Liverpool 3 – South China 1

Liverpool hóf þátttöku sína í Asian Trophy 2007 í dag með leik gegn South China. Fyrr um daginn hafði Porstmouth marið Fulham 1-0 þar sem Benjani skoraði sigurmarkið. En byrjum að líta á byrjunarliðið:

Carson

Arbeloa – Carra – Agger – Riise

Benayoun – Alonso – Sissoko – Kewell

Voronin – Crouch

Bekkurinn: Reina, Martin, Finnan, Hyypia, Pennant, Kuyt og Threlfall.

Nokkrar stjörnur voru annað hvort hvíldar, meiddar eða (skv. lýsendum Setanta) ekki með alþjóðlega leikheimild. Þetta voru þeir Babel, Gerrard, Torres og Lucas.

Leikurinn hófst rólega en það var ljóst frá upphafi að þetta yrði ekkert “walk in the park” fyrir Liverpool. Heimamenn voru tilbúnir í þennan leik og börðust vel. Það var síðan á 9 mín. leiksins að Sissoko fær fríspark á stórhættulegum stað. Riise hamrar tuðruna efst í markhornið beint úr spyrnunni. Glæsilegt mark frá Norðmanninum.
Eftir markið róaðist leikurinn töluvert og lítið um góð færi. Voronin og Alonso náðu vel saman í sínu spili og var eftirtektarvert að fylgjast með því hversu góðan leikskilning Voronin er með. Lítur fantavel út þessi úrkaníski landsliðsmaður.

Það var svo á 27 mín. sem Alonso á góða sendingu inn fyrir vörn China og þar er Voronin í baráttu við varnarmann heimamanna. Voronin fellur og víti er dæmt. Þetta var að mínu viti “soft” víti en víti samt. Alonso fór á vítapunktinn og afgreiddi það örugglega í markið, 2-0 fyrir Liverpool og tæpur hálftími búinn. Þarna hélt ég að við myndum afgreiða þennan leik örugglega og án mikillar fyrirhafnar en það átti eftir að breytast.

Lítið markvert gerðist fyrr en Sissoko fékk dæmt á sig ódýra aukaspyrnu ca. 40 metra frá markinu. Fyrirliði heimamanna, HQU, tekur spyrnuna og boltinn flýgur beint inn í markið. Ákaflega klaufalegt af hálfu Carson en að sama skapi vel gert hjá fyrirliðanum. 2-1 og núna var þetta allt í einu orðinn leikur aftur. Þetta mark skrifast á reikning Carson og hjálpar honum ekki í baráttunni við Reina um markmannsstöðuna. Eftir markið er leikurinn í góðu jafnvægi og dómari leiksins flautar til hálfleiks, 2-1.

Engar skiptingar voru gerðar í hálfeik hjá okkur en á 55 mín. var tvöföld skipting, þeir Pennant og Kuyt komu inná fyrir Kewell og Crouch. Benayoun færði sig þá yfir á vinstri kantinn. Leikurinn var annars tíðindarlítill en það var einna helst lífsmark með Pennant, Sissoko og Voronin. Á 65 mín kom Finnan inná fyrir Benayoun, Arbeloa fór í vinstri bakvörðin og Riise á kantinn. Það var síðan ekki fyrr en á 73 mín. sem næsta mark leit dagsljósið og var það ákaflega fallegt eftir gott samspil Agger, Riise og Kuyt. Markið skoraði Agger með föstu skoti frá vítateignum, 3-1.

Strax eftir markið kom skipting, Thurfall kom inná fyrir Alonso og þá gerðist svolítið athyglisvert. Síðustu 10 mín af leiknum voru þeir Hyypia og Arbeloa á miðri miðjunni hjá okkur þar sem Thurfall fór í vinstri bakvörðinn. Þeir stóðu sig hreint út sagt ágætlega og komumst við oft í fín færi en náðum ekki að bæta við fjórða markinu. Voronin, Kuyt og Pennant áttu allir upplagt marktækifæri. Á 82 mín. var síðasta skipting okkar en þá kom David Martin inná fyrir Carson í markið.

Heilt yfir var þetta fín frammistaða við erfiðar aðstæður en það er gríðarlegur hiti og raki í Hong Kong. Það stóðu sig allir ágætlega í leiknum en fyrir mér var Voronin maður leiksins og heldur hann áfram að koma mér skemmtilega á óvart. Það er ljóst, ef eitthvað er að marka þessa æfingaleiki, að Rafa ber traust til Voronin og hann mun spila reglulega í vetur. Benayoun sást lítið og Carson gerði sig sekan um klaufaleg mistök. Það var ánægjulegt að sjá Kewell sprækan á kantinum og ljóst er að Sissoko mætir 100% klár í þetta tímabil. Pennant átti góða innkomu og Agger er klárlega verða einn af bestu ungu varnarmönnum í heiminu í dag. S.s. góður sigur á spræku South China liði þrátt fyrir að mikilvæga hlekki vantaði í liðið í dag.

Næsti leikur í Asian Trophy er því gegn Portsmouth á föstudaginn kl: 12:30.

14 Comments

  1. Mér tókst að horfa á þennan leik í dag, þökk sé stórkostlegri gúrkutíð í vinnunni og Vestfjarðargöngunum sem styttu aksturstímann á milli Ísafjarðar og Flateyrar úr rúmum klukkutíma niður í tæpt kortér. Það er tvennt sem stóð uppúr í þessum leik: Fyrst var það jákvætt að sjá hvað menn eru í góðu formi, sérstaklega fannst mér Alonso og Agger góðir í þessum leik. Alonso er venjulega ekki sá fljótasti að koma sér í leikform á haustin en hann virkar snarpur þessa dagana. Hitt atriðið er þetta blessaða mark sem við fengum á okkur. Carson verður einfaldlega að nýta þá leiki sem hann fær betur en þetta ef Reina á að hafa áhyggjur af stöðu sinni í liðinu. Þetta var frábært skot hjá kínverska fyrirliðanum, en að sama skapi hundléleg markvarsla.

    Samt, enn og aftur skora okkar menn þrjú mörk í æfingaleik. Mörkin eru núna orðin 14 í 5 æfingaleikjum sem hlýtur að vera ánægjulegt. Og menn eins og Kuyt, Torres og Babel eru ekki enn komnir á blað. 🙂

    Það verður svo athyglisvert að sjá liðið og frammistöðuna á föstudag. Það má segja að það verði fyrsti “marktæki” leikur tímabilsins, þar sem við erum að keppa við annað lið úr Úrvalsdeildinni sem ætti að vera á svipuðum stað og okkar menn hvað líkamlegt form og spilamennsku varðar.

  2. Ég sá síðasta korterið af fyrri hálf og djöfull er “þessi” Voronin góður. Mjög góður. Síðan fannst mér meistari Alonso standa sig feykivel á miðjunni.

  3. Sá síðari hálfleikinn. Fannst Kuyt og Pennant skila sínu vel í dag. Kínamennirnir réðu illa við þá félaga og einnig var ánægjulegt að sjá að í lok leiks var eins og heimamenn væru þreyttari en okkar menn þrátt fyrir langt ferðalag og hitasvækju. Einnig finnst mér Arbeloa alltaf líta betur og betur út.

    Framlag Kuyts í marki Aggers var frábært og óeigingjarnt. Vinnur gríðarvel fyrir liðið og fær stundum ekki nóg credit fyrir það. Verður spennandi að sjá hvernig honum gengur á öðru tímabili sínu.

    Hvað segja menn svo um Kewell í dag, ég hefði viljað sjá hans framlag en honum var skipt útaf um það bil sem byrjaði að fylgjast með.

  4. sá ekki leikinn en ég sagði fyrir ca viku síðan að varnar og miðjumenn séu að sjá um mörkin og enn eru þeir að skora ,er svo sem alveg sama hverjir skora en framherjar eiga að skora til þess eru þeir, ég er með smá áhyggjur með það.þeir verða að skora ef liv. ætlar að vera á toppnum, en góður sigur

  5. Einar Örn, mér er ekki sama hver skorar mörkin. Helst af öllum vil ég sjá Carragher skora! 🙂

  6. Ef ég á að halda áfram að láta mig dreyma þætti mér reyndar einstaklega gaman að sjá Sissoko setj’ann! 🙂

  7. Góður Hannes ! Auðvitað viljum við öll sjá Carra skora enda er maðurinn með afburðum góður í þeim málum.
    En maður þarf að fara taka sér frí frá vinnu ef maður ætlar sér að sjá þennan leik,… það er ekki oft sem maður gerir það (gerði það síðast 23.05.2007-ótrúlegt en satt)

  8. Svakalega lítur þetta vel út, liðið er á fullri ferð áfram og það er ekkert sem fær okkur stöðuvað úr þessu, með frábærann mannskap og besta þjálfara í heimi 🙂

    Avanti Liverpool

  9. Sælir,

    Hef ekki kvittað fyrir mig hingað til en …… Takk fyrir frábæra síðu, skoða hana min 3x á dag.

    Snorri

  10. eins og ég skrifaði er mér nokk sama hverjir skora EF VIÐ VINNUM LEIKINN en varnar og miðjumenn mega ekki vera að því þegar úrvalsdeildin hefst þeir hafa í nóu að snúast þess vegna vil ég sjá framherjana skora og skora ,helst 80-100 mörk en varnar og miðjumenn meiga eiga eitthvað af þessum mörkum, tek undir með snorra frábær síða og oftast skemtileg umræða gott að fá að láta skoðun sýna í ljós og fá það óþvegið til baka TAKK TAKK

  11. Ef e-ð er þá hefur það nú verið okkar akkilesarhæll að varnar- og miðjumenn skora ekki nógu mikið, sjá t.d. síðasta tímabil, þá skoruðu sóknarmennirnir okkar u.þ.b. jafn mikið og sóknarmenn ManU, en hinsvegar settu miðjumennirnir þeirra helmingi fleiri mörk en miðjumennirnir okkar, þannig að ég persónulega er bara hæstánægður ef þeir eru farnir að drullast til að skora. Ég skil heldur ekki alveg þá bjartsýni að ætlast til þess að fjórir/fimm leikmenn skori 20 mörk á mann, ég held að við gætum allir verið sáttir ef að sóknarmennirnir okkar rjúfa 50 marka múrinn (svo lengi sem að varnar- og miðjumenn skora sinn skerf).

Leiva (ekki) með í dag (uppfært)

Pressa