Varaliðið 2009 – 2010

Svona milli þess sem Steini fer í gegnum aðalliðshópinn og möguleika okkar á nýjum mönnum í stöður ætla ég aðeins að fara í gegnum þau lið sem standa aðalhópnum að baki, vara- og unglingaliðunum. Í dag ætla ég að líta á varaliðið síðastliðinn vetur

Eins og allir vita voru gerðar gagngerar breytingar í starfsliði þeirra og áherslum síðasta sumar undir stjórn Rafael og ekki vert að velta aðeins fyrir sér hvernig gekk.

Varaliðið

Í fyrrasumar var John McMahon, bróðir Steve’s nokkurs, fenginn til að taka við stjórn varaliðsins af Gary Ablett. Vitað var að Rafa myndi láta Ablett fara og töluvert var rætt um gamlar Poolarahetjur eins og Gary McAllister og Mark Wright sem kosti. Það kom því nokkuð á óvart þegar McMahon var ráðinn. Þá var hann starfandi sem aðstoðarframkvæmdastjóri Shrewsbury Town, hafði verið þar í 4 ár og áður þjálfari hjá Tranmere í 8 ár.

Hins vegar var ljóst að Rafa hafði á honum trú, hafði fylgst með honum um tíma og taldi hann rétta manninn í starfið. McMahon sótti sér markmannsþjálfara til Tranmere í John Achterberg en áður hafði verið tilkynnt um að Antonio Gomez Perez hefði verið ráðinn þjálfari hjá varaliðinu. Perez var fyrrum lærisveinn Rafa sem að hafði náð góðum árangri með yngri lið Albacete og þessum var treyst fyrir því verkefni að framleiða fleiri leikmenn fyrir aðalliðið.

Frammistaða liðsins

Liðið hóf keppni með æfingaleikjum, þar sem varaliðsdeildin er einungis 18 leikja deild. Þeir voru flestir gegn aðalliðum neðrideildarliða sem er sú áhersla sem lagt hefur verið upp með. Keppni í deildinni hófst í ágúst og eftir tap í fyrsta leik flugu menn í gírinn. Ellefu leikir án taps skilaði liðinu efsta sæti deildarinnar þegar 2/3 mótsins var lokið.

Þegar þar var komið höfðu orðið þær breytingar að lykilmenn liðsins, Ayala og Pacheco voru komnir í aðalliðshópinn, Darby, Ecclestone og Spearing komnir í lán. El Zhar og N’Gog sem höfðu fengið leiki alveg skornir frá og í staðinn voru komnir menn upp úr unglingaliðinu. Því miður náðu þeir ekki að standa undir pressunni og fimm töp í röð gerðu út um vonir á að vinna Varaliðsdeildina, sigur í lokaleiknum með mjög ungu liði tryggði liðinu þriðja sætið í norðurriðli varaliðadeildar Úrvalsdeildarinnar, sem erkifjendurnir í United unnu.

Í góðleikjahrinunni tók liðið þátt í Lancashire Senior Cup og komst þar í úrslitaleik með því að leggja varalið United, Bolton og Wigan. Það þýðir að varalið Liverpool mun leika til úrslita í þeirri keppni, sem við höfum unnið tíu sinnum, síðast 1973. Þetta var upphaflega keppni aðalliðanna í Lancashire en síðustu 40 ár hafa stóru liðin stillt upp veikari liðum í þessari keppni.

En, allavega úrslitaleikur Lancashire Senior cup árið 2010 er á milli Liverpool FC og Oldham og verður leikinn 24.júlí 2010. Völlur kynntur síðar!

Frammistaða leikmanna

En ef við lítum fram hjá úrslitum liðsins og skoðum frammistöðu leikmanna þá var afar gaman að fylgjast með liðinu á meðan vel gekk, liðinu var iðulega stillt upp á svipaðan hátt og aðalliðið, 4231 með svipuðum áherslum í leikstílnum. Fullt af mörkum skoruðum og margir leikir mjög skemmtilegir, sá sem hæst bar sennilega flott 3-3 jafntefli gegn öflugu liði Manchester City í lok janúar. Í lokin fór að mínu mati heppnin að snúast mjög gegn liðinu, í mörgum þessara fimm tapleikja áttu leikmenn miklu meira skilið en þeir hlutu, kannski týpískt fyrir ung lið. En það var alltaf verið að reyna að sækja hratt og boltinn gekk vel á milli manna.

Ég held að það séu lítil vísindi að segja það að þeir leikmenn sem að fengu mínútur í aðalliðinu úr varaliðshópnum eru þeir sem best léku. Ayala, Pacheco, Darby, Spearing og N’Gog eru afar góðir leikmenn í varaliðsdeildinni og á næstunni ætti að ráðast hvort þeir ná að stíga skrefið upp úr þeim klassa upp í aðalliðsgæðin.

Einstaklingar til að spá í

Af hinum sem minna sáust var afar gaman að fylgjast með Nathan Ecclestone, sem bæði lék á kanti og sem framherji. Eldfljótur og grimmur strákur sem þarf að bæta tækni og líkamsstyrk til að ná hærri hæðum. Hann fór í lán til Huddersfield Town seinni hluta vetrar og lék þar 11 leiki í góðu liði. Erkifjendurnir í United reyndu að ná honum síðastliðið haust áður en hann skrifaði undir nýjan samning við okkur. Mikils er vænst af þessum strák, en ég er ekki alveg viss með hann, hef mikla trú á því að hann fái annan lánssamning næsta vetur til að fá mikið af mínútum til að skoða.

David Amoo er öflugur kantframherji með fullt af brellum í bókinni. Hann er SVAKALEGA fljótur, bæði að hlaupa og þegar hann er að “brella tækni” og veldur miklum usla á hægri vængnum. Hann getur þó enn bætt sendingagetu sína töluvert og þarf að verða yfirvegaðri í færunum. Hann varð nítján ára í vetur og því enn nógur tími, ég hef trú á því að við sjáum hann fá að vera í hóp í t.d. Carling og Europa næsta vetur, leikmaður sem vert er að skoða.

Svo eru það tveir varnarmenn. Annar er Chris Mawinga, örvfættur franskur strákur sem kom til okkar í júlí. Hann hefur leikið bæði sem bakvörður og hafsent, grjótharður nagli sem er óhræddur að vaða í hlutina, hvort sem er tækling eða bara henda sér fyrir skot eða í skallaeinvígi. Hann er þó enn mistækur í sendingum og það þarf hann að bæta, en vissulega leikmaður sem á sénsinn.

Hinn er svo hann Guðlaugur Victor Pálsson okkar. Hann byrjaði leiktímabilið á miðjunni, en þegar fjölga fór ungu mönnunum í hópnum var hann færður niður í hafsentinn og þar fannst mér hann virkilega finna sig. Líkamlega sterkur með mikinn leikskilning og góða sendingatækni. Í raun fannst mér hans geta virka öfugt við gengi liðsins, hann vann stöðugt á þegar á tímabilið leið og verulega gaman var að hlusta á lýsingarorð Liverpoolþulanna um hann. Ég er handviss um að hann á séns, og ekki kæmi mér á óvart að sjá hann sem fyrirliða varaliðsins á næsta ári og möguleika á aðalliðshóp.

Í markinu í vetur hefur svo annað slagið staðið stór og efnilegur ungverskur markmaður, Peter Gulasci. Hann hefur allt til að bera sem markmaður ætti að hafa, góður í teignum, mjög snöggur og frábær að sparka. Hefur verið í láni annað slagið undanfarin ár, hjá Hereford og Tranmere en ætti alveg að fá séns í að verða nú formlega gerður að markmanni númer þrjú, jafnvel bara númer tvö!

Vonbrigðin í leikmannahópnum

En svo eru það þeir sem hafa valdið vonbrigðum, þeir eru nokkrir. Steve Irwin er nafn sem haldið er á lofti hjá LFC en mér finnst óverðskuldað, hann er ekki nógu góður, Emanuel Mendy, Jordy Brouwer og Vincent Weijl voru innistæðulausir, Nicola Saric alltaf að fara í eða koma úr meiðslum.

Mestu vonbrigði mín í vetur voru þó Gerardo Bruna, argentínskur vængmaður sem kallaður var “The new Messi” þegar við stálum honum frá Real Madrid. Hann skortir líkamsstyrk og vantar hraða til að ná að verða alvöru leikmaður, ég held að ef hann breyti ekki verulega um brag í sumar kveðji hann fljótlega og maður geti verið alveg hundsvekktur með það.

Samandregið

Fín frammistaða liðsins lengst af vetrar. Pacheco, Ayala og N’Gog að stíga skrefin upp, kannski Stephen Darby eftir velheppnað lán hjá Swindon Town, meiri spurning með Spearing og El Zhar.

Ecclestone, Amoo, Mawinga, Gulasci og Pálsson næstu nöfn sem ætti að horfa eftir.

Unglingaliðið um helgina svo….

12 Comments

  1. Fínn og fræðandi pistil Maggi, takk fyrir það 🙂
    Það verður spennandi að sjá hvað verður úr þessum piltum.

  2. Sælir félagar

    Ansans ári góður og fræðandi pistill Maggi. Takk fyrir það.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Þessi pistill og hinir um stöðurnar á vellinum er ástæða þess að ég ELSKA þessa síðu!!!!!!!!! Ég dáist að eljunni, dugnaðinum, áræðninni, vinnuseminni, viljanum og ástríðunni sem þið leggið í pistlana ykkar.

    TAKK FYRIR MIG!!!!

  4. Frábær pistill, ég er ekki vanur að kommenta hérna en ég vildi bara koma á framfæri þökkum til ykkar sem haldið þessari síðu út. Frábært framtak!

  5. flottur pistill. En ég skil ekki hvað El Zhar er að gera ennþá í þessa blessaða liði, hann verður 24 eftir 3-4 mánuði, þetta er ekkert efni lengur. Einfaldlega einn af þessum milljón wonderkids sem áttu að koma til klúbbsins og stóðust aldrei lágmarks væntingar til þeirra. En það breytir því ekki að það eru núna loksins spennandi bitar hjá varaliðinu og finnst mér þá Pacheco bera af. N’Gog er einfaldlega ekki í Liverpool klassa og verður aldrei, á eftir að gera flotta hluti í klúbbi eins og Fulham,Sunderland eða klúbb í þannig standard.

    Meira síðar

  6. Varðandi Bruna, ef mig minnir rétt þá meiddist hann á hné fyrir ca 2 árum síðan og hefur verið meira og minna frá allan þann tíma. Ég geri ráð fyrir því að hann fái tækifæri næsta vetur til að koma sér á réttan kjöl og svo verður þarnæsta tímabil make it or break it fyrir hann.

    Flottir pistill hjá þér Maggi, og einsog margir þá vil ég þakka ykkur síðuhöldurum fyrir að halda úti þessari siðu. Það er hrein unun að lesa það sem frá ykkur kemur og umræðurnar sem skapast útfrá þeim eru oft á tiðum mjög góðar. Enn og aftur, takk takk.

  7. Takk Maggi fyrir þessa varaliðs samantekt. Mér finnst nú ekki augljóst að þessir peyjar komi til með að verða aðalliðsmenn eftir þennan lestur, en kannski skilar einn og einn sér upp.
    Ég lét hugan reika örstutta stund eftir lesturinn og komst svo að þeirri niðursstöðu að síðasti unglingurinn til að koma upp úr varaliðinu og unglingastarfinu er Steven Gerrard. Það var ekki góð niðurstaða. Það getur ekki verið ásættanlegt að það vanti bráðum heila kynslóð uppaldra púllara.

  8. Goður pistil maggi við skulum vona að tað rætist ur þessum strakum og við eigum bjarta framtið

  9. Þið talið ekki um Heysel-slysið frekar en fyrri daginn. 25 ár liðin í dag.

  10. Hvað eigum við að skrifa um, Juventus?

    Er eitthvað nýtt, sem hefur ekki komið fram áður hjá okkur í fyrri pistlum um Heysel? Höfum við, sem einhver bloggsíða á Íslandi, einhverjum skyldum að gegna? Þurfum við að endurtaka þá pistla á hverju ári?

    Ef þú hefur áhuga á að lesa um Heysel, þá eru til að mynda ágætis færslur á opinberu Liverpool síðunni í dag.

    Og þú getur líka lesið tvo pistla eftir mig, sem ég skrifaði á þessa síðu

    Heysel, 19 árum síðar
    og
    Liverpool og Juve 20 árum eftir Heysel

    Ég hef engu við þá að bæta, enda hefur ekkert breyst varðandi þessa atburði. Þeir voru og eru hræðilegir. Ef þú vilt koma hingað inn tvisvar á ári og gagnrýna okkur fyrir það að við tökum ekki nægilega vel á atburðum, sem gerðust þegar að við vorum litlir krakkar, þá verður þú bara að gera það.

  11. Hvort sem þér líkar það betur eða verr, þá er Heysel-slysið partur af Liverpool, og það mjög stór, ef ekki sá stærsti, þá mjög nálægt því. Það er ótrúlega mikið af fólki sem mun aldrei gleyma þessu og mun aldrei gleyma framkomu klúbbsins í kjölfarið þar sem allt kapp var lagt á að kenna öðrum um, afsökunarbeiðni 19 árum síðar verður seint marktæk. Mér þykir eðlilegt að um þennan atburð sé fjallað. Það er óþarfi að gerast viðkvæmur EÖE.

  12. Kannski bara skellir þér á síður sem eru að fjalla um þennan atburð! Kop.is ber svo sannarlega engin skylda til þess. Hefur þetta þó alveg verið tekið fyrir hérna.

Stöðumat: Vinstri bakverðir

25 ár frá Heysel