A Villa 0 – L’pool 0

Dömur mínar og herrar, þið sem þolduð þessa hörmung frá upphafi til enda, til hamingju. Þið voruð að enda við að horfa á lélegasta leik Liverpool á tímabilinu, sem og leiðinlegasta knattspyrnuleik Úrvalsdeildarinnar tímabilið 2006-07. Það þori ég að fullyrða.

Rafa byrjaði með þetta lið:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Gerrard – Mascherano – Sissoko – Aurelio

Kuyt – Bellamy

Bekkur: Dudek, Hyypiä, Alonso, Pennant, Fowler.

Það er tilgangslaust að segja frá gangi leiksins sem slíkum, þannig að ég ætla að gera þetta í punktaformi:

* Dómarinn var lélegur í dag, sem betur fer fyrir okkur. Hann var svona dómari sem flautaði gjarnan of snemma og leyfði leiknum ekki að fljóta, en stærsta dæmið var undir lok fyrri hálfleiks þegar hann dæmdi ekki augljósa vítaspyrnu á Liverpool þegar Steve Finnan braut á Stilian Petrov í miðjum teignum. Sem betur fer fyrir okkur var dómarinn slappur.

* Robbie Fowler er gamall, hægur og úr sér genginn. En eins og Kuyt og Bellamy eru að spila vill ég sjá Robbie Fowler byrja inná í næsta leik. Það gerðist trekk í trekk gegn United í síðasta deildarleik að boltinn kom fyrir utan af kanti og hvorki Bellamy né Kuyt réðust á hann. Í dag sá maður það aftur, í þau fáu skipti sem Gerrard, Pennant eða Aurelio náðu fyrirgjöfum var ENGINN mættur til að a.m.k. reyna að trufla Sorensen. Svo kom Robbie Fowler inná og í næstu fyrirgjöf, frá Aurelio, rétt náði Sorensen boltanum áður en Fowler potaði í hann á markteig og svo tveimur mínútum síðar kom hættulegasta færi okkar manna þegar Pennant gaf fyrir frá hægri og Fowler átti góðan skalla niður í markhornið nær sem Sorensen varði vel. Fowler er gamall, hægur og úr sér genginn en hann er eini framherjinn sem við eigum í dag sem ræðst á helvítis markið.

* Jamie Carragher og Daniel Agger eru menn leiksins. Af því að þeir héldu John Carew niðri og skiluðu sínu. Aðrir voru slakir – jú, liðið hélt hreinu og var aldrei undir pressu varnarlega en það er ekki nóg fyrir lið sem ætlar að vera á toppnum. Þetta Villa-lið var grútlélegt í dag og Chelsea og/eða United hefðu slátrað þeim. En ekki okkar menn, neibb, markalaust jafntefli er staðreynd.

* Og að lokum. Rafa hlýtur að hafa lært það í dag að það gengur ekki að hafa Mascherano og Sissoko eina á miðjunni. Þetta eru tveir frábærir leikmenn en hvorugur þeirra býr til sóknir eða ógnar marki andstæðinganna. Sáuð þið muninn á flæðinu áður og eftir að Sissoko fór útaf fyrir Alonso? Eins og svart og hvítt. Ef annar hvor af Gerrard eða Alonso er inná miðjunni með þeim er í lagi að spila öðrum þeirra eða báðum, en það mun aldrei skila árangri sóknarlega að hafa Sissoko og Mascherano eina á miðjunni. Það er augljóst.

Nóg komið af þessu helvíti í bili. Maður bíður tólf fokking daga á milli leikja til þess eins að fá þessa hörmung og þetta metnaðarleysi, bæði á bekknum og inná vellinum, og þarf svo að bíða tvær fokking vikur eftir næsta leik. Og það er Arsenal á Anfield, þar sem þeir hafa þegar skorað níu mörk í vetur. Oh brother …

49 Comments

  1. Get ég fengið þessar 90 mínútur aftur?

    Þvílík ótrúleg leiðindi og metnaðarleysi! Bað Rafa um markalaust jafntefli fyrir leikinn? Sprautaði hann róandi lyfjum í vatnið? Langaði engum í Liverpool liðinu að vinna þennan leik?

    Við getum gleymt þriðja sætinu núna ef að Arsenal vinnur á eftir og það er sorglegt miðað við það að við vorum að keppa um 2. sætið í fyrra.

    * Af hverju er Riise ekki settur á kantinn? Hann er augljóslega 100 sinnum betri kantmaður en hinn vonlausi Aurelio?
    * Af hverju spilar Kuyt sem miðjumaður?
    * Hvenær skapaði Kuyt sér síðast marktækifæri?
    * Af hverju í fjandanum var Pennant ekki í liðinu??? Hann er eini maðurinn sem ógnaði eitthvað að ráði í leiknum.
    * Af hverju eru tveir mjög varnarsinnaðir miðjumenn í liðinu gegn Aston Villa?? Þetta var ekki Barcelona, þetta var Aston Villa!

    Það sem pirraði mig var að það var enginn sem virtist vilja vinna þennan leik. Jú, 3. og 4. sætið skiptir ekki öllu máli, en það er óþarfi að láta okkur verða vitni að svona stórkostlegum leiðindum og metnaðarleysi.

  2. Algerlega sammála Kristjáni og Einari … fyrir mér var þetta langleiðinlegasti leikur tímabilsins (og Liverpool í langan tíma). Lið með svona metnað vinnur ekki neitt! Agger og svo Carra eru menn leiksins hjá mér … Rúmar 90 mínútur af leiðindum – úff! Hvað er langt síðan við skoruðum síðast … jú – Steven Gerrard skoraði fjórða markið á móti Sheffield á 73. mínútu. Síðan hafa komið þrír markalausir leikir!

  3. Eftir þennan ömurlega leik má ég til með að sýna ykkur það sem haft er eftir Rafa á Liverpool síðunni íslensku. Það var ekki að sjá í þessum leik að áherslur hans séu að halda stöðunni í ensku deildinni. Þetta hefur maður því miður séð of oft í vetur. Algjör meðalmennska, áhuga- og andleysi sem er liðinu og stjóranum til skammar og misbýður stuðningsmönnum þess.

    “Við höfum staðið okkur vel í því því að komast í átta liða úrslita í Meistaradeildinni. En við vitum líka hversu miklu skiptir fyrir okkur að halda okkur í einu af fjörum efstu sætunum í deildinni.Við höfum lagt hart að okkur alla leiktíðina til að ná að vera í einu af fjórum efstu sætunum. Sem stendur erum við þar og við ætlum okkur að halda stöðu okkar þar. Það eru margir mikilvægir leikir eftir í Úrvalsdeildinni. Ég tel að aðalmarkmið okkar sé enn að halda stöðu okkar meðal fjögra efstu liða. Við ætlum okkur líka að komast áfram í Meistaradeildinni. En þegar hver leiktíð hefst skiptir mestu að vera eins nærri toppi deildarinnar þegar henni lýkur. Það er enn að miklu að keppa.”

  4. Skelfilegt að sjá að maður eins og Aurelio sé ekki einu sinni að reyna að nýta tækifærin sem hann fær í byrjunaliðinu ! Hann reyndi aldrei að taka menn á eða neitt svoleiðis til að sýna að hann eigi heima í liðinu..?
    Og Kuyt og Bellamy mega nú einu sinni vinna leik fyrir okkur með einhverju einstaklingsframtaki eins og framherjar eiga að geta gert í svona leikjum….

  5. Tek undir með þeim félögum Kristjáni og Einari, þetta var ótrúlega leiðinlegur leikur. Liverpool á aldrei að bjóða aðdáendum sínum upp á slíka hörmung.

    Hvers vegna að stilla upp svona varnarsinnaðri miðju í úti leik á móti liði sem pakkar í vörn með einn risa frammi.

    Hversu slæm er staðan eiginlega orðin á vinsti kantinum? Aurelio var skelfilegur, það hefði ekki veikt okkur sóknarlega að hafa Riise á þar. Ég sé Kewell fyrir mér í hillingum.

    Það vantar meiri hraða í sóknir liðsins, sjáið manu og C$$$$$$$ þeir eru með eldfljóta og leikna leikmenn á köntunum og í sókninni.

    Um leið og Benitez hefur bætt úr þessu í sumar munum við verða mun líklegri til að veita topp 2 liðinum meiri keppni um titilinn.

    Tek líka undir með einari, það vantar mun meiri grimmd upp við mark andstæðingana, þegar boltinn kemur fyrir þá er enginn að gera áras á hann, heldur bíða allir út í teig eða fyrir utan hann.
    Þó að það sé slæmt að segja það þá mætti Liverpool læra af manu í þeim efnum, þar ráðast menn á markið 3 til 4 í senn.

    Vonandi verður leikurinn gegn Arsenal mun skemmtilegri þar sem ég verð á svæðinu.

    Kv
    Krizzi

  6. Þetta var án efa leiðinlegasti leikur leiktíðarinnar hjá okkar mönnum.

    1.lagi. Þá voru Bellamy Og Kuyt arfaslakir í leiknum og Bellamy átti án efa sinn lélegasta leik í dag í rauðu treyjunni. Fowler kom samt með ágætis innkoma og það hefði verið flott hefði hann skorað.:)

    2.lagi. Vinsti hliðin var skelfileg í dag, Riise var í ruglinu og Aurelio einnig, ég vona að Aurelio fari sem fyrst frá Anfield og ég væri ekkert á móti því bara að fá Gareth Bale inn í sumar og fleygja Riise á bekkinn!!

    3.lagi. Þá voru skelfileg mistök að byrja með Sissoko og Mascherano eins og fleiri nefndu hérna fyrir ofan. Ég hefði verið sáttur við Alonso og Mascherano og ég er ekki frá því að Sissoko hefur lélegustu sendingar og móttöku getu í úrvalsdeildinni!!!! Gerrard átti ekki góðan leik en var aðeins frískari í síðari hálfleik. Alonso kom sterkur inn með gott flæði og flottar sendingar, Pennant einnig kom mjög flottur inn.

    Maður vinnur ekki leiki án þess að skora og ef að við ætlum að halda svona áfram restina af tímabilinu þá verðum við mjög heppnir með Meistardeildarsæti!!.

    Áfram Liverpool!

  7. Hef sjaldan gagnrýnt Rafa og reyni yfirleitt að verja hann og sjá eitthvað jákvætt við það sem hann er að gera en núna er ekki hjá því komist.

    Nokkrir punktar:

    1. (Skiptist í nokkra punkta)

    a) Eftir svona 15 mín. leik hefðu allir þjálfarar í heiminum tekið annan af miðjumönnunum út af (…og ekki fyrir framherja, hvað þá skárri framherjann !).

    b)Allir þjálfarar í heiminum hefðu fækkað í vörninni.

    c)Allir þjálfarar í heiminum hefðu sett Steven fokking Gerrard inn á ******** miðjuna !

    Niðurstaðan varð hins vegar:

    Beðið til 60 mín. að setja Xabi inn á og engu breytt í leikstílnum, þ.e. ennþá sama ruglið.

    2. Þvert á móti við punkt 1-a hefði enginn þjálfari í öllum heiminum tekið framherja (…hvað þá skárri framhjerann) út af þegar hann loksins setur kantmann inn á, vantar alla rökhugsun í menn ?! Á hvað áttu þessar fyrirgjafir að fara ?! Hinn æðislega Kyut sem væri réttara að spyrja hvenær gaf síðast á samherja frekar en að spyrja hvenær hann fékk færi !

    3. Til hvers að byrja með tvo bakverði á vinstri kantinum ?! Til að verjast ofurhraða John Carew eða látlausum sóknarlotum Villa ?! Þetta leiðir svo beint að punkti 4…

    4. Af hverju er ekki fækkað í vörninni ?! Enn og aftur, var John Carew og félagar virkilega svona hættulegir að það þurfti 6 fokking menn til að passa þá ?!

    5. Eru menn ekki betur mótiveraðir en þetta ?! Það var ekki minnsti áhugi á sigri í þessum leik nema kannski rétt þegar Fowler kom inn á en hann er bara búinn, face it !

    6. Af hverju er Craig Bellamy tekinn útaf í staðinn fyrir Kuyt ?! Þetta er búið að gerast núna í 3 leikjum í röð (Manjú, Barca og umræddum leik) og þetta hefur ALDREI virkað ?! Eru menn virkilega svona hræddir við að taka áhættu að þeir kjósa svona lagað fram yfir.

    7. Var semsagt dagsskipunin í dag, gegn liðinu í 14 (correct me if i´m wrong) sæti deildarinnar og hefur unnið 2 af síðustu 17 leikjum (…gegn West Ham og Watford) og gert 12 jafntefli (13 núna), var að halda hreinu ?! Það var númer 1, 2, 3. Svo hefði það kannski ekki verið verra að smella einu marki en það var alls ekki aðalmálið.

    …eftir svona lagað hlýtur maður bara að spyrja sig, er Rafa maður í þessa deild ?!

  8. Rafa tjáir sig um leikinn á opinberu síðunni. Hann talar um að liðið hafi ekki náð að leika eins og hann lagði upp (no shit!) og að það eina jákvæða hafi verið stigið. Get svo sem tekið undir það með honum.

    Eftir á að hyggja þá er það ekki staðan í deildinni sem pirrar mig. Hvort sem við náum 3. eða 4. sætinu erum við allt of langt frá titilbaráttunni og það breytist ekki úr þessu. Það sem pirrar mig er frammistaða liðsins í dag, bæði nær allra leikmannanna og framkvæmdarstjórans. Þetta var bara alls ekki nógu gott.

    Jæja, ætla að pirra mig temmilega lítið á þessu. Nenni ekki að eyðileggja helgina yfir markalausu jafntefli. :rolleyes:

  9. Djöfull hefði Man.Utd klárað þennan helvítis leik. Við erum bara ekki nógu góðir eins og staðan er í dag.

  10. Mikið er ég guðs lifandi feginn að hafa ekki séð þennan leik.

    En kannski jákvætt að við hreinlega töpuðum ekki þessum leik.

    En það virðist vera ljóst að okkur vantar framherja…

  11. við erum nógu góðir það veit engin hver á að skjóta að marki og kuyt (kátur) ER LÉLEGUR AÐ TAKA Á MÓTI BOLTA þeir verð að skjóta að marki lélegasti leikur sem ég hef séð

  12. Djöfull er Benítez skrýtinn..

    ..að spila með tvo varnarsinnaða miðjumenn eina á miðjunni!

    ..að spila Aurelio á kantinum en ekki í sinni uppáhalds stöðu, bakverðinum. Hann er varnarmaður, það er alveg á hreinu!

    ..að taka alltaf framherja útaf fyrir miðjumann þegar við þurfum að sækja! Hvaða helvítis taktík er það að gera þetta alltaf og láta svo framherja inná seinna í leiknum?

    Ég bara skil hann ekki! :rolleyes:

  13. Johnson skoraði í viðbótartíma fyrir Everton gegn Arsenal og leikurinn fór 1:0

  14. Já, þessi úrslit gera það allavegana að verkum að við getum náð í 3. sætið – sérstaklega ef við vinnum Arsenal á Anfield. Það væri svo sem alveg típískt að við gerðum það eftir þessa hörmung.

  15. Muniði þegar Kuyt spilaði fyrsta leikinn sinn fyrir Liverpool..? maður brosti alveg út að eyrum því hann var svo ákveðinn og marksækinn… hann hefur bara verið í mikilli lægð í síðustu 10 leikjum en hann nær sér vonandi á strik á næsta tímabili… eins Kristján segir í pistlinum “sumarið framundan” þá þurfa svona menn 2-3 ár til að komast inn í ensku deildina…. við verðum bara að bíða eftir því…

  16. Maður fær á tilfinninguna að Benítez sé alltaf að reyna að vera einhver ógurlegur taktíker, of mikill taktíker að mínu áliti, þetta er nú einu sinni bara fótbolti fjandinn hafi það!
    Þessar endalausu róteringar á mannskap í gegnum tíðina til dæmis, hvað er það? Og svo þessar óvæntu skiptingar alltaf. Er alltaf verið að hvíla menn endalaust? Hvíla menn fyrir hvað? Hvíla menn fyrir bikara sem við erum dottnir útúr? Þarf ekki að hvíla menn hjá öðrum liðum?

    Maður er gjörsamlega orðinn drepleiður á þessari ömurlegu spilamennsku hjá þessu liði, það verður bara að segjast eins og er.

  17. >þá þurfa svona menn 2-3 ár til að komast inn í ensku deildina…. við verðum bara að bíða eftir því…

    Sko, það á náttúrulega ekki að taka 26 ára gamlan mann 2-3 ár að komast inní nýja deild. Held að Kristján hafi ekki haldið því fram.

    Það sem mér finnst magnað er hversu aftarlega Kuyt leikur. Í sínum fyrsta leik einsog Jói bendir á, þá var Kuyt mjög framarlega og ógnandi. Núna hins vegar liggur mér við að segja að hann spili á miðjunni. Hann kemur sér nánast aldrei í færi.

    Hvað af þessu er vegna fyrirmæla hjá Benitez og hvað er frá Kuyt er erfitt að segja. En það er ljóst að hann er alls ekki að spila nógu vel – og á ég reyndar erfitt að skilja af hverju Crouch var alltaf haldið á bekknum fyrir Kuyt.

  18. Sá ekki leikinn en sé í ummælunum nokkuð sem ég hef verið að halda fram – Kuyt er bara alls ekki að skora eins og toppframherja sæmir!
    Mjög margir hafa haldið því fram að hann sé pottþétt fyrsti framherjinn, spurning hvað verður um hina.
    Ekki misskilja samt að mér finnst hann hafa verið á leiktíðinni mjög duglegur fyrir liðið en við þurfum líka markagráðugan markaskorara og það hefur hann ekki sýnt, því miður.

  19. Mér finnst oft eins og Rafa sé hræddur við að sækja og byrjar til dæmis í dag með vinstri bakvörð á kantinum og miðjumann hinum kantinum og 2 mjög varnarsinnaða miðjumenn. Svo er Kuyt nánast á miðjunni og Bellamy hleypur alltaf útí kant að teygja á vörninni. Það þarf bara einhver að sækja inní teig í staðinn fyrir hann og það er ekki að gerast með svona varnarsinnaða menn á miðjunni.

  20. Kuyt er vissulega ekki búinn að vera upp á sitt besta undanfarið en samt erfitt að kenna honum eingöngu um þegar restin af liðinu er að skapa nákvæmlega rassgat í bala fyrir framherjana.
    Momo Sissoko er svo leikmaður sem lið eins og Liverpool á ekki að vera að nota. Er fínn fyrir lið eins og Aston Villa, Middlesbrough et al sem leggja upp alla leiki til að ná 0-0 jafntefli en Liverpool á ekki að sökkva niður á það plan jafnvel þó það sé á útivelli!

  21. Held að Benni færi ekkert að auglýsa það hvert alvöru markmið liðsins sé. Hann segir þetta með efstu 4 sætin bara til ekki sé hægt að hanka hann á því að hafa sagt að markmiðið hafi verið 1 sætið en svo lenda þeir kannski í fjórða. Alvöru markmiðum er haldið innan liða og ekki auglýst, þess vegna ,,lítur hann á björtu hliðarnar” eftir leiki.

  22. Í þessum leik mátti sjá allar ástæður þess að Rafa er ekki búinn að sannnfæra mann um að hann sé rétti maðurinn.

    Sáuð þið leikmenn Liverpool á síðustu mínútunni? Fá fyrst aukaspyrnu með möguleika á löngum bolta inn í teig og maðurinn sem tekur hikar aftur og aftur við að taka. Maður drífur náttúrulega helv. boltann af stað inn í teiginn.

    Svo rúllar hann í innkast á vallarhelmingi andstæðinganna og menn æða ekki af stað til að taka hratt innkast, koma sér í stöður og klára leikinn? Heldur rölta hægt og rólega að hliðarlínunni með jafntefli í augunum.

    Ég sakna Luis Garcia. Alltaf eitthvað að gerast í kringum hann. Ég sakna líka Didi Hamann, skarð herforingjans í að móta viðhorf liðsins hefur verið vandfyllt.

    Hvað eru menn svo að tala um að Fowler sé útbrunninn? Ef hann spilaði jafn mikið og Kuyt væri hann búinn að skila vel á annan tug marka í vetur. Þetta snýst ekki alltaf um að vera í formi á við spretthlaupara, heldur um að kunna að koma sér í og skapa færin og hafa tækni til að klára þau.

    Ekki var Teddy Sheringham sá fljótasti á þessum aldri en hann hafði fullt fram að færa sem mér finnst Fowler hafa líka.

    Að lokum. Lið sem eru ekki með alvöru vængmenn verða aldrei meistarar.

  23. Árangur liðsins batnaði mjög (bæði árangurs og áferðarlega séð) í haust þegar Sissoko meiddist, svo nú þegar hann kemur aftur inn í liðið versnar árangurinn og skemmtanagildið. Ekki ætla ég þó að kenna sjálfum Sissoko um þetta, heldur HELV…. þrjóskunni í Rafa. Fyrir utan það að þá er Pennant líka bara betri kantmaður en Gerrard.
    Hvernig í andsk…… getur Rafa réttlætt þetta þegar enginn annar (jú Einar Örn og Kristján Atli) er sammála honum. Allir þulir, fótboltamenn og þjálfarar sem ég hef heyrt tjá sig um þetta í fjölmiðlum (bæði hérlendis og erlendis) ná því engannveginn hvað maðurinn er að hugsa. Gestir á Sky hafa tjáð sig þónokkuð um þetta í vetur og þeir eru hverjum öðrum hneykslaðari.

    Árangur liðsins án Sissoko er betri og það er engin tilviljun. Sissoko á að berjast við Alonso um sæti í liðinu en ekki henda Gerrard út á kantinn.

  24. Ég er tilbúinn að ganga mjög langt til að verja Rafael Benitez en stundum gerir hann mann gjörsamlega gráhærðann af bræði og pirring. Það er eins og hann bara skilji ekki enska boltann og reyni það ekki einu sinni.
    Djöfull getur hann verið þrjóskur að heimfæra alltaf þessar taktísku og spænsku leikaðferðir sínar yfir á leik Liverpool. Sérstaklega virkar þetta alls ekki á útivöllum og hefur ekki nema í undantekningartilvikum gert síðan hann tók við.
    Mér er sama hvaða ofurleikmenn við kaupum kannski í sumar, ef við sýnum ekki greddu á útivöllum og sækjum stíft þar til sigurs þá verðum við bara ekki meistarar. PUNKTUR.

    Jújú við græddum 1 stig í baráttunni gegn Arsenal og Bolton en mér er bara drullusama. Jafntefli gegn svona varnarsinnuðu liði er það sama og tap.
    Alvöru sigurvegarar spila ekki með 2 varnarsinnaða miðjumenn og hugsa fyrst um að temja lið eins og Aston Villa og síðan að sækja þegar færi gefst, andskotinn hafi það.

    Haldið þið að taktískar leikaðferðir Rafa muni ganga upp ef við höfum besta leikmannahóp á Englandi?
    Mun sóknargeta okkar eitthvað skána við að fá loksins alvöru kantmenn? Verða þeir notaðir rétt?
    Hvenær ætlar Benitez að skilja að enski boltinn gengur útá mikinn hraða og að komast bakvið varnarmenn andstæðinganna líkt og t.d. (Man Utd) gera? Hvenær ætlar hann að átta sig á að endalaust taktískt evrópskt rúnk með varnarsinnaðri og hægri sóknaruppbyggingu virkar bara ekki fyrir meistaralið í Englandi?

  25. Sælir –
    þetta var hrikalega leiðinlegur leikur. Ég var alveg að gefast upp á tímabili en horfði þó á allan leikinn. Ég tek undir ótrúlega margt af því sem þið segið hérna. Ég er Benitez maður. Ég fíla hann almennt mjög vel og vil hafa hann áfram. En þessi leikur var óskiljanlegur.

    Ég held að hann noti Mascerano( nenni ekki að gá hvort þetta er rétt skrifað) núna og meir fram að lokum tímabils af því að Alonso er að hugsa um að fara til Barca. Ég held að það sé alveg ljóst. Við fáum helling fyrir hann en hann vill spila fyrir Barca eins og pabbi hans gerði áður. Ég held að Benitez sé að spila honum með Sissoko til að hann fái sjálfstraust og hann hafi Gerrard á hægri kanti á meðan. Gæti verið sniðugt ef Benitez veit að Alonso er að fara? Hinum vantar leikreynslu og hefur gott af því að fá mínútur.
    Hins vegar um daginn var hann með Gerrard og Mascerano og það gekk mjög vel á miðjunni.

    Kuyt, ég er alveg hættur að skilja þennan mann. Hann fær aldrei færi. Hann fékk eitt færi í byrjun leiks sem var mjög gott færi en hann skallaði 20 metra yfir. Það er mjög skrítið hvað hann er aftarlega á vellinum. Oft sér maður hann á miðjum vallarhelmingi hinna þegar við erum að byggja upp sókn. Er hann að fara að skora þaðan?

    Aurelio, ég er ekki jafn fúll út í hann og marga aðra. Hann var alveg að reyna fyrir sér frammi og við megum ekki gleyma því að hann er bakvörður sem er settur fram. Það er alltaf afsökun fyrir leikmann sem er ekki í sinni stöðu.

    En ég segi eins og þið, það var enginn vilji til þess að vinna þennan leik, enginn.

    Eina sem ég er ósammála ykkur hérna er það að Fowler sé úrsérgenginn. Ég er ekki sammála því og eins og staðan er núna var hann hættulegasti framherji okkar en fékk bara nokkrar mínútur.

    Ég vil að hann spili lágmark 30 mínútur í þeim leikjum sem eftir eru. Hann á það alveg skilið eins og hinir gaurarnir.

    Það er ljóst að við verðum að kaupa heimsklassa senter í sumar. Ég held að einn af hinum 3 fari. Fowler hættir og einn af hinum. Þessi nýi Voronin kemur inn sem 4 senter frítt og þar af leiðandi höfum við efni á einum góðum og dýrum leikmanni sem kann að skora.

    ég hef alltaf gaman að senterum sem skora, jú jú fínt að þeir geri rosamikið fyrir liðið og allt það en leikmaður sem skorar 25 mörk á ári í deildinni og slatta í hinum keppnunum gerir bara nokkuð. Við eigum þennan mann ekki í dag.

  26. Já, það er alveg hræðilegt að hafa Gerrard á kantinum, ég meina allir sófaþjálfararnir á SKY átta sig á því. Sennilega dreymdi mig bara síðasta tímabil þegar Gerrard var á kantinum, skoraði 23 mörk og við fengum hæstu stig síðan við unnum titilinn síðast. Og Sissoko, auðvitað þarf Liverpool ekki svona leikmann. Hvað var Benítez að pæla að hafa hann í byrjunarliðinu á móti Barcelona?

  27. “Og að lokum. Rafa hlýtur að hafa lært það í dag að það gengur ekki að hafa Mascherano og Sissoko eina á miðjunni. Þetta eru tveir frábærir leikmenn en hvorugur þeirra býr til sóknir eða ógnar marki andstæðinganna. Sáuð þið muninn á flæðinu áður og eftir að Sissoko fór útaf fyrir Alonso? Eins og svart og hvítt. Ef annar hvor af Gerrard eða Alonso er inná miðjunni með þeim er í lagi að spila öðrum þeirra eða báðum, en það mun aldrei skila árangri sóknarlega að hafa Sissoko og Mascherano eina á miðjunni. Það er augljóst.”

    Kristján Atli. Þetta var ég að reyna að segja þér um daginn með Momo og þú sagðir mér að gagnrýni mín væri ósanngjörn :rolleyes: Þú ert sem sagt að fatta þetta núna :blush:

    Skora síðan á þig að skoða þetta hér skoðir tölfræðina með og án Momo í deildinni, mörk skoruð og fengin annarsvegar og hinsvegar vinningshlutfall og þá sérðu hvort þessi gagnrýni mín hafi ekki verið ósanngjörn 😯

  28. Það er nokkrir að spá í því af hverju Rafa taki Bellamy útaf – frekar en Kuyt.

    Mér finnst það liggja í augum uppi að undir lok leikja þegar lið fara að spila 8-1-1 (8-2-0) á móti okkur þá nýtist Bellamy ekki neitt. Hann þarf pláss og helst mikið af því til þess að hraði hans nýtist eitthvað.

  29. Hræðslan hjá manni reyndist rétt. Maður fann það sjálfur sem stuðningsmaður Liverpool að maður var ekki mótiveraður fyrir leikinn. Því miður kom í ljós að leikmennirnir voru það ekki heldur, og það er í mínum bókum óafsakanlegt. Ég fæ þó allavega ekki borgað fyrir að horfa á liðið, þessir kappar fá borgað fyrir að standa sig og það gerðu þeir sko alls ekki. Menn eru greinilega allir með hugann við Meistaradeildina, stuðningsmenn sem og leikmenn. Það verður að laga.

    Ég er reyndar á því að þeir leikmenn sem hófu leikinn hefðu átt að vinna hann. Þetta var ekkert ósvipað liðinu sem vann á Nou Camp. Ég skrifa þetta því alls ekki á liðsuppstillinguna. Það sem mér fannst vera að var algjört andleysi og eins og einhver kom inná hérna, þá var skammarlegt að sjá hægaganginn í restina í aukaspyrnum og innköstum. Engin gredda og enginn vilji. Það er eitthvað sem ég þoli ekki.

    Mér finnst samt magnað hvað þessi leikur hefur gefið mönnum tækifæri á að blasta yfir þá leikmenn sem þeim líkar illa við. Momo andstæðingar fá sitt tækifæri, Aurelio andstæðingar sitt, osfrv. Ég ætla mér að nýta þetta tækifæri líka. Steven Gerrard, fyrirliði liðsins, var fremstur í flokki jafnyngja með að vera hörmulega slakur í leiknum. Ekki koma með þetta hægri kantur vs. miðan Crap. Þegar hann er í svona andleysis gír þá skiptir engu máli hvar hann spilar. Hann var fyrir það fyrsta heilmikið inni á miðjunni. Kuyt var á kantinum meira og minna í seinni hálfleik áður en Pennant kom inná. Stevie var bara úti á túni og þessi afsökun sem menn nota fyrir hann (hægri kantur) er að verða svona eins og rispuð plata. Ég hefði hreinlega tekið hann mun fyrr útaf og sett Pennant inn. Ég hefði líka viljað sjá Robbie miklu fyrr inná. Hann skapaði meiri hættu þessar örfáu mínútur sem hann var inná, heldur en liðsfélagar hans í hálftíma þar á undan.

    Mér finnst menn verða að passa sig að detta ekki niður í eymd og volæði yfir þessu. Næstu tveir leikir eru hrikalega mikilvægir og þá skiptir máli að láta sverfa til stáls. Við vorum búnir að leika frábærlega í tvo leiki á undan þessum, tókst samt ekki að skora. Nú tókst ekki að skora heldur, en munurinn var að við lékum illa þar fyrir utan. Vonandi að þetta verði það spark í rassgatið sem við þurfum til að klára þetta tímabil.

  30. “Árangur liðsins batnaði mjög (bæði árangurs og áferðarlega séð) í haust þegar Sissoko meiddist, svo nú þegar hann kemur aftur inn í liðið versnar árangurinn og skemmtanagildið”

    Þetts er mjög áhugaverður punktur. Gaman væri að sjá tölfræði LFC í meiðslum Sissoko og eftir að hann kom til baka.

    Ég hef lengi haldið því fram að hann sé líklega besti knattspyrnumaður heims án bolta en með bolta er hann gjörsamlega ónothæfur. Eins og e-r benti hérna á um daginn þá er hann kannski að vinna þessa 1000 bolta sína í leik en tapar á móti 1500.

    Það er bara þannig að í nútíma knattspyrnu er hreinlega ekki hægt að hafa mann sem getur ekki verið með boltann og sent einföldustu sendingar.

  31. Er að skoða þessa tölfræði! Ekki telst 1 sigurleikur í 5 leikjum eftir að hann kom til baka merkilegt!

    Það er greinilegt að eftir að Momo kemur til baka þá er liðið að standa sig verr (þarna er ég ekki að tala heldur árangur í seinustu leikjum).

    Þetta verður Rafael einfaldlega að skoða. Ég segi aftur: Það er bara þannig að í nútíma knattspyrnu er hreinlega ekki hægt að hafa mann sem getur ekki verið með boltann og sent einföldustu sendingar.

  32. Það sem ég skil ekki er af hverju við spilum ekki á okkar sterkasta liði.

    Hvað sem má segja um Aurelio og Mascerano þá eru þeir ekki hluti af okkar sterkasta byrjunarliði.

    Það er langt á milli leikja, það var engin ástæða til að hvíla Alonso, hvað þá að spila með 7 varnarmenn í leiknum.

    Stundum skil ég ekki Rafa. Bara alls ekki.

    Áfram Liverpool!

  33. Veit einhver hvar er hægt að nálgast alla tölfræðina varðandi Momo í vetur? Ekki bara eftir að hann kom uppúr meiðslum.

    Varðandi Gerrard, þá hef ég oft varið það að hann sé á kantinum. MEÐ ÞEIM FYRIRVARA að það séu þá einhverjir almennilegir á miðjunni. Ég hef sagt að vera hans á kantinum sé ekki per se ástæðan fyrir því að hann sé slappur, heldur verður líka að horfa á stærri myndina. Til þess að hann sé á kantinum og Liverpool sé líklegt til sigurs þá verður eftirfarandi að vera til staðar:

    – Einhver almennilegur á vinstri kanti
    – Einhver á miðjunni, sem kann að sækja.

    Hvorugt þessara skilyrða var uppfyllt í gær.

    Fyrir utan það hversu fáránlegt er að halda því fram að við Kristján Atli séum þeir einu, sem vilji sjá hann á kantinum. Ég sá allavegana menn ekki kvarta eftir Barca leikina.

  34. >Veit einhver hvar er hægt að nálgast alla tölfræðina varðandi Momo í vetur? Ekki bara eftir að hann kom uppúr meiðslum.

    Eða réttara sagt, nennir einhver að taka þetta saman? 🙂

  35. Einar. Kannski ekki öll tölfræði. Hérna er tölfræðin í þeim leikjum sem hann hefur spilað, úrslit þeirra og spjöld. Hef ekki hugmynd um hvar ég get fundið aðra tölfræði.

  36. Ég skil ekki þessa Gerrard-gagnrýni sem sprettur upp eftir hvern tapleik. Eða hvert markalaust jafntefli.

    Hann spilaði á kantinum í gær, en það kom því nánast ekkert við að við unnum ekki. Við unnum ekki af því að enginn lék vel, ekki heldur Gerrard. Það er svolítið þægilegt að segja að þegar hann leiki vel sé það af því að hann sé bestur, en þegar hann leiki illa sé það af því að mennirnir í kringum hann séu ekki nógu góðir. Hann lék illa í gær, einn af ellfu sem léku illa, punktur. Hann má alveg fá gagnrýni líka.

    Hins vegar tek ég undir það með Einari að vera hans á kantinum er háð því að miðjan sé í lagi. Í gær var hún það ekki. Þegar Alonso er inná er í lagi að setja Gerrard út á vænginn af því að Alonso stjórnar spilinu hvort eð er og er duglegur að spreyja boltum út á Gerrard þar sem hann fær pláss, maður á móti manni, til að skapa eitthvað. Í gær gerðist þetta ekki og hann fékk úr litlu að moða, sem og Aurelio.

    Aftur, Gerrard og Aurelio léku illa í gær sem kantmenn. Það er ekki hægt að afsaka annan hvorn þeirra eða báðan, þeir léku bara illa. En ein af ástæðunum fyrir því að þeir léku illa er sú að þeir fengu úr litlu að moða þar sem miðjan var steingeld.

    Hvað Momo varðar þá minnir mig að við höfum verið að ræða svipaða tölfræði með Gerrard fyrir tveimur árum, þ.e. að liðið spilaði betur – tölfræðilega séð – án hans en með. Svona tölfræði er kjaftæði. Momo vann Barcelona á Nou Camp nánast einn síns liðs fyrir okkur, án hans hefði sá leikur aldrei unnist. Hann hefur átt feykimarga stórleiki fyrir Liverpool, svo marga að maður gleymir því að hann er bara 22ja ára gamall. Hann þarf enn að bæta sendingagetu sína og ógna marki andstæðinganna meira en það sem hann getur nú þegar getur hann betur en flestir.

    Momo er hins vegar, vegna galla sinna sem miðjumaður, og eins vegna kosta sinna, leikmaður sem verður að nota í taktískum skilningi. Peter Crouch er í svipuðum málum, þú bara spilar honum ekki gegn liðum sem munu keyra á okkur upp völlinn því hann ógnar þeim ekkert útá velli. Þú spilar honum gegn liðum sem liggja í vörn gegn okkur, því þá er hann alltaf inní teig þar sem hann er bestur.

    Momo er frábær gegn liðum sem eru sterk eða treysta á ákveðna yfirburði á miðjunni – svo sem Barcelona, Chelsea og Arsenal – því hann tekur þá yfirburði frá andstæðingunum. Í gær vorum við hins vegar með yfirburði á miðjunni burtséð frá því hverjir spiluðu. Við hefðum getað byrjað leikinn með Zenden og Danny Guthrie á miðjunni og samt stjórnað leiknum. Þannig að Momo var óþarfur, bæði taktískt og varnarlega séð. Við þurftum, í hans stað, einhvern sem gat “knúið vélina” sóknarlega, og í þeim skilningi eigum við tvo af þeim betri í Evrópu, Gerrard og Alonso. Ég hef ekkert á móti því að sjá Gerrard á kantinum en ef Benítez vildi endilega hvíla Alonso í gær segir það sig sjálft að Gerrard átti að byrja á miðjunni með Mascherano og Pennant úti á kanti. En ef Gerrard átti að vera á kanti varð Alonso að vera inná miðju.

    Við erum oft sakaðir um að verja menn í blindni hér. Í þessu kommenti er ég búinn að gagnrýna Gerrard, Momo og liðsval Benítez. Bara svo það komi fram. Ég styð Benítez heilshugar sem stjóra og hryllir við þeirri tilhugsun að við þurfum kannski að leita að nýjum manni í brúna í sumar, því að mínu mati finnast þeir ekki betri í Evrópu í dag. En þótt Benítez sé snillingur er hann ekki óskeikull og hann hefur gert mistök áður. Í gær gerði hann mistök í liðsuppstillingu. Momo og Mascherano geta ekki spilað saman á miðju gegn liði sem liggur í vörn gegn okkur.

  37. Fyrir utan það hversu fáránlegt er að halda því fram að við Kristján Atli séum þeir einu, sem vilji sjá hann á kantinum. Ég sá allavegana menn ekki kvarta eftir Barca leikina.

    Þú hlýtur að vera að grínast Einar, í þeim leik var Gerrard náttúrulega bara að éta Ronaldinho upp. Ef Ronaldinho hefði spilað á miðri miðju þá hefði Gerrard verið þar.

  38. “ef Benítez vildi endilega hvíla Alonso í gær segir það sig sjálft að Gerrard átti að byrja á miðjunni með Mascherano og Pennant úti á kanti”

    Sammála

  39. Mér finnst það algert kjaftæði þegar menn koma og gagnrýna hvernig Benitez stillti upp miðjunni.

    Í fyrsta lagi: Fótbolti er liðsíþrótt. Þjálfarinn á alltaf að velja það sem er best fyrir liðið en ekki best fyrir einstaka leikmenn.

    Það er greinilega skoðun Benitez að Gerrard á kantinum með (í þessu tilfelli) Mascherano og Sissoko á miðjunni sé sterkari uppstilling en Pennant á kantinum og Gerrard og Mascherano/Sissoko á miðjunni. Það er enginn að segja að Gerrard sé betri kantmaður en miðjumaður en er Pennant betri kantmaður en Sissoko/Mascherano eru á miðjunni? Um það snýst spurningin.

    Í öðru lagi: Allur samanburður á þeim leikjum sem Sissoko hefur verið í liðinu og Sissoko hefur ekki verið í liðinu skal skoðaður í því ljósi að hann er annarsvegar alltaf látinn spila gegn sterkari andstæðingum þar sem búast má við erfiðum leik þar sem við þurfum að verjast og hinsvegar yfirleitt geymdur á bekknum í auðveldum heimaleikjum þar sem við sækjum og 3stig lágmarkskrafa. Semsagt sá samanburður er algjörlega ómarktækur.

    Í þriðja lagi: Eins og fram hefur komið er hlutverk Mascherano í þessu Liverpool-liði fyrst og fremst það sama og Xabi Alonso. =>Bakköpp fyrir Xabi. Holding midfílder sem drefir spilinu en um leið tæklari góður. Í því ljósi að Xabi og Sissoko hafa yfirleitt verið fyrsti kostur inn á miðjuna með Gerrard á kantinum er ansi hæpið að fara saka Benitez um taktísk mistök, því þetta er fullkomlega sambærileg miðja og hann notar yfirleitt. Finnst Benitez vildi ,,endilega hvíla Alonso” þá hlýtur það að liggja beinast við að leikmaður sem var hugsaður sem bakköpp fyrir hann komi þá inn í liðið!

    Síðan geta menn hártogast yfir því hvort að Mascherano hafi verið að skila því hlutverki sem að honum var ætlað eða ekki. Gott og vel, hann skilaði því ekki en hvernig í fjáranum gat Benitez séð það fyrir? En er það ekki annars bara fullkomlega eðlilegt að gefa Mascherano séns í svona leik? Leyfa honum að slípast til í þýðingarlitlum leik og koma honum í leikform sem fyrst?

    Í fjórða lagi: Af hverju haldið þið að sófaspekingarnir á Sky séu sófaspekingar á Sky en Rafael Benitez knattspyrnustjóri Liverpool?

    En gott og vel drengir mínir, það er gaman að vera vitur eftirá! Persónulega hef ég ýmislegt út á Rafael Benitez að klaga en ef menn ætla sér aðgagnrýna hlutina þá er lágmark að gera það með rökum sem halda vatni.

  40. Það er nú lítið mál og létt að taka saman tölfræði yfir liverpool með og án sissoko og ef eitthvað er að marka þessa soccerbase síðu þá er hún eftirfarandi (allar keppnir teknar með):

    Með Sissoko:
    12 sigrar, 4 jafntefli, 7 töp – markatalan 31:22
    Án Sissoko:
    13 sigrar, 4 jafntefli, 5 töp – markatalan 37:19

    Munurinn er tæplega sláandi og sérstaklega ekki í ljósi þess sem aðrir hafa bent á að Sissoko spilar sjaldnast í leikjum gegn lélegri liðum þar sem krafan er sigur.

    Að mínu mati er Sissoko nauðsynlegur í leiki eins og barcelona og manutd þar sem við þurfum að stoppa miðjuspil andstæðinganna en gegn liðum eins og aston villa er engin þörf á honum, allavega ekki fyrr en hann lærir að senda frá sér boltann. Ég sé heldur aldrei neina þörf fyrir að spila sissoko og mascherano saman á miðjunni, til þess eru þeir báðir of varnarsinnaðir. Ég er virkilega hrifinn af mascherano og held að hann eigi eftir að reynast okkur stórgóð kaup en hann verður að hafa skapandi menn í kringum sig. Liðið er einfaldlega steingelt sóknarlega þegar alla sköpunargleði vantar af miðri miðjunni og það sást mjög vel í þessum leik í gær.

  41. Mér finnst þessi leikur sanna endanlega að Carragher á að vera fyrirliði Liverpool en ekki Gerrard.

    Gerrard er stundum alveg eins og Henry. Verður bara fúll og áhugalaus þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp. Báðum var að mínu mati fengið fyrirliðabandið bara til að þeir yrðu ánægðir.

    Það er akkúrat í svona leikjum að lið þarf alvöru leiðtogatýpu sem rífur liðsfélagana áfram uppá rassgatinu og fær þá til að gefa sig alla í leikinn, stökkva hálfum metra hærra, tækla örlítið harðar, tuddast í andstæðingnum, hlaupa hraðar og fá framherjana til að taka þetta extra skref inní teiginn og klára helvítis færin.

    Gerrard læddist eins og mús í gegnum leikinn, setti smá auka kraft í sinn eigin leik af og til en var annars voða atkvæðalítill. Pirraðist bara þegar var doblað á hann og gaf boltann tilbaka á miðjuna.

    Þetta er ástæðan fyrir því að Chelsea t.d. vinna oft svona leiðindaleiki, þó þeir spili illa stökkva þeir alltíeinu hærra enn andstæðingurinn og skora uppúr engu með föstu leikatriði eða Drogba býr sér til auka pláss með því að djöflast í varnarmönnum. Menn vita að John Terry brjálast ef þeir gera ekki sitt besta.

    Það er ekkert mál að mótivera menn fyrir stórleiki eins og CL, þar getur Gerrard einbeitt sér að sínum leik og fallið inní upptjúnaða liðsheild. Gegn skipulögðum liðum eins og Aston Villa sem pakka í vörn þurfum við miklu meira frá fyrirliða. Hann á að skynja hvenær menn eru ekki að gera sitt besta og ná þeim uppá tærnar.

    Það vantar ákveðna klikkun og greddu í Liverpool stundum. Ákveðinn hroka og rándýrseðli til að tuska smáliðin til.
    Ljónið, konungur dýranna minnir menn á glæsileik af og til og vinnur CL.
    Til að vinna ensku deildina þarftu að láta eins og hýena á réttu augnablikum og hirða leifarnar sem bjóðast.

    Aston Villa var eins liðið lík “there for the taking” í gær. Hrædd bráð sem hafði ekki nokkuð þor í að sækja. Taugastrekkt lið með ekkert sjálstraust sem hafði ekki unnið leik lengi.

    Við misstum ekki af sigrunim eingöngu vegna þess að liðið var of varnarsinnað uppstillt eða taktík, við misstum af honum því okkur skortir enn þetta ránseðli sem þarf til að verða enskur meistari.

  42. Þótt ég sé að vissu leyti sammála að Gerrard getur stundið horfið í leikjum eins og núna þá er þessi gagnrýni ansi ósanngjörn því hve oft hefur Gerrard ekki gert nákvæmlega þetta: “rífur liðsfélagana áfram uppá rassgatinu og fær þá til að gefa sig alla í leikinn, stökkva hálfum metra hærra, tækla örlítið harðar, tuddast í andstæðingnum, hlaupa hraðar og fá framherjana til að taka þetta extra skref inní teiginn og klára helvítis færin”. Maðurinn vann CL nánast upp á eigin spýtur for crying out loud!!

  43. Á margan hátt mjög sammála þér Arnór. Við misstum ekki af sigri vegna uppstillingar, við misstum af honum vegna þess að menn voru hreinlega ekki klárir í slaginn. Af hverju voru menn svona daufir? Þegar stórt er spurt, þá er oft lítið um svör. Mér er nokk sama hvað hver segir, en ég er á því að menn séu bara komnir með hugann við Meistaradeildina fyrst og fremst. Maður finnur þetta á sjálfum sér og því miður sýnist mér leikmenn einnig vera í þeim gírnum. Það er eiginlega of langt niður í Bolton til að menn hræðist að missa 4ða sætið og of langt í Chelsea og Man U til að menn geti gert sér vonir um 1 eða 2 sætið. Munurinn á því að lenda í 3 eða 4 er nánast enginn (500.000 pund).

    Arsenal tapaði í gær og því verður keppt um þetta 3ja sæti á Anfield þann 31. mars nk.

  44. Ég er sammála þeim Einari og Kristjáni Atla um Gerrard og Sissoko (jú og hinum sem tóku undir með þeim).

    Þetta snýst um sterkasta liðið í hvert og eitt skiptið og á meðan Sissoko er sterkari en Pennant verður Gerrard að spila á kantinum.

    Ég hef reyndar gengið svo langt að segja að það sé hans besta staða því að mínu mati er hann f.o.f. brjálæðislega góður sóknarmaður. Að múlbinda hann á miðri miðjunni er einungis til að draga úr honum vígtennurnar.

    Sissoko hefur alla burði til að verða heimsklassa leikmaður. Það er meira en sagt verður um aðra unga leikmenn í liðinu.

    Áfram Liverpool!

  45. sammála þér Kristinn nafni Sigurðsson #41, góðir punktar og sömuleiðis Arnóri #43 um að stundum finnst mér vanta baráttuna og sigurviljann í liðið og það er bara það sem skilur að 1-4 sætið, svo einfalt er það. Við erum ekki að klára þessa leiki sem liðin fyrir ofan okkur eru að klára.

  46. ?Hvað Momo varðar þá minnir mig að við höfum verið að ræða svipaða tölfræði með Gerrard fyrir tveimur árum, þ.e. að liðið spilaði betur – tölfræðilega séð – án hans en með. Svona tölfræði er kjaftæði. Momo vann Barcelona á Nou Camp nánast einn síns liðs fyrir okkur, án hans hefði sá leikur aldrei unnist.?

    a) Eitthvað almesta djók sem ég hef heyrt. Sem sagt tölfræðilegur árangur er ?kjaftæði?!!! Komment áratugarins hreinlega. Sem sagt ef að sigrar, jafntefli og töp eru tekin saman þá er svoleiðis tölfræði kjaftæði! Góður KAR!

    b) Síðan þykir mér markavert að geta sagt að í einum mesta sigri liðsheildar allra tíma hafi Momo unnið í raun einn síns liðs! Þetta síðara komment KAR því miður dregur mikið úr áreiðanleika þínum og marki á þér sem penna, það verður bara að segjast eins og er. Þú greinilega sást ekki þessa ótrúlegu hluti sem gerðust á Nou Camp þegar heilt lið kom saman úr helvíti (samkv. Dagblöðum) og sigraði besta félagsliðs heims SAMAN. Það að segja að Momo hafi unnið þennan leik einn síns liðs er hreinlega fáránlegt.

    Bíðið svo við. Leikir gegn Sheffield United, Everton, Maccabi, Bolton, Reading, Villa, Birmingham svo dæmi séu tekin. ERU ÞETTA EKKI LEIKIR GEGN ?LÉTTUM? LIÐUM??? Eða leikir SEM EIGA AÐ VINNAST??? Þessa leiki hefur Momo spilað í vetur.

  47. :tongue: Jæja félagar þá er að súmmera það sem segja má að standi uppúr þessari umræðu.
    Fyrir það fyrsta er það að menn hafa fengið útrás fyrir pirring sinn útí einstaka leikmenn.
    Í öðru lagi hafa menn sagt skoðun sína á RB og hann heldur stöðu sinni.
    Í þriðja lagi er ljóst að flestir eru á því að í raun sé liðið ekki nógu sterkt ennþá til að vinna ensku deildina.
    í fjórða lagi er hugarfar leikmanna einhverra hluta vegna ekki eins og það á að vera. Það vantar drápsviljann, gredduna eða hvað menn vilja kalla það.
    Og að síðustu sem kemur auðvitað inn á það sem ég nefni í þriðja lið. það vantar nokkra alvöru leikmenn í sókn og á vængjum til að byggja upp hraðar og beinskeittar sóknir sem skila mörkum.
    Þetta þýðir í raun að liðið getur ekki unnið deildina, gat það ekki frá upphafi leiktíðar og því höfum við búið okkur til falsvonir á þessari leiktíð.
    Þetta þýðir aftur að það verður að styrkja liðið verulega fyrir næstu leiktíð.
    Auðvitað eru í liðinu menn sem ná máli og aðrir sem ekki ná því ennþá en munu ef til vill ná því. En þangað til verður að fylla upp í þau skörð sem eru í liðinu sóknarlega fyrst og fremst.
    Og að lokum. Ég er sammála þeim sem sagði að Carrager ætti að vera fyrirliði þessa liðs. Hugur hans og vilji, drápseðli og hjarta er algjörlega ómengað. Hann hefur aldrei leitt hugann að nokkru öðru liði en Liverpool. Hann er algjörlega gegnheill og gefst aldrei upp. Aldrei.
    Áfram Carrager og Liverpool :laugh:

Liðið í dag, Mascherano með!

Lítið í gangi