Mánaðarskipt greinasafn: maí Á

Stöðumat: Miðverðir

Miðverðir

Miðvarðar staðan hjá Liverpool FC er að mínum dæmi ansi vel mönnuð og ein af þessum stöðum sem við ættum að þurfa að hafa hve minnst áhyggjur af. Jú, það má með sanni segja að Carra hafi byrjað síðasta tímabil illa og alltof margir hreinlega afskrifuðu kappann strax þá. Hann kom þó sterkur tilbaka og ég er algjörlega sannfærður um það að hann á eftir að sýna okkur og sanna að hann er ennþá einn sá besti í sinni stöðu á Englandi. Martin Škrtel olli einnig miklum vonbrigðum eftir frábært tímabil 2008-2009. Hann á mikið inni og ég hef ennþá tröllatrú á þeim dreng, enda er hann ungur að árum ennþá þegar horft er í aldur miðvarða.

Núverandi miðverðir (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Martin Škrtel, 25, Slóvakía
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

Í mínum huga er Daniel Agger klárlega okkar besti miðvörður og meiðslapakkinn sem hann hefur reglulega verið í, virðist vera að minnka. Ég er nokkuð viss um að hann og Carra muni verða kjölfestan í vörninni okkar á næsta tímabili og þeir Martin Škrtel og Soto verði þar á eftir í röðinni. Við lentum í miklum meiðslavandræðum með vörnina á síðasta tímabili, sem hjálpaði svo sannarlega ekki upp á stöðugleikann og meira að segja þá spilaði okkar fimmti miðvörður nokkra leiki á tímabilinu. Ég flokka Guðlaug Victor sem miðvörð, enda hefur strákurinn verið að spila alveg feiknarlega vel í þeirri stöðu með varaliðinu undir lok tímabilsins. Ég held að flestir séu sammála um að Ayala (aðeins 19 ára) sé mikið efni og svo má ekki gleyma Andre Wisdom, sem er einungis 17 ára gamall og varð núna í vikunni Evrópumeistari með U-17 ára liði Englands.

Auðvitað er alltaf hægt að styrkja allar stöður, og ég segi það ekki að ef Škrtel yrði seldur, þá væri hægt að kaupa öflugan mann í staðinn, en ég held að á meðan peningastaðan er eins og hún er, þá verði ekki eytt í að styrkja miðvarðastöður liðsins, sér í lagi ekki þegar jafn efnilegir strákar eru í og við aðalliðshópinn. En skoðum samt aðeins hvað er þarna úti á markaðinum.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Danny Wilson, 18, Rangers, Skotland
James Tomkins, 20, West Ham, England
Jérôme Boateng, 21, Hamburger SV, Þýskaland
Micah Richards, 21, Man.City, England
Simon Kjær 21, Palermo, Danmörk
Neven Suboti?, 21, Dortmund, Serbía
Michael Mancienne, 22, Chelsea, England
Ryan Shawcross, 22, Stoke, England
Christian Träsch, 22, Stuttgart, Þýskaland
Nicolás Otamendi, 22, Vélez Sársfield, Argentína
Jan Vertonghen, 23, Ajax, Belgía
Leonardo Bonucci, 23, Bari, Ítalía
Scott Dann, 23, Birmingham, England
Salvatore Bocchetti, 23, Genoa, Ítalía
Dennis Aogo, 23, Hamburger SV, Þýskaland
Nedum Onuoha, 23, Man.City, England
Gary Cahill, 24, Bolton, England
Adil Rami, 24, Lille, Frakkland
Steven Taylor, 24, Newcastle, England
Rolando, 24, Porto, Portúgal
Thiago Silva, 25, AC Milan, Brasilía
Pape Diakhaté, 25, Dynamo Kiev, Senegal
Juan Manuel Insaurralde, 25, Old Boys, Argentína
Per Mertesacker, 25, Werder Bremen, Þýskaland
Ron Vlaar, 25, Feyenoord, Holland
Christopher Samba, 26, Blackburn, Frakkland

Fullt af flottum og góðum miðvörðum, sem eins og með aðra leikmenn, kosta mis mikið og myndu eflaust falla mis vel inn í þann hóp sem fyrir er. 5 leikmenn á þessum lista standa uppúr sem kostir fyrir Liverpool FC í dag.

Simon Kjær – Er bara einfaldlega hrikalega hrifinn af þessum strák og gæti myndað afar sterkt miðvarðarpar með landa sínum Daniel Agger til margra ára.

Micah Richards – Getur bæði leyst miðvarðarstöðuna og hægri bakvörðinn. Hann er ungur og enskur og virðist ekki vera ofarlega í huga Mancini hjá City.

Gary Cahill – Afar sterkur miðvörður og er enskur í þokkabót.

Nedum Onuoha – Er bæði sterkur sem miðvörður og hefur leyst bakvarðarstöðurnar vel af hendi. Er ungur, enskur og eins og með Richards, þá virðist Mancini ekki hafa neina trölla trú á kappanum.

Ryan Shawcross – Ungur, sterkur og enskur

Með öðrum orðum, þá væri ég alveg til í að skipta á Martin Škrtel og einhverjum þessara ofantöldu ef sú breyting myndi ekki kosta of háar fjárhæðir. Við þurfum að hugsa um fjölda Englendinga í hópnum og þessi staða er hugsanlega einhver sú al sterkasta hjá enskum. Svo maður tali nú ekki um þá City bræður, sem geta hlaupið í skarðið í bakvarðarstöðum líka. Hvort þeir verði fáanlegir til liðs við okkur á sanngjörnu verði er svo aftur á móti allt önnur Elín. En þessir pistlar eru jú fyrst og fremst ætlaðir til að velta hlutunum fyrir sér, það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er raunhæft og hvað ekki í þessum bransa.

Efsta nafnið á listanum hér að ofan hefur þó verið mikið í umræðunni, þar er um að ræða ungan skoskan strák hjá Rangers, og allt virðist benda til þess að hann gangi til liðs við okkur í sumar. Hann er einungis 18 ára gamall og er því varla hugsaður sem aðalliðsmaður strax. Ég held allavega að hann verði ekki til þess að Soto verði látinn fara strax, við þurfum að hafa reynslubolta til taks líka.

Draumurinn væri því þessi:

Miðverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Micah Richards, 21, England
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Danny Wilson, 18, Skotland
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

En þar sem draumar rætast ekki nærri því alltaf, í rauninni alltof sjaldan þegar málefni Liverpool FC eru annars vegar, þá spái ég því að miðvarðaruppsetning okkar verði svona á næsta tímabili:

Miðverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Martin Škrtel, 25, Slóvakía
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Danny Wilson, 18, Skotland
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

Næst mun ég fara yfir stöðu varnartengiliða hjá Liverpool FC.

25 ár frá Heysel

Í dag eru 25 ár liðin frá atburðunum á Heysel vellinum í Brussel þegar að 39 knattspyrnustuðningsmenn létust.

Ég hef litlu að bæta við þessa grein, sem ég skrifaði fyrir fimm árum um Heysel slysið. Þar sem þessi síða var ekki eins vinsæl þá er kannski í lagi að setja vísun á hana hér aftur:

Liverpool og Juve 20 árum eftir Heysel

Hún er skrifuð stuttu áður en að Liverpool og Juventus mættust í fyrsta skipti í Evrópukeppni eftir Heysel leikinn. Leiki, sem að Liverpool vann á ferðalagi sínu til Istanbúl.

Á opinberu síðunni er að finna greinar í dag tengdar atburðunum í Belgíu.

Varaliðið 2009 – 2010

Svona milli þess sem Steini fer í gegnum aðalliðshópinn og möguleika okkar á nýjum mönnum í stöður ætla ég aðeins að fara í gegnum þau lið sem standa aðalhópnum að baki, vara- og unglingaliðunum. Í dag ætla ég að líta á varaliðið síðastliðinn vetur

Eins og allir vita voru gerðar gagngerar breytingar í starfsliði þeirra og áherslum síðasta sumar undir stjórn Rafael og ekki vert að velta aðeins fyrir sér hvernig gekk.

Varaliðið

Í fyrrasumar var John McMahon, bróðir Steve’s nokkurs, fenginn til að taka við stjórn varaliðsins af Gary Ablett. Vitað var að Rafa myndi láta Ablett fara og töluvert var rætt um gamlar Poolarahetjur eins og Gary McAllister og Mark Wright sem kosti. Það kom því nokkuð á óvart þegar McMahon var ráðinn. Þá var hann starfandi sem aðstoðarframkvæmdastjóri Shrewsbury Town, hafði verið þar í 4 ár og áður þjálfari hjá Tranmere í 8 ár.

Hins vegar var ljóst að Rafa hafði á honum trú, hafði fylgst með honum um tíma og taldi hann rétta manninn í starfið. McMahon sótti sér markmannsþjálfara til Tranmere í John Achterberg en áður hafði verið tilkynnt um að Antonio Gomez Perez hefði verið ráðinn þjálfari hjá varaliðinu. Perez var fyrrum lærisveinn Rafa sem að hafði náð góðum árangri með yngri lið Albacete og þessum var treyst fyrir því verkefni að framleiða fleiri leikmenn fyrir aðalliðið.

Continue reading

Stöðumat: Vinstri bakverðir

Vinstri bakverðir

Vinstri bakvarðarstaðan hjá Liverpool hefur löngum verið veikur hlekkur í liðinu. Persónulega finnst mér Fabio Aurelio vera sá besti sem við höfum átt síðan ég veit ekki hvenær, en það er einn afar stór galli á þeim leikmanni, hann getur hreinlega ekki haldið sér heilum. En tæknilega séð og þegar horft er til hæfileika með boltann, þá er hann einn sá albesti sem við höfum átt afar lengi. Síðan Alan Kennedy var upp á sitt besta, þá höfum við ekki haft topp klassa leikmann í þessari stöðu. Sá sem hefur kannski komist næst því er Steve Staunton (í fyrra skiptið sem hann var hjá okkur) en svo er listinn ekki burðugur; Dossena, Riise, Vignal, Traore, Warnock, Matteo, Carragher (í þessari stöðu), Staunton (seinna skiptið), Björnebye, Dicks, Burrows etc. Sumir vilja halda því fram að Riise hafi bara átt eitt slakt tímabil (hans síðasta) en ég er því bara engan veginn sammála. Fyrir mér var hann meðalmennskan uppmáluð, í rauninni bara dæmigert fyrir þessa stöðu hjá liðinu í alltof alltof langan tíma.

En eins og áður sagði, þá er þetta erfið staða að manna. Ég sé ekki alveg fyrir mér að við séum að fara að henda miklum peningum í að styrkja hana, sér í lagi þar sem aðrar stöður eru mikilvægari þegar kemur að styrkingu á liðinu.

Núverandi vinstri bakverðir (nafn, aldur, land):
Fábio Aurélio, 30, Brasilía
Emiliano Insúa, 21, Argentína
Chris Mavinga, 19, Frakkland
Jack Robinson, 16, England
Robbie Threlfall, 21, England

Búið er að gefa það út að Fabio Aurelio og Robbie Threlfall muni yfirgefa herbúðir liðsins á free transfer, það kemur væntanlega ekki nokkrum manni á óvart. Þá sitja eftir þrír, sem eiga það allir sameiginlegt að vera ungir að árum, þó mis ungir, og efnilegir mjög. Insúa fékk að mínum dómi of mikla ábyrgð of snemma, vegna heilsubrests hjá Fabio kallinum. Í varaliðinu er svo Mavinga, sem hefur verið að spila fantavel í vetur og býr mikið í þeim strák. Hann er ólíkur Insúa, er afar sterkur og kraftmikill, en ekki jafn öflugur sóknarlega eins og hinn smávaxni Argentínumaður. Síðan er framtíðarguttinn hann Robinson, sem á þó eitthvað af árum eftir þangað til að hann fer að banka á dyrnar. Í mínum huga er það því algjörlega ljóst að við þurfum að versla einn vinstri bakvörð í sumar.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Kieran Gibbs, 20, Arsenal, England
Ryan Bertrand, 20, Chelsea, England
Vurnon Anita, 21, Ajax, Holland
Ivan Obradovi?, 21, Zaragoza, Serbía
Fábio Coentrão, 22, Benfica, Portúgal
Aly Cissokho, 22, Lyon, Frakkland
David Luiz, 23, Benfica, Brasilía
Domenico Criscito, 23, Genoa, Ítalía
Marcell Jansen, 24, Hamburger SV, Þýskaland
Reto Ziegler , 24, Sampdoria, Sviss
Aleksandar Kolarov, 24, Lazio, Serbía
Leighton Baines, 25, Everton, England
Taye Taiwo, 25, Marseille, Nígería

Stór er listinn og nokkrir þarna úti sem væru góðir kostir í stöðunni. Auðvitað þá snýst þetta nú allt um peninga, verða þeir fyrir hendi eða ekki? Það er auðvelt að draga upp lista ef ekki þarf að hugsa um fjármunina, en því miður er staðan ekki þannig hjá okkur, ekkert sugardaddy dæmi í gangi, frekar svona Trailer Park daddy. Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera ágætis kaup í nýjum vinstri bakverði.

Ef við horfum fyrst til enskra leikmanna, þar sem nýja reglan fer að taka gildi á næsta tímabili, þá eru að mínum dómi ekki margir möguleikar í spilunum. Kieran Gibbs er afar efnilegur bakvörður, en ég held að það sé enginn möguleiki að Arsenal selji okkur hann. Sama má segja um Leighton Baines. Sá þriðji sem uppfyllir þjóðernis skilyrðið er bæði óreyndur og svo hjá Chelsea, þannig að hann er líka út úr myndinni. Það þarf sem sagt væntanlega að horfa út fyrir Bretlandseyjar eftir vinstri bakverði.

Mitt fyrsta val væri án nokkurs vafa David Luiz hjá Benfica. Hann er afar öflugur bakvörður, en einnig sem miðvörður. Sterkur sóknarlega og enn öflugri varnarlega og aðeins 23 ára gamall, gæfi aukna hæð í varnarlínuna þar sem hann er 188 cm. og ekki veitir nú af. Ég geri mér þó enga grein fyrir því hvað það myndi kosta að fá hann til liðsins.

Annað val hjá mér væri Marcell Jansen, fastamaður í þýska landsliðinu og spilar með Hamburger SV. Þetta er stór (1,91) og afar öflugur vinstri bakvörður með mikla reynslu. Hann hefur einnig talsvert spilað vinstra megin á miðjunni, enda sóknarlega öflugur. Gæti kostað nokkrar kúlur, en vel þess virði.

Aðrir sem kæmu mjög sterklega til greina eru Reto Ziegler, Aleksandar Kolarov, Taye Taiwo og Aly Cissokho. Allt mjög öflugir vinstri bakverðir á besta aldri.

Af þessum lista mínum koma þessir aðilar síst til greina: Vurnon Anita (lítil reynsla), Ivan Obradovi? (ekki mikil reynsla í topp deild), Domenico Criscito (lítt reyndur og ítalskur) og Fábio Coentrão (meiri miðjumaður en bakvörður).

Draumurinn væri sem sagt þessi:

Vinstri bakverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
David Luiz, 23, Benfica, Brasilía
Emiliano Insúa, 21, Argentína
Chris Mavinga, 19, Frakkland
Jack Robinson, 16, England

Ég tel alveg ljóst að við þurfum að kjarka út 7-10 milljónum punda til að fá einhvern af þessum sem ég taldi upp sem góða kosti. Sumir þeirra fengjust eflaust ekki einu sinni á þann pening, en einhver af Luiz, Jansen, Ziegler, Kolarov, Taiwo eða Cissokho væru flottir kostir til að styrkja þessa vandræða stöðu. Ég hreinlega treysti okkur ekki til að fara inn í tímabilið með Insúa einan og Carra/Agger sem backup, því ég tel það of fljótt að veðja á Mavinga ef Insúa yrði eitthvað frá keppni. Insúa er einnig á þeim stað að hann ætti að mínum dómi ekki að vera kostur númer eitt enn sem komið er, hef mikla trú á honum sem framtíðarmanni, en við þurfum annan öflugan með honum. Ef engir peningar verða til, þá vil ég frekar fara inn í tímabilið með Mavinga sem backup fyrir Insúa, frekar en að kaupa einhvern slarkfæran vinstri bakvörð.

Næst mun ég fara yfir miðvarðarstöðurna hjá Liverpool FC.