Er jafntefli á þessum útivelli verstu úrslit í heimi? Nei.

En núna hefur Liverpool liðið spilað 4 leiki í deildinni án þess að sýna í raun almennilegt spil, fyrir utan ágætis baráttu í seinni hálfleik gegn Arsenal. Þessir leikir hafa í raun bara verið algjörlega beint framhald á þeirri spilamennsku, sem okkar menn sýndu undir stjórn Rafael Benitez á síðasta tímabili. Þannig að væntingar sumra um að leikmenn myndu spila betur þegar þeir losnuðu undan stirðleika Benitez hafa ekki ræst.

Aðallega er sóknarleikurinn hreint afleitur hjá liðinu. Joe Cole kemur vonandi inní liðið í næsta leik og kannski að það bæti einhverju við liðið.

Það er allavegana fátt, sem hægt er að gleðjast yfir í spili okkar manna og næst í deildinni er það svo heimsókn á Old Trafford.

98 Comments

  1. Aumingjaskapur og metnaðarleysi. Við erum bara ekki betri í vetur og verður í baráttu um 5- 8 sæti allt annað er bara draumórar.

  2. Þó að sóknarleikurinn hafi verið afleitur eins og bent var á, var vörnin slök líka. Frábær tilþrif Reina forðuðu því að Birmingham skoruðu a.m.k. tvö mörk í fyrri hálfleik.

  3. Glen Johnson var arfaslakur í þessum leik, leist samt ágætlega á þær 15 mín sem Meireles fékk.
    Maður leiksins var klárlega Pepe Reina

  4. Hver kúkaði í korn flakesið hjá Whoopi Goldberg?? Herfilega slakur á allan hátt í dag!

  5. Eina sem mér fannst gott í þessum leik var Meireles, hann kann allavega að senda boltann.. Og svo auðvitað frábært að Reina sé að komast í gang aftur.

  6. Mikið rosalega hlýtur Babel að fara í taugarnar á þjálfurunum sínum fyrst að hann fær aldrei breik. Ég get ekki skilið af hverju hann kom ekki inn á í dag fyrir annan hvorn kantmanninn. Hann er fljótur og ákveðinn og ekki hræddur við að fara á menn. Það kom allavega ekkert út úr Maxi og Jovanovic en samt breytir hann ekki í 90 mínútur. Það er hægt að taka nokkra góða hluti úr leiknum samt sem áður. Torres er að spila sig í form og það er alltaf gott að sjá hann klára 90 mínútur. Klárlega mikilvægasti maður liðsins að mínu mati. Nýju mennirnir stóðu sig vel og við héldum hreinu. Maður leiksins Reina og gott að fá sjálfstraustið hans í lag.

  7. Megum við drulla yfir Lucas núna?

    Nei,nei þeir voru alveg óheyrilega slakir þeir Lucas, Johnson, Maxi og Jovanovic. Skil ekki af hverju þeir tveir síðastnefndu kláruðu leikinn. Fannst nú Poulsen áberandi betri en þessir 4 þó hann hafi ekki átt neitt frábæran dag. Þetta var heilt yfir alveg svakalega slakt.

    En hvílíkur munur að fá mann í liðið sem VILL fá boltann og er ekki hræddur við að bera hann upp: Meireles. Hlakka til að sjá hann og Gerrard saman á miðjunni gegn Utd með Cole og Torres fyrir framan.

  8. Hodgson gerði allt vitlaust í dag
    Maxi átti aldri að klára þennan leik.
    Skrtl átti aldrei að klára þennan leik
    Torres átti aldrei að klára þennan leik
    Johnson átti aldrei að klára þennan leik.
    Poulsen átti aldrei að klára þennan leik
    Agger og Kyrgiakos voru á bekknum en enginn Kelly.
    Pacheco var á bekknum samt kláraði Maxi leikinn.
    Babel var á bekknum, samt kláraði Jovanovics leikinn.
    Skrtl og Carra miðvarðarpar hefur aldrei virkað, aldrei.
    2 menn í sókn á móti 7 bláum hlýtur að kalla á breytingar.
    Jesús guð almáttugur, hvernig stendur á því að allir nema yfirstjórnin á Merseyside sér að þetta var slakasta miðja sem hefur nokkurn tíman spilaði í þessum búning.
    Það er fullt af fínum köllum þarna og þeir voru bara hafðir á bekknum í einni slökustu spilamennsku sem sést hefur.
    Hversu lélegur þarf maður að vera til að vera skipt út af í hálfleik hjá Liverpool?
    Þarf maður að vera Jóhanna Sigurðardóttir til að vera skipt út af eða?
    shitt hvað ég er brjálaður.

  9. Hodgson fær alls ekki háa einkunn hjá mér í dag og það þarf að koma honum í skilning um að hjá Liverpool er jafntefli gegn Birmingham ekki ásættanlegt, hvorki heima né heiman. Það er allavega lágmark að gefa þessu séns og reyna að sigra. Allt allt of margir trédrumbar í hryggsúlunni í dag og með Carra – Skrtel í miðvörðum og Poulsen – Lucas fyrir ofan þá er ekki líklegt til árangurs og meira leitað að sendinguaftur á Reina heldur en upp á G&T. Sérstaklega gengur þetta line up ekki upp ef allur kanturinn er eins geldur og hann var í dag.

    4 leikir, einn sigur og Old Trafford næst, frábært.

  10. Mér fannst menn sækja virkilega í sig veðrið í seinni hálfleik. Stjórnuðum leiknum síðasta hálftímann. Maxi var afleitur í fyrri hálfleik en hann kom nokkuð sterkur inn í þann seinni og var áberandi í spilinu. Gerrard átti flotta spretti síðasta hálftímann og Jova líka. Torres átti ekki góðan leik.

    Allavega, Birmingham hefur ekki tapað á þessum velli í meira en ár. Baráttan um fjórða sætið tapast ekki á því að sækja 1 stig á útivelli gegn Birmingham.

  11. Ef við lítum á björtu hliðar gætum við með Sigri á Man Utd náð Þriðja sæti

  12. Við erum bara heppnir að hafa ná 1 stigi úr þessum leik, og það er Reina að þakka og engum öðrum.
    Konchesky var ágætur en það er varla hægt að dæma Meireles sem fékk fáar mínútur en virkaði ferskur þrátt fyrir það.

    Það eina sem ég get gert til að halda geðheilsunni er að endurtaka í huga mér þá staðreynd að þetta byrjunar prógram okkar í deildinni er gríðar erfitt, fyrst leikur gegn Arsenal svo Man City svo auðvitað leikur sem verður að teljast auðveldur enda vannst hann gegn WBA, svo þessi leikur í dag gegn Birmingham á einum erfiðasta útivelli í úrvalsdeildinni og svo úti leikur á Old Trafford um næstu helgi.
    Svakalega erfið byrjun verður að játast og hvað þá fyrir lið sem er í sárum eins og Liverpool er og hefur verið í mjög langan tíma.

    Er ég brjálaður yfir því að við erum ekki ofar á töflunni eftir þessa 4 leiki? Nei.
    Í draumaheimi hefðum við unnið Arsenal eins og allt stefndi í, svo ekki skitið uppá bak gegn Man City en svona er bara raunveruleikinn.

    Næsti leikur í deildinni er úti leikur gegn Man Utd og maður verður að viðurkenna að stig úr þeim leik er alveg ásættanlegt, þó svo að maður vonist auðvitað eftir sætum sigri 🙂

    Best að byrja að undirbúa sunnudagssteikina.

    YNWA!

  13. Gerrard og Torres þurfa að fara að laga sendingar, einnig þarf Torres að fá úr einhverju að moða

  14. váá hvað ég er hræddur um að sjá okkar menn rassskellta á old trafford næstu helgi shit!! en ef roy vill ná stuðningsmönnum á sitt band rífa upp sjálfstraust í liðinu og keyra þetta í gang þá er sá leikur gott tækifæri !

  15. 14
    Ég held að hörmuleg frammistaða Maxi Rodriguez, sé nú helsta ástæða þess að maður saknaði Kuyt.

  16. Tveir bjartir punktar í þessum leik ! Reina varði eins og hann gerði best og Mereiles virðist hafa sendingargetu og vilja til að spila fótbolta !

    Allt annað í þessum leik var arfa, arfa, arfa, arfa, arfa, arfa, arfa slakt ! Það sjá það allir að Lucas og Poulsen er ekki að virka saman og jafnvel ekki að virka yfir höfuð. Of snemmt að segja til um Poulsen en Lucas er búinn með alla sénsa hjá mér. Hann er bara ekki nógu góður ! Glen Johnson var svo að eiga slakasta leik sem ég hef séð hjá honum síðan hann kom til Liverpool. Tapar boltanum glórulaust og var á jogginu allan tímann !

    Það er nokkuð ljóst að það er ennþá eitthvað krabbamein í liðinu sem að er bara ekki að hverfa eða enginn hefur áhuga á að setja það í meðferð. Þetta er illkynja krabbamein sem heita Gillet og Hicks. Annars finnst mér lélégur leikur okkar manna í dag ekki skrifast á þá, menn eru bara einfaldelga ekki nægilega góðir ef frá eru taldir örfáir ! Þarf ekkert að telja þá upp, það vita allir hverjir það eru.

    Það verður sífellt erfiðara að horfa á Liverpool leiki ! Það er nú bara þannig !

  17. Maxi er eins og ég sagði ,hann er ekki að meika það en það vantar að menn skjóti að marki en séu ekki að byðja aðra um það.

  18. Í raun litlu að bæta við skýrslu Einars með athugasemd Babu.

    Styð þá báða heilshugar.

    Veturinn verður svona elskurnar, öll stig sem við vinnum verða unnin með baráttu og einstaklingsframtaki þeirra fáu heimsklassa einstaklinga sem við eigum. Því miður var látið eins og leikmennirnir sem hópinn skipuðu í fyrra væru ekki vandamálið og með það að vopni var lagt inn í sumar þar sem sóknarleikur liðsins var í raun styrktur afar lítið, eða allavega alls ekki nóg.

    Í dag fannst mér ég sjá fína hluti hjá Konchesky og Meireles kom ferskur inn. Annað jákvætt var það nú ekki utan þess að Reina sannaði hversu frábær hann er.

    Ekki nenni ég að ergja mig eða aðra að ræða um augljósa hluti eins og að miðjukombó tveggja varnarsinnaðra einstaklinga skapar ekki mörg færi eða það að hvorki Maxi eða Jovanovic eru kantmenn, heldur framherjar og því fær Torres afar takmarkaða hjálp.

    Það að við keyptum ekki sterkan senter með El Nino eða alvöru kantmenn sem taka bakverði á er auðvitað bara sönnun þess að við erum ekki tilbúnir í neitt meira en baráttu um 4. – 10.sæti í bili og alltaf augljósara að markmið sumarsins var að vinna varnarsigur í pressunni með að skipta um stjóra og treysta því að hann næði meira út úr mannskapnum en Benitez.

    Hingað til er ég sammála Einari Erni að ekkert slíkt er að sjást og satt að segja finnst mér Hodgson hingað til vera bara enn einn skipulagði þjálfarinn sem leggur meira upp úr vörn og virðist lítið leggja upp úr sóknarleik.

    En það er ekki alvont að taka stig á St. Andrews og nú bara vonar maður að liðið síni einhvern takt gegn Steua Búkarest á fimmtudagskvöldið…

  19. Hvað eru allir að væla? Birmingham gerði jafntefli við Chelsea líka í fyrra, meirasegja í bæði skiptin held ég, og þeir unnu samt deildina.

  20. Ég er á því að ef að Gerrard og Meireles verði saman á miðjunni með Cole í holunni og Torres frammi þá munum við sjá virkilega flottan fótbolta hjá Liverpool. Svo finnst mér Jova vera hörku fótboltamaður. hann er öðruvísi leikmaður en ég hélt. Mér fannst hann vera svipaður leikmaður og Kuyt þegar ég sá hann í fyrstu leikjunum, en svo er ekki. Hann hefur tækni og hraða. Það þarf bara að koma honum betur inn í spilið.

    En já það er búið að ræða þetta svo oft, það er búið að reyna þetta svo oft, og þetta er búið að mistakast svo oft. Tveir varnarsinnaðir miðjumenn saman á miðjunni. Vitið þið, bara, þú veist, HÆTTIÐI ÞESSU!

  21. Allan Curbesley gamli West Ham stjórinn sagði að vandamál Liverpool væri að ef Gerrard og Torres spila ekki vel þá sé enginn til að taka af skarið og hann sagði líka að bara þeir tveir hefðu getað komist í gömlu góðu Liverpool liðin,allir hinir leikmennirnir sem við höfum í dag væru miðlungsleikmenn. Hann sagði reyndar líka að Liverpool væri búið að tapa fear factornum sem stórlið hefðu og það væru litlu liðin farin að notfæra sér,svo að þetta verður ekki auðvelt í vetur hafi einhver haldið það. En það er nokkuð ljóst að kanntmennirnir í dag eru varla miðlungsleikimenn fyrir ensku deildina og reyndar bara sorglegt að stjórinn skuli ekki hafa skift þeim útaf. En potugalinn lofar góðu og Reina er kominn aftur og það reddaði stigi í dag.

  22. Torres átti allan daginn að fá að klára leikinn. EF hann hefði náð að skora og farið með það í United leikinn en í staðinn fyrir að hafa ekki náð að skora og verið skipt útaf 80 min. Hvor Torresinn myndi maður velja. En Lucas shit, hann passar ekki í þetta lið, átti aftur skelfilega leik fyrir Liverpool eins og nánast allt sem hann hefur reynt að gera.

  23. RH segist stoltur með stigið. Metnaðarlaus aum***i sem losna þarf við daginn eftir að trúðarnir missa klúbbinn.

  24. Það voru a.m.k. sjö leikmenn Liverpool (miklu) verri en Lucas í dag, þ.m.t. Gerrard og Torres.

  25. Höfum ekki skorað úr föstu leikatriði síðan Gary McAllister var og hét!! Inná með Babel og setja Lucas á tombólu og láta Poulsen fylgja með… Maxi Guð minn góður! Eitt stig er betra en ekki neitt!!
    Áfram Liverpool.

  26. Menn eru enn hérna að tala um Babel sem einhverja lausn í okkar málum, óslípaðann demant sem þjálfararnir neita að sjá er næsti Ronaldo !! Þessi drengur hefur fengið fjölmörg tækifæri í aðalliði Liverpool en hefur engan veginn náð að sanna sig. Held að hann verði aldrei neitt þessi piltur.

    Ljósir punktar inn á milli, Agger vantaði í vörnina enda okkar besti miðvörður, Kuyt á hægri kanntinn, Cole uppi með Torres, Meireles og Gerrard á miðjuna og Jovanovic á vinstri. Ekki alslæmt lið.

  27. sáttur með stigið. en hvað eru allir að væla í lucasi eða hann var mun betri en poulsen sem er mjög lélegur að mínu mati.ég verð brjálaður ef poulsen er inná á móti man utd frekar sit ég pálsson inná.

    YNWA

  28. fyrir hvert eitt comment sem talar illa um Lucas koma alltaf 4-5 á móti sem nefna einhvern sem var lélegri en hann í leiknum. Hann er basically orðin viðmiðið um hvað er að vera lélegur, ef þú varst lélegri en Lucas þá varstu geggjað lélegur……get ekki með nokkru móti skilið einhvern sem ætlar í alvörunni að halda því fram að hann hafi verið eitthvað annað en ömurlegur í nákmæmlega öllum sínum aðgerðum í dag, gerði ekki annað en að láta brjóta og “brjóta” á sér í fyrri hálfleik og var svo gjörsamlega ósýnilegur eftir það…..leikur liðsinns gjörsamlega stökkbreyttist við brotthvarf hans, ef þið sáuð það ekki, þá hafið þið verið að horfa á annan leik en ég.

    Vill samt taka fram að þetta er það fyrsta slæma sem ég skrifa um einhvern leikmann hérna og það er bara af því að hann virðist vera eini maðurinn sem 3 af 4 virðist taka það rosalega nærri sér að það sé talað illa um hann.

    Og ég veit vel að allt liðið stóð sig fáránlega illa í dag, það er enginn að mótmæla því en þessi náungi er alltof lélegur í það að spila með Liverpool.

  29. Bið ég frekar um Poulsen en Lucas í stöðu varnarliggjandi miðjumanns. Hann er þó alltént fastur fyrir og getur tæklað, þó hann hafi ekki verið sérlega sannfærandi að öðru leyti, þessa 2 leiki.

  30. Stjóri með pung hefði gert 2 skiptingar í hálfleik, Meireles og Babel fyrir Lucas og Maxi.

    • Maxi var ágætur í síðari hálfleik. Hann er einn af fáum leikmönnum sem getur spilað boltanum áfram og linkaði ágætlega með Gerrard þegar líða tók á leikinn.
    • Paulsen er miklu betri holding midfielder heldur en Lucas. Þó hann sé ekkert búinn að sýna neina stórleiki ennþá þá eru hreyfingarnar og leikskilningur mun betri en hjá Lucas.
    • Rosalega var ég ánægður með Meireles þegar hann skammaði Maxi fyrir að gefa ekki á sig hálfri mínútu eftir að hann kom inná. Svo sneri hann sér að dómaranum og lét hann heyra það stuttu seinna. Okkur vantar svona mann. Ég hef aldrei séð Lucas skamma neinn fyrir að gefa ekki á sig.
    • Svo skil ég ekki af hverju hann hefur ekki Gerrard aftar á miðjunni. Þennan stutta tíma sem Gerrard datt aftur og fór að stjórna spilinu eftir að Meireles kom inná fóru hlutirnir að gerast. Sóknin hefst á miðjunni þar sem möguleikarnir eru mun fleiri en þegar boltinn er kominn út á kantinn og vörnin búin að tvö- og þrefalda eins og þetta gerist þegar Lucas og Paulsen stjórna miðjunni.
  31. SKANDALL ….. ótrúlegt að maðurinn velji liðið svona og nú sé eg ekki fram á mikla skemmtun í dag en vona þó innilega að ég hafi rangt fyrir mér.

    Þetta skrifaði ég í dag þegar liðið kom uppá skjáinn og fékk ekkert nema þumla niður og spyr því hvað héldu menn að þetta byrjunarlið væri að fara gera í þessum leik??? Það lá alveg ljóst fyrir á þessu liði að sóknarleikur yrði lítill sem enginn sem varð svo raunin. Sumir sögðu í gærkvöldi þegar ég var að mótmæla Lucas og Poulsen saman á miðjunni eftir arfaslaka leikinn þeirra gegn WBA að það mætti alveg gefa þeim annan séns en ætla rétt að vona að þetta hafi verið síðasti séns þeirra. Ég sagði líka hér í pósti í gærkvöldi að ég vonaði að Gerrard yrði á miðjunni og þá helst með Lucas sem hefði sennilega verið skárra en Lucas og Poulsen. Poulsen er sennilega einn slakasti leikmaður sem ég hef séð klæðast Liverpool treyjunni og alls ekki tilbúin inní þetta ennþá allaveganna, hann er rosalega hægur, hugmyndansauður og lengi að hugsa og var einu sinni eða tvisvar ansi nálægt því að tapa boltanum á stórhættulegum stað í dag þegar hann var að snúa sér í hringi og vissi ekkert hvað hann var að gera en bjargaði sér fyrir horn með því að tækla í boltann. Lucas var þó að spila þokkalega við hliðina á Poulsen sem þó fékk að spila allan tímann sem er hreint með ólíkindum.

    Ég veit svo nákvæmlega hvað Maxi var að gera inná vellinum í 93 mínútur en það var nákvæmlega EKKI neitt og hefði Hodgson átt að lesa póstinn minn frá því í gærkvöldi þegar ég var að tala um að setja Babel á kantinn því Maxi greyjið hefði nú ekkert sýnt ennþá. Jovanovich var þó skárri en Maxi en þó ekki að gera neitt af viti heldur.

    En þá kannski að því sorglegasta við leikinn og það er það að Hodgson kallinn virðist hafa leikið sama leikinn og Benitez oft á tíðum og hreinlega var sáttur við jafntefli sem sást á því að hann skipti engum af sóknarmönnum okkar inná þrátt fyrir að liðið hafi ekki skapað eitt einasta alvöru færi í leiknum og menn innaborðs eins og td Maxi sem var ósýnilegur. Væri gaman að fá útskýringar á því af hverju menn eins og Babel, N gog og Pacheco fengu ekki mínútu í leiknum og liðið eins slakt og raun bar vitni.

    Það er hægt að hrauna yfir flesta menn liðsins í dag þó ég bara nenni því ekki en þess má þó geta að fyrirliðinn okkar var arfaslakur eins og hann hefur verið seinasta árið og studdi EKKERT við Torres sem var galeinn þarna fremst á vellinum og fékk enga hjálp sem sást best á því í seinni hálfleik þegar hann var farin að koma vel til baka til þess að sækja tuðruna og reyna svo að fara sjálfur einn á 3-4 varnarmenn.

    Hvað gerir Hodgson svo í næsta leik? poulsen-Lucas saman á miðjunni og Gerrard fyrir aftan Torres og Joe Cole úti hægra megin? það skyldi þó ekki vera. Vona þó að Gerrard og Meireles taki miðjuna í þeim leik með Joe Cole fyrir framan sig og Babel á hægri kantinum.

    Nú væri gott að ná kraftaverka sigri gegn Man Utd og fara byrja þetta season það er víst komin tími til…

  32. “og spyr því hvað héldu menn að þetta byrjunarlið væri að fara gera í þessum leik??? “

    mögulega að komast í burt með 1 stig frá einum af erfiðasta útivelli deildarinnar.

    Er ekki kominn tími á að margir áðdáendur Liverpool geri sér grein fyrir að liðið er bara rétt rúmlega meðallið eins og staðan er í dag? Hvaða rök eru fyrir því að Liverpool eigi að mæta í leikinn í dag og æða í burt með 3 stig?

    Ætlist þið virkilega til þess að við tökum svo 3 stig á Old Trafford um næstu helgi?
    Ég er greinilega algerlega metnaðarlaus miðað mig marga hér því ég, eins og “punglausi stjórinn okkar” er bara sáttur við stigið sem fékkst í dag, og verð ennþá sáttari við 1 stig um næstu helgi ef við verðum eins yfirspilaðir og við vorum í dag.

    Liverpool er í uppbyggingu, þangað til að fjármagn fæst og rekstur klúbbsins hættir að vera kómedía þá verður þetta dagskráin.

  33. Roy Hodgson eftir leikinn:
    “My expectations were not that high anyway. It would have been disappointing to lose but I’m not that disappointed to draw.”

    Gott að hann hefur trú aá liðinu. Hann kann að berja baráttuandann í menn greinilega.

  34. EF við ætlum okkur eitthvað gegn United þá verðum við að gera dramatískar breytingar og ekki hika við að sýna smá pung(balls). Það lið sem ég vill sjá í næsta leik er:
    Reina
    Johnson-Carra-Agger-Kol
    Babel-Gerrard-Mereiles-Cole
    Ngog-Torres
    ÉG myndi vilja nota þá Torres eins og Spánn notar Villa hafa hann í svokölluðu Freerole hlutverki. Ég held að gegn stóru liðunum gæti það renyst okkur vel. Ef hann mun vera aftar á vellinum, þá pressar vörn United manna framar á völlinn, sem opnar fleiri pláss. Og síðan þegar hann sér tækifærið, þá grípur hann það og flengir Vidic.

  35. http://www.youtube.com/watch?v=z7-Xyws3S3A hvernig Lucar fær það út að hann sé ‘Monster on the field’ er algjört bull, þessu gæji getur ekki falið sig lengur bakvið það að vera efnilegur. Hann getur ekki falið sig bakvið það að vera ekki búinn að aðlagast, hann getur ekki afsakað sig lengur þessi deild er bara ekki fyrir hann. Hann myndi fúnkera miklu betur á spáni að ég held, jafnvel Ítaliu. Tíminn hans er búinn, hann verður að fara.

  36. Sælir félagar

    Ég sá ekki leikinn í dag og eftir lestur skýrslu og kommenta þakka ég guði og þeim feðgum öllum fyrir. Mér heyrist að RH hafi lítil viðbrögð sýnt í innáskiptingum fyrr en seint og um síðir. Þetta viðbragðaleysi hans og einkennileg sýn á leikinn olli mér áhyggjum í leiknum við Man C. Þær áhyggjur virðast, að mér sýnist, ekki ástæðulausar. Því miður.

    Það er nú þannig

    YNWA

  37. Auðvitað eru allir aðdáendur LFC virkilega ósáttir við ástandið en það er bara ekki hægt að ætlast að RH lagi ástandið eftir Rafa á hálfu sumri. Það tekur meiri tíma.
    Mín skoðun á leiknum í dag er eitt gott stig í hús á erfiðum útivelli þar sem við vorum slakari aðilinn.

    Fyrir svo utan þetta yfirgnæfandi vandamál sem þeir sem stjórna liðinu verða að fara að lagfæra til að vera með í topp fjögur baráttunni. ALVÖRU KANTMENN! Í alvörunni, hvernig getum við ætlast til að vera í toppnum með tvo varnarsinnaða varnarmenn og tvo sóknarmenn á kantinum, sem eiga raunhæft að styðja við bakið á Gerrard og Torres?
    Þegar Cole kemur úr banninu verður þetta skárra þar sem Gerrard færist aftur á miðjuna og Poulsen/Lucas fer út og Cole fer í holuna, en það vantar samt kantmenn til að skapa meiri ógn. Því betri kantmenn, því meiri breidd. Því meiri breidd, því meiri ógn. Því meiri ógn, því meiri möguleikar fyrir sóknarmanninn að skora. Því meiri möguleikar fyrir sóknarmanninn að skora, því minna væl um að okkur vanti sóknarmann! Þetta er ekkert flókið andskotinn hafi það!!!

  38. Sammála 40

    Lucas ætti að vera svo gott sem fullmótaður leikmaður og nú skal gera til hans sömu kröfur og bestu miðjumanna í deildinni. Hann hafði reyndar slakan Poulsen fyrir aftan sig en gegndi lykilhlutverki á miðjunni, sem leikstjórnandi. En því miður gerðist það sama í dag og í oftast áður, hann var kaffærður af andstæðingum sínum og mátti sín lítils.

    Hversu lengi ætla menn að taka upp hanskann fyrir getuleysi hans? Vissulega hafa margir aðrir leikmenn verið að bregðast, en fótboltinn er nú einu sinni þannig að þegar miðsvæðið tapast þá lendir liðið alltaf í vandræðum.

    Maður bindur miklar vonir við Meireles.

  39. “Auðvitað eru allir aðdáendur LFC virkilega ósáttir við ástandið en það er bara ekki hægt að ætlast að RH lagi ástandið eftir Rafa á hálfu sumri. Það tekur meiri tíma. Mín skoðun á leiknum í dag er eitt gott stig í hús á erfiðum útivelli þar sem við vorum slakari aðilinn.”

    Laga ástandið eftir Rafa?

    Það voru margir sem töldu Benitez væri á réttri leið með liðið og það vær óðs manns æði að byrja 5 ára endurbyggingar tímabil. Í mínum huga var það skipti á einu lélgu tímabili í fyrra hjá Benitez fyrir 4 uppbyggingartímabil undir nýjum stjóra.

    Annars er þetta sokkinn kostnaður og eina í stöðunni að styðja Hodgon í uppbyggingu á hans leikstíl.

    Ekkert andskotans kjaftaði um enduruppbyggingu.

  40. Verst að menn fatti ekki þarna úti hvað þetta er einfalt.

    Bara stilla upp eins og eikifr og losa sig við Lucas og fá metnaðinn inn!

    En ég ætla að fá að vera sammála Hafliða. Þegar byrjunarliðin löbbuðu inná í dag var munurinn á þessum liðum einungis í raun Gerrard og Torres, þ.e. ef þær væntingar sem maður gerir til þeirra verða raunveruleikinn. Sem var ekki í dag. Og Reina, sem sá til þess að við töpuðum ekki.

    Við erum ekki með kantmenn sem fara framhjá bakvörðum, Konchesky vann ágætlega á en Johnson á mjög erfitt. Hafsentaparið okkar leit ekki vel út, enda ekkert sterkara að mínu mati en það sem snýtti Torres hinum megin. Ferguson og Bowyer betra par en Lucas og Poulsen.

    Jerome enginn Muggur sem senter og Gardner lék betur en Gerrard.

    Við höfum unnið 5 útileiki af 22 frá síðasta hausti en samt eru menn hér til í að telja lágmarkskröfu að vinna á St. Andrews. Það er mín kæru mér alveg óskiljanlegt hvernig þið haldið trúnni á að þrátt fyrir allt sé bara ástæða til bjartsýni.

    Vildi að ég væri á þeim báti og léti mér duga að hamast á Lucas eftir alla leiki.

    Vildi það SVO MIKIÐ…

  41. 27 Jæja Matti hvað hefur þú verið að reykja?

    Það vita flestir að stærsta vandamál Liverpool er lítil sendingargeta og ég get ekki annað en vonað að Hodgson átti sig á þessu og kippi bæði Lucas og Poulsen út og hendi Gerrard og Mereles á miðjuna með Cole fyrir framan. En í sambandi við leikinn í dag, hvernig í andskotanum ætlar nokkur maður að búast við því að tveir leikmenn geti gert nokkurn skapaðan hlut með tvo varnarsinnaða leikmenn (sem greinilega hafa misst af æfingunni þar sem miðjuspil var tekið fyrir) fyrir aftan sig. Það þarf 11 góða menn til að gera gott lið og auðvitað eru Lucas og Poulsen ekki í þeim flokki.

  42. Mér fannst nú Lucas ekkert það lélegur í dag, frekar var það getuleysi Poulsens sem gerði það að verkum að miðjan var rusl í leiknum. Jovanovic byrjar líka alltaf ágætlega sprækur í leikjunum sem hann spilar en hverfur svo þegar líða tekur á seinni hálfleikinn.
    Glen Johnson var arfaslakur en mér fannst nú hinn heilagi fyrirliði okkar alveg glataður, mér finnst hann bara ekki vera þessi týpa til þess að vera fyrir aftan Torres, held að hæfileikar hans nýtast best á miðri miðju eða á kantinum í þessu kerfi okkar.
    Síðan er það hinn steingeldi Carragher, þetta er einn geldasti fótboltamaður sem ég hef séð spila fyrir LFC og ég hlakka til þegar hann hættir. Öskrar á alla sem gera einhver smá mistök en síðan er hann mjög oft sjálfur að gera mistök í dekkningum og misreikna háa bolta osfrv. Og hann kemst upp með þetta af því að hann er svo heilagur hjá stuðningsmönnunum að enginn segir neitt. Djöfull er ég fokking pirraður!!!!!!!!!!!!!!

    Ég bara meika ekki svona jafntefli við svona lið eins og Birmingham og ég bara meika ekki annan vetur eins og í fyrra.

    Kv. Jón

  43. Sammála Di Stefano, að mínu mati er ekki nokkur ástæða til að láta Meireles koma hægt og rólega inní liðið, hann er reddý.

    Beint í byrjunarliðið með hann.

  44. Biskupstungnapunktanir

    *Öll lið í EPL er sátt við jafntefli á St. Andrews. Öll!!!

    *Lucas er ekki besti leikmaður í heimi. En hann er töluvert nær því en þessi Poulsen.

    *Sennilega er Poulsen slakasti leikmaður sem hefur spilað í LFC treyju síðan D. Traore var í einni slíkri.

    *Ivanovic er alveg ágætur, og svo er hann líka töff. Ég er líka töff svo ég veit alveg hvað ég er að tala um hérna.

    *Ef Maxi og Hr. Töff eru okkar bestu kantmenn, er þá ekki spurning um að reyna eitthvað annað en kantspil? Hvað með gamla góða “kick and hope”? Væri það í alvörunni verra en þessi skelfing?

    *Pepe Reina er BESTI markvörður í heimi!!!

    *Mér finnst meiriháttar að Höddi Magg skuli vera byrjaður að lýsa Liverpool leikjum. Höddi Magg er líka töff 🙂

  45. Djók….

    Jovanovic auðvitað 🙂 Vinsamlegast eyðið eða lagfærið 🙂

  46. ég mundi gera ljóta hluti til að eignast nútíma John Barnes núna.

  47. Reina flottur!!

    Mér fannst vanta alla hreyfingu án bolta. Menn (Glen og Plousen) voru alltof lengi á boltanum í stað þess að gefa hann og láta hann vinna fyrir sig.

    Að vísu var vörnin andsæðingana þétt og þó að þetta sé ekki tekníasta liðið í deildinni þá voru þeir góðir í pressu og gáfu mönnum eins og Torres og Gerrard engan tíma.

    Ágætis síða fyrir þá sem vilja skoða leikinn á tölrænan hátt:
    http://www.guardian.co.uk/football/chalkboards/create

  48. Las í gegnum einkunnirnar og þar skil ég ekki einkunnina hans Gerrard, sem mér fannst afar slakur í gær. En þar kom setning um Torres sem ég er sammála:

    “seemed scared to sprint”

    Það fannst mér augljóst í gær. Hann var sjaldan að setja á fullt og pressaði varnarmennina aldrei. Er vel á því að hann sé svo langt frá því tilbúinn sálrænt, þó meiðslin séu á réttum stað. Hins vegar er morgunljós að hálfmeiddur og hikandi Torres er mörgum mílum betri en allt annað sem við eigum þarna á bakvið. Við þurfum að spila honum í form ef við ætlum að vera í efri helmingi deildarinnar.

    Næsta verkefni er Steua Búkarest. Treysti því að þar fái menn eins og Kelly, Pacheco, Meireles og Ecclestone verkefni því manni finnst svo augljóst að þeir þurfa að fá að komast í eitthvað form. Okkur vantar breidd.

    Aðeins um miðjuna. Engin lið í heiminum stilla upp þriggja manna miðju í 4-3-3 án þess að vera með holding midfielder, hvað þá að við getum það með frekar tæknilega skerta hafsenta og með bakverði sem á að overlappa. Ég er hálfsvekktur að sjá að verið er að segja að Meireles gæti orðið svoleiðis leikmaður því það væri svakaleg sóun á hans hæfileikum. Hann er mjög öflugur að koma með hlaup inn í teiginn (eins og við sáum í lokin í gær) og hann hefur ekki spilað stöðu holding midfielder síðan hann var ungur að byrja ferilinn hjá Boavista.

    Gerrard er alls ekki sú týpan heldur og því þurfum við að mínu mati að vera með holding midfielder sem fyllir upp í svæðin þegar bakverðirnir fara upp kantana, og til að verjast skyndisóknum sem 75% liðanna í ensku deildinni beita gegn Liverpool. Gerrard og Meireles væri hugsanlega hægt að nota saman gegn allra slökustu liðunum þegar við erum komin með blússandi sjálfstraust, en þá í staðinn yrði að binda bakverðina neðar að mínu viti.

    Í dag þurfum við holding midfielder með Meireles og Gerrard fyrir framan, með Cole á öðrum kantinum sem leysir inn fyrir sókndjarfan bakvörð. Það er mitt álit á því hvaða lið á mestar líkur til að vinna leiki.

    Næsti deildarleikur er á OT. Miðað við uppstillingu Hodgson hingað til er ég reiðubúinn að leggja töluvert undir að hann setji upp varnarsinnað lið í þeirri ferð og viðbúið að miðjuparið góða frá helginni verði aftur á ferðinni.

    Því er nú andsk***** verr og miður…

  49. Ég horfði á fyrri hálfleikinn í gær og eftir hann leið mér svo illa að ég varð að slökkva á sjónvarpinu. Fór út með strákinn minn í göngutúr í staðinn og sleppti seinni hálfleik.

    Mér fannst fyrri hálfleikurinn ömurlegur frá a til ö. Liðið skapaði sér ekkert einasta færi. Ekkert. Það virtist ekki vilja halda boltanum. Við erum ekki Fulham, mér er fjandans sama hvað Birmingham getur á heimavelli, ég veit að það er allt í fokki hjá klúbbnum en ég geri þá kröfu að stjórinn vilji vinna leikina. Hann virtist spila upp á jafntefli og viðurkenndi að það hefðu fyrirfram verið góð úrslit. Markmiðið er að rífa stærsta félag upp og við erum með svo miklu betri mannskap en Birmingham að það er ekki einu sinni fyndið.

    Það er augljóst að Lucas og Poulsen eiga ekki að spila saman, ekki frekar en Mascherano og Lucas. Deja vu frá síðasta tímabili, haldi þetta áfram. Gerrard hefði átt að vera á miðjunni í gær með Lucasi og Pacheco fyrir aftan Torres.

    Hvað er að Gerrard og Torres? Þeir virtust ekki nenna þessu. Torres var ömurlegur í fyrri hálfleik og það vantaði allan kraft í hann. Ég vona að hann hafi verið betri í seinni hálfleik?

    Ég vona líka að það sé betra í vændum frá liðinu en það sem við höfum séð hingað til frá því Hodgson tók við. Ég vona líka að nýjir eigendur taki við og kaupi nokkra menn sem geta keyrt þetta í gang. Mér finnst enn vanta frábæran vinstri bakvörð, framúrskarandi miðjumann og framherja. Og helst kantmenn líka. Jájá, ég lifi þá bara í mínum draumaheimi…

    Takið ykkur tak strákar, svona frammistaða eins og þessi fyrri hálfleikur má ekki sjást aftur.

  50. Þetta er töff!

    54: *Ivanovic er alveg ágætur, og svo er hann líka töff. Ég er líka töff svo ég veit alveg hvað ég er að tala um hérna.

  51. Á ég að trúa því að í 59 kommentum sé enginn að lýsa óánægju sinni með að ekki var dæmd augljós vítaspyrna í fyrri hálfleik þar sem Torres var klipptur niður aftan frá af varnarmanni Birmingham. Það hefði getað orðið vendipunktur leiksins og skilað 3 stigum í hús.

    Eins og Maggi nefnir þá stillir ekkert lið í heiminum upp 3 manna miðju án þess að hafa einn varnartengilið. Og meira að segja eru sum með tvo varnartengiliði í þessari uppstillingu. Stærsta vandamál Liverpool í dag er lélegt kantspil í kerfinu 4-3-3. Ef menn skoða bestu lið í heiminum þá eiga þau það öll sameiginlegt að kantmenn þeirra geta tekið menn á og lagt þannig upp mörk. Þessir kantmenn hafa tækni og hraða og með það að vopni ná liðin að opna jafnvel sterkustu varnir. Í gær hefði sem dæmi alvöru kantmaður ekki átt í neinum vandræðum með að fara fram hjá FOCKING Stephen Carr.

    Fyrir mitt leiti hefur Jovanovic ekkert sýnt í samanburði við fyrstu leiki Riera í búningi Liverpool. Hann hefur vissulega hraða en það dugar ekki eitt og sér, Babel hefur líka hraða. Það er ekkert að koma út úr honum sóknarlega og ekki er hann duglegur að koma sér á bakvið bakverðina. Allir hans hættulegustu sprettir í gær voru þegar hann hljóp inn á miðjuna, ekki upp kantinn. Ég ekki að segja með þessu að Jovanovic sé afleitur leikmaður, hann þarf eflaust að aðlagast boltanum eins og fleiri en engu að síður þá á hann ekki að vera byrjunarliðs leikmaður hjá klúbbi eins og Liverpool.

    Væri ekki ráð nota Cole úti vinstra meginn hann átti marga flotta leiki þar fyrir Chelskí. Með hann á kantinum er Liverpool hugsanlega komið með kantmann sem getur tekið menn á og skapað ursla í vörnum andstæðinganna.

    Krizzi

  52. Hárrétt Krizzi.

    Þetta var 100% vítaspyrna og mögulega rautt spjald.

    Enskir dómarar eru bara þeir lélegustu í Evrópu og því miður er maður einhvern veginn orðinn vanur því að horfa upp á svona skandala. Halsey var ömurlegur!!!

  53. Svona mun þetta vera þetta tímabil liðið mun þurfa að berjast fyrir hverju stigi í hverjum leik,ég held að vandarmál liverpool sé ekki lukas eða polsen eða einhverir aðrir,vandarmál liverpool er gerrard og torres,allir leikmenn bíða eftir hvað þessir 2 menn gera og ef þeir gera ekkert þá gera aðrir leikmenn ekki neitt heldur,hvernig væri bara að hvíla gerrard og torres í nokkra leiki og láta aðra leikmenn leika leikina,þá kannski og bara kannski taka þessir aukaleikarar smá frumkvæði en bíða ekki eins og hauslausar hænur.

  54. 63:
    Er alveg sammála þér með kanntmennina þeir eru ekki nógu góðir það hefur alveg sýnt sig og að mínu mati finnst mér Maxi ætti að vera fyrsti maður út hefur ekkert sýnt mér síðan hann kom en það er nú bara mín skoðun.

  55. Krizzi, ég minntist á þetta vítaspyrnuatvik í sjálfri skýrslunni.

    Stærsta vandamál Liverpool í dag er lélegt kantspil í kerfinu 4-3-3. Ef menn skoða bestu lið í heiminum þá eiga þau það öll sameiginlegt að kantmenn þeirra geta tekið menn á og lagt þannig upp mörk. Þessir kantmenn hafa tækni og hraða og með það að vopni ná liðin að opna jafnvel sterkustu varnir. Í gær hefði sem dæmi alvöru kantmaður ekki átt í neinum vandræðum með að fara fram hjá FOCKING Stephen Carr.

    Ég er svoooo hjartanlega sammála. Að mínu mati gæti það kannski einhvern tímann gengið upp að Lucas og Poulsen væru þarna saman á miðjunni, það er ef að “kantmennirnir” væru að spila vel. Barcelona gæti eflaust spilað vel með Lucas og Poulsen á miðjunni fyrir aftan Xavi og þá í fremri línunni, sem þeir eru með. (ég er ekki að segja að Poulsen og Lucas kæmust í Barca liðið fram fyrir þá leikmenn, sem eru þar í dag – bara að Barca lið með þeim tveim og svo öllum hinum mönnunum gæti alveg spilað fínan fótbolta).

    En málið er bara að ef að kantmennirnir gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Maxi og Jovanovics voru aldrei nokkurn tímann líklegir til að skapa nokkurn hlut í gær. Það er stórt vandamál. Vissulega eru þeir varamenn fyrir Cole og Kuyt, en samt þá voru þeir afleitir, sama hvernig á það er horft.

  56. Ekki það að mér finnist eitthvað gaman að vera að sparka í dauðann hest en enn og aftur er það bara svo hrikalega augljóst að okkur vantar staðgengil fyrir Alonso…… Þetta “Creative playmaking/Killer-pass” vantar og hefur vantað í þó nokkurn tíma, vondandi að Joe Cole geti breytt einhverju þar.
    Gerrard varð strax hættulegri þegar hann var færður aftur og Raul Meirelles kom inn á,
    Poulsen og Lucas…………Jeminn eini………..nákvæmlega það sama og Masch. / Lucas, Poulsen er bara lélegri leikmaður.
    Það hefur ekki mikið breyst frá því Rafa var, frekar til hins verra ef eitthvað er.
    En við verðum að gefa Roy lengri tíma og vonandi birtir til…………….vondandi

  57. Það er víst byrjað að kalla stjórann Roy Benitez,svo varkár er hann og svo var hann víst ánægður með jafteflið. En lélagsti leikmaður Liverpool í gær var Charrager sem þrátt fyrir alla sína reynslu virðist ekki getað komið boltanum frá sér öðruvísi en að sparka honum hátt og langt upp í loftið og þar fyrir utan er hann seinn og brýtur orðið ansi oft klaufalega af sér á hættulegum stöðum. Þar sem þessi annars góði drengur er búinn að fá sinn ágóðaleik legg ég til að honum verði kippt út úr liðinu núna og Agger settur inn með Skertl sem eru jú báðir miklu betri heldur en Charrager.

  58. Ég varð nú fyrir mestum vonbrigðum með G&T, það eru mennirnir í liðinu sem eiga að hafa X-factorinn til að klára svona leiki. Þá finnst mér Glen Johnson hafa verið hrikalega slakur það sem af er og engin ógnun af vængjunum. Babel/Pacheco hefðu mátt koma inn á til að fríska upp á vængina því Jova og Maxi höfðu afar lítið fram að færa í gær.

    Þó menn hneykslist alltaf yfir Lucas og Poulsen þá voru þeir bara að skila því sem til er hægt að ætlast af þeim, ekki er ég allavega að búast við því að annar þeirra breytist skyndilega í Xabi Alonso á einni nóttu

  59. Held að Jamie Redknapp ætti að halda kjafti. Hann er tengdur stjóra sem er í samkeppni(vonandi) við Liverpool.

  60. Úfffff……………

    Ég þurfti gærdaginn til að jafna mig eftir þessa hörmung! Já já Birmingham er ekki búið að tapa á heimavelli í rúmt ár en hvað með það?? Gjörsamlega ömurlegur leikur hjá okkar mönnum og bara einum manni að þakka að við töpuðum ekki. Hvar á ég eiginlega að byrja? Johnson virðist kominn með Titus Bramble heilkennið, frábær stundum en eins og útreyktur hippi hina stundina, dettur í eh Zone og fer á aðra plánetu, ásamt félaga sínum Skrölta, sem ég skil ekki að hafi fengið sjéns eftir leikinn gegn WBA. Sleðarnir á miðjunni, sem virðast með 10 auka kílo í buxunum, vinna varla bolta og þegar það gerist er hann sendur aftur eða til hliðar. Var Maxi í þessum leik? Á hvaða leik var RH að horfa, algjörlega óskiljanlegt að hann skyldi klára 90 mín, maðurinn hefur ekki tekið mann á síðan hann kom til Liverpool og engin breyting var í þessum leik. Reyndar alveg stórundarlegt og tilefni til rannsókna hvernig við gátum fundið Argentínumann og Brasilíumann sem hafa hvorki hraða né tækni! (lucas- Maxi) Torres og Gerrard virtust ekki nenna þessu. Hvað með Babel, RH talar og talar um að hann fái tækifæri, var ekki tækifærið í gær? Jovanovic lélegur, en ætla ekki að dæma hann strax. Raul kom vel inn og verður að vera i byrjunarliði í næsta leik. Stjórinn? Spilar uppá jafntefli þannig að hann hlýtur að vera sáttur, en hvað er í gangi í föstum leikatriðum, í hvert einasta skipti sem við fáum á okkur fast leikatriði er stórhætta, ég vil benda RH að finna nóturnar hjá RB og halda því sem amk var gott hjá okkur, þ.e. Zonal marking, í öllum leikjum undir RH höfum við verið í tómu tjóni í föstum leikatriðum og skrýtið að enginn bendi á það. Ég hélt ég væri búinn að ná mér niður, en er bara að vera fúll aftur við þessi skrif, hætti bara núna og reyni að enda jákvæður, ÞETTA GETUR BARA EKKI VERSNAÐ!!
    YNWA

  61. Ég er alveg sammála Redknapp um Torres, hann er buinn að virka latur og áhugalaus í undanförnum leikjum.

  62. Lucas hefur á þremur tímabilum skorað 4 mörk og lagt upp 11. Segi ekki meir….

    http://soccernet.espn.go.com/players/stats?id=108315&cc=5739

    Poulsen á þremur tímabilum (sevilla og juve) 4 mörk og 5 stoðsendingar. Segi ekki meir

    Gareth Barry (sem við vildum en höfðum ekki efni á) á þremur tímabilum 19 mörk og 24 stoðsendingar. Segi að einhver af þessum mörkum koma úr vítaspyrnum en engu af síður eru þetta tölur sem ég vil frekar sjá en hjá “metnaðarleysis-kaups-miðjumönnum”.

    Vona að við séum ekki að detta í að kaupa fullt af gæjum á meðalverði….eins og þegar við vorum að kaupa titi camara, bruno cheyrou, eric mejer og fleiri.

  63. Alveg svakalegt að við keyptum ekki Barry, er svo sammála því!

    Svo er ég sammála með föstu leikatriðin, við lítum kjánalega illa út í þeim og bara heppni og ekkert annað að við höfum ekki fengið á okkur fleiri mörk hingað til úr þeim. Zonal eða ekki zonal skiptir engu máli, heldur að við höfum plan og menn fylgi því.

    Margt neikvætt enn í dag….

  64. Á síðustu árum höfum við sárasjaldan unnið Birmingham. Í fyrstu mátti kenna því um stórleiki Maik Taylor í marki Birmingham en nú þökkum við Reina fyrir stigið. Sorglegt.

  65. Redknapp var í viðtali við ákveðið skítablað.

    Það þarf enginn að efast um heillindi Torres. Hann heldur meira með Liverpol en flestir hér. Hann hefur hafnað því að fara til annars liðs sem borgar meira á viku en flestir hér fá á mörgum árum.

    Auk þess er Torres að koma úr meiðslum. Hann mun sýna sitt rétta andlit.

  66. Ég er sammála Tomma í nr 69. Það er til skammar að hann sé að spila alla leiki fyrir LFC. Fínt að hafa hann í liðinu til að hvíla menn og leysa af í meiðslum en ekki meira en það.

  67. Ég bara trúi ekki öðru en Gerrard og Torre fari í gang á næstunni og þarafleiðandi restin af liðinu og svo má Jovanovic alveg skjóta að markinu, hann virðist vera ragur við það, en þetta kemur allt saman. 🙂

  68. Barry átti skelfilegt tímabil í fyrra og ekki hefur hann verið betri í ár.

  69. markmiðið náðist að ná í 1 stig en það var með herkjum

    Miðjan:Jovanovic, Poulsen, Lucas, Maxi náði ekki að gera neinar rósir þótt að 2 bestu leikmenn í heimi væru upp á topp til að gefa á.

    mjög dapurt í meira lagi og það verður greinilega sama upp á teningnum í næsta deildarleik því þar er ennþá sterkari mótherji á ferð.

  70. Þetta verður erfiður vetur, en áfram Liverpool!!!!!!!!!!!!!!!!

  71. Meireles og j.Cole fara nú að detta inn í byrjunarliðið þannig það er allavega 1hvað jákvætt.
    Svo vonandi kyrkiagos til að éta þessa skallabolta

  72. @ maggi nr 75.

    “Alveg svakalegt að við keyptum ekki Barry, er svo sammála því!”

    neihhhh strákar. kommon.

    Án Barry náðum við 90 punktum 2008-2009. Auðvitað hefði hann bætt hópinn mikið. En þetta er ekki make or brake kaup síðustu ára.

    Ef einhversstaðar eru tímamótakaup sem hefðu átt að verða. Þá var það t.d. að kaupa einhvern annan en Robbie Fokking Keane á 20 millj. punda. Nú eða setja peningin sem fór í Aqiulani í fyrra í einhvern framherja eða senter.

    Miðjuspilið í gær var alls ekki nógu gott. Alls ekki. En ástæðan fyrir því að við unnum ekki, er sú að það er nákvæmlega ekkert að frétta þarna fram á við! Royson er ekkert vitlaus, hann er ekki að spila þeim Poulsen og Lucas til þess að þeir eigi 10-15 lykilsendingar fram á við. Þeir eru þarna til að ná ró og festu á miðjuna. Lucas er frábær í því. Poulsen er hamborgari í pulsubrauði.

    Gareth Barry er ljómandi flottur spilari. En að halda því fram að það væri bara allt annað liverpool lið núna ef hann hefði komið, er tja… tæpt í besta falli.

    Við skulum sjá til. Við eigum Joe nokkurn Cole alveg inni ennþá…

  73. 81 Helginn “Miðjan:Jovanovic, Poulsen, Lucas, Maxi náði ekki að gera neinar rósir þótt að 2 bestu leikmenn í heimi væru upp á topp til að gefa á.”

    Eins og þessir 2 bestu leikmenn í heimi voru að leika þá teldust þeir tæplega vera tveir bestu leikmenn KFR !

    En eins og Biskupstugna greifinn segir þá eigum við Joe Cole nokkurn alveg inni, sem er mjöööög jákvætt. 🙂

  74. Afhverju eru allir svona fúlir? Ég var búinn að sjá það að ég gæti ekki haft neinar væntingar til tímabilsins svo að stig í hús tel ég bara mjög gott.

    • Afhverju eru allir svona fúlir? Ég var búinn að sjá það að ég gæti ekki haft neinar væntingar til tímabilsins svo að stig í hús tel ég bara mjög gott.

    Af því að liðið var að spila mjög illa og leiðinlega og líkt og þú virðist liðið og leikmenn hafa stillt væntingarnar í hóf.

  75. Við skulum bíða og sjá þar til við að við getum stillt upp Gerrard, Meireles og Cole í sama leiknum. Stærsta vandamálið liggur ekki í framherjunum okkar. Vandamálið er miðjan. Við þurfum að hafa þannig mannskap á miðjunni og köntunum að boltinn komist yfir höfuð fram. Meðan Lucas og Poulsen starta á miðjunni getum við ekki búist við að sjá neitt gerast hjá Torres.

    Cole, Gerrard og Meireles allir inná með Torres frammi og einhvern kokteil af þeim könturum sem við höfum gæti alveg verið formúlan að sómasamlegum sóknarleik. Þetta hefur bara ekki verið í boði ennþá, Meireles var að koma inn á í sínum fyrsta leik og Cole er að snúa aftur úr banni. Meðan við höfum amk 2 af þessum þremur heila þá ætti sóknarleikurinn hjá okkur að líta þeim mun betur út.

  76. Það er ekki bara að það koma engar sendingar. Stór hluti af vandamálinu er að menn fara ekki í hlaup inn í svæði eða bjóða sig til að fá boltann. Birmingham menn vissu hvað þeir ætluðu að gera þegar þeir unnu boltann og leikmenn þeirra tóku hlaup í rétt svæði. Það sem breyttist þegar mereiles kom inn á og Gerrard fór neðar á miðjun var að þar kom maður sem tók sín hlaup og vann sína vinnu. Það vantar sárlegast hreyfingar á leikmenn í þetta lið og að þeir sem hafa boltann viti í hvaða svæði sendingar frá þeim eiga að koma. Ekki bara að leita eftir sendingum á Gerrard eða Torres. Mín tillaga er miðja Lucas Meireles Cole og Babel og Gerrard á köntunum með frelsi að skipta oft um kant. Með þessa miðju mætti Carragher fyrir mér spila sem striker:)

  77. “Af því að liðið var að spila mjög illa og leiðinlega og líkt og þú virðist liðið og leikmenn hafa stillt væntingarnar í hóf.”

    Það gerðu þeir líka á síðasta tímabili og það hefur ekkert breyst. There for no væntingar. Svo verður tímabilið ekki jafn leiðinlegt ef við bara minnkum kröfurnar þangað til nýjir eigendur koma inn.

    Kisskiss!!

  78. Sorglega lélegt í alla staði. Reina og Meireles einu ljósu punktarnir í þessum leik. Vonandi þurfum við ekki að nota Lucas framar og vonandi þurfum ótrúlega sjaldan á Maxi að halda. Hvar eru allir ungu leikmennirnir sem hafa verið fengnir til liðsins síðust ár, eigum við virkilega engann ungan graðan kantmann til að koma þarna inn til að bakka Cole og Hollesnksa fjárhundinn upp?

    Hvernig í ósköpunum gat Lucas verið kosinn besti leikmaðurinn í brasilísku deildinni tímabilið áður en LIVERPOOL asnaðist til að kaupa hann? Hvað voru allir hinir í þeirri deild lélegir í fótbolta?

    YNWA
    Geiri

  79. Í sjálfu sér er stigið ekki alslæmt, en spilamennskan og metnaðarleysið var alveg til skammar.
    Rosalega er samt dapurt að sjá hér hvað margir eru sáttir við þetta, er þetta stig svona gríðarlega mikilvægt, væri ekki betra að tapa og sjá kannski eitthvað jákvætt við spil liðsins.
    Það er eðlismunur á einu stigi og jafntefli, er liðið að sækja til sigurs eða nær liðið stigi með stórleik markmannsins?
    Hodgson gerði fína hluti hjá smáliði Fulham, stýrði þeim í tvö og hálft ár, bjargaði liðinu frá falli á fyrsta tímabilinu, og byggði svo ofan á liðið.
    Á þessum tíma gerði hann ellefu 0-0 jafntefli á útivelli í deild, fleiri en nokkurt annað lið í deildinni.
    Þar af náði hann tveimur slíkum gegn okkur.
    Þannig að þetta er það sem koma skal.
    Hér halda menn að allt lagist með einum eða tveimur mönnum sem við eigum inni, það held ég að sé ekki staðreyndin, en það má víst vona.
    Þetta verður snjóþungur vetur og vorar seint.

  80. Jæjja búinn að henda Meireles inn í byrjunarliðið mitt í fantasy league, djöfull verður gaman að taka 3 stig á Old Trafford! 🙂

  81. “væri ekki betra að tapa og sjá kannski eitthvað jákvætt við spil liðsins.”

    Ehhh nei. Stig er stig, vildi ekki skipta á því og því að yfirspila Birmingham í 90 mín og tapa svo.

    En það er auðvitað bara mín skoðun. 😉

  82. Ég held að þetta tímabil eigi eftir að vera svona.
    Þar sem menn eru sáttir við það að fá eitt stig á útivelli. Því miður þá fannst mér ekki einsog leikmenn og þjálfarar hafi verið ósáttur við úrslitin.

  83. Menn eru að tala um að sóknarleikurinn verði sómasamlegur, a.m.k. betri þegar Meireiles og J. Cole koma inn. Það er eflaust rétt en er virkilega hægt að búast við því að þeir tveir + G&T verði klárir megnið af tímabilinu? Því ef þetta verður svona þegar það vantar 1-2 af þessum fjórum verður ekki gaman að lifa í vetur.

  84. Þess vegna er maður enþá spenntari fyrir að sjá þá alla spila saman þann tíma sem þeir verða heilir

Liðið gegn Birmingham

Þriðjudagur 14.september