Liverpool 3 – Middlesbrough 2

Maður var hálf máttlaus eftir að hafa horft á Arsenal gera jafntefli gegn Birmingham. Þvílíkur dagur fyrir Arsenal, leikurinn byrjaði einmitt á því að Eduardo fótbrotnaði og er þetta með því ósmekklegra sem maður hefur séð gerast á vellinum í langan tíma. vonum að Eduardo nái sér sem fyrst.

En þá á Anfield. Einungis ein breyting á liði Liverpool frá því í leiknum gegn Inter, Carragher tók út leikbann og Arbeloa kom í stað hans í miðvörðinn.

Liðið leit því svona út:

Reina

Finnan – Arbeloa – Hyypia – Aurelio

Kuyt – Mascherano – Lucas – Babel
Gerrard
Torres

Bekkur: Martin – Skrtel – Riise – Benayoun – Crouch.

Skiptingar: Benayoun fyrir Babel 62. mín. – Riise fyrir Kuyt 73. mín. – Crouch fyrir Torres 90. mín.

Leikurinn byrjaði hálfundarlega. Liverpool náði 2 ágætisupphlaupum og reyndar gestirnir líka, þeir mættu grimmir til leiks. Á 9. mínútu þá var dæmd hendi á Babel rétt fyrir utan vítateigshorn Liverpool. Downing tók spyrnuna og Sanli Tuncay átti ekki í miklum vandræðum með að skalla boltann í netið eftir hræðilega völdun heimamanna. Liverpool voru slegnir út af laginu og áttu í miklum vandræðum með að byggja upp almenninlegt spil og almenninlegar sóknir. Gestirnir settu 10 menn fyrir aftan boltann og ætluðu greinilega að halda þessu marki. Liverpool reyndu og reyndu og ekkert virtist ætla að láta undan þangað til það kom að þætti Fernando Torres. Hann byrjaði á því að skora á 28. mínútu eftir of lausan skalla til baka frá Arca og Torres kláraði svo færið vel þrátt fyrir að brotið hefði verið á honum. 1. mínútu síðar voru Liverpool að spila boltanum vel á milli sín fyrir utan teig gestanna þegar að Torres fékk boltann og þrumaði honum neðst í markhornið, stórkostlegt mark hjá Spánverjanum. (mynd tekin af vef BBC).

Örstuttu síðar skoraði Sanli Tuncay aftur, en því miður fyrir hann og Boro gerði hann það með höndinni, kjánalegt hjá honum og fékk hann réttilega spjald fyrir vikið, vel gert hjá dómaratríóinu þarna. Enn og aftur skoruðu Boro, að þessu sinni Aliadiere en rangstaða réttilega dæmd og markið stóð því ekki. Fjörugur fyrri hálfleikur fjaraði svo út. 5 mörk litu dagsins ljós í fyrr hálfleik, en 3 voru lögleg og staðan 2-1.

Sá síðari var mjög rólegur framan af og fátt markvert gerðist fyrr en að Mark Schwarzer ákvað að færa Torres þrennuna á silfurfati. Shwarzer kom í mjög svo furðulega skógarferð út úr teignum, missti af boltanum og Torres fullkomnaði þrennuna auðveldlega. Liverpool voru líklegri til að bæta við heldur en Boro að minnka muninn og það er það jákvæðasta við leikinn í dag að mínu mati. Þegar um korter var eftir fengu Boro ódýrustu aukaspyrnu sem undirritaður hefur séð en þeim tókst svo sem ekki að gera sér mikinn mat úr henni. En þeim tókst að klóra í bakkann á 83. mínútu þegar að Stuart Downing fékk sendingu inn fyrir vörn Liverpool og kláraði færið sitt vel. Til að ljúka stórskemmtilegum leik þá tóku Mascherano og Aliadiere lítið boxatriði úr Rocky III sem endaði með því að sá síðarnefndi fékk að líta rauða spjaldið. En leiknum lauk með sigri heimamanna 3-2.

Maður leiksins: Að mínu mati þá var vörnin hjá Liverpool langt frá því að vera sannfærandi í dag. 2 mörk gegn Middlesbrough er allt of mikið og það á heimavelli. Óöryggið var talsvert á köflum enda ekki furða þegar það vantar jafn sterkan mann og Carra til að stjórna. Vörnin átti aðeins verri dag en vanalega en þó ekkert afleitan svo sem. Mascherano vann gott starf inn á miðjunni og ég missti töluna á boltunum sem hann vann, en sendingar hans hefðu mátt vera betri. Gerrard átti engan sérstakan dag, kom bara með solid frammistöðu sem dugði. Lucas olli mér vonbrigðum í dag, virtist ekki vera í takt við leikinn þegar Boro voru með boltann, en þegar Liverpool voru með boltann var hann fínn. Kuyt vann vel en það kemur ekkert alltof mikið úr honum þegar hann er með boltann, en heilt yfir var hann ágætur. En maðurinn sem kláraði leikinn í dag og setti þrennu er maður leiksins. Fernando Torres þefaði færin upp í dag en sást svo ekki þess á milli, hann kláraði það sem þurfti að klára og gerði það vel. Ef þið eruð í vandræðum með að skilja hvað match winner er, þá er Fernando Torres fín þýðing á því fyrirbæri. Ef við hefðum ekki haft hann í dag hefðum við annaðhvort tapað eða gert jafntefli. Hann er leikmaðurinn sem virðist klára ÞESSA leiki, þessa leiki sem við höldum boltanum meira en andstæðingarnir sem liggja aftarlega. En það þarf að klára færin og loksins loksins er kominn maður sem kann það, ómetanlegur.

Næsti leikur er gegn Bolton sunnudaginn 2. mars, á Rebook Stadium. Klára það verkefni, það hlýtur að vera efst í kollinum á Rafa og lærisveinum hans næstu daga.

En mér er sama hvort liðið mitt hafi ekki spilað besta fótbolta í heimi í dag, þeir fengu 3 stig og það er það sem skiptir máli.

Takk fyri kaffið.

39 Comments

  1. Jákvætt: Það er gott að leikurinn vannst, liðið er aftur komið á beinu brautina í deildinni og það er ekki víst að Everton nái að komast upp fyrir okkur aftur í þessari umferð, en þeir eiga útileik við Man City á mánudag. Eins er það hverjum manni ljóst að Fernando Torres er besti framherji deildarinnar í vetur; aðeins Adebayor og Ronaldo hafa skorað meira í vetur en þeir hafa ekki misst úr rúman mánuð í haust og þrjár vikur í janúar/febrúar eins og Torres.

    Neikvætt: Spilamennska liðsins í dag var þannig að ef Fernando Torres væri ekki í Liverpool-liðinu hefði þessi leikur tapast. Einfalt mál.

    Andfótboltaverðlaun dagsins fær svo Wheater hjá Boro fyrir að fella Reina í vítateig Liverpool til að hindra að Liverpool næði skyndisókn. Ef menn eyddu nú minni tíma í að agnúast út í stórlið sem lenda í lægðum og fjölluðu meira um andknattspyrnu eins og þá sem við höfum séð hjá Birmingham, Middlesbrough og fleiri liðum í dag … 🙄

    En allavega, fínn sigur miðað við spilamennsku. Onwards and upwards.

  2. Góður sigur en spilamennskan ekki góð og of margir leikmenn slakir. Torres er einfaldlega frábær og skiptir gríðarlegu máli fyrir liðið. Lucas finnst mér vera mikið spurningamerki. Hann ræður ekki enn við hraðann í deildinni og virtist alltaf vera á síðustu metrunum. Svo finnst mér hann alveg vanta hraða. Kannski er Benitez að keyra hann áfram meðan Alonso er ekki að ná sér á strik en mér fannst vanta mann eins og Alonso á miðjuna til að halda boltanum. Þetta gekk þó allt upp að lokum og það skiptir öllu máli:-)

  3. Skrítinn leikur og Torres klárlega að þakka að 3 stig fengust. Þvílíkur leikmaður! Það var hálfgerð værð yfir lykilmönnum og, þrátt fyrir fimm mörk, ekki eftirminnileg frammistaða hjá liðinu.

    Ég er að reyna að átta mig á Lucs Leiva sem leikmanni. Auðvitað er hann ungur og á framtíðina fyrir sér. Hann sinnir varnarskyldum sínum með ágætum en sóknarlega er ég ekki mjög hrifinn af honum og ég bjóst við meira af honum sóknarlega. Hann var í dag, eins og Kuyt er alltaf, með “norska” móttöku á boltann og missti hann klaufalega frá sér nokkrum sinnum og sóknir runnu út í sandinn. En hann fær að njóta vafans næstu mánuði, er enn kornungur.

  4. en tóku menn eftir því hvað sóknaleikurinn dó þegar Riise kom inná?! ég fatta ekki þessa fyrirsætu!

  5. Nauðsynlegur sigur. En mikið asskoti áttu Boro mikið í þesssu leik. Mér varð á orði þegar staðan var 2-1 að það myndi ekki duga til sigurs. Torres er náttúrulega þyngdar sinnar virði í gulli í bókstaflegri merkingu. Mér er illa við að kvarta mikið þar sem leikurinn vannst en ég ætla samt að segja að Babel var skelfilegur í dag…. strákkvölin. Mér finnst hann ekki vera að finna sig á vinstri kantinum. Hangir óþarflega á boltanum stundum og virkar á köflum utan við sig.

    Nú er bara að vona að Everton og City geri jafntefli… 🙂

    YNWA

  6. Til Hamingju með sigurinn ALLIR 😀

    Flottur leikur og ég er sammála, þegar Riise kom inná þá datt allt niður!!!!
    Áttum klárlega að geta skorað meira…
    Er þakklátur 3 stigum og við höldum 4 sætinu, jafn vel 3ja

    AVANTI LIVERPOOL – RAFA – http://WWW.KOP.IS

  7. Sælir félagar
    Frábær leikskýrsla og engu við hana að bæta í raun. Þó verð ég að taka undir með þeim sem segja að leikurinn hafi meira og minna dáið þegar Riise kom inná. Það er ekki spurning að í dag var hann lakari en Aurelio 😉 og erú nú áhöld um hvor er slappari. Babel þarf að læra að þræða kantinn með bakverðinum hver sem hann er en ég er ekki sammála því að hann hafi verið skelfilega lélegur (7#). En hann hefur samt átt betri dag en í dag.
    En hvað um það grábær sigur í miklum baráttuleik og Boro börðust eins og ljón og áttu góða spretti en skelfilega grófir og ruddalegir á vellinum.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  8. Góður sigur en vonbrigði, enn og aftur fannst mér mínir menn alls ekki sannfærandi í deildinni. Fannst mér við nú bara meiga þakka öftustu línu og markverði Middlesb. Án þeirra hefði þessi leikur ekki farið vel. Þetta átti að vera skildusigur fyrir okkur, en varð í raun heppnissigur. Fannst mér aðeins 2 menn standa fram úr í dag, þeir Torres og Mascherano. Hinir eiga allir að gera betur. Veikasti maður okkar í dag var Reyna, 2 skot á mark og 2 mörk, fannst mér að hann hefði átt að taka báða boltanna(Riise er ekki tekinn með).
    En aftur á móti erum við byrjaðir að vinna aftur og það er jákvætt, en við eigum að gera betur.

  9. Vel þegin þrjú stig í hús, Torres……úff maður hvað hann er góður !

  10. Fínn sigur í dag en óþarflega tæpur. Fernando Torres er náttúrulega þyngdar sinnar virði í gulli (og vel rúmlega það) og eins og Kristján Atli bendir réttilega á hefðum við aldrei unnið þennan leik án hans. En við hefðum heldur aldrei átt á hættu að tapa honum ef við hefðum haft alla miðverðina okkar til taks. Vörnin var helsti veikleikinn í dag en það er nú varla mikið að undra þar sem við spiluðum með ellismellinn hyypia og bakvörðinn Arbeloa sem miðverði. Hyypia hefur verið frábær fyrir Liverpool í gegnum tíðina og á allt það hrós sem hann fær skilið en hann er orðinn gamall og á ekki að spila mikið meira en 15 leiki á leiktíð frá og með í fyrra, ég er 99% viss um að hann fái hvíld gegn bolton enda sést það vel á honum að hann er orðinn þreyttur. Arbeloa sýndi það svo aftur að þó að hann geti í sjálfu sér spilað miðvörð er hann miklu miklu betri sem bakvörður, ég hef það bara einhvern veginn á tilfinningunni að með CarrAgger í miðvörðunum hefðum við haldið hreinu í dag.

    Hvað Lucas og Babel varðar get ég alls ekki verið ósáttur með að þeir skuli hafa spilað í dag. Jú vissulega áttu þeir ekki sinn besta leik en hversu oft höfum við ekki kvartað yfir því að benitez gefi ekki ungum mönnum tækifæri, eigum við núna líka að kvarta yfir því að þeir spili illa þegar þeir fá loksins þennan langþráða séns? Ég sé heilmiklið efni í þeim báðum og á meðan að litlu er að keppa í deildinni eiga þessir menn að fá að spila sem mest, a.m.k. á heimavelli. Ég yrði t.d. ekkert hissa þótt babel yrði stórkostlegur vængframherji eftir 1-2 tímabil, svona svipað og ronaldo er í dag (man einhver hversu dapur ronaldo var fyrstu 2 tímabilin sín?), en til þess að það gerist þarf hann að fá að spila og á meðan hann fær 60+ mínútur í leik er ég ánægður, sérstaklega á meðan hann gerir engar alvarlegar gloríur og að ég tali nú ekki um á meðan samkeppnin er Riise og Kewell í því formi sem þeir eru í núna (á meðan ég man, hvar er leto?)

    Í heildina litið spilaði Liverpool ágætlega í dag og eins og áður sagði hefði þetta sennilega verið tiltölulega þægilegur leikur ef 3 af 4 miðvörðum hefðu ekki verið fjarri góðu gamni. Um mann leiksins þarf víst lítið að fjölyrða og mikið svakalega er ég feginn að Fernando Torres skuli vera liverpool leikmaður. 21 mark komið frá honum í vetur og vei þeim sem spáir gegn því að hann rjúfi 30 marka múrinn á fyrsta tímabilinu sínu í liverpool borg. Liðið virðist vera að fá trúna á sigri aftur og ef við höldum áfram þessarri ágætu sigurgöngu gegn bolton um næstu helgi sé ég ekki fram á annað en að þetta 4. sæti ætti að nást án mikill vandræða í vor.

  11. Ekki get ég hugsað þá hugsun til enda hvar liðið væri statt ef Torres væri ekki til staðar. Hann er algjörlega ómetanlegur. ANnars var frammistaða liðsins ekki uppá marga fiska enda vörnin ansi vængbrotin. Samt sterkt að klára þetta.

  12. Torres er bara æðislegur – eins og vinir okkar í stúdíóinu sögðu um daginn – einn af topp þremur strikerum í heiminum í dag.

    Nauðsynlegur sigur … mórallinn er á uppleið og nú er það bara næsti leikur. Sigur sigur sigur!

    Góður Olli 🙂 “Takk fyrir kaffið” …

    áfram Liverpool!

  13. Lifi Torres. Alveg hreint magnaður leikmaður.

    Annars ekki frábær leikur en maður fékk það sem maður vildi og er það vel.

    Verð að taka undir með þeim sem hafa lýst yfir hryllingi vegna brotsins á Eduardo. Þetta var alveg svakalegt og segir helst mest um þá sem aðhyllast þessa tegund stórkarlafótbolta. T.d. voru bresku þulirnir ekki að þora að fordæma þetta, sögðu að þetta hefði ekki litið svona illa út eins og reyndist vera osfrv.

    Maður hlýtur að vorkenna Taylor líka því þetta verður örugglega það sem stendur upp úr þegar hans ferill verður gerður upp. Maður sér allt of margar svona tæklingar reyndar í boltanum og hann var óheppinn í dag og greinilega brugðið.

    Það er í lögunum að sólatæklingar, tveggja fóta tæklingar osfrv. eru bannaðar, og meira að segja tilraunir þar til. Samt sleppa dómarar oft og iðulega rauðu á mjög tæp brot útaf því að það má ekki “eyðileggja leikinn með rauðum spjöldum”. Löppin á Eduardo er eyðilögð eftir þetta og þá spyr maður bara hvað verður gert í þessu?

  14. Liverpool vann og mér er slétt sama hvernig þeir spiluðu. Þeir mega spila eins og 5.flokkur Wimbledon það sem eftir er ef þeir vinna rest og ná 4 sætinu eða jafnvel því þriðja.
    Geyma síðan snilldarspilamennskuna fyrir Champions League.

    Já það er spurning hvað á að gera í svona hrikalegum brotum eins og á Eduardo. Mér finnst hálf skrítið að það sé sama refsing fyrir káfið hans Materazzi á Torres og svona hugsunarlausum 2 fóta tæklingum.
    Spurning hvort það ættu ekki 2 leikmenn að fara útaf í staðinn fyrir 1 svo menn myndu hugsa sig tvisvar um áður en þeir færu í svona tæklingar?

  15. Sælt veri fólkið

    Frábær sigur í dag og manni sýnist á öllu að leiðinn sé bara upp fyrir LFC.

    En ég get ekki orða minna bundist yfir Tæklingunni á Da Silva í dag. Eins og það sýnist fyrir mér verður að taka tæklingar eins og þessar út úr fótboltanum. Þessi tækling á nefnilega ekkert skyld við fótbolta. Ekki veit ég hvað við fótboltaáhugamenn getum gert til að stöðva þetta. En það hlýtur að vera eitthvað. Þarna er búið að stofna framtíð og ferli mjög hæfileikaríks ungs manns í mikla hættu.
    Þetta kemur því ekkert við hvaða liði maður styður!
    Refsingin hans Taylor á að vera mjög þung, helst af öllu vildi ég sjá lögreglurannsókn og þar á eftir dóm og skaðabrotakröfu.

    Hvernig ætli menn hér myndu tala ef þetta hefði verið Torres eða Babel eða etc….

    Áfram Rauðir!!!

  16. Afsakið.Vð drulluðumst til að vinna. En hvað ef Torres heði ekki verið með,,,,,,,,,,,,,,,,,,ups halló halló…… Svenni#12 Rosa langloka hjá þér . OK BLESSAÐIR

  17. Mer er nu alveg hvernig lidid spilar bara medan thad vinnur thessa leiki.

  18. “Torres er náttúrulega þyngdar sinnar virði í gulli í bókstaflegri merkingu.”

    Maður heyrir oft einhverju svona fleygt fram og það hljómar vissulega sem mjög mikið hrós, en ég held reyndar að hann sé miklu meira virði en það. Samkvæmt http://www.footballdatabase.com/index.php?page=player&Id=555&b=true er Torres 70 kg og samkvæmt http://www.goldprice.org er meðalverð á únsu af gulli um 990 dollarar. 70 kg eru um 2469 únsur, sem þýðir að 70 kg af gulli kosta ekki nema tæplega 2.5 milljónir dollara (nákvæmlega 2444485.56 dollara).

    Ég held að við yrðum nú ekki ánægðir ef Torres yrði seldur fyrir þessa upphæð.

    Annars góður sigur í dag þrátt fyrir skort á miðvörðum.

  19. Spurning um að innleiða krossinn (sbr. handbolti) í fótbolta sem ber að nota við tæklingar eins og Eduardo fékk í dag ?

  20. Þráinn #24
    Ef ég man rétt þá leikur lið þess leikmanns sem fær krossinn í handbolta manni færra það sem eftir er leiks. Krossinn í handbolta er því svipað rauðu spjaldi í fótbolta.

    Annars góður sigur í dag þótt við værum daprir. Þreyta setið í mönnum eftir erfiðan slag í vikunni. Lucas lofar góðu, boltinn gengur hratt í gegnum hann. Hann sendir oft boltann í fyrstu snertingu framávið og við það kemst góður taktur í sóknir okkar manna. Í mínum huga á hann að vera þarna frekar en Alonso eins og þeir eru að spila í dag. En sá síðarnefndi á vonandi eftir að hrista af sér meiðslaslenið. Kuyt er að fúnkera ágætlega á vængnum og ágætt að hafa hann bara þar. Eins er afar vandað að þurfa bara að horfa á Riise á bekknum.

  21. Ég var að skoða myndir eftir tæklinguna og mér sýnist Taylor vera í algeru uppnámi eftir þetta, mér sýnist á þessu að tæklingin hafi verið óviljaverk þrátt fyrir að hún hafi verið glórulaus.

    Hins vegar er krossinn kannski ekki slæm hugmynd sbr. Ben Thatcher líkamsárásin fyrir nokkrum misserum síðan.

  22. Þeir sem eiga alltaf að vera í liðinu: Reina-Carragher – Finnan-Gerrard-Mascherano-Torres.

    Hinar stöðurnar má leika sér með.

    Þeir sem þurfa að fara heim (til noregs eða annað) :

    Riiiiise-Aurelio-Kuyt-Voronin-Pennant-Hyppia(já..hann)2slow.

    Ætli einhver vilji borga eitthvað fyrir þessa tréhesta????

  23. Fínt að ná þremur stigum í hús án þess að ná að fara á fulla ferð. Bölvað vesen að ná ekki að halda hafsentapari nema einn leik í einu, það er frekar shaky sýnist manni, allavega var Arbeloa ekki að leika vel þar í dag. El Nino er frábær leikmaður, stórkostleg kaup. Segi enn og aftur, kaupa 3 slíka leikmenn í liðið, á heimsmælikvarða og þá getum við keppt af alvöru um titilinn.
    En dagurinn fínn að lokum.
    Varðandi Eduardo er ljóst að brotið var slæmt og hugur manns er hjá honum auðvitað. Hins vegar held ég að Taylor hafi ekki ætlað sér að meiða hann, heldur “láta finna fyrir sér”.
    Nokkuð sem við stundum biðjum um að okkar menn geri í takklingunum. Hins vegar virkar það á mig að líkamsstaða Eduardo og auðvitað alltof mikil ferð Taylor leiði af sér þetta stóra slys.
    Þetta var auðvitað rautt spjald og hann á að fá langt bann. Ekki bara fyrir hann, heldur sem forvörn fyrir aðra.
    Skil t.d. ekki enn í dag hvers vegna Reading endaði ekki 4 leikmönnum færra en við í League cup í vetur þegar Torres var sparkaður niður um allan völl.
    Þannig að brot Taylor finnst mér þurfa að skoða út frá þeirri staðreynd að slík framkoma er óásættanleg á vellinum. Þegar talað er um að “láta finna fyrir sér”, er verið að bjóða hættunni heim. Hæfileikaríkir knattspyrnumenn eiga að fá vernd. Einfalt mál!

  24. Afsakið.Nokkuð sáttur við leikinn.En hvernig væri að hætta þessu einelti á mönnum , bara af því að þeir heita Riise eða Hyypia O,S ,F. Vörnin og Reina hafa staðið sig frábærlega ,og það er ekki þeim að kenna að leikir hafi ekki verið að vinnast….Miðjan og framherjar hafa ekki staðið sig vel,en nú er þettað að breitast. Ég sé kraft í liðinu sem hefur ekki verið til staðar fyrr en nú. Og svei mér þá ef við tökum ekki 3 sætið.Ég er ekki að krefjast þess að menn svari mér,en hvernig gekk ykkur með gátuna sem ég lagði fyrir ykkur í upphitunni ,,,#13. Bara forvitinn en ekki segja hvernig svarið er ,látum menn hugsa. Já já konur, til hamingju með daginn Blessaðir

  25. ömurlegur leikur eins og alltaf,veit ekki hvar við værum ef við hefðum ekki torres.í fyrsta lagi þá vantar kantmenn og bakverði í þetta lið. við verðum aldrei gott lið ef að við fáum enga nýja menn í þessar stöður. t.d aurelio er án efa einn lélegasti bakvörður/kantmaður í þessu liði það bara kemur ekkert út úr honum.og í öðrulagi af hverju í fjandanum tók hann ekki lucas strax af velli í seinni hálfleik hann var að klúðra helling fyrir okkur hann hefði getað sett crouch inná sem er okkar annar hættulegasti framherji í dag. í þriðja lagi verð ég að lýsa óánægju minni með benitez mér finnst hann oft gera vitlausar skiptingar og ekki á réttum tíma. tað munaði engu að við mistum þetta niður í jafntefli en karlasninn sat bara á bekknum og horfði á . og eitt enn, hvenær verður liverpool hættulegir í hornspyrnum og aukaspyrnum. það er ótrúlegt að horfa upp á þessa atvinnumenn t.d í hornspyrnum að þeir geta ekki lyft boltanum yfir fyrsta varnamann.ég nenni ekki að eyða meiri tíma í þessi skrif mín, það er bara eittkað mikið að hjá þessu liði þeir eru að spila leiðinlegasta bolltann í deildinni.

  26. Já glæsilegt að fá þrjú stig, góð barátta í Torres og Carra sárt saknað.

    Hágæða saffron krydd kostar um 5000$ á únsu en meira að segja saffron nægir ekki til að verðmeta Torres í þyngd 🙂

  27. 5K á pund átti þetta að vera – gleymum saffron í þessu samhengi 🙂

  28. Held það segi bara allt sem segja þarf um stemninguna í kringum þetta blessaða lið okkar að þegar liðið tapar hrúgast hingað inn athugasemdir en þegar það vinnur koma meira en helmingi færri og fagna því. Flestir meira að segja fara að gagnrýna liðið.

    Kannski það segi eitthvað um megna óánægju með tímabilið í heild? Þurfum að spila mun meira sannfærandi.

  29. Daði, þetta hefur ekkert með gengi liðsins að undanförnu að segja. Þessi síða er að verða fjögurra ára og þetta hefur verið svona allt frá byrjun. Þegar liðið tapar hrúgast fólk hér inn og kommentar í gríð og erg, en þegar liðið vinnur fækkar ummælunum talsvert. Ætli þessi síða sé ekki bara svona góð útrás fyrir pirring, á meðan fólk vill frekar fara út í sólskinið og njóta lífsins þegar liðið vinnur leiki? 🙂

  30. vil benda mönnum á rotation sem Ferguson gerði fyrir leikinn gegn Newcastle.
    t.d. “Við frískuðum upp á miðjuna fyrir leikinn því það er staður þar sem við erum með mjög góða leikmenn. Við komum með Fletcher og Carrick inn fyrir Scholes, Hargreaves og Anderson sem spiluðu allir á miðvikudaginn,” sagði Ferguson.

  31. æi plís gefið mér heimilisfangið hjá peppe. mér langar að sjá mann sem getur gert jafn margar stafsetningarvillur og verið með jafn margar staðreyndavillur með eigin augum.
    auðvitað er aurelio einn lélegasti bakvörðurinn í þessu liði. Torres er líka fjórði lélegasti framherjinn í liðinu í dag

  32. Það var ekki mikil flókið við þennan sigur, Torres vann þetta Boro lið upp á eigin spítur, annars var liðið bara að spila í 2-3 gír allan leikinn…og það dugaði. En við vinnum ekki mjög marga leik með þrjá miðverði meidda eða í banni sem líklega væru allir á undan þeim sem spiluðu leikinn inn í liðið. That said þá tek ég ekkert frá Hyypia, hann hefur sannarlega reynst okkur mjög vel á þessu tímabili.

    En þetta brot á Eduardo setur mjög ljótan blett á helgina þó ég vilji reyndar þakka sjónvarpsmönnunum fyrir að vera ekkert að sýna þetta aftur (mér er alveg fyrirmunað að horfa á svona). Það er sjaldan sem maður sér svona viðbrögð hjá fólkinu í kringum þann meidda.
    Annars möguð helgi hjá Arsenal, ferill Eduardo er í óvissu, gáfu víti á 93.mín og gerðu jafntefli við 10 Birmingham menn og svo tók Tottenham upp á því að vinna bikar líka!!

Liðið gegn Boro komið!

Tottenham – Deildarbikarmeistarar 2008