Mánaðarskipt greinasafn: júl Á

Byrjum við með -21 stig?

Í framhaldi af færslunni hér að neðan, þá ákvað ég að setja smá hugleiðingar niður á „prent“ um þetta marg umtalaða mál að liðið okkar geti hreinlega ekki brúað þetta 21 stig sem Man U hafa í forskot á okkur eftir síðasta tímabil. Í fyrsta lagi taldi ég að öll lið byrjuðu nýtt tímabil með 0 stig. Ég hef hreinlega ekki séð neins staðar að breyting hafi verið gerð þar á. Fyrsti leikur er þann 11. ágúst og þá byrja öll lið með hreint borð og í rauninni eru þau öll hnífjöfn í stigum talið í baráttunni um Meistaratitilinn. En hvernig má það þá vera að allir séu að tala um bilið sem við þurfum að brúa til að komast í tæri við hinn heilaga bikar?

Menn eru væntanlega að vísa í getumun liða þegar kemur að leikmannahópum þeirra. Lítum aðeins á nokkur dæmi um þetta á milli tímabila:

2001:
Man.Utd vann með 80 stig, Arsenal endaði með 70, Liverpool 69 og Chelsea 61.

2002:
Arsenal vann með 87 stig, Liverpool endaði með 80, Man.Utd 77 og Chelsea 64.
Þarna má sjá 20 stiga sveiflu á milli ára á milli Arsenal og Man.Utd, Arsenal í hag.

2003:
Man.Utd vann með 83 stig, Arsenal endaði með 78, Chelsea 67 og Liverpool 64.
Þarna er 15 stiga sveifla Man.Utd í hag á milli tímabila á Arsenal. Heil 22 stiga sveifla á milli tímabila Liverpool og Man.Utd.

2004:
Arsenal vann með 90 stig, Chelsea endaði með 79, Man.Utd 75 og Liverpool 60.
Núna kom 20 stiga sveifla Arsenal í hag gegn Man.Utd, sama gildir um sveiflu milli Chelsea og Man.Utd.

2005:
Chelsea vann með 95 stig, Arsenal endaði með 83, Man.Utd 77 og Liverpool 58.
Sveiflan á milli Chelsea og Arsenal hérna eru 23 stig Chelsea í hag á milli tímabila. Sveifla Aukning stigamunar milli tímabila hjá Chelsea og Liverpool er 18 stig.

2006:
Chelsea vann með 91 stig, Man.Utd endaði með 83, Liverpool 82 og Arsenal 67.
Á þessu tímabili saxaði Liverpool niður ansi mörg stig milli tímabila á hin liðin. Sveiflan gagnvart Chelsea eru heil 28 stig, gagnvart Man.Utd voru þau 20 og Arsenal var það hvorki meira né minna en 40 stiga sveifla.

2007:
Man.Utd vann með 89 stig, Chelsea endaði með 83, Liverpool 68 og Arsenal 68.
Á síðasta tímabili var sveiflan á milli Man.Utd og Chelsea 14 stig á milli tímabila. Sveiflan hjá Liverpool miðað við Meistaratitilinn er óhagstæð upp á 22 stig.

Það er ennþá sú regla í gildi að það byrja öll lið með jafn mörg stig í upphafi tímabils. Það er líka ómögulegt að segja hvernig þau þróast og gefa tölurnar hérna að ofan það til kynna. Sveiflur á milli einstaka liða milli ára getur verið hrikalega mikil og 21 stig er hreinlega ekki stórt mál að brúa þegar búið er að núlla muninn út. Á síðasta tímabili voru Man.Utd verulega lukkulegir með prógram sitt í byrjun og með að lykilmenn voru heilir alla fyrstu mánuðina. Chelsea misstu dampinn þegar lykilmenn þeirra meiddust og Liverpool byrjuðu á hrikalegu prógrammi og fóru bara alls ekki í gang fyrr en alltof alltof seint.

Það þýðir samt akkúrat ekkert fyrir lið að afsaka sig, pointið mitt með þessu er að sýna fram á það að það er algjörlega útilokað að segja til um þetta. Því fer það hrikalega í taugarnar á mér þegar hinir ýmsu sérfræðingar eru að tala um það að það sé vonlaust að brúa þetta 21 stiga bil á milli tímabilanna. Kannski vinnur Man.Utd ennþá stærri sigur en síðast. Kannski smella kaupin hjá Liverpool loksins og þeir heyja harða titilbaráttu. Kannski taka menn aukna ábyrgð hjá Arsenal við brotthvarf Henry og stíga upp nokkur þrep. Kannski mun Chelsea ná upp sínum fyrri styrk með Cech og Terry heila. Þetta eru allt ef og kannski. Kaup og sölur hafa þarna einnig áhrif, og svona til að gefa mönnum smá mynd af þeim málum á þessum tilteknu tímabilum, þá tók ég það saman fyrir öll liðin. Ég vil taka það fram að þetta eru allir leikmenn sem skráðir voru hjá liðunum á Soccerbase.com, og svo LFCHistory.net.

Continue reading

Macca: Liverpool eru glataðir!!!

Í Bandaríkjunum hefur ákveðinn frasi rutt sér rúms meðal fólks síðustu mánuðina. Þessi frasi er „Oh Don Piano“, og notar fólk hann yfirleitt til að lýsa mjög ákveðnu fyrirbæri. Frasinn er kominn frá myndbandi sem einhver sendi inní svona home-videos sjónvarpsþátt þar sem köttur mjálmar eitthvað út í loftið og viðkomandi þykist vita að kötturinn geti talað (sjá YouTube-myndband). Með öðrum orðum, þá bendir frasinn „Oh Don Piano“ til þess að manneskja sé að sjá eitthvað þar sem er í rauninni ekkert.

Gott dæmi um „Oh Don Piano“-fréttamennsku er flutningur fréttamanna í Englandi af ummælum Steve McManaman í gær. Hann var spurður um möguleika Liverpool á að vinna deildina í vetur og hann svaraði því af hreinskilni. Niðurstaðan var sú að blöðin birtu eftirfarandi fyrirsagnir:

Vá. Þvílíkar fyrirsagnir. Hann hlýtur að hafa sagt eitthvað virkilega umdeilt, ekki satt? Eitthvað eins og t.d. að þrátt fyrir eyðsluna sé Rafa enn ekki nógu góður stjóri til að vinna deildina, eða að Liverpool-liðið sé vonlaust og einhæft, eða eitthvað í þá áttina. Ekki satt? Ég meina, hvaða máli skiptir það hvað einum manni finnst? Hvaða þörf er á því að birta hans álit í sér frétt, þótt sá maður heiti Steve McManaman?

Við skulum skoða hvað nákvæmlega hann sagði:

„I think we’re talking about the top four or five now Tottenham have spent a lot of money. But I still think it will be very difficult to dislodge Man United and Chelsea – as much as everybody else has gone out and spent, they’ve spent too.

The spending hasn’t stopped really, they’ve just been buying more players and, the fact there was 21 points between Manchester United and Liverpool last year, it’s a big gap. After spending money Liverpool fans will definitely expect. The Holy Grail for Liverpool fans is the Premiership – for the other big teams it seems to be the Champions League.“

Bíddu, er þetta allt og sumt? Liverpool hafa eytt peningum og því gera aðdáendurnir kröfur, en þetta verður samt erfitt af því að hin liðin hafa líka eytt pening og af því að bilið í fyrra var mikið? Er það allt og sumt sem hann sagði? Eru þetta orðin sem hann notaði til að „blast“-a Liverpool? Til að ráðast harkalega að liðinu?

Oh don piano.

Það væri þá aldrei…

… að við gætum selt Le Tallec en hann er kominn tilbaka til Liverpool eftir árs útleigu hjá Sochaux en þar þótti hann standa sig ágætlega. Hann skoraði m.a. í úrslitaleik frönsku bikarkeppninnar. Þegar þeir félagar, Le Tallec og Pongolle, komu til Liverpool áttu þeir að vera efnilegustu leikmenn Frakka og batt Houllier miklar vonir við þá. Hvorugur náði aldrei að festa sig í sessi hjá félaginu þó Pongolle hafi verið nálægt þegar hann lenti í erfiðum meiðslum, sleit krossbönd, og náði aldrei sama flugi aftur. Pongolle var síðan fyrst lánaður til Blackburn og síðan til Huelvo á Spáni þar sem hann sló í gegn. Þeir keyptu hann að lánstímanum loknum. Le Tallec hefur m.a. verið hjá Sunderland, Saint-Étienne og Sochaux en eftir sem áður ekki verið seldur. Hann spilaði nýverið með varaliðinu gegn Peterborough en það er samt deginum ljósara að hann á enga framtíð hjá Liverpool. Þetta er ekki spurning hvort heldur hvert drengurinn fer.

Continue reading

Nýjar áherslur í markaðsmálum Liverpool

Í kjölfar þeirrar athygli sem nýlegur pistill okkar um verðlagningu Sýnar vakti tókum við á Liverpool Blogginu þá ákvörðun að bjóða Daða Rafnssyni markaðsfræðingi gestahlutverk hér á síðunni. Hann mun því í framtíðinni koma með pistla um allt sem snýr að markaðs- og fjármálasviði Liverpool FC. Þetta er hans fyrsti pistill, bjóðum hann velkominn. –Kristján Atli


Nýlega var Ian Ayre ráðinn sem markaðsstjóri (Commercial Director) Liverpool eftir mikla leit. Ayre var áður stjórnarformaður og forstjóri Huddersfield Town og hefur mikla reynslu af sölu sjónvarpsréttinda. Hann hefur einnig umtalsverð sambönd í Asíu eftir að hafa rekið fyrirtæki sem var brautryðjandi í framleiðslu myndlykla fyrir gervihnattastöðvar á borð við SKY. Ayre hefur verið Liverpool aðdáandi frá blautu barnsbeini og er söludrifinn með afbrigðum.

Ayre gæti orðið mikilvægasti „nýji leikmaðurinn“ á Anfield í vetur því sú umhyggja sem stjórnendur Liverpool hafa sýnt vörumerki sínu í gegnum tíðina hefur verið skelfileg.

Í dag eru vinir okkar í Manchester United langt á undan okkur í öllu sem viðkemur markaðsmálum og vörumerkjastjórnun. Þetta kemur meðal annars fram í því að ef þú ættir nokkra milljarði punda aflögu til að kaupa fótboltalið í dag yrðir þú væntanlega að greiða helmingi meira fyrir United heldur en fyrir Liverpool.

Ef líkja mætti vörumerkjastjórnun við það að keyra bíl er United í botni á nýbónuðum Bugatti Veyron á meðan við erum ennþá að keyra Lexusinn hans pabba. Á 90 kílómetra hraða.

Stundum hefur maður klórað sér í hausnum og spurt sjálfan sig hvað þessir menn eru að hugsa. Á meðan batteríið í kringum United gerði Beckham að stjörnu í Gillette auglýsingum útum allan heim var markaðsdeild Liverpool að senda Jason McAteer og Steve McManaman til að opna nýja McDonald´s staði til að komast í staðarblöðin.

„Liverpool´s two Big Macs“. Guð hjálpi okkur!

United er með stærri völl, betra aðgengi að vellinum, flottari búð, meira vöruúrval, fleiri veitingastaði, fleiri fyrirtækja-stúkur og mun markvissari vörumerkjastjórnun. Á meðan við höfum hangið í Reebok-bolum og auglýst danskan bjór hafa hinir gert tímamótasamninga við Vodafone og Nike.

Og þetta lekur yfir í PR-hliðina, þar sem Liverpool hefur líka dregið lappirnar. Steven Gerrard væri fyrirliði enska landsliðsins í dag ef Liverpool hefði staðið betur að markaðsmálum sínum. Jamie Carragher væri fyrstur í vörnina með John Terry. Þið trúið því kannski ekki að þetta hafi svo mikil áhrif en þannig er það nú bara. Fjölmiðlar í London hafa mikil áhrif á ímynd leikmanna og þar af leiðandi val í landsliðið. Sjáið bara Rio Ferdinand og Ledley King…meira að segja Zat Knight og Michael Duberry hafa verið hafnir til skýjanna af London-pressunni.

Ég hef reynt að selja bæði Liverpool og Manchester Utd. vöru fyrir hönd bandarísks fyrirtækis. Þessi vara hafði slegið í gegn hjá öllum helstu íþróttaliðum í Bandaríkjunum og átti eftir að slá í gegn á Englandi nokkru seinna. United-menn tóku á móti mér á flottri skrifstofu með útsýni yfir Old Trafford þar sem 40 manns voru að vinna í markaðsmálum. Allt pottþétt. Að eiga við Liverpool var eins og að eiga við ítalskt ríkisfyrirtæki og það var ekki einu sinni hægt að komast á fund. Hversu mörgum tækifærum hefur klúbburinn misst af vegna svona vinnubragða?

En höfum þá eitt enn alveg á tandurhreinu, möguleikar vörumerkisins hjá Liverpool eru gífurlegir, jafnvel betri heldur en hjá Manchester United. Og þetta skildu Hicks og Gillett þegar þeir voru að kaupa liðið. Þeir geta mögulega tvöfaldað fjárfestingu sína í Liverpool á stuttum tíma ef þessi tækifæri eru nýtt.

Hicks segir að hann hafi hrifist af frumkvöðlakrafti Ayres. Hann hafi brotist til efna af sjálfdáðum og skilji manna best möguleikana sem felist í heimamarkaði, Asíumarkaðinum og nýjum fjölmiðlum eins og internetinu. „Verkefni hans felst í að gera vörumerki Liverpool jafn sigursælt á heimsvísu og liðið hefur verið inni á vellinum“, segir Hicks.

Ég held að helstu verkefni og forgangsröð Ayres verði eftirfarandi. Ég mun svo skrifa sérpistla um þessi efni nánar á næstunni:

  • Vörumerkið og styrktarmál

Skilgreining og útfærsla. Barcelona vildi ekki „óhreinka“ búninginn sinn með hvaða auglýsenda sem var. Hvernig vill Liverpool staðsetja sig í hugum knattspyrnuáhugamanna? Það skiptir máli hvaða nafn völlurinn fær, hverjir auglýsa framan á búningnum og hvernig gæði merkisins er framsett. Ekki búast við því að sjá Fernando Torres opna McDonalds í Toxteth.

  • Sjónvarp og internetið

Sjónvarpstöð klúbbsins verður keyrð upp og það má búast við því að stóru liðin fari að heimta æ stærri skerf í sinn hlut af beinum útsendingum. Það sem skiptir enn meira máli er að netsíðan verður gerð aðgengilegri og markvissari. Í dag er hún dæmi um allt sem er vont í vefhönnun. Ruglingsleg, flókin og of mikið af efni og ómarkvissum auglýsingum.

  • Nýji völlurinn, miðasala og vörudreifing

Allir sem hafa komið á Anfield vita að hann stenst engan veginn kröfur dagsins í dag. Aðkoman fyrir rútur og bíla er ómöguleg, búðin er alltaf troðfull, þröng og illa skipulögð, veitingastaðir eru fáir og gæðin á matnum eru ekki til fyrirmyndar. Þetta mun allt breytast með nýjum velli. Vissuð þið að fyrsta árið sem Red Café opnaði á Old Trafford var sá veitingastaður með hærri ársveltu heldur en Wimbledon Football Club sem þá var að keppa við Man Utd. í Úrvalsdeildinni? Einnig skipta fyrirtækjastúkurnar mjög miklu máli, þrátt fyrir að menn haldi að þar eigi sér bara stað rækjusamlokuát.

Með stærri velli verður líka hægt að selja fleiri miða og á fjölbreyttari verðum sem þýðir að hægt er að þjónusta breiðari hóp aðdáenda.


Hvað vörudreifingu varðar má búast við fleiri Liverpool Megastore á helstu markaðssvæðum í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu ásamt aukinni sölu í gegnum netið. Búðin á nýja vellinum verður gjörólík þeirri sem við þekkjum svo vel.Kapphlaupið um áhangendur skiptir máli fyrir framtíðarvöxt liða. Í dag er Liverpool í 6. sæti yfir verðmætustu vörumerkin í knattspyrnu þrátt fyrir að vera tíunda verðmætasta liðið. Ian Ayre og markaðsdeild Liverpool er sett það verkefni að koma liðinu á toppinn á báðum vígstöðvum. Næst ætla ég að ræða um það af hverju það er ekki bara mögulegt fyrir Liverpool heldur líka mjög líklegt að svo verði.