Liverpool 1 – Everton 0

Everton er lið frá Liverpool-borg sem spilar í ensku Úrvalsdeildinni. Þetta lið hefur ekki tapað leik síðan þeir töpuðu fyrir erkifjendunum, stóra bróðurnum í Liverpool FC, í lok nóvember. Í dag komu þeir í heimsókn á Anfield og hvað haldiði að hafi gerst? Jú, þeir **töpuðu aftur** fyrir Liverpool FC, 1-0 í þetta skiptið, í ótrúlegum baráttuleik.

Rafa Benítez stillti upp (líkamlega) sterku byrjunarliði í dag:

Reina

Carragher – Kyrgiakos – Agger – Insúa

Lucas – Mascherano
DIRK FKN KUYT – Gerrard – Maxi
Ngog

**BEKKUR:** Cavalieri, Skrtel (inn f. DIRK FKN KUYT undir lokin), Aurelio (inn f. Maxi undir lokin), Degen, Aquilani, Riera, Babel (inn f. Ngog eftir 65 mín.).

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af svakalegri baráttu. Við urðum vitni að algjörri styrjöld inná vellinum þar sem lítið fór fyrir marktækifærum og flæðandi fótbolta og þess í stað voru tæklingarnar fljúgandi til hægri og vinstri. Það er eðlilegt í þessari viðureign en þegar þetta gerist er algjörlega nauðsynlegt að dómarinn haldi haus og hafi stjórn á framvindu mála. Því miður gerðist það hins vegar í dag að dómari leiksins, Martin Atkinson, gjörsamlega skeit upp á bak og hafði enga stjórn á nokkrum sköpuðum hlut.

Rennum yfir þetta í réttri röð. Snemma leiks fær DIRK FKN KUYT fyrsta gula spjaldið fyrir að stöðva upphlaup Landon Donovan, rétt spjald þar. En stuttu seinna straujar Leighton Baines framherjann okkar, David Ngog, úti við hliðarlínu og sleppur alveg (Ngog meiddist þar og þurfti á endanum að fara útaf snemma í síðari hálfleik). Áfram halda tæklingarnar að fljúga og eftir að Phil Neville brýtur á DIRK FKN KUYT á miðjum vallarhelmingi Everton, og eftir að dómarinn er búinn að flauta og dæma aukaspyrnuna, kemur Marouane Fellaini aðvífandi og sparkar í andlitið á DIRK FKN KUYT! Ekkert spjald þar og Kuyt meira en lítið fúll út í Fellaini enda blóðugur um nefið og vel rispaður/bólginn undir vinstra auga. Ótrúlegt að dómarinn hafi ekkert gert við Fellaini þarna.

Svo komu stóru atvik hálfleiksins um miðbikið. Fyrst fer Steven Pienaar með sólann hátt á lofti inn í miðjan sköflunginn á Javier Mascherano svo sá argentínski liggur eftir meiddur og með mölbrotna legghlíf. Jafnvel þótt dómarinn hefði ekki séð það vel (sem var ekki málið, endursýningar sýndu að hann var með 100% útsýni yfir þetta) hefði átt að nægja honum að líta á mölbrotna legghlíf Mascherano til að sjá hversu há tækling Pienaar var. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum gaf Atkinson honum samt bara gult þegar hann átti að fá beint rautt.

Mínútu síðar fékk Carra svo næsta gula spjald fyrir að strauja Pienaar. Hárréttur dómur og hárrétt tækling hjá Carra, það á ekkert að láta aumingja eins og Pienaar komast upp með svona hegðun á Anfield.

Það var svo eftir um 33 eða 35 mínútur sem þeir Sotirios Kyrgiakos og áðurnefndur Marouane Fellaini, sem átti klárlega að vera farinn út af ásamt Pienaar félaga sínum á þessum tímapunkti, fóru saman í tæklingu. Kyrgiakos fór með báða sóla á undan sér og náði að snúa upp á ökklann á Fellaini á sama tíma og Fellaini fór klárlega í tæklinguna með það fyrir augum að traðka á legg Kyrgiakos. Fyrst sýndist manni tæklingin vera 100% brot hjá Fellaini og að hann gæti ekki annað en fengið beint rautt fyrir þessa árás en endursýningin sýndi svo að Kyrgiakos var líka brotlegur og því hefði réttur dómur verið beint rautt á báða aðila. Hvað gerðist? Atkinson sýndi Kyrgiakos beint rautt þar sem hann stóð upp og benti á stóran skurð á legg sínum (þurfti að fara beint inn í klefa og fá nokkur spor saumuð) … en Fellaini slapp algjörlega, fékk ekki einu sinni tiltal!

Reyndar fór það svo að Fellaini var líka meiddur eins og Kyrgiakos og gat ekki haldið áfram leik en það breytir því ekki að á þessum tímapunkti áttu Fellaini, Pienaar og Kyrgiakos að vera farnir út af með rautt spjald. Því miður fyrir okkur var dómarinn ekki beint hlutlaus í dag (segi það og meina það, svona dómgæsla er óverjandi) og því var bara Kyrgiakos farinn útaf og okkar menn orðnir einum færri. Þannig var staðan svo í hálfleik, 0-0 og við einum færri eftir algjöra styrjöld.

Seinni hálfleikurinn var svo aðeins rólegri og menn virtust reyna meira að spila fótbolta. Sennilega hafa báðir stjórarnir beðið leikmenn um að róa sig niður svo Atkinson myndi ekki rúlla fleiri spjöldum á loft. Það sýndi sig líka að um leið og liðin fóru að spila fótbolta var aðeins eitt lið á vellinum … Liverpool. Okkar menn sóttu ákaft eftir hlé og komust yfir á um 59. mínútu þegar Gerrard tók hornspyrnu frá vinstri beint inn á markteig þar sem **DIRK FKN KUYT** lét hrindingar Tim Howard og ljótleika Phil Neville ekki koma sér úr jafnvægi heldur skallaði í fjærhornið. 1-0 fyrir Liverpool!

Eftir þetta seig Liverpool-liðið í rólegheitum aftar á völlinn og barðist fyrir sínu. Ngog fór útaf og Babel kom inná og ógnaði ágætlega einn í framlínunni, slapp meira að segja einu sinni aleinn innfyrir með boltann en línuvörðurinn dæmdi ranglega rangstæðu á hann. Everton-liðið gat hins vegar ekki neitt þrátt fyrir að vera einum fleiri og aðeins langskot Yakubu með vinstri, sem Reina varði vel, ógnaði marki okkar manna. Undir lokin tókst svo Atkinson að spjalda Gerrard og Anichebe fyrir stympingar þar sem Gerrard átti að hafa farið í Pienaar eftir að hann tók boltann en dómarinn dæmdi ekkert á það (gott á Pienaar) en hann spjaldaði Gerrard samt fyrir að hafa tekið þátt í stympingunum sem fylgdu í kjölfarið þegar endursýningin sýndi klárlega að Gerrard gerði ekkert nema yppa öxlum yfir hasarnum. Fáránleg dómgæsla, það virtist vera allan leikinn sem Atkinson þyrði aldrei að dæma bara á Everton-liðið án þess að refsa Liverpool-liðinu eitthvað líka. Meira en lítið pirrandi.

Undir lokin fékk Pienaar svo karmað sitt þegar hann réðist á Gerrard á svona 95. mínútu. Atkinson sýndi honum þó ekki beint rautt sem hefði gefið þriggja leikja bann eins og Kyrgiakos fékk heldur seinna gula spjaldið sitt og missir hann því aðeins úr einn leik eftir morðæðið sitt í dag, á meðan við verðum án Kyrgiakos í þrjá leiki.

Helvítis Pienaar. Helvítis Atkinson. Helvítis Everton.

Lokatölur 1-0 enda við hverju bjuggust menn? Að Everton gæti unnið þennan leik? Hafa þeir ekki bara unnið einu sinni gegn Rafa Benítez, í fyrsta leik hans með Liverpool á Goodison í desember 2004? Og svo ekkert síðan þá? Plís, kunniði annan?

**MAÐUR LEIKSINS:** Mig langar til að segja ALLT LIÐIÐ hérna, þar sem það átti nákvæmlega enginn neitt minna en frábæran leik í dag og liðið var svo ótrúlega vel stemmt að það hálfa væri nóg. Mig langar líka til að segja JAVIER MASCHERANO hérna því eftir brotið á Pienaar og rauða spjaldið á Kyrgiakos fór Carra inn í miðvörðinn og Masch í bakvörðinn og tók að sér að ÉTA Pienaar það sem eftir lifði leiks. Hann gerði það að markmiði sínu í lífinu að Pienaar fengi ekki að hafa nein áhrif á leikinn eftir að hann átti að fjúka útaf og Mascherano stóð við það.

En í dag getur aðeins einn maður verið maður leiksins …

Maður leiksins heitir DIRK fokking KUYT. Hann fékk spark í andlitið frá Fellaini í fyrri hálfleik, barðist eins og ljón í vörn og sókn allan leikinn, skoraði sigurmarkið í dag (er það í þriðja eða fjórða sinn sem hann klárar Everton fyrir okkur?) og hljóp beint að bekk Everton og fagnaði með því að öskra á Fellaini og benda á hann. Já, og þetta var fimmtugasta mark Kuyt fyrir okkur og hann er núna kominn með tíu mörk á tímabilinu sem hægri kantmaður.

Algjörlega ómissandi leikmaður í þessu liði og bæði andlegur og líkamlegur leiðtogi okkar í dag. Held ég hafi aldrei séð hann betri fyrir Liverpool, sveimérþá sveiattan!

Framundan eru tveir hrikalegir útileikir gegn Arsenal og Man City sem munu hafa ansi mikið að segja um stöðu okkar í deildinni í vor. En í dag gleðjumst við: við gleðjumst því liðið er ósigrað í sjö deildarleikjum og hefur unnið fimm þeirra, við gleðjumst því liðið hélt í dag hreinu í sjötta leiknum af þessum sjö, við gleðjumst því við erum (tímabundið) í 4. sætinu á nýjan leik og við gleðjumst af því að LIVERPOOL TAPAR EKKI FYRIR EVERTON UNDIR STJÓRN BENÍTEZ!

Eigið góða helgi. YNWA. 😉

104 Comments

  1. Fokk hvað Pienaar er mikil ROTTA. Hefði átt að vera löngu farinn af velli.

  2. Algjörlega frábær leikur og Everton átti varla færi þrátt fyrir að Hercules færi útaf!
    Kyut klárlega maður leiksins og Mascherano þar á eftir, geðveikir í dag.
    Skál

  3. schnilld….. fokking schnilld…. það jaðrar við því að maður brosi útí annað núna….

  4. Frábær sigur… þrátt fyrir að dómarinn hafi reynt að eyðileggja hann…

  5. Snilld, fílaði það hvað kóngurinn Kuyt fór illa með fyrrverandi Manchester systurnar Neville og Howard í markinu ! 🙂

  6. Þetta var ekkert smá rosalegur leikur! Ég er guðs lifandi skelfing feginn með tvennt. Annars vegar að menn hafi aðeins róast í seinni hálfleik og hins vegar að Aquilani hafi ekki verið inná í þeim fyrri. Hann er ennþá helvíti brothættur og það er ekkert grín að spila hálfleik eins og þann fyrri í dag. Ég er ekki frá því að Kuyt sé orðinn meiri scouser en scouserarnir í liðinu! Hvað hefur hann skorað mörg gegn Everton? Hann er algjör derby legend!

  7. Ég er svo glaður að ég gæti ælt! 10 á móti 12 í 60min… Ég elska Dirk Kuyt og ótrúlega er gaman að Gerrard er kominn aftur.

    Djöfulsins ógeðslega glæpagengi sem þetta Everton lið er. Ógeðslegir. Mesta samansafn af ógeðslegum ógeðum ógeð oj. Fokking hata þetta sorp.

    Já, og það þurfti að sauma Kyrgiakos eftir “brotið” hans á Fellaini. Spáið í því að hann lét bera sig útaf, þetta ógeð. Ég hata Everton.

    Það myndi líka gleðja mig rosalega ef að Pienaar myndi meiðast og missa af HM í sumar.

  8. Yndislegt að sjá baráttuna í okkar mönnum. Þetta var fyrsti leikurinn í ansi langan tíma þar sem ég fékk óþægilegan stressfiðring í magann og ég er ekki frá því að ég hafi saknað hans töluvert 🙂

  9. Og bara svona til að gleðja okkur aðeins meira þá erum við í 4 sætinu allanvega næstu 2 tímana 😉 Langt síðan við vorum þar 🙂

  10. Algjörlega frábær sigur hjá okkur. Hægri hliðin með Mascherano og Kuyt var frábær í leiknum. Þegar að Kuyt skallaði boltann í horn í einhverri sókn hjá Everton sirka 2 mínútum eftir að hann hafði skorað markið þá langaði mig að faðma hann.

    Everton áttu varla almennilegt færi í leiknum þrátt fyrir að vera manni fleiri. Vörnin átti alla þessa háloftabolta, jafnvel eftir að Grikkinn fór útaf (Agger og Carra voru líka frábærir).

    Komnir uppí 4. sætið og núna er bara að vona að úrslitin það sem eftir lifir af helgi verði okkur hagstæð. Hull-Man City jafntefli og AV-Tottenham jafntefli væri draumur. 🙂

    En sama hvort sem það gerist eða ekki þá hef ég ekki verið svona glaður eftir Liverpool leik í langan, langan tíma.

  11. Var að horfa á endursýninguna á “brotinu”. Það er greinilegt að Fellaini lítur upp og veit nákvæmlrega hvað hann er að gera u.þ.b. tveimur skrefum ÁÐUR en hann fer í tæklinguna. Það er ljótt að segja það, en eftir þessa tæklingu og eftir að hann sparkaði boltanum í liggjandi Kuyt, þá get ég ekki sagt að ég voni að hann komi fljótt aftur úr meiðslum.

  12. þvilik karlmennska i dag. mascerano og kuyt deila heiðrinum maður leiksins. frabærir baðir tveir.

  13. YES!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    Elska þetta lið og þessa leikmenn, menn börðust fullkomlega eins og einn maður og ég tek hatt minn og hár ofan fyrir hálfleiksræðunni og skipulagi seinni hálfleiks.

    Viðtölin sýndu “determined” leikmenn og yfirvegaðan stjóra. Farinn að hlakka aftur til leikja liðsins. We’re on our way back.

    Og stuðningurinn á Anfield. Er ekki svona hávaði bara óleyfilegur!!!

  14. Everton er ekkert nema frummynd ógeðleikans. Þeir spila ekki knattspyrnu heldur eitthvað allt annað. Þetta lið er troðfullt af villimönnum sem hafa ekkert að gera á knattspyrnuvelli. Fellaini, Anichibe, Pienaar og síðasti en ekki síst Cahill, formaður ógeðleikanefndar Everton ættu allir að leggja skóna á hilluna. Þvílíkur viðbjóður!

    En magnaður sigur þó dómarinn hafi ekki verið frábær. Fellaini og Pienaar áttu báðir að vera búnir að fá rautt spjald áður en Kyrki fékk sitt. Kuyt maður leiksins án efa, en Gerrard, Mascherano og Carragher líka góðir!

  15. djöfull var þetta sætt, Kuyt maður leisins, ekki verið hrifinn af honum upp á síðkastið en frábær í dag, Mascherano góður en Insua fannst mér agerlega frábær og næstur á eftir Kát í gæðum.
    Rauða spjaldið á Kirgiakos var rétt, þetta var tveggja fóta tækling og það er rautt samkvæmt reglunum, en aftur á móti Fellaini!!!! hann steig viljandi á Grikjann og sparkaði líka viljandi með hnénu í hausinn á Kuyt, enda var Kuyt allt annað en kátur með hann. Hver ætlar að sparka í bolta með hnéð langt framar en ristina?
    En frábær sigu
    YNWA
    IPJ

  16. Frábær karakter sigur. Þessi sigur sýnir að býr ótrúlega margt í þessu liði. Það hefðu einhver liðin brotnað að lenda óverðskuldað leikmanni undir í spennuleik sem þessum. Varnarleikur Liverpool var til fyrirmyndar og langt síðan maður hefur séð Reina þurft að hafa svona lítið fyrir hlutunum. Fannst allt liðið standa sig vel varnarlega en ljóst var að þetta yrði fyrst og fremst baráttusigur á kostnað einhvers sambabolta.

    Nú er ljóst að Kyrgiakos fer í 3 leikja bann (geri ekki ráð fyrir að áfrýjunarnefndin gefi Liverpool eitthvað frekar en venjulega, líka athyglisvert hversu vafasöm rauð spjöld þetta hafa verið) og munar um minna þar sem hann hefur verið kletturinn í vörninni undanfarið. Líst ekki og vel á að fá Skrtel í leikinn gegn Arsenal þar sem hann hefur átt í bölvuðu basli í leikjum gegn þeim.

  17. Mér fannst Ngog líka góður, hélt bolta ágætlega og fiskaði aukaspyrnur, ásamt Lucas aldrei þessu vant. En sennilega var Mascherano fremstur meðal jafningja. Everton ógnaði varla marki Pepe allan seinni hálfleikinn, Liverpool átti fleiri skot og var meira með boltann þrátt fyrir mannekluna. Síðan virðist Rafa ætla að fara að gefa Ryan Twitter sénsinn aftur…

  18. Hull komnir yfir á móti Man Shitty! Vonandi að þeir haldi þetta út, og svo að Tottenham – Villa fari jafntefli.

  19. Sælir félagar

    Ótrúlega sætt og með mögnuðu blóðbragði. Okkar menn sýndu í dag úr hverju þeir eru gerðir. Ég sagði í kommenti við upphitun að mér væri ekki illa við Everton en eins og þeir léku í dag hataði ég þá og fyrirleit. Ömurlega grófir og beinlínis reyndu að meiða andstæðinginn. Vonandi spilar fellaini ekki fleiri leiki á þessari leiktíð. Dómari leiksins leyfði þeim ítrekað að reyna að slasa okkar menn og lítið samræmi í dómum hans. Okkar menn mestan hluta leiksins 10 á móti 12 þar sem svarti péturinn spilaði með af fremsta megni.

    Nú þarf Villa bara að halda jöfnu á móti totturunum og lífið er yndislegt. Enn er jafnt hjá Hull og MC og vonandi vinna Hullararnir þetta skítaliðlið.

    Ég er helsáttur við okkar menn, baráttuna, viljan og karakterinn. Ekki undan neinum að kvarta. Insúa er að koma til baka, vörnin mögnuð með Reina fullkominn í markinu. Litla hálftröllið á miðjunni frábær og Leiva í góðu lagi. Eina sem mætti benda á er að N’gog virðist ekki tilbúinn í að vera ein uppá topp. Er of seinn að taka ákvarðanir og þær líka of oft rangar. Babel kom inná og barðist mjög vel. Vonandi er hann að koma hausnum í lag og skila því sem hann getur.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  20. Loksins loksins sá maður alvöru baráttu leik en þetta Everton lið er vægast sagt ömurlegt enda reyndu þeir bara að tækla og slasa leikmenn okkar.
    Djöfull er ég sáttur við þessi 3 stig og vonandi að Hull haldi þetta út og að Villa *Tottenham fari 5-5

  21. 9 Djöfulsins ógeðslega glæpagengi sem þetta Everton lið er. Ógeðslegir. Mesta samansafn af ógeðslegum ógeðum ógeð oj. Fokking hata þetta sorp.

    Pretty much sums this up!

  22. koma svo aston villa og chelsea og hull vinna ykkar leiki til hjálpa Liverpool með 4 sæti og svo eigum möguleika á þriðja sæti ef vinnum Arsenal í næsta helgi og þeir tapa á móti chelsea á morgun munu bara vera 2 stig á milli Liverpool og Arsenal.

  23. á þetta að vera eitthvað djók með United, 3 sjálfsmörk hjá Portsmouth skv. flashscore.com og 9 samtals hjá andstæðingum þeirra á tímabilinu

  24. Þetta er eitthvað það erfiðasta sem ég hef þurft að viðurkenna, en Dirk Kuyt er bara nokkuð mikilvægur hlekkur í þessu liði okkar. Hef aldrei verið aðdáandi hans en það er eitthvað að breytast 😉

  25. 32
    Góð viðtöl. Hr fyrirliði mærar dómarann, á meðan hr þjálfari vill ekki tala um dómara.

  26. Mancini sýgur feitan. Gott, hafði sterkan grun um að svo færi!

    Phil Brown var aðhlátur í haust og menn vildu reka hann, Mancini er búinn að tapa jafn mörgum leikjum þessa 7 (2 töp) og City hafði tapað undir stjórn Hughes. Og þetta var virkilega sanngjarn sigur gegn ráðvilltu og hundslöku City-liði. Jafntefli Spurs – Villa og við getum fagnað helginni vel…

  27. Frábært !!

     Sá ekki leikinn vegna vinnu en fylgdist með honum í gegnum fótbolta.net á Xinu....  Heyrðist á öllu að Fellaini hefði átt að fá rauða spjaldið í tæklingunni við Soto....  Hörkuleikur sem maður verður að finna í endursýningu........
    
     Ef þessi barráttusigur gegn erkifjendunum kemur okkur ekki í rétta gírinn þá eigum við ekki eftir að finna hann...
    

    Áfram LFC !!!

  28. Góður leikur og greinilegt að hann var bara fyrir alvöru menn sem stóðu sig allir frábærlega, og eitt að lokum og vona ég að þið sitjið allir þegar þið lesið það Dirk Kuyt maður leiksins minnti mann á köflum á Carra hvað baráttuna varðaði.

  29. djöfull var ég sáttur eftir leikinn þegar rafa sagði að dirk kuyt væri everton specialist

  30. Ooooooooooo….. hvað þetta var fooookkkkkkkkkkkkinnnggggggggg ljúft… 🙂

    Ég elska Dirk FKN KUYT…
    Ég hata Everton af ástríðu… og það breyttist sko ekki við þennan derby slag.
    Þetta var verðskuldaður baráttusigur þar sem betra liðið vann. Þetta er allt á uppleið.

    YNWA 🙂

  31. @Maggi #43. Ég ætla að fagna helginni hvernig sem fer, en arsenal-chelsea leikurinn skiptir líka máli. Ég er farinn að setja stefnuna á þriðja sætið!

  32. vá portsmouth með mikla ræpu.. en mig langaði forvitnast : ég heyrði að ef lið verður gjaldþrota þá núllist allt hja þeim út er það rétt?? því það eru elveg líkur á að það gerist hja pompey og við töpuðum fyrir þeim, united og arsenal eru komin með 6 stig á móti þeim svo veit ég ekki með city og spurs. en ef þetta er rétt þá væri það mjög gott fyrir þessa baráttu okkar að liðun í kringum okkur myndu tapa 3-6 stigum! veit einhver meira um þetta en ég??

  33. Lóki, ef Pompey fer í greiðslustöðvun þá fá þeir 10 stig í mínus en það núllast ekki út nema liðið þurfi þá að hætta keppni.

  34. já en ef þeir verða gjaldþrota á miðri leiktíð… ekki er það það sama og vera settur í greiðslustöðvun

  35. Bara frábært að taka þettað , en maður verður ekki alltaf að ósk sinni . En 3 stig ,,,,, bara gott

  36. Stórkostlegur sigur!

    Viðurkenni fúslega að mér leist ekkert á leik liðsins fram að því að þeir þurftu að taka þetta með tíu mönnum, þá hreinlega gerðist eitthvað sem varð til þess að liðið fór að spila gæsahúðarknattspyrnu af þeim krafti og hjarta sem maður veit að þetta lið býr yfir, en hefur hreinlega verið sofandi afl allt og oft á þessari leiktíð. En nú er gaman!

    Áfram Liverpool!

  37. Þessi kona sem Terry barnaði og á svo að hafa verið með Eið Smára og fl, var hún ekki bara aðstoðarþjálfari hjá che$%$#” eða þannig

    Annars rosa happý með úrslitinn hefðu mátt vera stærri en so……

  38. Frábær úrslit í alla staði fyrir Liverpool í dag. Vonandi vinna svo Chelsea Arsenal á morgun. Þá er kapphlaupið um 3. sætið hafið!

  39. Tottenham gerðijafntefli við aston villa og Man City tap hjá hull vona svo mikið að Arsenal tapar á móti Chelsea þá verða bara fimm stig á milli Liverpool og Arsenal og svo tveir sigrar hjá Liverpool á móti Arsenal og Man City eigum við möguleika að lenda í þriðja sæti svo þar er enþá von í 3.sæti.

  40. Næstu 2 leikir hjá okkur eru hrikalega mikilvægir, við megum alls ekki fá minna en 4 stig úr leikjunum á móti Arsenal og City. Ef við vinnum þá báða þá tel ég okkur eiga flotta möguleika á 3 sætinu sem væri ekkert svo slæmt miðað við hvernig þetta hefur allt spilast og meiðslin hjá Torres.

  41. Þessi leikur er klár sönnun þess að Benitez skilur ekki EPL. Og alveg þoli ég ekki Kuyt. Hann bara hleypur og hleypur. Hvað er málið með það??? Hvernig á maður að skilja hvaða stöðu hann spilar þegar hann er svona út um allan völl? Getur einhver sagt mér það? Svo er náttúrulega óskiljanlegt hjá Benitez að taka Sotiris “Borðaði hljóðnemann lifandi” Kyrgiakos út af án þess að setja neinn inná í staðinn. Og Afhverju byrjaði ekki Aquilani inná? Á hann aldrei að læra að tækla? 🙂 🙂 🙂

    Dirk FUCKING Kuyt!!!! ’nuff said

  42. Það er alveg hlægilegt að lesa það sem vellur uppúr ykkur Liverpool mönnum á þessari síðu. Þvílíkur biturleiki á einni vefsíðu. Held að vefur þar sem konur sem lenda í því að mennirninir þeirra halda framhjá þeim skiptast á skoðunum, myndi ekki slá ykkur við.
    Þó hitta einstaka menn á ágæta punkta. Sá sem skrifar um leikinn segir að Kuyt láti ekki ljótleika Neville slá sig útaf laginu. Það er náttúrlega mjög eðlilegt þar sem Kuyt sér ljótasta mann deildarinnar í hvert einasta skipti sem að lítur í spegil. Held að Fellaini hefði þurft að fara með fótinn betur í smettið á honum, hafið kannski bætt eitthvað útlit hans.
    Lolli hittir líka á réttan punkt þegar hann segir að Everton sé frummynd ógeðsleikans. Hann kann greinilega sögu Everton og Liverpool og veit að Liverpool var stofnað uppúr Everton á sínum tíma.
    En að leiknum. Ég elska leiki þessara liða, jafnvel þó að við ríðum nú yfirleitt ekki feitum hesti frá þeim. Þetta var hörku derby leikur, lítið um fótbolta mikið um hörku og tæklingar. Dómarinn var við það að missa tökin og hefði að ósekju getað vísað bæði Pienaar og Fellaini af velli í fyrri hálfleik. Liverpool voru einfaldlega betri í þessum leik og áttu sigurinn skilið. Everton liðið einstaklega andlaust. Ég hafði góða trú á að mínir menn myndu taka þetta. Þegar vantar Torres í Liverpool eiga flest lið að geta unnið þá. Everton tapaði miðjubaráttunni í leiknum og áttu því aldrei séns. Ákaflega slæmt að missa Fellaini af velli, því að án hans voru einfaldlega of litlir og ekki nógu líkamlega harðir leikmenn á miðjunni. Góð úrslit fyrir ykkar menn í öðrum leikjum og baráttan um Evrópusæti og sæti Meistaradeildinni er galopin.
    Vona að þetta tímabil bjóði uppá spennu fram í síðasta leik.
    Nil satis nisi optimum!

  43. Geeeeiiiiiispppp….

    Ættir þú ekki að vera að gráta einhvers staðar annars staðar?

  44. “Lolli hittir líka á réttan punkt þegar hann segir að Everton sé frummynd ógeðsleikans. Hann kann greinilega sögu Everton og Liverpool og veit að Liverpool var stofnað uppúr Everton á sínum tíma.”

    Ég veit ekki með þig en ég trúi á þróunarsöguna. Everton hefur á undanförnum árum verið gjörsamlega ógeðslegt lið sem hefur engan áhuga á knattspyrnu. Þeir safna að sér leikmönnum á borð við Fellaini, Neville, Cahill og Pienaar. Allt eru þetta leikmenn sem gætu flokkast sem mest dirty leikmenn í hvaða deildarkeppni sem til er. En þessir leikmenn spila ALLIR hjá Everton og eru allir spilandi á MIÐJUNNI hjá þeim. Geturu ýmindað þér ógeðleikann?
    Liverpool var sem betur fer stofnað og klauf sig þar af leiðandi frá þessari skelfilegu arfleifð Everton Shitclub. Ég þekki sögu Liverpool mjög vel en vona að þú hafir notið þessara mínútna meðan þú hljómaðir eins og “the men” á þessari síðu. Vill í lokin óska þér velfarðnaðar og samúðar fyrir þá leið sem þú ákvaðst að fara í lífinu. Enda væri ekki jafn gaman að svona leikjum ef það væri bara stuðningsmenn Liverpool. Þú ert einn af þessum gaurum sem ert að taka “one for the team” og er ég þér þakklátur fyrir það.

  45. LOL….Góður sigur , engin vafi á því !
    Það sem er hinsvegar fyndið er að hér eru nokkrir sem gleðjast mest yfir því að í Everton skuli vera nokkrirfyrrverandi United spilarar !!! Er minnimáttarkendin alveg að drepa suma ????
    Annars til hamingju Poolarar , þetta er allt að komast á eðlilegt ról , topp 4 as usual..

  46. everton maður nr#62

    það eru aðeins tvö lið í Liverpool borg ! Liverpool og varalið Liverpool !!!

  47. Ég get ekki annað en verið hiiiiiiiiminlifandi með úrslit dagsins. Ég deili venjulega ekki ógleði manna á Everton nema þó að ég haaaata þá meir en allt í heiminum. Í dag var mér samt óglatt yfir hrottabrotum þeirra og hamagangi og að dómari leiksins skuli ekki hafa gert neitt er bara rugl. En það sem skiptir máli er að við unnum og það sannfærandi þótt markatölur leiksins séu ekki sannfærandi. Kuyt er meistari og Mascherano er snillingur !

    YNWA

  48. Það dregur úr ánægjunni að vinna Everton ef maður hugsar til þess hve lélegir þeir eru.

  49. Það eina sem vantaði til að toppa þessa upplifun alveg var eitt gott viðtal við Leif Garðarsson eftir leikinn.

  50. Er númer 62 að gefa í skyn að hann langi að ríða feitum hesti??

  51. Snilldarsigur. Skemmir ekki að City tapaði og Tottenham og Villa gerðu jafntefli. Hversu leiðinlegt lið er Aston Villa? Þeim tekst meira að segja að gera leik á móti frísku Tottenham liði drepleiðinlegan.

    En þó Everton sé erkifjandi okkar skil ég ekki þetta endalausa níð á einstaka leikmenn eins og t.d. Cahill. Hann er grjótharður andskoti og klípur örugglega og bítur…. en kommon… þetta er fokking atvinnumannafótbolti og allir þessir menn gefa ekkert eftir þó þeir feli það mismikið. Cahill er gjörsamlega frábær leikmaður og hefði verið margt vitlausara fyrir Liverpool en að kaupa hann á sínum tíma.

  52. frábær úrslit í dag hjá okkur, tala nú ekki um first Hull vann city og villa náði jöfnu á móti tottenham. Svo er líka bara frábært að sjá svo marga dásama Kuyt þar sem það er mjög stutt síðan menn drulluðu endalaust yfir hann. En allavegaa er ég orðinn bjartsýnn á 4 ef ekki bara 3ja sætið í deildinni. Til hamingju allir 🙂

  53. Leikurinn var frábær skemmtun þótt hann hafi ekki verið total-football-leikur. Skýrslan er líka frábær:

    -Mínútu síðar fékk Carra svo næsta gula spjald fyrir að strauja Pienaar. Hárréttur dómur og hárrétt tækling hjá Carra, það á ekkert að láta aumingja eins og Pienaar komast upp með svona hegðun á Anfield.

    Komment ársins.

    Mér fannst nú Mascherano maður leiksins en DIRK KUYT er algjörlega leikmaður sem á sína bestu spretti í stórleikjum. Hann er allur að koma til eftir slaka desember og janúarmánuði. Ég fer samt ekki ofan af því að hann á ekkert að spila gegn slakari liðunum. En hvernig Mascherano og Gerrard tóku sprettinn út í horn í lok leiksins til að kötta á fyrirgjöf Evertonmannsins var æðislegt. Og við erum búnir að eignast nýjan hægri bakvörð.

  54. Glæsileg framistaða!
    Er einhver með link á torrent af leiknum, eða Match of the day frá bbc? verð að sjá eitthvað úr leiknum…

  55. Maggi; Hvernig var hálfleiksræðan hjá Benitez?

    Kristján Atli; Flott grein og sammála með allt, þ.a.m. með að bæði Soto og Fellaini hefðu átt að fá rautt.

    EN.

    Er algjörlega ósammála með árás Pienaar á Gerrard? Ég horfði á umræðu á ESPN þar sem Robbie Mustoe og annar ónafngreindur maður hlógu eiginlega af þessu spjaldi. Miðað við gang leiksins þá var þetta fáránlega soft. Gerrard eðlilega lét eins og hann væri skotinn en þetta var ekki í anda leiksins þetta spjald.

    En flott grein.

  56. “Grosli”, maðurinn fékk högg í andlitið og fór í grasið þess vegna. Hinsvegar 3 sekúndum síðar var hann sestur á rassinn og var ekkert að gera meira úr þessu. Pienaar var bara einfaldlega of seinn í þetta návígi og fékk spjaldið þess vegna. Held að þetta hafi verið meira uppsafnað hjá Pienaar að fá þetta spjald heldur en til dæmis brotið sjálft skilurðu mig. Þú hlýtur að vera sammála því að þessi tækling hans á Masch í fyrri hálfleik verðskuldaði rautt spjald ???

  57. Gott að sjá að Grolsi kemur hér líka eftir sigurleiki.

    Sérstaklega til að benda á að Gerrard hafi gert eitthvað til að fiska Pienaar útaf. Þú hlýtur að vera að kynda mig, skandall í dómgæslu að sá ógeðfellt grófi leikmaður fékk að vera svo lengi inná og þarna stökk hann inní Gerrard án þess að eiga nokkurn séns á boltanum, hann fór semsagt í þetta til að meiða og það er spjald Grolsi minn, þó að mannvitsbrekkur eins og Mustoe vilji leika harðnagla.

    Í viðtali við Gerrard strax að loknum leik talaði hann um að hálfleiksræðan hafi snúist um að allir ættu að halda ró sinni, við fengjum færi úr föstum leikatriðum og skyndisóknum og það gæti skilað okkur þremur stigum. Sem það gerði 1-0 og jafnvel hefði orðið 2-0 ef ömurlegur línuvörður hefði ekki flaggað Babel rangstæðan þó 2ja metra vitleysa væri þar á ferð.

    Ræddi Mustoe vinur þinn eitthvað um það?

  58. Þetta er bara að verða hagstæðasta helgi í manna minnum. Arsenal í tómri steypu gegn Chelsea. Nú er bara að negla þá í næsta leik og þá skilja tvö stig liðin að. Og baráttan fer að snúast um að 4-5 lið séu að berjast um tvö sæti.

  59. það þarf ekki mikið til að gleðja ykkur rauðu sem er gott mál til hamingju með sigurinn.það er alltaf eins og þið poolarar hafið unnið einhvern bikar þegar þið vinnið okkur og man utd og drullið svo á ykkur á móti minni liðunnum alveg sorglegir greyinn.

  60. Æj, talandi um sorglegt, er eitthvað til mikið sorglegra en bitur blár að kommenta á bloggsíðu tileinkaðri Liverpool FC?

  61. Við drullum nú ekki alveg á okkur gegn minni liðunum e.f.c. – erum við ekki búnir að leggja ykkur tvöfalt í ár ?

  62. Hvar var þetta viðtal Maggi? Ég horfði á viðtal við Gerrard og Kuyt strax eftir leik og ekki tók ég eftir þessu þar.

    En hversu grátlegt er að treysta á föst leikatriðið og skyndisóknir, þó við séum manni færri? Æji, er orðinn svo þreyttur á þessum hugsunarhátt hjá stjóranum okkar. Ætla þó ekki að gagnrýna hann of mikið, hann hefur verið að ná í stig í síðustu leikjum þrátt fyrir ekki góða spilamennsku í neinum þeirra.

    Aðeins aftur að þessari hálfleiksræðu. Ég held að Benitez sé kandidat í lélegasta pep-manager í bransanum. Ég man alltaf eftir viðtalinu við Carra (minnir að það hafi verið eftir myndina þarna þar sem einhver fer með textabút sem hálfleiksræðu í Istanbul, bæði Carra og Gerrard leika í þessu…man ekki hvað þetta heitir) þar sem hann sagði að hálfleiksræða Benitez hafi verið róleg og yfirveguð og ekkert öðruvísi en í öðrum leikjum…með öðrum orðum, það var ekki hálfleiksræðan sem kveikti í leikmönnum. Frekar þeir ótrúlegu stuðningsmenn sem kyrjuðu YNWA allan hálfleikinn svo leikmenn fengu gæsahúð er þeir löbbuðu aftur útúa völl.

    Þó vissulega séu úrslitin að detta með okkur núna og er það vel, þá breytir það engu um það að Rafa verður að fara svo framfarir komi. Komi hann okkur í CL sæti í vor getur hann farið með höfuðuð aðeins hærra en ella.

  63. Það er tvennt sem ég skil ekki. Í fyrsta lagi þetta comment hjá Einari Erni. Þetta er Liverpool umræður og þar er stjórinn sjálfsagt helsta umræðuefnið þegar hann stendur sig eins og hann hefur gert undanfarið. Að reyna koma umræðunni frá honum er svona svipað og þegar Geir H. Haarde vildi ekki að menn færu að finna sökudólga í hruninu. Ég get tekið undir að það er kannski óþarfi að klína þessari umræðu inn þegar verið er að ræða möguleg leikmannakaup eða mögulega fjárfesta, en þegar það er verið að ræða einstaka leiki og gengi liðsins þá er þetta auðvitað í beinu framhaldi af því.

    Annað, nú eru engin leiðindi eða neitt í póstinum mínum, samt sjá menn sig neydda til að gefa honum thumbs down…og það þrátt fyrir að t.d. Kristján Atli hafi hamrað á mönnum að gefa ekki putta upp né niður nema það sé sérstök ástæða til. Er nóg ástæða að vera ekki sammála innihaldinu? Ekki að mér sé ekki nokk sama um þetta þumalputtakerfi en þetta er svsolítið á skjön við það sem Kristján talaði um daginn.

    Annars gaf ég þér thumbs down Einar einfaldlega vegna þess að þessi póstur þinn var svo fullur af hroka og yfirlæti. Það er ljótt ef menn meiga ekki benda á það augljósa(í mínum huga allavega) ef þú ert því ekki sammála!

  64. Ég gef mér það að “thumbs down” við fyrri póst þinn Gunnar Ingi sé fyrst og fremst vegna:

    “En hversu grátlegt er að treysta á föst leikatriðið og skyndisóknir, þó við séum manni færri? Æji, er orðinn svo þreyttur á þessum hugsunarhátt hjá stjóranum okkar. Ætla þó ekki að gagnrýna hann of mikið, hann hefur verið að ná í stig í síðustu leikjum þrátt fyrir ekki góða spilamennsku í neinum þeirra.”

    Það er allavega ástæða fyrir mínu atkvæði. Það er staður og stund fyrir allt – þessi frammistaða í: a) Nágrannaslag, b) Manni færri , c) Spilamennska þeirra og úrslit sl 2-3 mánuði, c) spilamennska okkar og úrslit þetta tímabilið, d) Það vantar enn lykilleikmenn hjá okkur (amk 3 byrjunarliðsmenn) en þeir eru komnir með sína til baka og aftur e) nágrannaslagur.

    Ég sé bara ekkert að því að treysta á skyndisóknir…. er það “grátlegt” ef við gerum það einum færri, en tær snilld eins og Chelsea gerði það í gær 11 á móti 11, á eigin heimavelli þar sem Arsenal stjórnaði stærsta hluta leiksins ?

  65. Mér fannst þessi leikur gegn Everton alveg ágætur, sérstaklega í ljósi þess að við spiluðum einum færri í einhverjar 60mín…allavega ekki það vesta sem liðið hefur boðið uppá á þessu tímabili. En að setja leikinn upp með að treysta á föst leikatriði og skyndisóknir finnst mér ekki við hæfi fyrir Liverpool. Guðjón Þórðarson gerði þetta með íslenska landsliðið og með góðum árangri en þá vorum við líka svo til alltaf underdogs…það á að vera algjör undantekning ef Liverpool eru underdogs í sínum leik.

    Það er hugsunarhátturinn sem maður er orðinn langþreyttur á, þessi passívi hugsunarháttur…ekki endilega spilamennskan gegn Everton.

    …og hvernig Chelsea spilaði í gær kemur umræðunni lítið við. Þeir eru efstir og við höfum ekki beint efni á að rífa kjaft yfir þeim.

  66. Það er engin að rífa kjaft gagnvart þeim Gunnar – það að benda á að þessi hugsunarháttur sé út í hött er rétt hjá þér, ég vil ekki horfa á Liverpool lið sem leggur upp með þá leikaðferð. En mér finnst ekkert að því ef aðstæður eru eins og þær voru á laugardaginn.

    En að Chelsea aftur, ef þeir eru svona heilagir – í toppsætinu og allt það. Væri það þá ekki alveg eins krafa á þá að spila sóknarfótbolta á heimavelli eins og það er krafa á okkur ? Þeir voru 11 gegn 11 en lágu samt í vörn á heimavelli lengst af…

    Málið er bara að menn leggja leikina upp hverju sinni, þeir lágu til baka í þeim leik þar sem það hentar vel gegn Arsenal og sérstaklega þar sem þeir skora snemma. Að sama skapi liggjum við til baka í gær manni færri. Ef við hefðum legið í vörn eins og í gær 11gegn11 þá væri maður e.t.v. ekki eins rosalega glaður og maður er í dag, þó að 3 stig séu alltaf 3 stig, þá vill maður hafa spilamennsku bakvið það sem réttlætir úrslitin.

    Því betur fer höfum við ekki þurft að horfa á varnarbolta og skyndisóknir síðustu 24 mánuði, þó að það hafi verið oftar boðið uppá það undanfarið en við eigum að venjast – þá e.t.v. var ekki annað hægt, vörnin var djók hjá okkur fyrir áramót og það þurfti að fylla upp í götin – sem hefur skilað sér í að markinu er haldið hreinu í 6 af síðustu 7 – nú er bara að finna jafnvægi á milli sóknar og varnar.

  67. Strákar, spurning um að slaka aðeins á. Er ekki óþarfi að vera að rífast/munnhöggvast eftir svona leik?

    Ég þekki nokkra sem eru búnir að ákveða sig, vilja losna við Benítez strax í gær. Ég skil þeirra sjónarmið en er sjálfur ósammála því að menn vilji ekki breyta áliti sínu ef/þegar liðið réttir úr kútnum, eins og virðist vera að gerast núna. En menn mega alveg hafa sína skoðun á því.

    Það sem ég skil hins vegar ekki er þegar menn halda áfram að einblína á neikvæðu hlutina eftir helgi eins og þá sem við áttum núna. Það er enginn að gefa í skyn að liðið sé núna fullkomið og Rafa geri aldrei mistök en staðreyndin er sú að liðið er með 17 af síðustu 21 stigum, hefur haldið hreinu í 6 af síðustu 7 leikjum og er komið aftur upp í 4. sætið eftir sigur á Everton þar sem við vorum manni færri í 60 mínútur.

    Njótið þess. Við getum rætt alla neikvæðu hlutina seinna og það getur vel verið að Arsenal-leikurinn á miðvikudag smelli okkur beint niður á jörðina aftur með tilheyrandi örvæntingu og þunglyndi en í dag eiga menn að njóta þess hve vel hefur tekist til í síðustu sjö umferðum. Ef þetta væru fyrstu sjö umferðir tímabilsins væri Liverpool á toppnum núna, þetta er það gott gengi.

    Sleppum því allavega að rífast, þó ekki sé nema í dag. 😉

  68. Lolli: Þegar menn þurfa að koma með argasta skítkast út nýlagða mótherja, og varla einu orði eitt í sjálfann leikinn eða staðreyndir sér maður að líklegast er um 12.ára ungling að ræða. En þeir þurfa líka að læra. Að segja að Fellaini, Neville, Cahill og Piennar séu grófir segir mest um hvað þú veist lítið um íþróttina. Neville er td ekki kominn með 1 spjald í 9 leikjumÞeir eru sannarlega ákafir og leggja sig mjög fram, stundum verð þeir of ákafir eins og allir leikmenn geta gert.
    Talandi um villimenn á vellinum þá er Mascherano til að mynda kominn með jafn mörg gul spjöld og Fellaini, en er með 2 rauðum spjöldum meira. Hversu grófur er hann þá ? Fyrir utan það að hann er með svo slakar sendingar og skot að menn hlæja öllu jöfnu að. Hann er hins vegar góður þegar liðið er ekki með boltann.

    Fyrir utan það er Liverrpool búið að fá fleirri spjöld á leiktíðinni en “villimennirnir” í Everton. Eins er Liverpool með flest rauð spjöld á leiktíðinni af öllum í deildinni, meira en “villimannalið” á borð við Bolton, Stoke, Everton og Blackburn. Held að þú ættir að lesa þér til áður en þú skrifar á veraldarvefinn. Því eins og máltakið segir, “Betra er að þegja og vera áltinn heimskur, en að tala og taka af allan vafa”.

  69. Ef þið lítið á viðtölin á lfc.tv var það víst Kuyt sem sagði frá hvernig leikurinn var lagður upp og Gerrard tók svo hans orð í hans framlagi.

    En ég ætla ekki að munnhöggvast meir, enda gríðarlega ánægður með frábæran vinnusigur gegn sterku (þó grófu og hundleiðinlegu) Everton liði þar sem við vorum einum færri í 60 mínútur.

    Svo er bara að vinna á Emirates á miðvikudaginn og setja verulegan þrýsting á 3.sætið í deildinni, nokkuð sem virkilega væri gaman. Ekki síst í ljósi umræðunnar um ömurleika tímabils Liverpool í stað góðs tímabils Arsenal. T.d. væri gaman að heyra í Paul Merson eftir slíka útkomu….

  70. @EÖE #86

    • Jess, við náðum uppí 84 komment án þess að neinn krefðist þess að Rafa hætti.

    Í athuhugasemd #61 Var ég með hárbeitta gagnrýni á Benitez 🙂

    Manni gæti bara sárnað 😀 😀 😀

  71. Sælir félagar.

    Djöfuls og andskotans andskoti var þetta góð helgi. Allt gekk upp sem átti að ganga upp og það fór niður sem átti að fara niður. Sem sagt; drullugott 🙂 🙂 🙂

    Það er nú þannig.

    YNWA

  72. mig dreymir um að liverpool vinni arsenal og man city í næstu tvemur leikjum og við þurfum bara að treysta á okkur sjálfa til þess að CL sætið sé í höfn !! og við getum farið að stefna á 3 sætið ! úúújeeee

  73. Nú liggur leiðin bara uppá við. Það er búið mikill stígandi í liðinu í undanförnum leikjum. Það ánægjulegasta er að vörnin virðist vera að smella.

  74. Sammála Goodman… þetta er mjög vel ígrundað hjá þér.

    Flott comment.

  75. Spurning hvernig vörnin verður núna þegar sá gríski er farinn í bann.

  76. Grezzi:

    “Að segja að Fellaini, Neville, Cahill og Piennar séu grófir segir mest um hvað þú veist lítið um íþróttina”
    Ertu að gefa í skyn að Cahill sé ekki grófur? Þú ert semsagt með sömu hugmyndafræði og Evertonliðar um að þessi íþrótt, knattspyrna snýst ekki um að spila knattspyrnu og smella tuðrunni í netið heldur að væla, rífa kjaft og reyna að beita leikmönnum einhverjum skítabrögðum. Andlitið á Neville er gríðarlega gróft, ekki hægt að neita því og ef þú hefðir horft á leikinn sem ég efa að þú hefur gert þá gætiru tekið undir það að Pienar sé grófur leikmaður. Var ekki plebbin sem tæklaði Eduardo stimplaður sem grófur leikmaður eftir brotið hans, tæklingin hans Pienaar var alveg eins, nema hún olli ekki alvarlegum áverkum.

    “Talandi um villimenn á vellinum þá er Mascherano til að mynda kominn með jafn mörg gul spjöld og Fellaini, en er með 2 rauðum spjöldum meira. Hversu grófur er hann þá”
    Berðu saman tæklingarnar hans og tæklinguna hjá Pienaar eða Fellaini, eða þegar Fellaini sparkaði í eitt stykki andlit eða þegar Neville lét andlitið sitt sjást í beinni. Mascherano er brotlegur við það að spila knattspyrnu en ekki við að spila þá íþrótt sem Everton spilar.

    “Fyrir utan það að hann er með svo slakar sendingar og skot að menn hlæja öllu jöfnu að”
    Hvað tengist það grófleika hans?

    “Fyrir utan það er Liverrpool búið að fá fleirri spjöld á leiktíðinni en “villimennirnir” í Everton. Eins er Liverpool með flest rauð spjöld á leiktíðinni af öllum í deildinni, meira en “villimannalið” á borð við Bolton, Stoke, Everton og Blackburn”
    Þú ert greinilega ekki búinn að sjá þessi rauðu spjöld. Þau voru ekki gróf.

    “Held að þú ættir að lesa þér til áður en þú skrifar á veraldarvefinn. Því eins og máltakið segir, “Betra er að þegja og vera áltinn heimskur, en að tala og taka af allan vafa”
    Þetta segir meira en nóg um málflutningin þinn, að hoppa í sandkassaleik eins og níu ára barn. En gera það með einhverju rosalega háfleygu máltæki sem lætur þig líta vel út.

  77. Tækling Carraghers á Pienaar er auðvitað algjört golden moment. Það skal enginn segja mér að það hafi verið tóm tilviljun að sendingin kom einmitt þarna og á þessum tíma, og ef minnið svíkur mig ekki þá hef ég einmitt séð þennan háttinn hafðan á áður. Klassa frammistaða.
    Annars var ég mjög ánægður með vinnusemina í mönnum og meira að segja Babel var að reyna sitt besta.

Chamakh til Arsenal + Byrjunarliðið gegn Everton

Kop.is á Twitter