Man City 0 – Liverpool 0

Jæja félagar. Síðasti leikur ársins endaði markalaus og okkar menn eru nú 10 stigum frá toppliði Arsenal, en þó með leik til góða. Liverpool átti 20 markskot í leiknum, þar af fóru 11 á markið, en ekkert af þeim 11 skotum fór inn fyrir marklínuna. Þetta er algjörlega óþolandi. En byrjum á að renna yfir byrjunarlið Liverpool og svo ætla ég að láta gamminn geysa í umfjöllun minni um leikinn.

Reina

Finnan – Arbeloa – Carragher – Aurelio

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Kewell

Torres – Kuyt

Bekkur: Itandje – Riise – Alonso – Babel (74. mín fyrir Kewell) – Voronin.

Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessum leik og eiginlega hafði ég aldrei áhyggjur um að City menn myndu skora. Vörnin okkar var þétt og hetjan okkar Reina stóð sig vel að venju í markinu. Áhyggjurnar sem ég hafði voru þær að við myndum ekki ná að skora, sem varð svo raunin. City menn hófu leikinn betur og veru sterkari fyrstu 15 mínúturnar eða svo. Þeir náðu ekki að skapa sér neitt afgerandi marktækifæri en þegar leit út fyrir að þeir myndu fá sénsa þá kom Carragher og kæfði þá draumóra. Mikill barningur var í leiknum framan af og liðin áttu erfitt með að halda boltanum og byggja upp góðar sóknir. En fljótlega tóku Liverpool menn völdin og fóru að sækja meira. Kewell fékk gott færi sem markmaður City Joe Hart átti erfitt með að halda. Fabio Aurelio lét 2 þrumuskot ríða af, annað þeirra fór rétt framhjá en hitt var varið mjög vel. Liverpool áttu fleiri marktilraunir og voru líklegri til að skora en markalaust í hálfleik 0-0.

Liverpool komu mjög grimmir inn í síðari hálfleik og vissu sjálfsagt að 1 mark myndi duga því heimamenn voru lítið að ógna okkar marki. Þegar þeir gerðu það þá einhvern veginn klúðruðu þeir möguleikum sínum eða vörnin okkar hreinlega át þá. Aurelio fór í flott þríhyrningsspil og lagði boltann inn á teig en Torres misnotaði gott færi. Nokkrum sekúndum síðar slapp Torres í gegn, klobbaði markmanninnn en boltinn fór rétt framhjá stönginni. Torres var mikið í boltanum og það var brotið á honum rétt fyrir utan teig illilega. Gerrard tók aukaspyrnuna en boltinn fór rétt framhjá. Það var greinilegt að heimamenn voru komnir í skotgrafirnar og myndu sætta sig fyllilega við markalaust jafntefli. Þeir náðu þó ágætis sókn sem Gerrard batt enda á, hann snéri vörn í sókn, fann Benayoun sem hamraði á markið en enn eina ferðina varði Joe Hart frá okkur. Það var svo sem fátt markvert sem gerðist þangað til nokkrar mínútur voru eftir en þá kemur frábær bolti inn á teiginn þar sem 3 liverpool menn voru allir í dauðafæri. Dirk Kuyt skallaði á markið, Hart náði að slæma hönd í boltann og ég hélt að þetta væri komið hjá okkur því boltinn var á leið yfir línuna en nei. Richard Dunne fyrirliði heimamanna bjargaði á línu, sá átti stórleik. Örfáum andartökum síðar sendi Gerrard á Benayoun en Richard Dunne var enn og aftur fyrir til að bjarga sínu liði. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og þegar dómarinn flautaði til leiksloka tók Torres á sprettinn og var fljótur af vellinum, klárlega ósáttur við sitt framlag.

Mér fannst við eiga meira skilið að vinna þennan leik, fengum fleiri og betri marktækifæri en náðum ekki að nýta þau. Menn virkuðu margir hverjir svolítið þreyttir enda hefur mikið gengið á að undanförnu. Ef ég horfi á þennan leik og ekki á töfluna þá er ég svo sem sáttur með eitt stig, en þegar ég horfi á töfluna og sé að Arsenal eru 10 stigum fyrir ofan okkur er ég hundfúll og langt frá því að vera sáttur. Enn og aftur hefst þessi eltingaleikur. Það væri í lagi ef þetta væru 3 stig til eða frá, en 10 stig er of mikið bil. Ég er ekki að segja að þetta sé búið, alls ekki, þetta verður aldrei búið fyrr en það er tölfræðilega ómögulegt að sigra deildina, en útlitið er ekki bjart hvað varðar að hreppa 1. sæti deildarinnar eftir 38 leiki. Við megum að sjálfsögðu ekki gleyma því að Man City eru að spila vel og eru stigi fyrir neðan okkur, en hvað með það? Við sáum það í dag að það er miklu meiri munur en 1 stig á þessum liðum. Við erum klárlega með sterkara byrjunarlið og miklu breiðari hóp. En það sem háir okkur er að við gerum of mörg jafntefli og náum oft ekki að klára leikina. Við höfum gert 7 jafntefli í 20 leikjum, aðeins eitt lið hefur gert fleiri jafntefli og það er Fulham með 9. Heimavöllur okkar Anfield hefur ekki reynst vel í deildinni í vetur því þar höfum við náð í 16 stig, á meðan við höfum fengið 21 á útivöllum, það er mjög óvanalegt. Mig langaði aðeins að benda mönnum á þessa tölfræði, fyrir mér er þetta óásættanlegt, ef markmiðið er að berjast um titilinn þá þarf að klára þessa leiki sem stefna í jafntefli eins og í dag.

Maður leiksins: Tjahh hvern ætti maður að velja? Ég er að renna yfir byrjunarliðið og það spilaði enginn afgerandi vel í dag. Yossi átti fína spretti og spilaði vel. Aurelio átti 2 mjög góð skot að marki og var hættulegur í spilinu, en hann var hins vegar oft að klúðra einföldum hlutum sem menn í Liverpool klassa eiga að gera betur. Torres spilaði alls ekki nógu vel og misnotaði nokkur færi og hann virkaði pínu þreyttur í dag. Mascherano spilaði venjulegan leik og stóð upp úr að mínu mati ásamt Jamie Carragher sem stoppaði margar sóknir City manna. Hann spilar yfirleitt eins og klettur í vörninni og ég er því að spá í að velja hann mann leiksins annan leikinn í röð.

Næsti leikur er heimaleikur á móti Wigan. Hann fer fram kl. 20:00 á miðvikudaginn 2. janúar og það er leikur sem verður að vinnast. Núna þurfum við langa og góða sigurhrynu og draga á Man Utd og Arsenal, við höfum mannskapinn og breiddina í það, það er á hreinu.

YNWA.

54 Comments

  1. Við getum gleymt toppsætinu. Við gleymt gleymt dollum þetta árið. Var það eitthvað fleira sem ég man ekki eftir? Nenni ekki að tjá mig um þjálfarann.

  2. Þetta voru nú ekki góð úrslit fyrir okkar menn. Augljóslegt að menn voru þreyttir. Mér fannst þetta vera versti leikur Torres síðan hann kom til Liverpool. Hann virkaði svolítið hægur, sérstaklega þegar hann fékk boltann með bakið í markið. Mascherano átti fínan leik sem og Carra. Þrátt fyrir slæm úrslit þá held ég að það sé óþarfi að brotna niður og fara að skjæla yfir að deildin sé búin og annað slíkt. Við komum bara sterkir inn á nýju ári og verður spennandi að sjá hvað gerist í glugganum.

    Gleðilegt ár og takk fyrir það sem er að líða

  3. það var eins og allir væru í fílu í leiknum
    vá hvað þetta var góður dómari
    ………………………………………
    koma svo bara næst
    jéeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee

  4. Dunn var eins og Carragher á spítti, góður leikmaður. En engin ásæða til að örvænta..nóg eftir af deildinni

  5. Er Crouch kannski fótbrotinn? Veit einhver hvers vegna hann var ekki með í dag? Ég hef sennilega ekki verið að horfa á sama leikinn og þjálfarinn. Það er barist og böðlast gegn vegg í 90 mínútur (20 skot að marki) og ekkert gengur og hvað er þá til ráða? Einhverjum dytti í hug að skipta um verkfæri, jafnvel verklag. Nei, ekki hjá Sánkti Rafael. Um að gera að halda áfram að böðlast á vegginn með sömu aðferð. Ég veit að Sven nokkur Göran brosir breitt í kvöld. Og skálar fyrir Liverpool fram yfir áramót. Hann heldur nú með Liverpool, skv. síðustu fréttum.

  6. Þreytulegt en MCity vildi ekkert í leiknum nema stig og þetta er alls ekki búið. Þetta kemur eftir áramót. jebbbs

  7. Spurning hvernig þetta hefði farið ef Torres og Gerrard hefðu verið hvíldir gegn botnliði deildarinnar Derby í síðasta leik. hm….

  8. Ég sé ekki hvernig það sé hægt að kenna Benítez um þetta. Með Crouch í banni (sem hefði ekki gert neitt í þessum leik) og Voronin á bekknum sem er ekki boðlegur….þá var lítið fyrir hann að gera. Ég held að Torres hafi fengið högg á síðuna í fyrri hálfleik og hafi þar af leiðandi ekki verið 100%.

    Mér fannst persónulega Liverpool spila mjög vel en það vantaði alltaf endahnútinn. Mascherano er náttlega fáránlega góður og það væri stórkostleg mistök að kaupa hann ekki á þessar 17 millur sem hann er falur fyrir. Ég væri meira að segja til í að selja Xabi í staðinn ef Benítez fær ekki peninga til að kaupa hann.

    Ég hefði kannski verið til í að sjá Babel aðeins fyrr inná fyrir Kewell sem auðvitað gat ekki blautan…..eins og vanalega.

    Ótrúlega svekkjandi….en lítið hægt að segja við þessu.

  9. Að mínu mati getum við sett titilvonir okkar til hliðar um sinn 10 stig (getum minnkað niður í 7 stig ef við vinnum leikinn sem við eigum inni) er einfaldlega aðeins of mikið að sinni.
    Þetta var gríðarlega erfiður leikur – en gleymum því þó ekki að við vorum að spila á móti Gríðarlega öflugu og vel skipuðu City-liði sem vorum með 10 menn fyrir aftan bolta. Við skulum átta okkur á því að á næstu árum mun þetta City lið koma af fullum þunga inn í baráttuna um titilinn á því leikur ekki nokkur vafi. Við fengum auk þess færin til að klára – hversu góður var Richard Dunne eiginlega???? – stjórnuðum leiknum og Liverpool var það lið sem sótti til sigurs í leiknum.
    Í guðanna bænum ekki koma hér inn til þess að gagnrýna liðið fyrir að tapa stigum í titilbaráttunni án þess að hafa eitthvað bak við það. Mér fannst við líta vel út, nema hvað sumir leikmenn virkuðu gjörsamlega örmagna síðasta korterið (fyrirliðinn sér í lagi).

  10. “Spurning hvernig þetta hefði farið ef Torres og Gerrard hefðu verið hvíldir gegn botnliði deildarinnar Derby í síðasta leik. hm….”???????????

    Spurning hvort að við hefðum þá ekki bara tapað Derby leiknum.

    Djöfull er ég orðinn pirraður á þessum endalausu helvítis vonbrigðum! Alveg ótrúlegt hvað við virðumst þurfa mörg skot á markið til að koma tuðrutussunni í markið!

  11. Vá hvað Kuyt er búinn að klára kvótann sinn í byrjunarliði liverpool. Hann getur ekki Neitt sóknalega, aldrei ógn í honum og ég skil ekki af hverju hann spilar ekki Babel með Torres frammi. Og Nei það er ekki nóg að eini jákvæði punkturinn um hann er að hann getur búið til pláss fyrir Torres, það er ekki nógu gott fyrir striker nr. 2 hjá Liverpool.

  12. Júlli. Kewell er númer 7 ekki 8 eða 9, Kewell var töluvert betri en Gerrard og Torres í þessum leik og fór oft illa með Onouha.

    Það var bara eins og menn vildu ekki vinna leikinn því menn voru aldrei komnir inní teiginn þegar möguleikinn var á fyrirgjöf.

    En ég hef það eftir áreiðanlegri heimild að það hafi sést til manna bera viðlegubúnað frá City of Manchester Stadium núna á sjöunda tímanum í kvöld. 🙂

  13. dómarinn átti að reka út dunne og richards fyrir brot þeirra á torres

    liverpool þurfti sigur, rafa virðist ekki hæfur til að vinna deildina í ár, kannski betri aðstoðarmaður myndi redda honum.

  14. Afhverju líður mér eins og allir séu búnir að gleyma því að Liverpool hrekkur aldrei almennilega í gang fyrr en eftir áramót? :S
    Erum í muuuuun betri stöðu en í fyrra, með sterkari mannskap, hugsanlega að fá inn einhverja leikmenn í Janúarglugganum, fáum aftur Daniel Agger sem á eftir að styrkja sóknina töluvert. Spyr bara hvernig er hægt að sjá eitthvað neikvætt útúr þessu.
    Nýárskveðjur með sýn á betri tíma 😀

  15. Finnan : hélt Petrov niðri sem var greinilega skipað að hinkra frekar en að sækja. En gerði ekkert annað en að taka við boltanum og senda hann aftur á carra eða arbeloa.. hann á klárlega ekki heima í byrjunarliði.

    FINNNAN PIRRAR MIG MEST AF ÖLLUM Í LIÐINU

  16. Í dag er ég ekki sáttur við það að Liverpool vinnur aðeins annan hvern leik sem það spilar í deildinni. Það er ekki tölfræði sem sæmir meistaraliði, ja ekki einu sinni liði sem er í kapphlaupi um meistaratitilinn þegar þeir bestu vinna þrjá af hverjum fjórum leikjum.

    Kæri Benitez, hvað er málið? Af hverju notarðu ekki Babel? Af hverju notarðu Kuyt úti á kanti? Af hverju skiptirðu ekki fyrr? Af hverju setja menn bara í fjórða gír þegar fimm mínútur eru eftir? Af hverju er Torres svona einn á báti, langt frá næsta manni?

    Kæri Benitez, hvað gerist ef Liverpool tapar fyrir Inter Milan?

    Hvað er málið?

  17. Mér finnst eins og öll þessi ummæli komi frá Sólheimum í Grímsnesi.Mitt síðasta blogg. vil taka það fram að ég er sonur einsa kalda

  18. Meiri hluti skæðra sókna Liverpool kom upp vinstra meginn og hafði Kewell oftar en ekki hlut að máli. Ánægjulegt að hafa eins og einn alvöru kantmann í liðinnu sem heldur sig úti við hliðarlínuna, teygir á fjölmennum varnarmúr andstæðinga okkar,tekur menn á,krossar, hefur leikskilning sem nýtist oft í samspili við Torres og nýttist vel í dag í samspilli við okkar eina spilandi vistribakvörð sem átti einnig góðan leik í dag.

    Þó að Kewell megi muna sinn fífil fegri þá hefur hann margt fram að færa fyrir okkar ágæta lið sem spilaði vel í dag.

    Það sem gefur undirrituðum oft súrt bragð í munninn eru ungir apakettir sem apa upp eftir , og væla klysjur lélegra lýsenda leikja sem og annara þöngullhausa sem kalla sig blaðamenn. ýtrekaðar árásir á Hyppia, Rafael(sem hefur gert LFC aftur að stórveldi í Evrópu),Alonso………. og áður Hamann sem sýndi vel í dag að hann á nóg eftir og var næst besti maður Man.city í dag.

    Það sem veldur undirrituðum áhyggjum auk markaþurrðar er hversu óöruggur Arbeloa var í dag. Set ég spurnigarmerki við burði hans til að valda miðvarða hlutverkinu í fjarveru Hyppia og Agger.

    Góðar stundir

  19. Í þessum leik kom það enn og aftur vel í ljós hvað Dietmar nokkur Hamann er ógeðslega seigur og bara góður leikmaður. Hann tapar ekki bolta og átti varla feilsendingu í þessum leik. Hann var alls ekki að gefa 50 metra sendingar, heldur voru þær yfirleitt stuttar á næsta mann, en hann kann þó að gefa þessa stuttu bolta, annað en sumir hjá Liverpool. Þess vegna finnst mér það alveg GRÁTLEGT að hafa látið hann fara en haldið Sissoko, þó það sé 10 ára aldursmunur á þeim.

    Annars fannst mér Liverpool spila þennan leik vel en það vantaði alltaf þessa lokasendingu eða að klára færið. Carragher bjargaði roslaega í nokkur skipti í fyrri hálfleik á meðan City þorði að sækja, eim eða þrem n síðan kom Aurelio mér mikið á óvart með góðum leik. Mascherano var líka ótrúlega öflugur.

    Það sem olli mér mestu vonbrigðum fyrir utan það að hafa ekki náð að skora og vinna helvítis leikinn voru sóknartilburður City. Það er þvílíkt búið að hrósa Elano í vetur en hann gat ekki rassgat. Einnig fannst mér Petrov skelfilegur, en honum tókst þó að koma 2 eða 3 hættulegum sendinum inní boxið. Besti maður City var án efa Richard Dunne, sem ég kýs að kalla Carragher Manchester borgar, en þó má alveg deila um það hvort hann hafi átt skilið að vera inná vellinum síðustu 20 mínúturnar.

  20. Það verður að segjast eins og er að það er óþolandi að horfa upp á liðið sækja og sækja og uppskera ekki þrjú stig.
    Verð að játa að Man City liðið er nú ekki merkilegri pappír en svo að þeir lágu með 11 manns inní eigin vítateig á heimavelli. Hreinlega skil ekki hvernig þetta lið getur verið svona ofarlega miðað við spilamennsku liðsins í dag. Í liðinu eru þrír til fjórir leikmenn sem geta talist virkilega góðir leikmenn. Aðrir eru vart lítið meira en miðlungsleikmenn. Það sorglega er að Liverpool náði ekki að nýta sér yfirburði sína þrátt fyrir að hafa fengið fjölda tækifæra til þess að gera útum leikinn.
    Fannst skrítið að Benitez hafi ekki gert skiptingar þegar líða tók á leikinn. Auðséð að nokkrir leikmanna voru orðnir ansi þreyttir undir restina. Var líka hissa að sjá Kuyt spila 90 mín miðað við frammistöðu sína og Torres var langt, langt, langt frá sínu besta. Verður að viðurkennast að Dunne (sem maður taldi útbrunninn fyrir 5 árum síðan ) af öllum mönnum pakkaði honum saman í dag. Tel að ferskir fætur síðustu 20 mín hefðu ekki veikt liðið undir lokin þar sem City menn voru orðnir lúnir.
    Fyrirfram má segja að eitt stig gegn City hafi alveg verið eitthvað sem maður gæti sætt sig við, en eins og leikurinn spilaðist fannst manni liðið hefði átt að klára dæmið.
    Nú er ekkert annað í stöðunni en að rúlla Wigan upp á Anfield.

  21. Bakvörður á númer eitt tvö og þrjú að halda kantmönnum niðri og sinna sínu varnarhlutverki. Finnan gerði það í dag, auk þess sem hann tók nokkrum sinnum þátt í sókninni. Finnan er alltaf eins, er stöðugur og gerir sitt en kannski ekki mikið meira.

    Ég veit alveg að Kewell átti 2 ágæta spretti framhjá Onouha….en er það nóg?
    Benayoun var mun betri en Kewell eins og vanalega þó að hann hafi ekki átt neitt frábæran leik. Benayoun er einfaldlega betri leikmaður og leggur meira á sig.

    Ég ætla samt sem áður ekki að gagnrýna neinn sérstaklega í þessum leik, hvorki leikmenn né þjálfara. Menn reyndu að gera sitt en það tókst bara ekki…..eins ömurlegt og það er.

  22. Það vanntar klárlega annan góðan framherja í liðið, hafa Torres, Crouch og einhvern annan í svipuðum klassa og Torres og svo Voronin sem backup. Selja Kuyt sem mér finnst bara ekki nógu góður. Og það kom vel ó ljós í dag að Aurelio er mun betri kostur í liðið en Riise, hann getur spilað boltanum á samherja og engu síðri varnarlega.

  23. benítez hefur sagt að það verði enginn seldur í janúar. það gefur sterklega til kynna að það verði ekki keyptur sóknarmaður, heldur varnarmaður. ef hann ætlar ekki að selja neinn og kaupir sóknarmann, hvað á hann þá að gera við voronin og crouch t.d.? hann velur kuyt augljóslega fram yfir þá báða og þá þyrfti annar þeirra að vera úr hópi, svo ég tali nú ekki um ef rafa fer að bota babel á toppnum. þá eru 2 sóknarmenn sem eru örugglega á sæmilegum launum ekki í hóp.

    við höfum bara of marga miðlungssóknarmenn, því miður.

  24. Sælir félagar
    Carra og Mascherano voru menn þessa leiks gegn feikna vel skipulögðu MC liðinu. Niðurstaðan dautt jafntefli þar sem Dunn vann það fyrir City liðið. Liðið okkar virkaði þreytt og þreyttara en MC menn???
    Mikið er ég orðinn þreyttur á að horfa á Kyut hlaupa umm allan völl án takmarks og tilgangs. Mikið er ég orðin þreytur á að Babel skuli aldrei byrja frammi með Torres. Örugglega mest ógnandi sóknarpar sem við eigum. Ég nenni ekki að pirra mig útí einstaka leikmenn en verð þó að segja að fyrir utan Kyut þá fannst mér Benyoun arfaslakur og tapaði boltanum alltof oft og gaf ekki á samherja í upplögðum stöðum. Hann var dálítið eins og Kyut að berjst vel en skila afar litlu. Þetta er svekkelsi og ferlega pirrandi að vinna ekki leiki þegar við eigum þess kost að draga á toppliðin. En það er hlutur sem virðist vera alveg dæmdur. Annað hvort tap eða jafntefli þegar MU, Arsenal eða “Bláu leiðindin” eru að misstíga sig þá gerum við það pottþétt líka.
    Það er nú þannig

    YNWA

  25. Á venjulegum degi hefðu þetta ekki verið slæm úrslit, en í ljósi þess hve langt er í næstu lið þá voru þetta tvö dýrmæt stig sem töpuðust í dag. Þó Liverpool hafi haft yfirhöndina mest allan leikinn þá vantaði einhverja raunverulega ógn í leik liðsins. Torres og Gerrard voru ekki uppá sitt besta í dag og því fór líklega sem fór.

    Ég er á því að Crouch hefði getað nýst vel í þessum leik, City menn lágu aftarlega í seinni hálfleik og þá hefði verið kjörið að dæla boltum á kollinn á honum. En því miður var hann í banni og því þýðir ekkert að ræða það frekar.

  26. Fínn leikur af okkar hálfu í dag. Lukkudísirnir ákváðu að kvitta fyrir heppnina á móti Derby!! Ef ég get sett út á eitthvað þá fannst mér þungt yfir mönnum og leikgleðin skein ekki beinlínis út úr hverju andliti. Dálítill pro bragur á þessu öllu saman. Menn í þessu til að hafa í sig og á!! Vorum að skapa heilmikið en eins og vantaði neistann í liðið. Mér er illa við að skrifa það á þreytu. Það er ekkert búið að vera eitthvað ógeðslegt álag á mönnum. Það er bara eins og það vanti leikgleðina í okkar menn… kannski er Benites einum of klínískur þjálfari??? Mig langar að sjá smá hopp og hí á bekknum. Smitar út frá sér.

    Kuyt karlinn er alveg kominn á síðasta snúning hjá mér. Gerir hlutina stundum alltof erfiða. Hefði látið Kewell klára leikinn í dag og skipt Kuyt út fyrir Babel. Helst í hálfleik. En hvað veit ég?!!!

    Annars verður að hrósa City liðinu. Miðverðirnir höfðu Torres í kvöldmat með piparsósu og fengu góða hjálp við eldamenskuna frá slöppum dómara leiksins. En Didi nokkur Hamann var eins og kóngur á miðjunni og truflaði sóknarleik okkar menn trekk í trekk. Maðurinn er náttúrulega varnartengiliður “dauðans” eins og unglingarnir orða það þessa dagana.

    Sammála Siguróla með mann leiksins. Carragher gerði engin mistök í dag og bjargaði stórkostlega í þau fáu skipti sem City menn sköpuðu hættu við Liverpool markið.

    Eftir stendur súrt jafntefli og vonarneistinn um Englandsmeistartitil tók engan kipp í dag. Því miður. En það er óþarfi að örvænta. Ég hef samt á tilfinningunni að þegar upp verður staðið í vor þá munum við taka við fjórða sætinu með þökkum!!!

    YNWA

  27. Kuyt út úr liðinu….strax. Það stafar nákvæmlega engin ógn af þessum manni. Hann hleypur jú mikið og er duglegur, en við gætum alveg eins haft Haile Gebreselassi þarna ef við þurfum nauðsynlega einhvern í liðið sem finnst gaman að hlaupa. Kuyt er enginn knattspyrnumaður og er alls ekki í Liverpool klassa. Seljum hann til liðs sem hann á eitthvað erindi í t.d. íslensku 2. deildina, mér heyrist að ÍH vanti framherja.

  28. var svona nokkurn vegin sáttur með liðið í dag fyrir utan að skora ekki. En ég verð bara að segja það að Dunne var maður leiksins ótrúlegt hvað hann stoppaði mikið í þessum leik ásamt Hamann. maður sá það strax að þetta yrði einn af þessum leikjum þar sem við myndum sækja meira eiga fleiri skot en enda með jafntefli, enda erum við í toppbárattuni um þann titil 😉

    En varðandi okkar leik þá var ég virkilega sáttur með Máskerano (eins og guðni bergs kallar hann) hann vinnur alla tæklingar og maður sér hann varla fá gult spjalt. var að gefa boltan vel frá sér. og ég er ekki frá því að hann sé sá besti í sinni stöðu í evrópu. Aurelio átti mjög góðan leik fannst mér líka ógnun og er ekkert að gera hlutinna erfiða og skemmtilegri leikmaður en massaða tröllið okkar.

    En slæmu hliðarnar voru að framliggjandi miðjumaðurinn okkar er ekki að gera mikið til að heilla mig, hann vinnur vel en mér fynnst alltaf eins og hann sé skrefinnu á eftir eða á undan. nær aldrei að komast í takt við leikinn og hreinilega lítið sem hægt er að stóla á hann, eini sénsinn fyrir hann að skora er að það skjóti einhver í hann eða hann fái taka víto. ég er auðvitað að tala um Kyyt.

    Maður vonar að við munum detta í gang eftir áramót eins og Benni hefur oftast gert, en 10 stig er mikið á þessum tímapunkti, Man Utd var komið með 6 stig á þessum timapunkti í fyrra og missti það aldrei niður nema í 3 stig, og það eru 3 lið fyrir ofan okkur í þessari baráttu þannig að þetta er orðið veik von ;S nema við förum að gera það ótrúlega að vinna þessi topplið á þeirra heimavelli þá held ég að það sé VON ennþá 😉

  29. Það er ljóst að Rafael sá ekki sama leik og við – amk viljum við gera breytingar á þreyttu liði sem hefur ekkert uppskorið eftir 70 mín. Af hverju ekki að gera breytingar? Flestir eru sammála um að Babel hefði verið besta og skynsamlegasta innáskiptingin. En nei, besti vinur Hicks lætur Kát hlaupa sig rófulausan helst boltalausan og er bara nokkuð sæll með það. Menn fá engin stig fyrir að æfa sendingar og spretthlaup í 90 mínútur.

  30. Torres og Gerrard eru augljóslega þreyttir í dag. Alls ekki tilbúnir í daginn og þá bara virðist liðið ekki skora þessa dagana.
    Það eru ekki alslæm úrslit að gera jafntefli úti gegn Man. City, en ekki heldur nógu góð eftir útkomu Arsenal í gær.
    En verst er að enn einu sinni fáum við sultu af færum og notum engin. Fyrri hálfleikurinn í jafnvægi en þann seinni áttum við að vinna. Ég vill reyndar ekki kvarta undan Kewell og Benayoun, mér fannst þeir vera að reyna að skapa, en bara gekk ekki þennan daginn.
    Allir hér vita að ég vill fá nýjan senter og Kuyt út. Ég veit reyndar ekki lengur Sigtryggur hvort mér finnst Babel tilbúinn í að vera byrjunarsenter, mér finnst honum ganga illa þegar hann er senter, og kannski oftast þegar hann byrjar. Vissulega er hann þó ekki verri kostur en Kuyt og Voronin, ég verð ILLA fúll ef Crouch fær ekki að byrja gegn Wigan á miðvikudaginn.
    Svo er ég sammála nokkrum hér að liðið virtist ekki skemmta sér mikið í dag, kannski ekki von þegar svo stutt er á milli leikja, mér fannst ég sjá þetta hjá United í gær, en maður vill það samt!
    Ekki alslæmt, en sigur hefði lyft upp öllum á Anfield. Nú er bara að vinna næstu 5 deildarleiki og fara þá á Stamford Bridge tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn!!!

  31. við þurfum bara fleiri flinka menn í liðið sem eru tæknilega góðir, mín skoðun. sjáið bara torres, hann á auðvelt með að fara framhjá mönnum og hann getur búið til færi fyrir sig einn og óstuddur. það er vegna þess að hann hefur hraða og tækni til að fara framhjá mönnum. hann er target man og 1st striker, en það þarf einhvern flinkan mann með honum í framlínuna. mann sem getur farið framhjá mönnum og hefur þessa “vision” til að búa til færi og pláss. kuyt er fyrirsjáanlegur og voronin líka. þeir gera aldrei neitt sem kemur manni á óvart, það er svoooo auðvelt að verjast svoleiðis mönnum. crouch er leikinn en hefur ekki hraðann líkt og hinir tveir. hann er þó skömminni skárri en kuyt og voronin. þessir bakkabræður eru því miður að valda vonbrigðum og það gerist lítið hjá þeim. ég er ekki með neinn sérstakann í huga og hef svo sem engar alvöru heimildir fyrir striker-kaupum, en vonum það besta.

    það þarf annað tæknitröll á anfield, vona bara að hann komi í janúar!

  32. Spurning um að taka bara Atla Eðvalds(minnir að það hafi verið hann frekar en Guðjón Þórðarson) og bjóða nammi á hliðarlínunni í hvert skipti sem er skorað?
    Þá fara menn allavega að hætta að kvarta yfir að Rafa brosi aldrei 😀

  33. Það var Gaui Kjaftur sem bauð uppá sterka mola.
    Maggi þú verður að vera fúll á móti Wigan því Crouch verður enn í banni.

  34. Þið sem eruð að gagnrýna þá sem segja að Rafa brosi aldrei, finnst ykkur það virkilega eðlilegt að maðurin brosi ALDREI? Hann fagnar ALDREI mörkum eða neitt, persónulega finnst mér þetta bara alveg virkilega leiðinlegur eiginleiki en jájájájá þið þurfið ekki að endurtaka það að bros vinnur ekki leiki.

  35. Sælir félagar
    Það er rétt Maggi að ef til vill er Babel ekki tilbúinn sem byrjunarliðssenter en hann verður það ef hann er látinn spila þá stöðu annars ekki. Hann er samt örugglega betri en Kyut sem virðist algjörlega búinn að missa tötsið þó viljinn sé mikill og vinnslan. Ég var í byrjun mjög hrifinn af þessum dugnaði hans og baráttu en í dag er ég á þeirri skoðun að hann hafi bara ekki það sem til þarf. Því miður. Þar af leiðandi er Babel minn fyrsti kostur með Torres. Hraður, flinkur og skotviss en skortir auðvitað þá reynslu og þor sem hann öðlast bara með því að spila þarna frammi.
    Ég er sammála Begga 31# að það vantaði auðvitað leikgleði og drápsvilja hjá okkar mönnum en – samt þeir voru að leggja sig fram og svona er þetta bara stundum – því miður.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  36. Það eina sem vantaði í þessum leik var að koma tuðrunni yfir marklínuna hjá City mönnum. Dunne var gjörsamlega út um allt og var maður leiksins að mínu mati. Annars er ég sammála #21 að liverpool hafi ógnað meira upp vinstri kantinn. Það vantar annan heimsklassa framherja, Torres gerir þetta ekki allt einn.
    Hvað sem tautar og raular þá tel ég að Benitez sé á réttri leið með liðið.

    Gleðilegt ár púllarar nær og fjær.

  37. Hélt að Crouch hefði bara fengið þriggja leikja bann?
    Portsmouth, Derby og Man.City……

  38. Jahérna!

    Það er náttúrulega hræðilegt þegar að annað liðið af tveim sem átti besta heimavallarárangurinn nær jafntefli gegn miklu sterkara liði Liverpool í dag. Og við án Sami Hyypia með bakvörð í miðvarðarstöðunni.

    Auðvitað áttum við að vinna og auðvitað er það sárt að það skuli ekki hafa tekist en þetta er akkurat leikur sem við hefðum tapað sannfærandi í fyrra.

    Kuyt átti ágætis leik að mínu mati, skilaði boltanum vel frá sér og lék betur núna en oft áður. Fyrir þá sem söknuðu Babel hvað mest er vert að benda á að hann er mjög gjarn á að valda vonbrigðum þegar hann byrjar inná og skemmst er að minnast Derby leiksins, en hann stendur sig vel þegar hann kemur inná.

    Menn leiksins fyrir utan frábærar vörn City eru án efa Masch og svo vil ég líka nefna Aurelio sem átti frábæran leik í vinstri bakverðinum og sýndi meira en Riise hefur gert í mörgum leikjum. Varðandi þetta tal um Benitez og svipbrigði þá er hún löngu orðin þreytt og fáránleg. Hann útskýrir þetta vel í bókinni hans Balague og persónulega er mér nákvæmlega sama hvort hann brosi eða ekki, á meðan hann skilar árangri.

    Þetta hefur ávallt verið frábær samanstaður skoðanaskipta en á síðustu misserum hefur umræðan dottið niður á nokkuð lágt plan. Reynum að rífa þetta upp!

  39. Dæmigerður leikur, þar sem að Liverpool domineraði færin. Sá að vísu ekki leikinn en fékk góða skýrslu frá City fan og hann sagðist vera heppinn með að fá stig úr leiknum. Dæmigert svosoem að klára ekki færin sín og skjóta markmanninn í stuð og svíinn stillti upp mjög varnarsinnuðu liði. Á móti þannig liðum hefur okkur gengið einna verst ef ég man þetta rétt.
    Ef það væri meistaraheppni hjá okkur, þá hefðum við potað einu inn en því var ekki að heilsa í dag.
    Eitt þó sem við verðum að hafa í huga og man ekki hvort kom fram hér að ofan er að City er mjög erfitt heim að sækja, og því kannski hálfgerður sigur að komast með eitt stig í burtu þaðan. Júnæted tapaði allavega þarna 19 ágúst s.l. og Nallarnir og Chelsea eiga eftir að fara til Manchester og sækja stig.

    Annars bara gleðilegt ár félagar.

  40. Þessi leikur átti að vinnast. Svo einfalt er það. City voru í nauðvörn löngum stundum í seinni hálfleik. Er alls ekki svo óánægður með spilamennskuna. Okkur vantar bara alvöru senter með Torres. Finnst alveg tími á að Babel fái að byrja frammi með Torres. Myndi vilja sjá það í næsta leik. Hverju höfum við að tapa á því?

  41. FDM. Engin afsökun.

    Tottenham fór á þennan sama völl, með tvo miðjumenn í varnarlínunni og hægri bakvörð í miðverði, einum færri í 70 mínútur og unnu samt 2-0.

  42. Sælir allir !
    Verð að koma með smá innskot hérna hjá ykkur.
    Er ánægður með stigið miða við hvernig leikurinn
    spilaðist. Mínir menn voru mjög varnasinnaðir og
    komust upp með það leikurinn var lagður upp þannig
    að við vildum verja þetta eina stig og það tókst.
    Erikson sá það að eftir jólatörnina þá yrði það erfitt
    að keyra fullan sóknarbolta því við erum búnir að vera
    keyra á nánast sömu mönnum alla leiki, við höfum ekki sömu
    breidd og Liverpool við erum búnir að vera byggja upp liðið
    í nokkra mánuði ekki nokkur ár.
    Þetta tel ég vera ástæða þess að ekki hafi verið meiri sóknartilburðir í leiknum frá mínum mönnum annars er langt síðan City hefur verið með jafn skemmtilegt lið hvað sem menn segja. En stig er stig og stundum þarf að verjast, til að eiga möguleika , góðar stundir

  43. Sigtryggur og fleiri sem ræða um Kuyt… er hann ekki bara í sama veseni og Momo Sissoko? Að spila ekki þannig að hann nýti eiginleika sína best.
    Alveg eins og Momo er úti á þekju í hlutverki leikstjórnanda á miðju er Kuyt alltaf úti á kanti, inni á miðju og alls staðar nema í boxinu þar sem hann er bestur.

    Held að einn sem horfði á leikinn með mér í dag hafi orðað það best þegar Kuyt dúndraði inn að mannlausu boxinu frá miðju:
    “Nei, þú ert ekki þarna til að taka við boltanum!”

    Sem fær mann til að velta þessu fyrir sér: af hverju sér þjálfarinn þetta ekki og lagar þetta? Kuyt og Momo eru allir af vilja gerðir og geta hlaupið og hundskast út um allan völl… en þurfa eins og allir að spila upp á styrkleika sína. Og hver á að leiðbeina þeim með það nema þjálfarinn?

    Tek það annars fram að ég vil halda Kuyt og selja Momo. Ástæðan er að Kuyt getur spilað fótbolta.

  44. LAUSNIN FUNDIN???????

    Ef við horfum á þau lið sem unnið hafa Ensku deildina undanfarin ár þá er eitt sem þau hafa haft sem okkur hefur sárlega vantað og þá er ég ekki að tala um peninga eða brosandi stjóra!!

    Þau lið sem hafa unnið deildina síðustu ár hafa ÖLL verið með mjög góða, skapandi og agressíva KANTMENN. Ég ætla svo sem ekkert að telja þá leikmenn upp (endilega gerið það samt ef þið hafið tíma) en ég held að við getum allir verið sammála um að Manutd, Arsenal og Chelsea hafi öll verið með mjög sterka vængmenn síðust ár á meðan við höfum afturámóti verið með miðlungs og jafnvel undir meðallagi leikmenn í þessum stöðum og oftar en ekki fyllt þær með framherjum, miðjumönnum og að ógleymdum bakvörðum!!
    Enda finnst mér oft pínlegt að sjá hvað miðjan og vörn vinna illa saman í því að byggja upp sóknir. Við sjáum það oft í okkar leikjum að miðverðirnir okkar, sem enda alltof oft með boltann, senda langar sendingar fram í stað þess að koma boltanum í fæturna á þeim sem geta driplað og skapað. Ég er að vísu sæmilega sáttur við kantmenn liðsins í dag og eru mun fleiri möguleikar þar en í fyrra þegar við spiluðum með riise og pennant. En spáið í það ef við hefðum menn á vængjunum á sama kaleberi og Torres og Gerrard…

    Einhver kann að segja að sigurvegararnir hafa allir haft topp strækera en ekki við. Getur þetta ekki einmitt verið vandinn við það að flestir strækerar sem hafa komið til okkar hafa ekki fundið sig?

    Gallinn er sem sagt sá að Rafa sem leggur mikið upp úr því að nota vængina hefur ekki nægilega góða menn til þess og neyðist því til þess að nota lampa í stað sófa 🙂

    Hvað segið þið um þessa kenningu?
    Gæti þetta ekki útskýrt að hluta mismun á árangri í deildinni og CL? Kannski er nauðsynlegt að hafa gott vængspil í ensku deildinni og kannski hægt að komast upp með að hafa það ekki í Evrópu boltanum.

    Gaman væri að sjá lista yfir kantmenn okkar og englandsmeistara síðustu ára ef það er einhver sem er góðum í CM ?

  45. Það er segir, því miður, allt um leikinn að miðvörður og sópari á miðjunni skuli vera bestu menn liðsins í leik sem sótt er nánast allan tímann.

  46. Alveg sammála Daða um Kuyt. Held að léleg frammistaða hans sé aðallega Rafa að kenna, sökum þess að við höfum ekki nógu hraða og leikna kantmenn ætlar þjálfarinn Kuyt of stórt hlutverk. Kuyt er nautsterkur og á að vera í teignum. Hann er síðan svo líkamlega þreyttur eftir þennan stöðuga barning að hann skortir einbeitingu þegar hann svo fær sín færi. Í dag minnir hann mig voða mikið á Fernando Morientes hjá Liverpool. Ætlar Rafa ekkert að læra, eða er hann svona ultra varnarsinnaður?

    Þetta sem Ingi pælir í varðandi kantmenn er að mínu viti alveg hárrétt. Nánast allir Englandsmeistarar undanfarin 15-20 ára hafa átt góða kantmenn.

    Þetta á sérstaklega við vinstri kantmenn enda mjög lítið verið um góða vinstrifótarmenn á Englandi sem geta sent boltann vel fyrir.
    Liverpool í lok 9.áratugs höfðu John Barnes.
    Man Utd höfðu Ryan Giggs + síðar C.Ronaldo
    Arsenal höfðu Overmars og Pires.
    Chelsea höfðu Arjen Robben og Joe Cole.
    Jafnvel árið 1993 þegar Blackburn vann var Jason Wilcox í þrumustuði á vinstri kantinum.

    Það er engin tilviljun að þegar Liverpool náði sínum besta árangri undir stjórn Rafa Benitez (82 stig) þá var Harry Kewell í mjög góðu formi á vinstri kanti og Gerrard skorandi +20 mörk af þeim hægri.
    Í deild þar sem öll litlu liðin pakka í vörn með 5 manna miðju gegn stóru liðunum, kæfandi allt spil á miðjunni og rúmlega 70% leikmanna eru hægrifótarmenn þá er gulls ígildi og nánast trygging á titlum að hafa fljóta og leikna (vinstri) kantmenn sem geta teygt á vörnum, sent fastar og nákvæmar sendingar fyrir og komist reglulega á bakvið bakverði.

    Það er spurning hvort Ryan Babel sé rétti framtíðarleikmaður Liverpool á vinstri kant og hvað Rafa ætlar sér með hann. Kewell verður ekkert yngri og er yfirleitt meiddur. Babel hefur svo sannarlega hraðann en er ekki eiginlegur kantmaður í dag nema Rafa fari í að móta hann.
    Það var mikill skaði þegar McManaman fór frítt frá Liverpool og ekkert orðið úr hinum efnilega Richie Partridge, sýnist Paul Anderson vera fara sömu leið.
    Mér sýnist Liverpool VERÐA fara í að kaupa heimsklassa kantmenn í nánustu framtíð ásamt vinstri bakverði. Kantspilið er það skiptir máli í Englandi og skilur á milli meistara og wannabees.

  47. Margt til í því að kantmenn mættu vera fleiri á Anfield. Hausverkurinn er nú samt kannski að það eru ekki margir kantmenn til í heimsklassa. Houllier vinur okkar vildi ekki kaupa Ronaldo á sínum tíma og Parry klúðraði dílnum við Simao. Held að margt væri öðruvísi ef að þetta hefði gengið öðruvísi. Að mínu viti er bara einn leikmaður í heiminum sem er kantmaður í heimsklassa. Quaresma hjá Porto. Tel reyndar nær vonlaust að fá hann í janúar en vona að það verði gerð alvöru atlaga í sumar.
    En ég verð að fá að tjá mig enn um Dirk Kuyt.
    Eru menn að reikna með því að Rafael segi drengnum að hlaupa svona um allt???? Í vetur hefur Dirk Kuyt leikið 16 leiki í deildinni og skorað í þeim 3 mörk. Tvö úr víti og eitt úr horni. Átt eina stoðsendingu.
    Í fyrra skoraði hann 12 mörk og átti 4 stoðsendingar í 34 leikjum. Tölfræðin í deildinni er því arfaslök fyrir senter hjá Liverpool, hann skorar í 3,33ja hverjum leik og gefur stoðsendingu á 10 leikja fresti.
    Dirk Kuyt er duglegur leikmaður sem aðstoðar mikið við pressuna í varnarleiknum. Nú virðist Mascherano smám saman vera að fullkomna sinn leik og þá finnst mér alveg á hreinu að 4 varnarmenn plús Mascherano eiga að duga í almennilega varnarvinnu. Hinir 5 leikmennirnir verða að vera klassa sóknarmenn. Sem Dirk Kuyt er því miður ekki í enska boltanum.
    Mér leist vel á hann í byrjun, duglegur og grimmur, sívinnandi. Við félagarnir vorum vissir um að hann myndi aðlagast enska boltanum. En það gerir hann alls ekki. Ekkert mark úr opnum leik og stoðsending í 6-0 leik er skelfileg tölfræði sem segir bara það að þessi leikmaður er ekki nógu góður. Því miður. Verð mjög glaður ef hann afsannar þessa skoðun mína, því hann er á réttum aldri og virkar viðkunnanlegur í alla staði.
    Benitez verður auðvitað að taka það á sig að hafa keypt þennan leikmann, en málið núna er einfaldlega það að hann er að velja á milli Kuyt og Voronin, sem eru hvorugir nógu góðir. Því þarf Spánverjinn að breyta með að fá annan 20 marka mann til liðsins, þangað til gerum við of mörg 0-0 jafntefli!

  48. var ekki adal markmidid sidasta sumar einn heimsklassa striker of einn heimsklassa kantmadur? Hvad gerdist? Keyptum torres:) of hinn efnilega Babel sem fær varla ad spreyta sig I byrjunalidinu og svo buid! Einhvern veginn vissi madur ad timabilid yrdi svipad med alla thessa medalmenn…

  49. ég er búin að fá mig fullsadda af Kuyt , Voronin og Crouch… Þeir mega fara fj”#$%/& til mín vegna. Það er ekk nóg að spila sæmilega, það þarf að koma boltanum inn fyrir marklínuna líka.
    Burt með þá , hvernig væri að nappa Berbatov í staðinn bara! 🙂 það litist mér alls ekki svo illa á.

  50. Vala svala neglir þetta!

    Ef það byðist núna að skipta á Kuyt og Berbatov +- nokkrar millur þá yrði ég hæstánægður. Held að Berbatov gæti myndað hreint svakalegt sóknarpar með Torres.
    En á meðan Kuyt er enn leikmaður Liverpool og hefur rétt viðhorf (veit og viðurkennir að hann þarf að bæta markaskorið) þá styð ég hann án skilyrða til loka leiktíðar, sérstaklega þar sem hann er nýbúinn að missa föður sinn. Ef hann bætir sig hinsvegar ekkert frá núverandi formi til vors þá má alveg athuga að selja hann næsta sumar.

    Sissoko má selja núna strax í janúar enda búinn að vera sítuðandi í fjölmiðlum og kann varla að spila fótbolta eftir að hann skaddaði sjónina. Seljann á meðan við fáum vel fyrir hann og áður en hann skemmir móralinn í liðinu.

    Quaresma getur á góðum degi verið besti kantmaður í heimi en dettur langt niður þess á milli og er líka mikill hrokagikkur. Ekki viss að hann sé réttur kostur fyrir Liverpool og hann spilaði mjög illa með Barcelona. Spurning hvort hann höndli það yfirhöfuð að spila með stórliði.
    Ég væri samt til að taka sénsinn á honum ef hann verður ekki of dýr. Hrokafullir leikmenn virka oft vel í Englandi.

    Spurning samt hvort Gerrard sé ekki bara besta lausnin á hægri kantinn í frjálsu hlutverki. Nota peningana frekar í vinstri vænginn eða heimsklassa sóknarmenn og bakverði sem geta sótt.

One Ping

  1. Pingback:

Liðið gegn City

Áramótakveðja