Marseille 1 – Liverpool 2

Fyrir ári síðan var maður hálf sjokkeraður eftir fyrsta heimaleikinn í Meistaradeildinni, heimatap gegn spræku liði Marseille. Eftir svakalegan leik um helgina, sem kallaði á mikla orku, var ljóst að viðfangsefni kvöldsins yrði allt annað en létt, sama lið og vann í fyrra en nú á útivelli.

Rafa karlinn hefur lært sína lexíu frá síðasta tímabili þar sem mér fannst liðsuppstillingar hans í fyrstu CL leikjunum skrýtnar, bera vott um vanmat, eða bara hroka. Í kvöld var ljóst að hann stillti upp hörkuliði, sem átti að skila árangri.

Byrjunarlið kvöldsins

Reina

Arbeloa – Skrtel -Carragher – Dossena

Lucas – Mascherano
Kuyt – Gerrard – Babel
Torres

Og á bekknum: Cavalieri, Agger, Keane, Riera, Alonso, Benayoun,Degen.

Fimm breytingar frá leiknum við Scum United og flestar styrktu liðið! Segir kannski eitthvað um aukna breidd liðsins frá því áður.

Leikurinn byrjaði varfærnislega en okkar menn voru þó meira með boltann á meðan að Marseille vildu greinilega ekki fá á sig mark snemma. Fyrstu færi leiksins duttu í okkar hlut eftir korterið þegar Babel skaut yfir úr góðu færi og stuttu seinna var fyrirliðinn ekki langt frá því að setja fyrsta markið.

Það var því eilítið gegn gangi leiksins að heimamenn tóku forystuna. Liverpool tapaði boltanum á miðsvæðinu og Marseille voru fljótir að stinga boltanum í gegnum miðja vörnina. Carra klikkaði á rangstöðugildrunni og fyrirliðinn Lorik Cana setti hann örugglega framhjá Reina, sem mér fannst að hefði átt að gera betur. 1-0 og stemmingin skyndilega heimamanna.

En ekki lengi. Aðeins þremur mínútum seinna vann Torres boltann vel í miðjuhringnum af varnarmanni og geystist upp. Sendi á Kuyt sem lagði boltann á fyrirliðann sinn um 20 metra frá markinu. Sá beið ekki boðanna og setti boltann yfir góðan markmann heimamanna með föstu innanfótarskoti, frábært mark hjá Steven Gerrard og staðan strax orðin 1-1.

Og nú var allt í gangi hjá okkar mönnum, greinilega fullir sjálfstrausts og með tökin í leiknum. Á 30.mínútu átti Carragher langa sendingu á Babel sem lék inní teiginn, tók svakaleg skæri á varnarmann sem datt á rassinn og skellti Hollendingnum unga og klárlega víti. Hobbitinn gerði rétt í að dæma vítið, mér finnst hann ógurlega slakur dómari, en svo kom afar skrýtið upp í framkvæmd þess. Greinilegt var að þegar Gerrard var að fara að taka víti flautaði dómarinn að það yrði að endurtaka. Í sjónvarpinu sást greinilega að það eru varnarmenn sem eru fljótir að fara inn í teiginn og því hefði markið sem fyrirliðinn setti stöngin inn vissulega átt að standa. En aftur varð að taka vítið.

Auðvitað var kóngurinn ekki að kippa sér upp við þetta, setti boltann aftur í sama horn, Gerrard með sitt annað mark og staðan 1-2. Þessar fyrstu ca. 35 mínútur fannst mér frábærar hjá liðinu, héldu boltanum vel og voru beittir fram á við. Eftir að við komumst yfir fannst mér svo áherslan breytast. Greinilegt var að menn voru í lægri gír fram að hálfleik, ekkert markvert í gangi og 1-2 þegar flautað var til hlésins. Reyndar settu Marseillemenn nýjan mann inná eftir 40 mínútur og ætluðu greinilega að auka sóknarþungann.

Sem heldur betur varð í seinni hlutanum í leiknum. Áhersla okkar var nú greinilega sú að halda fengnum hlut og beita skyndisóknum. Marseille fékk nú að halda boltanum og áherslan var að loka svæðum. Fyrst í stað var lítið um færi en smátt og smátt jókst sóknarþunginn. Torres var örþreyttur og fór útaf eftir 65 mínútur fyrir Riera, góð breyting og Albert karlinn hjálpaði okkur við að halda boltanum. Gerrard fór fljótlega útaf líka og því ljóst að síðustu 25 mínúturnar yrðu án stóru nafnanna.

Þrátt fyrir að heimamenn væru meira með boltann fengum við færið sem átti að klára leikinn. Það kom eftir flotta rispu Riera upp kantinn. Sendingin frá honum endaði á Babel aleinum í markteignum sem tók bara Neil Ruddock á dæmið og reyndi að skjóta höfuðið af markverðinum. Þar vantaði þennan stórefnilega leikmann sannarlega yfirvegun.

Síðustu tíu mínútur leiksins liðu svo í nauðvörn okkar þar sem Pepe Reina var frábær. Ég segi það enn hér að mitt mat er að þar fari besti markvörðurinn sem spilar í Englandi. Alhliða yfirvegun hans er stórkostleg og ég vildi ekki skipta á honum nema kannski Buffon og Casillas. Frábær frammistaða hans í lokin landaði gríðarmikilvægum útisigri á feykierfiðum útivelli. Þegar misskildi snillingurinn flautaði af var ljóst að Liverpool, ásamt Atletico Madrid, væri komið í bílstjórasætið í þessum riðli. Eftir þennan sigur á Anfield að koma okkur áfram. Kannski einfalt, en mín krafa samt!

Þegar ég dreg saman frammistöðuna fannst mér fyrstu 35 mínúturnar frábærar. Liðið var vel smurt og fullt sjálfstrausts. Hvort sem það var þreyta, eða stöðumat þjálfaranna, var seinni hálfleikurinn fyrst og fremst varnarleikur, en sá varnarleikur fannst mér þó óvenju ótraustur. Lucas og Masch voru ekki að ná saman, mér fannst þeir oft hvor ofaní öðrum og stór ódekkuð svæði þá fyrir framan vörnina. Skrtel átti ekki nægilega sterkan dag, braut klaufalega og lét teyma sig út úr stöðum. Reyndar var mikið “flot” á sóknartýpum Marseille og við áttum erfitt með að ná tökum á því. Mér fannst Carra bera af og bakverðirnir komust ágætlega frá sínu.

Kuyt var þreyttur, átti ágætan fyrri hálfleik en var engu að skila í þeim seinni. Torres klárlega ekki í formi en átti lykilþátt í fyrsta markinu og Babel átti feykilega góða spretti, en var svo klaufi þess á milli. Er örugglega svekktur að hafa ekki náð að skora loksins þegar hann fékk að vera einn á toppnum.

Riera kom flott inn og Benayoun heldur boltanum vel og er skynsamur. Keane var bara látinn hlaupa.

Það voru þó bara tveir menn sem komu til greina sem menn leiksins í þessum flotta “vinnusigri” í Suður Frakklandi. Fyrstan tel ég Reina, sem átti frábæran leik. Greip vel inní, var þvílíkt rólegur og hélt okkur á floti í lokin. Ég setti þó spurningamerki við frammistöðu hans í marki Marseille og því fær Steven Gerrard captain fantastic, mitt atkvæði. Hann átti stórleik í frjálsu stöðunni í fyrri hálfleik, skoraði geggjað mark og var verulega yfirvegaður í vítunum sem hann skoraði úr. Brosti breitt og greinilega að sigla inn í flottan vetur drengurinn sá.

Semsagt. Kátur með úrslitin og margt jákvætt. Næst á dagskrá er heimaleikur gegn MANNFJÖLLUNUM sem spila með Stoke City á Anfield næstkomandi laugardag. Það verður ólíkur leikur frá kvöldinu, þetta Stokelið er snýtt út úr gamla Wimbledongenginu og veltir sér ekkert á hliðina og lætur sparka í sig.

En krafan er einföld. Áfram takk drengir mínir, við ætlum að vera einir á toppi deildarinnar eftir þann leik!!!

45 Comments

  1. Þetta voru fínustu úrslit og það er gaman að sjá að okkar menn eru mættir til leiks eftir vægast sagt rólega byrjun.

    Það er samt afar pirrandi hvað við getum ekki kálað svona leikjum þrátt fyrir svakaleg dauðafæri og það er í raun fáránlegt að það hafi ekki komið í bakið á okkur í lokin.

    En fínn sigur á afar erfiðum útivelli, Gerrard maður leiksins hjá mér og Jose Reina í öðru sæti

    Hlakka til að sjá Maggíska skýrslu

  2. Jesús, lokin voru bara aaaalgjört rugl.. Guði sé lof fyrir Reina.. Annars var sóknarleikurinn mjög góður á köflum.. Fáránlegt að hafa Lucas inná fyrir Xabi, og Riera á að vera í byrjunarliðinu í þessu liði!

  3. Gerrard klárlega maður leiksins, gaman að sjá hann í svona formi.
    Góður sigur á erfiðum útivelli og dýrmæt stig í höfn. Vissulega hefði maður viljað sjá liðið halda sama dampi í seinni hálfleiknum en er ekki frá því að erfiður leikur gegn Man Utd hafi eitthvað setið í liðinu. Babel gat klárað leikinn í tvígang en eins og svo oft áður vill hann gera gat á netið í hvert einasta skipti sem hann tekur skot á markið. Tek það hins vegar ekki af Babel að hann er lang besti kosturinn á vinstri kantinn, alltaf hættulegur. Heppnin var svo klárlega með liðinu í lokin þegar Marseille fékk mjög góð færi.
    Niðurstaðan 1-2 góður karakter sigur.

  4. Best að segja sem minnst sigur er nóg, en guð minn góður að þurfa að setja mann eins og Benayoun inn á er sorglegt hann er svo slakur og kórónaði svo frammistoðu sína með að flýja út að hornfána þegar hann gat sett Keane í gegn´þegar 10 mín. voru eftir. Babel var sprækur enn full eigingjarn á boltanum svo átti hann að skora a.m.k 2 mörk. Lucas ég sé ekki það mikla efni sem sumir virðast sjá í honum. Vorum heppnir í lokinn en það er jákvætt að hún sé að falla með okkur.

  5. Mikið djöf… er Reina góður þegar á reynir, hann bjargaði heiðri okkar í kvöld því jöfnunarmark lá í loftinu. En þvílíkt mark hjá Gerrard, fer í úrklippubókina. Mögnuð byrjun á meistaradeildinni og kærkominn sigur, Marseille á eftir að hirða stig á heimavellinum, sjáiði til, og Atletico Madrid gæti reynst skeinuhætt lið. Sammála Heimi Guðjóns á Stöð 2 Sport í kvöld að Rafa átti að setja Alonso inná, Benníjúnn er því miður ekki nógu góður. Kátur hefur líka verið betri, en alltaf hleypur hann á sig gat.

  6. Mér fannst Lukas standa sig vel og Massarone var ágætur en átti stundum slæmar sendingar. Gerrard var alveg frábær og Kuyt var mjög góðut. Skil það vel að Torres og Gerradr voru teknir útaf, af því að þeir meiga ekki við því að þeir meiðist og nái sér fullkomlega,,, Reina frábær….

  7. Skemmtilegur leikur. Liverpool hefðu getað klárað þetta með fleiri mörkum ef Babel hefði sett hann úr sínum dauðafærum. Gerrard flottur að klára þetta, Babel átti fína spretti og svo fannst mér Riera eiga fína innkomu, sérstaklega þegar hann bjó til eitt af dauðafærum Babel. Lucas fannst mér hinsvegar verulega slakur. Á köflum fannst mér bara eins og það væri engin miðja hjá Liverpool. Bara einhver síðhærður gaur að hlaupa og brjóta svo af sér inná milli. Svekkjandi, þar sem ég vonast eins og flestir til að hann verði stórfenglegur.

    Þórhallur: Ég vil meina að hlaupaleið Keane hafi verið frekar um að kenna í þessu atviki sem þú minnist á. Hann tók hlaupið á fjærstöngina, þar sem hann var kominn í felur bakvið varnarmann og erfitt fyrir Benayoun að koma boltanum til hans. Úr því sem komið var gerði hann ágætlega í að fá innkast.

    Annars var þetta Marseille lið drullusprækt. Hefðu jafnvel átt skilið meira úr þessum leik en þeir fengu. Valbuena, Ziani og Cheyrou virkuðu oft á tíðum mjög hressir á mig. Spiluðu sóknarsinnaðan og hraðan fótbolta, duglegir að hreyfa sig án bolta og bara allmennt mjög fínt lið að mínu mati. Getum verið mjög sáttir við að hafa unnið þá þarna, miðað við gæði liðsins (Marseille þ.e.a.s.) þá var það alls ekkert sjálfsagt mál að hirða stig gegn þeim.

  8. Fannst þér Lucas standa sig vel?? Lang slakasti maður vallarins. Varnarleikur hans var fádæma lélegur og menn gengu framhjá honum hvað í annað. Eina sem hann gerði var að snúa bakinu í menn. Alveg ótrúlegt að honum hafi ekki verið kippt útaf.

    En góður sigur þrátt fyrir skelfilegan síðari hálfleik.

  9. Gott að klára 3 stig þrátt fyrir að hafa nánast aldrei farið úr “gönguhraðanum” þá kannski fyrir utan þessar 10-15 min eftir að þeir skora og þangað til við komum okkur yfir. Engin óþarfa orka sem var eydd í dag og maður er búinn að sjá “þennan” leik svo oft hjá Liverpool i meistaradeildinni, að fara á útivöll og vinna með einu marki á gönguhraða að ég hafði nánast aldrei áhyggjur af því að við mundum ekki vinna, en það munaði þó ekki miklu.

    Skipulagðir og fínir, solid spilamennska og við eigum nóga orku til að taka Stoke með 2-3 mörkum um helgina, hef engar áhyggjur af þeim leik. Tímabilið lítur mjög vel út so far.

  10. já ég fatta ekki afhverju Lucas var ekki tekinn útaf mikið fyrr, hann var búinn að vera arfaslakur í leiknum. En engu að síður 3 stór og mikilvæg stig í hús hjá okkur.. fínt

  11. Ástæðan að Lúkas var ekki tekinn út af, er vegna þess, að hann var ekki slæmur Helgi. En hann var kanski ekki besti maðurinn í Liv. Svo er hann ekki beint varnaleiks maður, þeir sem eru svo framalega eru sóknarleiks menn. Masserone er varnar sinnaður og gerði vel , nema að hann átti stundum slæmar sendingar sem sköpuðu oft hættu, eins og ég nefndi hér áður# 7 en við erum á uppleið………JESS LIVERPOOL

  12. Benayoun gat hæglega sett hann á keane strax í stað þess að hlaupa á eftir honum með boltann. Vill bara helst vera með boltann alltaf á tánumm, ömurlegur leikmaður

  13. Góður sigur, þrátt fyrir að liðið hafi sett í hlutlausa gírinn mestan part seinni hálfleiks. Gerrard ótrúlegur, Reina stórkostlegur, Carra frábær, Babel sprækur. Lucas ósýnilegur, og með nánast jafn slæma hárgreiðslu og Voronin, sem er honum ekki til tekna. Farinn að valda æ meiri vonbrigðum síðhærði lufsinn, týnist í leikjum. Aðrir voru svona lala. Annars góður og nauðsynlegur sigur.

  14. sigur náðist, það er fyrir öllu.
    kom mér svolítið á óvart hversu opinn leikurinn var. vörn liverpool átti í miklum vandræðum með rangstöðugildruna því að sóknarmenn marseille eru með fljótari mönnum í boltanum í dag, jesús góður.

    en þeir sem stóðu uppúr í dag að mínu mati voru gerrard, reina og babel. gerrard með frábær mörk og Á AÐ VERA Í HOLUNNI ef hann er ekki meiddur!! það sannaðist í dag og ég fer ekkert ofan af þessari skoðun.
    reina bjargar trekk í trekk enn og aftur! babel er að koma mun öflugri inn í síðustu 2 leikjum en maður átti von á, búið að vera slen yfir honum í fyrstu leikjunum. en babel átti seinna markið eftir frábært einstaklingsframtak og líkamsstyrkur hans er andstæðingunum yfirleitt erfiður ljár í þúfu, frábært að hafa hann og riera á vinstri 🙂

    en varnarleikurinn var skrýtinn í dag og varnarlínan jafnvel of framarlega því fremstu menn marseille voru nokkrum ljósárum hraðari en okkar öftustu menn. en þetta blessaðist allt að lokum og við getum verið hæstánægðir með taplaust season so far 😀

    snilld!

  15. Góður sigur gegn þrælfínu Marseille liði. Hvað eftir annað fannst mér þeir labba í gegnum vörn eða miðu í síðari hálfleik og það kórónaðist fannst mér þegar seint í seinni hálfleik þrír Liverpool menn voru í kringum Marseille manninn (man ekki nöfnin) og hann snýr sér einhvern veginn í hálfhring og nær að fífla þá alla.

    Spilamennska Liverpool er alltaf að batna þó svo að yfir heildina hafi þessi leikur ekki verið upp á marga fiska (jú, Lucas var lélegur!). Pælið í því þegar liðið verður farið að keyra betur eins og smurð vél – það kemur að því – því við erum að landa inn stigum þrátt fyrir að vera ekki á tánum alltaf. Ég hef trú á Liverpool á öllum vígstöðvum þetta keppnistímabil.

    Gerrard maður leiksins jú … en mikið rosalega fannst mér Reina sterkur undir lokin. Yfirvegaður og kúl!

    Töku Stoke í nefið!

  16. Vissulega var þetta ekki besti leikurinn hjá Lucas. Ég trúi því enn að hann eigi eftir að springa út. Leikmaður sem er í byrjunarliði Brasilíu hlýtur að hafa upp á margt að bjóða. Ef hann fær nokkra leiki í röð þá spái ég því að hann fari að sýna sitt rétta andlit

  17. Miðað við kommentin, sem að Þórhallur hefur sett inn á þessa síðu, þá hlýtur hann að vera með í keppninni um neikvæðasta kommentarann á þessari síðu. Það virðist allt vera ömurlegt í þínum heimi, Þórhallur.

    Keane klúðraði færinu einfaldlega með sínu hlaupi. En að nenna að rakka Benayoun fyrir það að koma inná í korter finnst mér alveg magnað. Sérstaklega þar sem hann var verulega góður í síðasta leik.

    Varðandi leikinn þá var þetta einfaldlega erfiður útisigur gegn mjög góðu liði. Frábær byrjun á Meistaradeildinni og ég skil hreinlega ekki þá sem ætlast til að þessir leikir (sérstaklega útileikir) þurfi alltaf að vera burst til þess að menn séu sáttir.

  18. Rafa karlinn tók Gerrard útaf svo hann getur skorað 100 mark sitt við Kop.

    En Riera átti að byrja þarna inná í staðinn fyrir Babel

    Riera.. frábærar fyrstu snertingar… en við tökum svo PSV næst 3-0

    Torres með 1 og Keaner með 1 og Riera með 1

  19. Guðmundur góður hvað ég er sammála þér Einar Örn, í raun með hvert eitt og einasta orð. Hefði einhver boðið mér sigur fyrirfram í þessum leik? Já takk.

  20. Er einhver með link á mörkin? Gleymi alltaf síðunni þar sem mörkin koma

  21. Reyndar er ég ekki sammála þér Einar Örn með að Keane hafi klúðrað þessu með sínu hlaupi. Benayoun átti einfaldlega að gefa hann strax í eyðuna og þá hefði Keane verið á auðum sjó.

    En ég nenni svosem ekki að ræða það neitt sérstaklega. Mjög öflugur sigur í kvöld á erfiðum útivelli. Góður fyrri hálfleikur en við virkuðum þreyttir í seinni hálfleik. En stigin 3 eru mikilvæg og það eina sem telja í svona leik. Og reyndar í flestum öðrum leikjum ef út í það er farið. Hugsa að við toppum þennan riðil með Atletico í öðru sætinu.

    Og eitt enn, hversu fokking góður er Reina. Að mínu mati einn af 3 bestu markmönnum Evrópu.

  22. Ég sagði fyrir leikinn að þetta yrði erfiðara en margan hérna grunaði og það kom á daginn. Menn töluðu um skyldusigur og virtust ekki átta sig á að þetta Marseille-lið undir stjórn Gerets er orðið talsvert breytt og miklu betra en það lið sem við rústuðum á þessum velli í desember í fyrra.

    Þessi leikur hefði hæglega getað tapast ef framherjar Marseille hefðu nýtt færin sín betur, en auðvitað hefðu okkar menn líka getað skorað meira og þá sérstaklega ætti Babel að vera fúll við sjálfan sig að hafa ekki skorað. Ég talaði í leikskýrslu minni eftir United-leikinn á laugardaginn um lélega nýtingu hjá Keane og Kuyt í þeim leik en Babel var alveg skelfilegur í kvöld. Miðað við þau færi sem hann fékk getur hann bara ekki verið sáttur við að hafa ekki skorað í kvöld.

    Allavega, þetta var erfiður leikur á erfiðum útivelli og okkar menn sigruðu 2-1. Það er í aðeins annað sinn í sögu Liverpool í Meistaradeildinni (síðan þessi keppni skipti yfir í það nafn) sem liðið byrjar riðlakeppnina á sigri, skilst mér, og því er varla hægt að kvarta þótt frammistaðan hafi ekki verið klassísk. Eins og Maggi segir var liðið að spila verulega vel í svona 30-35 mínútur en datt svo of aftarlega og við það fór rythminn úr leik liðsins.

    Þá vil ég nefna annan leikmann sem mér finnst fáránlegt að menn séu að gagnrýna. Er ég sá eini sem finnst Lucas Leiva hafa staðið undir væntingum hjá Liverpool? Hér koma menn inn og segjast enn halda í veika von um hann og svo framvegis. Hann átti dapran leik í kvöld, sem og Mascherano, en hann hefur bætt þetta Liverpool-lið mikið á sínu fyrsta rúma ári hjá liðinu og er mjög góður kostur að eiga. Á tímabili í fyrra var hann á undan Alonso í goggunarröðinni inná miðjuna og var það fyllilega verðskuldað miðað við frammistöður það árið, og hann hefur ekkert farið verr af stað en hver annar í haust. Þetta er ungur strákur sem er kominn í byrjunarlið Brasilíu í alvöru leikjum í undankeppni HM og ég skil ekki hvers vegna menn eru ekki fagnandi því að eiga einn ungan, frábæran Brassa (þótt hann sé líkari Dunga á velli en Kaká – það geta ekki allir verið töframenn) sem er þegar orðinn lykilmaður í aðalhópi Liverpool, rétt rúmlega tvítugur að aldri og búinn að búa í aðeins ár fyrir utan heimaland sitt.

    Einnig: Keane og Benayoun klúðruðu engu. Þeir fengu upphlaup og Keane varð að velja úr tveimur hlaupaleiðum, eins og oft vill verða hjá framherjum: nær eða fjær. Hann valdi skynsamlega að hlaupa á fjærsvæðið þar sem Benayoun var á hraðri leið inn að nærsvæðinu en því miður lásu varnarmennirnir það og stigu hann út, þannig að Benayoun gat ekki gefið á hann. Til hvers að krossfesta þessa tvo varamenn í kvöld fyrir eitt lítið atriði þar sem þeir gerðu í raun ekkert rangt, hlutirnir bara gengu ekki upp? Og þið sömu og viljið úthúða þeim fyrir þetta glataða tækifæri minnist ekki einu orði á Babel sem klúðraði minnst fjórum einn-á-einn dauðaDAUÐAfærum í kvöld? Strákar, opnið augun!

    Svo er vert að minna á að það sama gildir um kvöldið í kvöld og gilti eftir United-leikinn: þið hljótið að geta fundið ykkur eitthvað betra að gera en að gera úlfalda úr mýflugum eftir sigurleik á erfiðum útivelli í Meistaradeildinni. Ég veit að spjallsvæði Kop.is er skemmtilegt, en það er ekki svona skemmtilegt. 😉

  23. Það má alveg minnast á þetta og Bennayoun umræðan hefur verið í gangi í smá tíma enda voru hann og Kuyt vitavonlausir á sitthvorum kanntinum.

    Það er samt óþarfi að missa sig yfir þessum “mistökum” hjá honum í kvöld, ein sending sem hann tók ekki og tafði frekar leikinn og vann innkast. Það er nú hægt að saka Bennayoun um margt en hann hefur nú verið þræl lunkinn við að finna glufur á vörnum með góðum sendingum. En ég held að hann sé að fíla sig meira úr stöðu á vinstri kannti hjá okkur heldur en Kuyt á þeim hægri (miðað við að hann er ennþá hugsaður sem striker). Eins held ég að við förum að sjá minna af hinum ísraelska Benna Jóni með komu Riera ásamt endurkomu Babel, Lucas og Gerrard (í form/úr fáránlegum fótboltamótum). Sem back up er Yossi fínn kostur.

    og KAR

    • Ég talaði í leikskýrslu minni eftir United-leikinn á laugardaginn um lélega nýtingu hjá Keane og Kuyt í þeim leik en Babel var alveg skelfilegur í kvöld. Miðað við þau færi sem hann fékk getur hann bara ekki verið sáttur við að hafa ekki skorað í kvöld.

    Ég er ekki alveg sammála þér þarna, þ.e. að Babel hafi verið skelfilegur í kvöld, jú ég var líklega jafn pirraður og þú þegar hann skoraði ekki, eins og ég minntist á hér að ofan með að liðið væri ekki að klára leikina þegar tækifæri gefast til. En Babel virkaði mjög líflegur og ógnandi, þ.e. hann virkaði þannig á mann að maður trúir því að hann eigi helling inni, fyrir utan að hann fíflaði kallgreyið gjörsamlega þegar hann náði í vítið. Mér finnst fáránlegt að týna allt til sem Kuyt gerir í hverjum leik til að réttlæta hæfileikaskort hans í sóknarleik en “úthúða” svo Babel eftir eins leik og hann átti í kvöld. Svo má líka ekki gleyma að þetta var nú bara ansi vel gert hjá markvörðunum, bæði í kvöld og United leiknum 😉

    Hvað Lucas varðar þá er ég einn af þeim sem hef haft tröllatrú á honum og hef enn. Þetta er mikið efni og sú virðing sem hann virðist njóta í Braselíu ætti að gefa okkur smá hint um það. Hann átti nokkra ágæta leiki í fyrra, enga brilliant samt sem er eðlilegt og virkaði ekki alveg með á nótunum í kvöld, ekki frekar en lúnir samherjar hans. Lucas á nóg inni og alls ekki rétt að afskrifa hann strax, jafnvel þó hann hafi ekki átt neitt sérstakan leik í kvöld eða vegna þess að Gummmi Ben sagði að hann virtist ekki líka það að verjast, þetta var nú líka í leik sem engu að síður vannst á erfiðum útivelli með hann á miðjunni í 90. mín.

    Svo er einn punktur ennþá sem einhver minntist á, varðandi dómarann þá vil ég þó gefa honum það eftir leikinn að hann féll ekki mikið fyrir leikaraskap og væli frakkana, það kom eina ferðina enn í ljós í kvöld að frönskumælandi menn eru ekkert þeir hraustustu og þurfti ekki mikið til að fá þá til að bíta gras.

  24. Ég endurtek orð sem einhver sagði að ofan: “Job well done”! Nenni ekki að tittlingaskítast út sendinguna sem kom ekki frá Benayoun (sem hann hefði átt að senda) né þau færi sem Babel klúðraði. Það er ekkert lið í heiminum sem skorar úr öllum sínum færum þannig að ég er bara sáttur.
    Ég er ánægðastur með fyrri hálfleikinn þar sem mér fannst við vera á köflum að spila fínan bolta en svo varð seinni hálfleikurinn meira að reyna að halda forystunni. Benitez kann evrópuboltann út í gegn og var þetta enn einn taktískur sigur í evrópu hjá honum.

  25. Alls ekki sammála því að Babel hafi verið skelfilegur í leiknum. Hann er alltaf hættulegur og fiskaði vítið sem skildi liðin af. Hann er duglegur að koma sér í færi og skapa færi fyrir samherja. Það sem vantar hjá honum er skynsemi þegar hann kemst í færi. Það þarf ekki alltaf að skjóta fast. Ef hann hefði skorað í kvöld held ég menn væru að tala um að hann hefði átt mjög góðan leik.

  26. babel var að mínu mati mjög góður í leiknum og ég er ekki sammála gagnrýni í hans garð í kommentum hér að ofan. hann var mjög mikilvægur í leiknum og fiskaði náttúrlega vítið. hann var mjög sterkur í návígum og tapaði boltanum sjaldan auk þess sem hann vann varnarvinnuna vel. t.d. þá hjálpaði hann vel til þegar hann tæklaði boltann í horn, ekki oft sem maður sér kantmann í 4-2-3-1 kerfi gera það.
    hann var að valda usla með hlaupum inn á miðjuna og upp kantinn og því voru varnarmenn aldrei að lesa hlaupin hans.
    mjög góð framistaða hjá babel og gott að sjá hann svona sterkann. þó hann hafi misnotað 2 góð færi þá hefur maður séð aðra leikmenn í liðinu gera það án þess að heyrist múkk í nokkrum spjallaranum hér.

  27. Það er alveg dæmalaust hvað þér tekst alltaf að finna eitthvað neikvætt við mín skrif Einar Örn. Er oft hættulega jákvæður ; ) Er ekki að rakka Benyoun niður fyrirað koma inn á. Segi bara mína skoðun á honum sem leikmanni. Fannst Babel mjög frískur eins og reyndar kom fram en það er víst ekki nógu jákvætt, Hlýt að mega hafa skoðanir á leikmönnum Liverpool. Sigurin var mjög góður en gerðum þetta full erfitt.

  28. Þetta er búið að vera nokkuð undarleg byrjun á þessu tímabil. Liðið hefur að mínu mati virkað þungt og nokkuð frá því sem ég þykist vita að þeir geta sýnt. Mér fannst ég fyrst sjá liðið hrökkva í gang í man utd. leiknum eftir að þeir lentu undir.

    Gerrard er búin að spila á annari löppinni vegna verkja í nára, fara í eitt stykki uppskurð og mætir síðan nanast beint af skurðstofunni í leik gegn Man Utd. og setur síðan tvennu á útivelli í meistaradeildinni. Þessi drengur er náttúrulega ekki hægt.

    Torres, ein helsta vonarstjarna liðsins og sá leikmaður sem helst gaf manni ástæður til bjartsýni fyrir þetta tímabil hefur ekki verið svipur hjá sjón að mínu mati og á mjög, mjög mikið inni. Hugsanlega spilar EM í sumar eitthvað inn í ástandið á honum. Þegar Torres dettur í form þá munum við klárlega sjá mikla bætingu á frammistöðu liðsins.

    Robbie Keane hefur ekki enn náð að skora og eins og gjarnan vill verða eykst pressan á mönnum eftir því sem lengra líður á markaþurðina. Mér hefur fundist hann hægt og rólega vera að falla betur inn í liðið en stór þáttur í hans hlutverki er að skora mörk og þau fara vonandi að detta hjá honum.

    En hver er svo árangurinn eftir þessa þungu og skrítnu byrjun á tímabilinu ? Jú, efsta sætið í deildinni (ásamt Chelsea) og 3 stig eftir einn leik á útivelli í meistaradeildinni).

    En höldum samt áfram að drulla yfir Dirk Kuyt og Yossi Benayoun 😉

  29. Alveg ótrúlegt hvernig sumir nenna að væla endalaust ….

    Við vorum að spila á virkilega erfiðum útivelli eftir mjög erfiðan deildarleik heimafyrir og unnum 1-2 sigur. Hefðum klárlega átt að vera 2-3 mörkum yfir áður en þeirr settu okkur undir pressu síðustu 10 mínúturnar eða svo, og menn horfa alveg framhjá því að við erum að koma til baka leik eftir leik eftir að hafa lennt undir og snúið því við.

    Þó svo að við getum vissulega spilað betur, þá verður samt að horfa á leik sem 90 min, ekki bara síðustu 10 min. Við vorum mun betri í heildina litið en náðum bara ekki að nýta færin …. vörnin og Reina hélt svo í lokin og 3 mjög mikilvæg stig í höfn. Nú er bara að klára leikina á Anfield og við erum komnir með þessi margumtöluðu 11+ stig sem þarf.

  30. Frábær útisigur sem kemur í kjölfarið á góðum sigri gegn Man U. Þetta Marseille lið er fínasta lið og mun klárlega taka fullt af stigum í þessum riðli. Gerrard er greinilega allt annar maður eftir uppskurðinn og þegar hann og Torres erum orðnir 100% þá lítur þetta vel út. Hef smávegis áhyggjur af Keane en hann virðist alls ekki vera að finna sig hjá LFC en reyndar er það staðreynd að hann er ávallt töluvert lengi að aðlagast þeim liðum sem hann hefur farið í.

    Atletico Madrid virkar öflugt lið en reynsluleysi þeirra mun verða þeim að falli í CL í vetur.

  31. Sæl öllsömul!!
    Ég horfði á leikinn á netinu á sjónvarpstöð itv. Í hálfleik var verið að analísera fyrri hálfleikinn og þar var mark Marseille manna tekið fyrir og þá sérstaklega þáttur Reina í því.
    Þar kom klárlega fram að ekki hafi verið neitt við frammistöðu hans að athuga, því ef hann hefði farið að rjúka út á móti leikmanninum með boltann og reynt að verja þannig, þá hefði verið mikil hætta á að hann gefði brotið af sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ákvörðun Reina að bíða og sjá framvindunina var rétt en Cana gerði frábærlega þegar hann skoraði og Reina gat í raun ekkert gert við því.
    Að velja ekki Reina mann leiksins vegna þessa atviks finnst mér ekki alveg sanngjarnt, en er þó ekki að gagnrýna val Gerrards, hann var frábær og á nafnbótina skilið.
    Kv
    Ninni

  32. Ninni nr. 33
    Ég held að stórleikur Gerrards hafi einn ráðið úrslitum um val á manni leiksins. Eins hvað varðar mark Marseille þá kemur stundum að því að við verðum bara að láta það eiga sig að finna sökudólg og hreinlega hrósa andstæðingunum fyrir frábært mark. Þessi sending er ótrúlega góð innfyrir miðað við að hann leik aldrei upp til að sjá hlaupið.
    Gerets er greinilega mjög klókur þjálfari og virtist hafa kortlagt vel veikleika í varnarleik Liverpool, það er ekkert svo algengt og guði sé lof að Niang er betri í að röfla yfir dómaranum heldur en slútta færum.

  33. Þetta var mjög góður sigur gegn góðu liði Marseille. Ég tek undir það að Marseille eru mun betri í ár heldur en í fyrra. Þeir eru komnir með mjög öflugan markmann, miðju og eiturfljóta sentera – sem eru að vísu engir frábærir slúttarar. Bendi t.d. á það að Valbuena var á bekknum – hann var einn besti maðurinn þeirra í fyrra.

    Liverpool spilaði ansi vel í fyrri hálfleik. Leikurinn kom mér á óvart því hann var galopinn og mikill sóknarleikur. Benítez hefur eflaust ekki verið ánægður með það enda var vörnin alltof flöt og þeir voru nokkrum sinnum næstum komnir í gegn áður en þeir skoruðu. Reina hefði átt að mæta senternum miklu fyrr og reyna:) að loka utar í teignum. Það er samt ekki hægt að ætlast til þess að markmenn verji þegar leikmenn komast einir í gegn. Ég kenni Carragher miklu frekar um þetta mark – hann hefði átt að vera dýpri fyrst hann átti ekki roð í hraðann á senterum andstæðinganna.

    Seinni hálfleikurinn var eftir uppskrift Benítez. Hann vill loka leikjum og hann trúir því – sem oftast hefur komið á daginn, að þegar liðið hans kemst yfir þá lætur það forystuna varla af hendi. Það gerðist heldur ekki í gær þótt nokkrum sinnum hafi mátt litlu muna. Ekki það að maður sé eitthvað ánægður með þá stefnu…

    Babel spilaði mjög vel þrátt fyrir að hafa ekki klárað tvö færi. Bæði færin voru nokkuð erfið. Fyrsta snertingin hjá honum í fyrra færinu var 100% og skapaði færið – þannig að hann kom sér sjálfur í það. Færið var nokkuð langt og hann var óheppinn með skotið. Seinna færið gerðist mjög hratt og hann var líka óheppinn að markmaðurinn var mjög fljótur út og lokaði vel. Ekki gleyma því að Babel fíflaði lélegasta leikmann Marseille í vítinu og þannig kláraðist leikurinn.

    Mér fannst Lucas ekki spila vel og hefði viljað sjá Alonso inná í kringum sextugustu mínútu. Það hefur ekkert með væntingar til hans að gera eða hvernig hann hefur staðið sig, eins og kemur fram hérna að ofan þá var hann ekkert að spila vel og heldur ekki Mascherano. Þeir brutu klaufalega af sér (og Skrtel líka) og þannig skapaðist óþarfa hætta í föstum leikatriðum.

    En, góður sigur gegn góðu liði á erfiðum útivelli. Kom engum öðrum en mér á óvart hvað var fátt á vellinum??
    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  34. 3 mikilvæg stig.

    Var ánægður með baráttuna. En við vorum heppnir undir restina að halda 3 stigunum.

    Gerrard, Reina, Babel, Kyut og Carra fá prik fyrir góða framistöðu.

  35. Nú er bara að setja nokkur á Stoke um næstu helgi og fá sem flesta á blað. Td. Keane og Torres. Þetta er besta byrjun eftir hryðjuverk og allt að gerast.

  36. Ég verð nú bara að gefa Reina MOM í þessum leik, honum að þakka að þessi leikur tapaðist ekki á síðustu mínútunum með slöppum varnarleik. Einnig var Gerrard frábær og fyrra markið hans augnayndi, leit ekki út fyrir að vera erfitt en að snúa baki í markið og hlaupandi frá því þá er mjög erfitt að ná svona skoti.

    Skil ekki þetta skítkast á Youssi og Robert. Sometimes thing just don´t work out. Ef það á að hrauna yfir einhvern á að hrauna yfir Babel sem hafði meiri áhuga að reyna að afhausa markmanninn frekar en að læða boltanum á öruggan hátt inn í markið.

    Held samt að Atletico eigi eftir að vera hrikalega sterkir í þessum riðli.

  37. Mér fannst Reina eiga að vera framar í teignum í fyrsta markinu, af því að vörnin var hátt. Enda klikkaði þetta ekki aftur og hann var nokkrum sinnum út úr teignum sínum eftir það. En auðvitað kláraði Cana færið vel.
    Svo varðandi ummæli #35 um að Rafa loki leikjum, þá er ég sammála að það sé háttur Benitez. Hins vegar ætla ég ekki að taka þátt í því að gagnrýna það í Evrópu, því árangur hans þar er óumdeildur, algerlega. Í gær var alveg ljóst fyrirfram að Torres og Gerrard yrðu ekki látnir klára leikinn. Háttur þjálfarans í slíkum málum er að hann er búinn að teikna upp skiptingarnar fyrirfram og það var pottþétt eins í gær. Ef Babel hefði skorað úr deddaranum hefði planið virkað vel því Riera og Benayoun komu að því færi. Mér fannst reyndar síðasta skiptingin koma seint, því mér fannst bæði Kuyt og Babel búnir á 80.mínútunni. Þess vegna er ég ósammála því að Lucas hefði átt að fara útaf, þó hann hafi ekki átt dúndurleik. Skiptingarnar voru að mínu mati réttar, en sú síðasta of seint fyrir minn smekk.
    Ég tek svo undir það að ég skil ekki neikvæðni manna hér sem röfla um Keane og Benayoun, og í raun Lucas líka. Allir þessir leikmenn eru að skila þeim hlutverkum sem er ætlast til af þeim, t.d. fannst mér ein ástæða þess að við duttum aftarlega vera sú að Babel og Torres voru slakir í pressunni framarlega á vellinum, þar söknuðum við K og B mikið. Lucas verður toppleikmaður, það er ekki nokkur vafi. Hann er ennþá ungur og er klaufi að brjóta og stundum of ákafur í varnarvinnunni sinni, en hann er kúl á boltanum og er stöðugt að bæta sendingargetuna. Það er nefnilega þannig að til að ná árangri er ekki nóg að vera með 5 stjörnur eða 11 klassagóða leikmenn. Minnst tvo góða menn þarf í hverja stöðu og þessir þrír finnst mér algerlega fylla þann mæli. Það er lykillinn að árangrinum í vetur og í framtíðinni og það að missa sig af pirringi út af einni “ekkisendingu” og drulla menn út vegna þess er kjánalegt, sér í lagi þegar t.d. Torres vinur okkar átti ca. 15 misheppnaðar sendingar og tapaði boltanum u.þ.b. 10 sinnum án þess að við gerum við það athugasemdir…..

  38. Babu #34
    Það sem ég er að tala um í kommenti mínu #33 er þessi setning í leikskýrslunni:

    Það voru þó bara tveir menn sem komu til greina sem menn leiksins í þessum flotta “vinnusigri” í Suður Frakklandi. Fyrstan tel ég Reina, sem átti frábæran leik. Greip vel inní, var þvílíkt rólegur og hélt okkur á floti í lokin. Ég setti þó spurningamerki við frammistöðu hans í marki Marseille og því fær Steven Gerrard captain fantastic, mitt atkvæði.

    S.s. Gerrard fær atkvæðið fram yfir Reina vegna “mistaka Reina í markinu”

    Ég vil endurtaka að ég er alls ekki óánægður með val Gerrards á manni leiksins, var aðeins að benda á að ég persónulega er sammála þeim sem analíseraði leikinn í hálfleik á itv stöðinni.

    Þetta er aftur á móti skoðun skýrsluhöfundar og er það bara gott mál.

    Annars finnst mér heilt yfir að leikmenn Liverpool hafi staðið sig mjög vil, enda unnu þeir leikinn, við getum ekki frarið fram á meira.

    kv.
    Ninni

  39. Vitanlega var jákvætt að vinna þennan leik, Marseille liðið spilaði á köflim fantagóðan bolta og eru áreiðanlega svekktir yfir því að fá ekkert útúr þessum leik – þeir hefðu reyndar átt það skilið.
    Einhverjir hafa verið að lofa eða lasta Lucas Leiva fyrir frammistöðu hans í leiknum, enda var hann án efa slakasti maður liðsins. Reyndar er hann lang oftast í bottom three þegar maður gerir upp leiki, ég hef aldrei skilið hvað menn sjá við hann.
    Riera átti fína innkomu og vonast maður til að þarna sé kominn maður sem getur leyst þessa vandræðastöðu á kantinum í einhvern tíma. Babel var hress og skemmtilega gráðugur, alvöru markaskorarar eru flestir svolítið eigingjarnir og engin ástæða til að kverta yfir því. Hann vanta þó yfirvegun eins og einhver benti á. Keane gerði engar rósir þennan tíma sem hann var inná, enda hafði hann ekki mikinn tíma. Ég er þó þeirrar skoðunar og kaupin á honum hafi verið mistök á vissu leyti, 18 kúlur eru of mikið fyrir sóknarmann á hans aldri sem ekki hefur átt mörg mjög góð tímabil. Hann er bara einfaldlega af því kaliberi sem réttlætir þennan verðmiða, 7 – 9 kúlur hefði verið eðlilegt verð.
    Yossi lét lítið á sér bera eftir að hann kom inná, liðið var líka í varnarham og ísraelinn er ekki sterkur á því sviði en hann er þó klókur leikmaður sem gott er að eiga í bakhöndinni.
    Kuyt var að venju duglegur, en átti ekki sérstaklega góðan leik – stoðsendingin hans var t.a.m. ekki góð. Flestir aðrir en Gerrard hefðu átt í erfiðleikum með að gera e-ð úr henni.
    Torres átti fínan dag, átti góð hlaup og var oft líklegur til að sprengja vörnina.
    Það þarf nú vart að minnast á Gerrard, sýndi og sannaði enn einu sinni hversu frábær hann er.
    Carragher átti ágætan leik heilt yfir, en það er ljóst að hann er ekki eins klókur leikmaður og t.d. Hyypia eða Agger (að því er virðist), hann bætir það hinsvegar rífleg upp með því að berjast ávallt eins og ljón.
    Skrtel var traustur eins og vanalega, þrátt fyrir óþarft gult spjald.
    Reina stóð sig frábærlega, þrátt fyrir markið, og bjargaði sigrinum hvað eftir annað.
    Aðrir leikmenn stóðu sig heilt yfir þokkalega, engin stjörnuframmistaða en dugði til.

  40. Ehe… Keane er bara einfaldlega EKKI af því kaliberi sem réttlætir þennan verðmiða, 7 – 9 kúlur hefði verið eðlilegt verð.

  41. Sælir félagar
    Fyrir það fyrsta þá var þessi leikur mjög erfiður gegn mjög góðu, snöggu og teknisku liði Frakkanna.
    Í annan stað þá megum við vera andskoti góðir með okkur að hafa unnið þennan leik. Við áttum það alveg skilið að vinna en leikurinn gat samt hæglega tapast.
    Í þriðja lagi er ekki ástæða til að rakka einstaka menn niður þó frammistaða manna hafi verið ærið misjöfn (þakkið bara fyrir að Fabio Aure…) nei annars ég ætla ekki að fara út í þetta dæmi.
    Ég er feikilega ánægður með niðurstöðu þessa leiks og nenni ekki öðru en vera bara kátur, jafnvel með hann Kát sem… 🙂 nei ókei. Bara drullufín úrslit. 🙂
    Það er nú þannig

    YNWA

  42. Ætli það verði minnst eitthvað á róteringar Ferguson í leiknum í kvöld ?? 6 breytingar frá leiknum við okkur á laugardag, eitthvað yrði nú sagt ef að við myndum gera það sama.

  43. Ætli hann sé ekki að fylgja eftir þessu kommenti hér sem hann hafði um leikmenn sína eftir leikin á laugardag: “We can take nothing positive from this. We didn’t have one performer on the pitch apart from possibly Rio Ferdinand. It was disappointing.”

    Ég skil hann ef svo er. En hitt skil ég ekki, þegar róterað er eftir að menn hafa spilað vel saman.

Liðið gegn Marseille

Snýr Heskey aftur? Getur það verið?