Man Utd 2 – L’pool 0 (uppfært)

scholes_500_celebration.jpg

Okkar menn töpuðu í dag fyrir Man U á Old Trafford, 2-0, og má að vissu leyti segja að þar með hafi titilbaráttunni endanlega lokið. Það er auðvitað ennþá góður möguleiki tölfræðilega séð á að okkar menn geti náð toppliðunum að stigum – 11 stig skilja að okkur og Chelsea/United og 90 stig eru enn eftir í pottinum – en það er bjartsýni að ætla að ná öðru þessara liða að stigum yfir veturinn, algjört brjálæði að þykjast ætla að ná þeim báðum. Líkurnar á því að bæði Man U og Chelsea tapi niður ellefu stiga forskoti á okkur eru nánast engar, því miður.

Byrjunarliðin voru sem hér segir. Fyrst, lið heimamanna:

Van der Sar

Neville – Ferdinand – Vidic – Evra

Fletcher – Carrick – Scholes – Giggs

Rooney – Saha

Bekkur: Kuszczak, Brown, O’Shea, Ronaldo, Solskjær.

Og lið okkar manna í dag:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Alonso – Sissoko – Gonzalez
García
Kuyt

Bekkur: Dudek, Paletta, Warnock, Pennant, Crouch.

Paul Scholes og Rio Ferdinand skoruðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum, en bæði mörkin urðu til vegna fádæma aulaskaps og sinnuleysis í vörn okkar manna. Á hinum endanum voru okkar menn einfaldlega getulausir.

Ég hreinlega nenni ekki að endurtaka allt það sem við höfum þegar sagt eftir þrjá tapleiki gegn erfiðum liðum á útivelli í vetur. Þess í stað bendi ég á leikskýrslur þar sem þetta hefur allt verið sagt áður: 3-0 fyrir Everton1-0 fyrir Chelsea2-0 fyrir Bolton.

Þetta eru einfaldlega staðreyndirnar. Af því að við förum til Everton og látum negla okkur, af því að við förum til Bolton og látum vaða yfir okkur, af því að við förum til Chelsea og stjórnum leiknum en erum samt bitlausir og þeir hirða stigin, af því að við förum til Manchester og látum erkifjendurna vinna okkur svo til áreynslulaust. ÞESS VEGNA eru Chelsea, Arsenal og Man U með betri lið en við í dag.

Það er einfaldlega staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Menn voru að vonast til að á þriðja tímabilinu undir stjórn Rafael Benítez yrði liðið orðið nógu sterkt til að geta barist um titilinn en raunin er alls ekki svo góð. Þetta lið okkar á einfaldlega langt í land ennþá, hverju svo sem um er að kenna. Menn eru að leika illa, liðið þjáist af skorti á sjálfstrausti og menn virðast ekki alveg vita hvaða hlutverkum þeir eiga að gegna á vellinum. Þar að auki virðist þjálfarinn vera að ganga of langt í róteringunni – Alex Ferguson er eini þjálfarinn í deildinni sem hefur gert fleiri mannabreytingar á milli leikja í níu deildarleikjum en við, en hann hefur þó alltaf haldið tryggð við þá sem eru að spila hvað best, á meðan Crouch var enn og aftur settur á bekkinn að ástæðulausu í dag – og fyrir vikið eykst óvissan og minnkar sjálfstraustið á meðal leikmanna.

Það þarf ansi margt að lagast til að þetta lið okkar geti barist um titilinn. Þessu tímabili má vel bjarga, til að mynda erum við núna búnir með alla erfiðustu útileikina (og eigum Arsenal á Emirates Stadium eftir þrjár vikur) og því er full ástæða til að sjá liðið loksins ná sér á almennilegt flug fram á vorið án þess að lenda nokkurn tímann í toppliði á útivelli, þannig að ég er ekki farinn að örvænta um sæti okkar meðal fjögurra efstu eða pláss í Meistaradeildinni að ári. Og auðvitað eru ennþá þrír aðrir bikarar til að berjast um; Meistaradeildin og tvær bikarkeppnir, en við verðum að sætta okkur við að sigla inn í sautjánda árið án sigurs í efstu deild Englands.

Svo einfalt er það nú bara.

**Uppfært (Einar Örn)**: Þar sem ég hef verið á ferðalagi þá hef ég lítið tjáð mig á þessari síðu, en núna bara verð ég: Ég ætlaði upphaflega að fara að ráði Kristjáns og sleppa því að horfa á þennan leik, því ég var nokkuð viss um tap. Ætlaði að vera staddur í rútu á meðan að leiknum stæði, svo ég myndi ekki frestast.

En ég fékk ekki rútumiða á réttum tíma, þannig að freistingin var of mikil.

Ég á varla til orð til að lýsa þessari hörmung.

Voru Sami Hyypia og Xabi Alonso á launum hjá Man U í þessum leik? Hversu oft gáfu þeir boltann frá sér til Man U manna? Hversu margar sendingar voru hnitmiðaðar beint á Man U leikmann? Og það er ekki einsog þeir hafi verið einir, því ekki voru menn einsog Momo og Garcia betri.

Þetta var algjörlega bitlaust, það var engin barátta í liðinu og Man U voru einfaldlega betri á öllum sviðum, jafnvel þótt að Rooney hafi lítið sýnt og Ronaldo ekki einu sinni með. Kuyt fékk lítinn sem engan stuðning, kantspilið var gjörsamlega ómögulegt (vissuð þið að Garcia var inná allan tímann?!!!) og þrátt fyrir að við værum með 3 miðjumenn á móti 2, þá breytti það engu.

Steve McMahon, sem er einn af sérfræðingum ESPN í Asíu var álíka brjálaður og ég í leikslok. Þegar hann var spurður: “Hvað núna fyrir Liverpool?”, þá kom hann með ráð sem ég er nokkuð sammála:

**VELJA SAMA HELVÍTIS FOKKNIG LIÐIÐ TVO LEIKI Í RÖÐ**

…og jafnvel lengur. Hætta þessu bulli, hætta að setja EINA MANNINN SEM SKORAR á bekkinn. Þetta er einfalt. Rafa þarf að hætta að spara menn svo þeir verði í góðu formi í maí. Þetta tímabil er að glatast Í OKTÓBER. Hann verður að velja besta liðið leik eftir leik. Að mínu mati ætti það að vera svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Alonso – Garcia

Crouch – Kuyt

Prófa þetta, hætta þessum endalausu breytingum. Setja Gerrard á skotæfingu, segja Alonso að reyna að rifja það upp fyrir okkur af hverju við héldum því einu sinni fram að við værum með bestu miðju í Evrópu.

Leyfa Crouch og Kuyt að vera saman frammi, hætta þessu rugli varðandi Crouch. Setja Agger inn og leyfa honum og Carra að finna sig saman.

Fyrir **nákvæmlega** einu ári skrifaði ég [þessa leikskýrslu](http://www.kop.is/gamalt/2005/10/22/16.15.34/) eftir tap gegn Fulham. Svo ég vitni í sjálfan mig:

>Við erum í 12 sæti í ensku úrvalsdeildinni. Við höfum leikið 8 leiki, unnið 2, tapað 2 og gert 4 jafntefli. Úr 8 leikjum erum við með 10 stig. ALLS EKKI NÓGU GOTT!

Í dag höfum við leikið 9 leiki í deildinni, unnið 3, gert 2 jafntefli og **tapað fjórum**. Við erum með 11 stig eftir 9 leiki og höfum skorað 9 mörk í þessum 9 leikjum á meðan við höfum fengið á okkur 11 mörk. Þetta er fokking ótrúlegt.

11 stig eftir 9 leiki, markatalan 9-11. Þetta er grátlegt.

Og í leikskýrslunni fyrir nákvæmlega ári skrifaði ég eftirfarandi:

>Ég er að missa trúna. Svo einfalt er það. Ég er hreinlega að missa trúna á að Rafael Benitez sé rétti maðurinn fyrir Liverpool. Ég mun seint efast um að hann sé rétti maðurinn til að stýra Liverpool í Evrópukeppnum. Eeeen, alveg einsog sumir frábærir leikmenn finna sig ekki í enska boltanum, þá er að mínu mati vel hugsanlegt að sumir frábærir þjálfarar finni sig ekki í enska boltanum. Kannski er Rafael Benitez einn af þeim.

Rafa sannaði sig að mínu mati eftir Fulham leikinn, sem reyndist vera lægsti punkturinn í fyrra. Ég veit að auðvitað væri það engin lausn að breyta um þjálfara, en það verður *eitthvað* að breytast. Við getum ekki horft uppá svona spilamennsku. Við getum ekki sætt okkur við að við höfum skorað eitt mark á útivelli og það gegn Sheffield United! Við getum ekki sætt okkur við að hafa tapað fjórum leikjum á útivell í röð með markatölunni 0-8!

Eitthvað verður að breytast. Það er ekki hægt að bjóða okkur uppá svona hörmung.

37 Comments

  1. Helvítis RASSAGAT !!!!!
    Það segir allt um þennan leik að Kristján Atli er búinn að skrifa pistilinn áður en að leikurinn er búinn !

    Thats it….snúun okkur að einhverju öðru !

  2. Við þurfum nýjan mann í brúnna sem sér að Gerrard er einhver mesti talent sem ensk knattspyrna hefur getið af sér. Mín skoðun er sú að hætta þessari helvítis róteringu, alveg sama þó að menn verði ferskari þegar líður á tímabilið, og byggja liðið upp í kringum 3 menn: Gerrard, Sissoko og Carragher. Halda Reina, Finnan, Agger, Riise, Xabi, Kuyt og Crouch og losa okkur við restina eða láta hana mæta afgangi.

    Og Djibril Cissé bendir á alveg hreint magnaðan punkt í viðtali sem tekið var við hann á dögunum:

    “I scored 19 goals, and I never played!”

    og þá er hann að tala um síðasta tímabil sitt með Liverpool þegar honum var spilað STANSLAUST út úr stöðu.

    Ekki koma með “já en cisse spilaði illa og hann brosir aldrei” því að það er ekki það sem telur heldur eru það MÖRKIN sem telja og það sést sárlega á markatölu okkar á útivelli í deildinni (1:9). Hann er ennþá Liverpool maður og ég vona alveg innilega að Benitez geri gleymt því sem hann hefur svona persónulegt á móti honum og leyfi honum að réttlæta verðmiðann á sér á vellinum.

    Við þurfum bara fast starting XI og þar langar mig að sjá Crouch/Kuyt/nýttnafn og Cissé fremst og Gerrard og Momo inn á MIÐRI miðjunni. HÆTTA að spila mönnum úr stöðum! STRAX.

    Allavega er þetta Liverpool lið sem við sáum í dag í besta falli meðallið og í versta falli algjört DJÓK. United átti sigurinn svo fyllilega skilinn og bara hats off to them.

  3. Það er ótrúlegt að horfa upp á þetta lið okkar spila svona ömurlega illa. Markatalan 0:8 í fjórum tapútileikjum. Ég er orðinn svo pirraður, að það nær ekki nokkurri átt. Það hefði verið betra að sjá liðið tapa en um leið sýna einhverja almennilega baráttu. Þess í stað fáum við andlaust lið með ótrúlega mörg feilskot og öryggið í sendingunum var virkilega lítið. Er samasem-merki þarna á milli: þ.e. að þegar Gerrard spilar illa á spilar liðið illa?

    Af hverju í andsk… byrjaði ekki Crouch inn á??? Ef menn ætla að skamma mig fyrir að nöldra yfir liðsvali Benitez, þá mega þeir gera það. En þessi maður er ekki hafinn yfir gagnrýni – þessi rótering er ekki að virka núna og þegar heitasti markaskorarinn okkar byrjar ekki inn á í svona leik – þá er bara eitthvað alvarlegt að!

    Og skiptingarnar í dag!!!???? Hvað er málið? Af hverju var García ekki löngu farinn út af? Hvað gerði Pennant umfram Gonzalez. Gonzalez voru mislagðir fætur, en hann sýndi ógnun í hraðanum sínum. Og Crouch fyrir Alonso???? Úff!!!

    Sissoko sýndi mestu baráttuna enn og aftur, en hann á í vandræðum með sendingar og hangir oft á boltanum aðeins of lengi.

    Rafa Benitez þarf virkilega að fara kafa djúpt, og þetta lið þarf að sparka sig saman. Eftir að hafa fengið þessa frambærilegu menn til liðs við okkur fyrir keppnistímabilið, þá hafa vonbrigðin verið ógurleg.

    Og ég er sammála Kristjáni Atla um leikskýrsluna, en það er eitt sem ég hjó eftir. Við erum búnir að gefast upp á titilbaráttu, en er umræðan virkilega núna farin að snúast um hvort við náum einu af fjóru efstu sætunum? Kannski er það bara málið … ég er ekki sjálfur farinn að pæla í því, því fyrir þetta tímabil fannst mér liðið vera með kalíber í titlabaráttu, en eins og spilamennskan hefur verið, þá verður þetta líklegast baráttan um að ná fjórða sætinu eða því þriðja.

  4. 😡 Nei takk, nei takk nú svo komnið að maður nennir ekki lengur að horfa á þetta lið spila. Nú er svo komið að ég er búinn að fá nóg af RB og liðsuppstillingum hans og innáskiptingum. Rafael Benites hefur ekki það sem til þarf í enska boltanum. Árangur hans á Englandi er í besta falli slakur og í versta falli fullkomlega óásættanlegur.
    Getur einhver frætt mig um það hvað hann er að gera svona stórkostlegt við liðið mitt. Mér er fulkomlega ómögulegt að komá auga á það. Að bera árangur hans á Englandi saman við stjórana hjá Chelsea, Man U og Arsenal er RB svo fullkomlega í óhag að það er nánast hlægilegt.
    Mín vegna má RB fara til Spánar og sóla sig í þeirri frægðarsól hans sem er að hníga endanlega til viðar. 😡 😡

  5. Leikmennirnir eru góðir, uppstillingin er góð, menn eru í góðu formi, varamennirnir eru góðir, þjálfarinn er góður, þjálfaraliðið er gott, umgjörðin er góð en hvað er þá að ?!

    Erfitt að svara þessu en virðist sem menn séu bara á botninum andlega séð þessa stundina og það er bara þannig að stundum kemur svona tímabil og ekkert við því að gera…Liðið getur ekki einu sinni haldið boltanum meira en 3 sendingar og vörnin (sem var sú besta síðasta tímabil) er hryllingur !!

    Hvar í ands***** er eiginlega karakterinn í þessu liði ?!

    ….og hvar er Kewell ?! 😡

  6. Er ekki hægt að skipta um mynd með þessari annars ágætu skýrslu. Ég get bara ekki horft framan í þessa Manure menn…

  7. Hvar var Gerrard í þessum leik ? Hann sást ekki allan helv. leikinn. Byrjaði á hægri kantinum sýndist svo hann fá frítt spil fyri framan Momo og Xabi, að lokum kominn á miðjuna með Momo.

    Allavega fannst mér hann grútlélegur. Mér fannst líka skrítið að taka ekki Garcia útaf frekar en Gonzales. Gonzales var allvega með smá hraða.

    Fyndið líka að sjá í öðru markinu eru fleiri Utd. menn inná okkar teig en Poolarar ! Hvernig stendur á því ?

    Og í því fyrra þá eru Hyppia og Carragher í ruglinu.

    kv/

  8. Ég ætlaði að kommenta, en það endaði sem viðbót aftan við skýrsluna hans Kristjáns.

    Annars óska ég arnaroe til hamingju með að vera fyrstur til að leggja til að Rafa verði rekinn á þessari síðu á þessu tímabili.

    Ef menn halda að hlutirnir verði betri með að reka Rafa Benitez, þá lifa þeir í draumaheimi. Og Sigtryggur, ég myndi til að mynda benda á árangur Liverpool frá 22.október í fyrra til að styðja það að hann hafi erindi í þjálfun hjá Liverpool.

    Beisiklí, gagnrýnum Rafa alveg einsog við viljum, en það að vilja hann rekinn, er að mínu mati gjörsamlega fáránlegt.

  9. Einar. Ég er sammála þér en hvern ætlaru að hafa sem ellefta manninn í liðinu 😯

    Mér finnst algjörlega óskiljanlegt af hverju Rafa tekur ekki Sissoko útaf fyrir Crouch í stöðunni 1:0. Maðurinn er á spjaldi og mjög tæpur á því að hanga inná vellinum. Fyrst hann gerði það ekki þá var ég viss um að annað mark United mundi koma.

    Mér fannst líka algjört bull að vera að taka Gonzalez útaf. Var hann meiddur? Hann var allavega einn af fáum sem var að reyna eitthvað sóknarlega, skapa eitthvað fyrir liðið.

  10. Sammála Einari að mörgu leiti varðandi uppstillinguna á okkar sterkasta liði þessa dagana. Ég myndi þó frekar vilja sjá okkur tefla fram 11 leikmönnum, það væri síst til að bæta það að vera einum færri.

  11. He he, ég er búinn að laga þetta. Gerrard er búinn að vera grútlélegur, en það er þó betra að hafa hann þarna inni og velja 11 menn.

  12. Ja…hvað getur maður sagt. Man.unt. áttu svo fyllilega skilið að vinna andlausa okkar menn í dag. Það vantar gjörsamlega allt sjálftraust í liðið. Við vorum með 13 marktilraunir en Man unt 8. Við töpum 2-0. Segir allt sem segja þarf.

    Ég held því miður að nú sé farið að volgna undir Benites.(ekki hitna). Krafan um Enskan titil er bara svo stór hjá Liverpool áhangendum. Liverpool er einn af tíu stærstu (án efa einn af 15) fótboltaklúbbum í heiminum í dag. Ég held því fram að ef Liverpool ætlar að halda sínum status þá þarf enskur titill að vinnast innann þriggja ára.

    En hvað um það. Þá þýðir ekki að gráta Björn bónda. Nú er bara að horfa fram á við. Næstu tveir leikir eru heimaleikir og mikilvægt að vinna þá leiki.

    Í það minnsta er spúsa Hjalta hamingjusöm og þá þarf ekki að hafa áhyggjur af andlegri heilsu sampúllara vegna hugsanlegs kynlífssveltis….

    Nú ætla að ég fara að gera eitthvað allt annað en að hugsa um fótbolta til að geðheilsa mín bíði ekki varanlegan skaða af hörmungum dagsins..

    YNWA

  13. Tja hvað skal segja, þegar að ég byrjaði að halda með Liverpool 1981 að þá var liðið að spila svokallaðan meginlands fótbolta sem var frábrugðinn öllum þeim bolta sem hin liðin voru að spila. Boltinn gekk hratt manna á milli upp völlinn, kanta á milli og frá vörn til sóknar.

    Í dag sýndi Man U hvernig á að spila flottann fótbolta, bolta eins og Liverpool spilaði á níunda áratugnum og lét okkur líta út eins og miðlungslið. Ef að mann langar að horfa á flottann fótbolta á Englandi í dag að þá horfir maður á Man U og Arsenal spila, það er bara staðreynd. Menn geta talað um að hata þetta og hitt fótboltaliðið, sem ég persónulega skil ekki, hvernig er hægt að hata lið sem spilar svona skemmtilegan bolta og hefur gert í rúman áratug eins og Man U hefur gert. Menn eiga frekar að fagna því að geta séð svona góðan bolta spilaðan einhversstaðar því að ekki fáum við að sjá okkar menn spila svona vel.

    En af hverju erum við ekki að ná að spila svona flæðandi knattspyrnu flesta leiki eins og við höfum sýnt á köflum að við getum. Við getum verið sammála um það að höfum leikmennina til þess, á Spáni þar sem Rafa lærði fræðin er spilaður þannig bolti, hvað er þá vandamálið? Er Rafa ekki að ná að skilja hvað enska knattspyrnan gengur út á, hraðan og hörkuna?

    Mér finnst vera alltof mikið um þessar hálofta spyrnur úr vörninni fram á völlinn, þannig var til dæmis sóknin okkar fyrstu 20 mínúturnar í dag. Boltinn er einfaldlega ekki látinn ganga nógu hratt úr vörninni fram völlinn. Það er kannski ekki sanngjarnt að ætla að tala út frá þessum leik þar sem Man U voru einfaldlega svo mikið betri en við, eða hvað?
    Auðvitað á að tala út frá þessum leik, við eigum og viljum bera okkur við toppliðin, við höfum liðið til að vera að berjast við þessi lið sem eru efst í deildinni.

    Mér fannst vanta meiri grimmd í leikmennina í dag og þá er ég ekki að tala um að tækla mann og annan heldur að vera nær leikmönnum og gefa þeim ekki það pláss sem þeir þurfa til að ná að skapa færi eða þá til að vera í þeim, við vorum alltaf einu ef ekki tveimur skrefum á eftir þeim. Þar af leiðandi erum við líka nokkrum skrefum á eftir þeim í deildinni.

    Erum við bara orðnir að einhverju bikarliði, getum við bara hlaupið í spretthlaupunum en getum svo ekkert í þeim löngu, ég vona ekki.

  14. Tek undir með öllu því sem þú segir Einar, en ég er ekki sammála vali þínu á kantana. Mér þykja Pennant og García ekki hafa spilað nógu vel til að verðskulda sæti sitt í liðinu fram yfir Sissoko, þannig að ef við erum að leggja til lið sem á að spila næstu leikina án breytinga myndi ég vilja setja Sissoko og Gonzalez inn fyrir Pennant og García. Gonzalez hefur þegar skorað tvö mörk fyrir Liverpool og var okkar besti maður í dag, sóknarlega séð, þangað til hann meiddist í samstuðinu við Vidic. Þess vegna fór hann útaf í upphafi síðari hálfleiks.

    Miðjan eins og ég myndi vilja sjá hana myndi því líta svona út:

    Gerrard – Sissoko – Alonso – Gonzalez.

  15. Af hverju vinnast ekki leikirnir? Leikmennirnir eru góðir, þjálfarinn er góður, þjálfaraliðið er gott vörnin er góð en samt fá menn mörk á sig en þetta bara gengur ekki mikið lengur. Af hverj vinnast ekki leikir ? eru menn ekki að vinna heimavinnuna sína eða hvað er að hjá þessu liði.
    Skrítið að þegar að leikmenn eru keyptir þá eru keyptir einhverjir leikmenn sem að gætu hugsanlega orðið stjörnur en verða það ekki. Gott dæmi er salif diao og el hadji. Svo er núna menn eins og gonzalez og pennant af hverju keypti hann ekki almennilegan hægri kant mann , þetta leysir ekki hægri kantmannsstöðuna eins og átti að gera þvi hann spilar annan hvern leik…
    Eg vil benna út úr þessu liði og fá alan curbisley. Takk fyrir mig

  16. Þessi punktur hjá Stjána er að mínu mati frábær:

    >Mér finnst vera alltof mikið um þessar hálofta spyrnur úr vörninni fram á völlinn, þannig var til dæmis sóknin okkar fyrstu 20 mínúturnar í dag.

    Ég er 100% sammála þessu og þetta var að gera mig geðveikan í dag! Vörnin okkar var svo hræðilega léleg bæði hvað varðar varnarleik og að koma boltanum frá sér að það var ótrúlegt.

    Varðandi okkar óskamiðu, þá skil ég að menn séu ósammála mér með kantana, einfaldlega vegna þess að ENGINN hefur leikið vel á köntunum. Ég vildi auðvitað helst sjá Kewell á vinstri kantinum, en það er víst ekki hægt.

  17. Sissoko er of dapur sóknarlega að mínu mati. Hann vinnur boltann oft snilldarlega en tapar honum jafnharðann til baka. Vil setja hann á bekkinn í nokkrum leikjum og senda hann í reitarbolta með varaliðinu eða eitthvað.

  18. Svona áður en ég fer að sofa víst ég er í stuði, eitt annað. Einsog þið vitið, þá veljum við mann leiksins á þessari síðu. Þetta eru niðurstöðurnar eftir fyrstu 9 leikina:

    Sheffield United: Aurelio
    West Ham: Agger
    Everton: ENGINN
    Chelsea: Agger
    Newcastle: Alonso
    Tottenham: Alonso
    Bolton: ENGINN
    Blackburn: Alonso
    Man U: ENGINN

    Semsagt, menn með eftirnöfn, sem byrja á A hafa verið þeir einu, sem hafa verið valdir menn leiksins af okkur síðuhöfundum. Alonso 3svar sinnum, Agger tvisvar og Aurelio einu sinni.

    ÞRISVAR sinnum hefur enginn fengið þann heiður. Við sleppum bara að velja mann leiksins þegar við erum alveg fáránlega pirraðir yfir ömurlegri frammistöðu og það hefur gerst í þriðja hverjum leik í vetur. Það er magnað!

    Það, sem er einnig magnað er að frá því að við stofnuðum þessa síðu, þá leyfi ég mér að halda því fram að Liverpool hafi aldrei leikið 9 leiki í deildinni í röð án þess að við höfum útnefnt Steven Gerrard sem mann leiksins. Enginn Gerrard og enginn framherji, bara bakvörður, varnarmiðjumaður og miðvörður. Enginn sóknarsinnaður miðjumaður, kantmaður eða sóknarmaður hefur leikið nógu vel í deildinni að okkar mati til að vera valinn besti maður liðsins.

    Ég er ekki að segja að þessi síða sé alvitur dómstóll yfir frammistöðu Liverpool, en þetta er samt magnað.

  19. úffff,,, Benitez,,,hvað var þetta? af hverju einn senter???,,,í nánast hvert einasta skiptir sem hann hefur still upp liðinu með einn senter hefur liðið ekki náð að vinna leik.

    ..og þegar menn eru farnir að ákalla Peter Crouch, leikmann sem fyrir einu og hálfu ári barðist fyrir sæti sínu í Southampton og þar áður í Portsmouth og Aston Villa, segir ýmislegt um stöðu Liverpool í dag. Þegar Peter Crouch er kominn á sama stall og Ronaldinho í augum stuðningsmanna, þá er eitthvað verulega mikið að!!

    Held að staða liðsins velti ekki á einum manni til eða frá, hvort sem hann heitir Crouch, Kewell eða Cisse.
    Segi það aftur það sem ég hef sagt áður. Það er eitthvað verulega mikið að undirbúningstímabilinu hjá Benitez, liðið kemur illa undirbúið líkamlega og andlega til leiks hvert tímabil. Menn eins og Riise, Finnan, Gerrard, Alonso og ég gæti haldið áfram, eru svo hægir og þungir að þeir tækju ekki Niel Ruddock á stutta sprettinum.

    Sumarkaupin eru greinilega ekki að skila sér enda mátti setja spurningamerki við þau öll nema Kuyt. Kannski endurspegla þau bara árangurinn þar sem af er, kaup á miðlungsleikmönnum hljóta að búa til miðlungslið.

  20. Gerrard er búinn að vera ótrúlega lélegur það sem af er tímabili, svona miðað við það sem við vitum að hann getur. Hann er kannski aldrei lélegasti maðurinn á vellinum, en að mínu mati hefur hann ekki í einum af þessum níu leikjum verið nálægt því að hirða útnefningu fyrir mann leiksins. Það er ótrúlegt, miðað við að við erum að tala um besta miðjumann á Englandi og töluvert víðar.

    En kannski erum við á þessari síðu of harðir við hann. Ég meina, opinbera vefsíðan valdi einmitt Steven Gerrard mann leiksins í dag gegn United. :rolleyes: 😯

  21. Jesús fokking Kristur, þetta var hörmung. 4 útileikurinn í röð sem við töpum án þess að skora.

    Stundum þegar ég horfi á Liverpool í ensku deildinni líður mér eins og þeir gætu ekki skorað þótt andstæðingarnir hefðu engann markmann í markinu! Spilið hjá Liverpool er stundum svo varfærið og fyrirsjáanlegt frammávið að jafnvel amma mín myndi hafa tíma til að labba alla leið tilbaka í vörnina áður en Liverpool nálgast vítateig andstæðinganna. :confused:

    Það er eitthvað á Melwood sem er að klikka hræðilega illa hjá Liverpool, mér finnst skorta algjörlega hraða í okkar lið, það er eins og menn séu enn að spila sig í form núna í lok október. Mér finnst vanta alveg samhæfingu og sjálfstraust í liðið.
    Sérstaklega samhæfingu – oft sá maður Kuyt vera einan að pressa ásamt kantmanni á meðan Gerrard, Alonso og Sissoko héngu á sama blett við miðju. Einnig var Reina stöðugt í útspörkum að kvarta yfir að hafa engann að gefa á og menn hreyfðu sig ekki án bolta. Mér sýnist mórallinn í liðinu vera pínu á niðurleið og menn farnir að kenna hvor öðrum um hlutina.

    Það er virkilega ömurlegt að tapa svona sannfærandi fyrir Man USA vegna þess að þeir eru langt í frá með betri leikmenn enn Liverpool. Það er hinsvegar augljóst að þeir hafa notað sumarið vel og æft hratt spil endalaust. Þeir líta út eins og vélmenni á velli og treysta á það sem þeir lærðu á æfingavellinum – endalaus hlaup og hraður sendingarbolti. Svona hraður maskínubolti er akkúrat það sem virkar á Englandi en þeir munu nánast pottþétt detta út í 16 eða 8-liða úrslitum Champions League gegn liði sem getur nýtt sér veikleikana í dekkningum og öðru hjá þeim.

    Á meðan Man USA treystir á hraðann treystir Rafa Benitez enn á leikkerfi og taktískar æfingar með bolta.
    Fyrir þetta tímabil var reynt að leysa ákveðin vandamál hjá Liverpool með kaupum á leikmönnum. Frábær striker keyptur í Dirk Kuyt, sóknarsinnaður vinstri bakvörður með góðar sendingar var fenginn og litlir og snöggir kantmenn fengnir(Gonzalez og Pennant). Takmarkið væntanlega að auka kantspilið og keyra þetta á meira all-round sóknarleik ekki satt?
    Það er samt sama hvað er keypt og hversu góð hugmyndin á bakvið kaupin er – þetta byrjar flestallt og endar á æfingasvæðinu. Þessir auka eiginleikar sem nýju leikmennirnir gefa Liverpool eru hálf gagnslausir ef þeir nýtast ekki liðsheildinni. Öll góð lið þurfa ákveðinn grunn til að byggja á og sé hann til staðar þá fyrst nýtist það extra sem þeir hafa.
    Í dag er hjartað og grunnurinn í Liverpool liðinu tímabundið ekki til staðar. Gerrard og Carragher hafa bara verið skugginn af sjálfum sér undanfarið og skorturinn á sjálfstrausti sést vel á sumum leikmönnum. Það er greinilegt að það mistókst að fá nýju leikmennina nógu fljótt inní leiki liðsins og jafnvægi liðsins fór líka, kannski vegna þess að menn eins og Gerrard o.fl. eru með einhvern World Cup hangover enda reyndist sú keppni tóm vonbrigði fyrir leikmenn Liverpool.

    Mig grunar að það þurfi nýja leikmenn alltaf langan tíma að komast inní hugmyndafræði og leikkerfi Rafa Benitez enda er hann mjög nákvæmur og vandvirkur maður. Við þurfum því að bíða 1-2 ár lengur eftir því að Rafa nái nógu miklum stöðugleika í liðið sem þarf til að vinna titilinn enda er hann enn að taka til ruslið eftir Houllier.
    Ég spái því að þetta fari samt fljótlega að batna. 4 verður töfratalan fyrir Liverpool í ár. – 4.sætið í deildinni, við náum síðan í 4 liða úrslit CL, FA-cup og Deildarbikarsins.

  22. Þetta er náttúrulega óþolandi helvíti. Tap er tap en það er stór munur á tapinu okkar gegn Chelsea og þessu í dag. Þetta var vondur leikur og við áttum aldrei séns. Eins og við værum Bolton eða eitthvað… algjört milliklassa lið og ef ekki eitthvað breytist fyrr en síðar þá getur þetta tímabil endað illa.

    Ein hugmynd: Er ekki kominn tími á að við spilum á þeim leikmönnum sem hafa sannað að þeir geti staðist pressuna að spila fyrir LFC?

    Nota bara Riise á kantinn og Warnock í bakvörðinn? (hélt að ég myndi aldrei koma með þessa tillögu) Hafa Gerrard á kantinum og Crouch og Fowler frammi? Kyut á bekknum, klár til að koma inná.

    Það hefði nú verið ljúft að geta smellt Hamann inná í dag á miðjuna!

    Ég er svo pirraður að ég get varla talað um þetta… andskotans rusl.

    Rafa það vantar sjálfstraust í mannskapinn og leikgleði. Hafðu fast byrjunarlið og láttu strákan vita að þeir hafi þitt traust. Skiptum þeim sem standa sig ekki út en þeir sem skila góðu dagsverki eiga að vera í byrjunarliðinu í næsta leik!

    aaarrrggghhh piss og lort!

  23. Finsnt ykkur skrítið að Gerrard er ekki búinn að geta neitt á þessu tímabili? Mér finnst það ekki skrítið að hann sjáist ekki þegar honum er hent út á hægri kantinn á meðan við spilum okkar kick-and-hope-for-the-best bolta. Það er alveg gjörsamlega útúr kú að besti miðjumaður heims sé miðjumaður nr.3 hjá Liverpool. Bara til þess að Alonso og Sissoko komist fyrir. Það meikar bara engan sens. Og ekki koma með þessi slöku rök um að það gekk upp í fyrra. Þetta er nútíðin sem við erum að tala um og þetta er greinilega ekki að virka. Með fullri virðingu fyrir Sissoko þá er hann ekki hálfdrættingur á við Gerrard. Ég veit að staða Sissoko á að vera eins og Hamann og Makelele en Sissoko er ekki kominn með tærnar þar sem þeir hafa hælana. Hann má eiga það að hann berst eins og ljón en hann getur ekki spilað boltanum fram á við, getur ekki skotið og fyrsta snerting hans á boltann er skelfileg og hefur kostað hann ansi mörg gul. Ég vil sjá Gerrard og alonso á miðjunni strax og þá getum við haft Sissoko fyrir aftan þá. Spila 4-3-3. Það myndi henta okkur mun betur heldur en þetta getuleysa kerfi sem við erum að reyna að spila.
    Og já, í guðanna bænum Rafa þá máttu hætta þessum róteringum. Hvernig á liðið að ná einhverjum stöðugleika þegar menn fá varla tvo leiki í röð!

  24. Einar ég er ekki að spyrja um hvað hafi gerst einhvern dag né hver staða hafi verið einhverja dagsetningu í fyrra. Það sem ég spyr um er þetta: Hvað hefur RB gert fyrir þetta lið sem gefur manni vonir um eitthvað. Svar mitt er ekkert. Og að tala um að það sé fáránlegt að reka manninn er ef til vill rétt. En það er samt rétt að hann verður að standa sig betur og akila árangri ef hann á að halda stöðu sinni næsta tímabil. Ef við sættum okkur við að halda með miðlungsliði þá má hann vera áfram um aldur og æfi.

  25. Eins og ég bendi á Helgi þá er möguleiki að Gerrard þjáist núna af “World Cup Hangover”. Rólegir líka með að kalla Steven Gerrard besta miðjumann heims, hann er einn af mörgum góðum en langbestur er hann ekki. Eins og með marga enska leikmenn þá skortir hann taktíska hugsun og tækni til að vera á sama leveli og t.d. Ronaldinho og Kaká.

    Eitt samt sem fer hrikalega í taugarnar á mér er þessi prósentufótbolti sem Rafa aðhyllist, allt virðist ganga útá tölfræði hjá honum frekar en mörk. Núna eftir leikinn kom hann með komment um að hann hugsi bara um næsta leik, næstu þrjú stig, og benti á að Liverpool hafi átt fleiri skot á markið. Liverpool hafi einnig fengið oft boltann á “danger areas” í fyrri hálfleik eins og það sé eitthvað helvítis markmið í sjálfu sér. :rolleyes:
    Fótbolti gengur út á að SKORA MÖRK en ekki vinna einhverja andskotans tölfræðikeppni. Sannleikurinn er sá að Liverpool var aldrei nálægt því að skora í þessum leik og sóknarleikurinn var til algerrar skammar.

  26. Sigtryggur Karlsson segir:

    “Hvað hefur RB gert fyrir þetta lið sem gefur manni vonir um eitthvað. Svar mitt er ekkert.”

    Istanbúl, maí 2005. Cardiff, maí 2006. Maí 2007? Ef maðurinn hefur ekki unnið sér inn smá þolinmæði með þetta lið veit ég ekki hver á þolinmæði skilið.

    “Og að tala um að það sé fáránlegt að reka manninn er ef til vill rétt.”

    Það er fáránlegt, að mínu mati. Ég er ekki sammála öllu sem Rafa gerir og gagnrýni hann hiklaust á þessari síðu, sem og aðra sem koma að liðinu, ef mér þykir ástæða til.

    Hins vegar, þá er nákvæmlega engin ástæða til að óttast það svona snemma að hann sé ekki rétti maðurinn til að koma þessu liði á toppinn. Hann vann La Liga tvisvar með Valencia og UEFA-keppnina einu sinni. Á tveimur tímabilum með Liverpool hefur hann unnið Meistaradeildina, FA bikarkeppnina, Samfélagsskjöldinn og evrópska Ofurbikarinn og skilað okkur í úrslit í Heimsmeistarakeppni félagsliða og Deildarbikarnum.

    Vandinn er tvíþættur; í fyrsta lagi þá erfði hann töluvert sterkara lið og sterkari hóp hjá Valencia en hann erfði eftir Houllier hjá Liverpool. Í öðru lagi þá tengjast vonbrigði okkar gagnvart liðinu í dag einfaldlega því að liðið er ekki jafn langt komið í uppbyggingu og við héldum. Menn töluðu alltaf um að á þriðja tímabili Rafa myndum við sjá liðið leika að fullri getu undir stjórn hans sem þjálfara, en það hefur ekki gerst hingað til.

    Það eru vissulega vonbrigði og fyrir mér þýðir það að við verðum bara að sýna þolinmæði eitt árið í viðbót, allavega hvað deildina snertir (við erum enn með í öllum öðrum keppnum). Ef liðið byrjar næsta tímabil ekki betur en þetta tímabil verður tímabært að spyrja stóru spurninganna um framtíð Rafa hjá félaginu, að mínu mati, en það er alls ekki tímabært á þessu tímabili.

    Róum okkur aðeins, jöfnum okkur á pirringnum yfir þessu tapi og þá sjá menn vonandi sem er að Rafa er ekkert getulaus í þjálfaramálum þótti lla hafi gengið á útivelli í deildinni framan af vetri. Þetta þýðir bara að hann á ærið verk fyrir höndum að bjarga því sem bjargað verður af þessari deildarkeppni og svo að tryggja að liðið mæti sterkara til leiks í deildinni næsta haust. En allt tal um að reka hann núna eða fljótlega er bara bull að mínu mati.

  27. Svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að í byrjun tímabilsins í fyrra gekk ekkert upp hjá Peter Crouch…og honum tókst hreinlega ekki að skora mark. Á þeim tíma fékk hann gríðarlegan stuðning frá Rafa og var alltaf í liðinu.

    Nú ári síðar byrjar hann tímabilið með stormi, raðar inn mörkunum en er alltaf settur á bekkinn.

  28. Tek undir með Kristjáni hér að ofan. Benitez á alveg skilið smá þolinmæði og held að það sé engin hætta á að honum verði sparkað. Menn eru greinilega fljótir að gleyma þeim sælu tilfinningum sem hann og Liverpool liðið færði okkur í Maí 2006 og 2005. Sama fögnum við og saman þjáumst við. Þegar liðið þjáist er mikilvægast að menn standi saman og það þurfa stuðningsmenn Liverpool að gera núna þ.e. að peppa upp sjálfstrausti í leikmennina.

    Það er samt virkilegt áhyggjuefni að liðið skuli vera búið að missa af lestinni um Englandsmeistaratitilinn strax í október líkt og undanfarnar tvær leiktíðir. Nú er bara að vona að hjólin fara snúast ef liðið á að komast í meistaradeild að ári, höndla ekki að horfa á liðið fara í UEFA Cup.

  29. Svona fer fyrir þeim sem mæta á Old Trafford og ætla að halda stiginu. Rafa þarf að fara að hugsa sinn gang aðeins og pæla í sínum taktísku breytingum ef hann ætlar ekki að brenna út. Þið getið gagnrýnt það sem ég segi ef þið viljið en þetta er algjörlega mín skoðun að Rafa er að gera taktísk mistök með því að stóla of oft á að skyndisóknir reddi okkur mörkum. Nú er bara að vona að við lendum í topp 5.

  30. Sammála Arnari, Benitez ferst líka að tala um tölfræði þegar hann hefur markeheppnasta mann liðsins utan vallar.

    Crouch á bekknum var úti í skurði í leiknum gegn Bolton (eftir tvö mörk gegn Galatasaray) og núna þegar hann enn og aftur er nýbúinn að minna á sig, fær hann ekki að byrja inni á.

    Skiptingarnar í dag voru úti í skurði. Fyrst skiptir maðurinn Gonzalez út af, sem var búinn að eiga nokkra fína spretti upp kantinn fram hjá varnarmanni og var einna mesta ógnin í sókninni, í stað þess að henda Crouch inn á fyrir Garcia (breyta í 4-4-2). Í næstu skiptingu skipti hann ekki heldur Garcia út af, sem var óumdeilanlega slakasti maður liðsins í dag, missti bolta oft, klúðraði sendingum o.s.frv. heldur tók Alonso í staðinn, sem var alveg út úr kú.

    Þótt margir leikmenn hafi valdið vonbrigðum í þessum leik, var það Benitez sem tapaði honum með sinni taktík. Hann hefur áður sýnt snilld sína í stórum leikjum en ekki í dag.

    Eftir að United komst í 2-0 gáfust Liverpool gjörsamlega upp, fáránlegt að sjá vesældóminn, þótt mjög erfitt hefði verið að skora tvö mörk hefðu þeir a.m.k. getað reynt að setja eitt í sárabætur en þeir gáfust í staðinn alveg upp. Einn maður barðist þó frá upphafi til enda, Sissoko, og var að mínum dómi besti maður liðsins í dag.

  31. Frammistaða Liverpool þessi misserin minnir mig á einn mann. Sá maður heitir Gérard Houllier.

  32. Og svo les maður svona setningar á vefmiðlum um önnur lið sem við keppum við.

    Arsenal reinforced their claim to be genuine title contenders by dismantling top-flight newcomers Reading 4-0 with a breathtaking display.

    Breathtaking display. Hvað skyldi nú vera langt síðan að maður sá “breathtaking display” hjá okkar mönnum. Við erum alltaf boring, boring, boring.

  33. :sad:Ég veit ekki hvað á að segja þegar menn eru algjörlega blindir í stuðningi sínum við RB. Það sem Gunnar segir hér fyrir ofan er laukrétt. Stuðningur þeirra sem styðja RB núna var sá sami við Húlla greyið á sínum tíma. Það á auðvitað að styðja við liðið í þrengingum þess en ekki endilega að samþykkja orsakir þrenginganna sem eitthvað sem beri að sætta sig við og vona að breytist í eitthvað gott. Þó liðið hafi unnið nokkra titla með RB (einn risatitil og einn góðan) þá hefur liðið ekki tekið framförum undanfarna mánuði. Það er ekki að spila að neinu leyti vel. Markvarsla, vörn, miðja og sókn er allt í meðalmennsku þegar vel er og langt þar fyrir neðan oftar en tárum taki. Maður fer ekki fram á annað en liðið batni með tímanum, frá viku til viku, mánuði til mánaðar. Það hefir ekki gerst. Liðið virðist ekki vera í lægð. Það virðist mölbrotið, uppgefið og áhugalaust. Af hverju??? Hvar er orsakanna að leita? Hver á að sjá um að þessir þættir séu í lagi???
    Ástandið er eins og það var verst hjá Húlla greyinu á sínum tíma. Það er óásættanlegt að eftir á þriðja ár með RB skuli liðið vera á sama stað og það var verst á tímum Húlla greysins. Rúmlega tveggja ára “uppbygging” skilar þessarri niðurstöðu. Er von að maður efist og efist stórlega.
    Ég skal vera fyrsti maður til að éta þetta allt ofan í mig ef við vinnum næstu 10 leiki. En ekkert annað getur fengið mig til þess. 🙁

  34. Síðasta breathtaking display hjá okkur var gegn Tottenham. Annars er ég sammála Arnarni með HM-þynnkuna hjá Gerrard. Hann er ekki svipur hjá sjón, alveg eins og Lampard. Þeir eru eflaust báðir langþreyttir, kannski ekki síst andlega.

  35. GK já þú meinar þegar við vorum ljónheppnir að fá ekki á okkur mark frá Jenas. Sammála, það var breathtaking but not in a good way. Sá leikur var boring þangað til Jenas klikkaði.

  36. >Ég veit ekki hvað á að segja þegar menn eru algjörlega blindir í stuðningi sínum við RB

    Semsagt að við, sem munum ennþá eftir Istanbúl og Cardiff í fyrra og munum ennþá hvernig Liverpool var með besta árangurinn í deildinni frá umferð 11-38 í fyrra, *við* erum semsagt “blindir”?

    Ég nenni ekki einu sinni að taka þátt í svona umræðu. Við erum að gagnrýna Rafa *á fullu* og það er enginn, sem er blindur í aðdáun sinni á Rafa. Það virðast hins vegar vera komnir nokkrir hingað inn, sem virðast hafa látið slæma byrjun blinda sig frá því góða, sem Rafa hefur gert. Það þykir mér sorglegt.

Liðið komið – Crouch á bekknum!

Smásól í niðamyrkri …