Liverpool 2 – West Ham 1

agger_firstgoal.jpgOkkar menn unnu í dag fyrsta deildarleik sinn í vetur með góðum 2-1 sigri á West Ham á Anfield. Þetta var annar leikur liðsins og kom eftir jafnteflið við Sheffield United um síðustu helgi, þannig að okkar menn eru enn ósigraðir og komnir í toppsætin með fjögur stig eftir tvo leiki. Síðar í dag og á morgun verður leikin heil umferð í deildinni þannig að það verður athyglisvert að sjá hvar í töflunni okkar menn eru staddir eftir helgina, með leik til góða á flest hin liðin.

Rafa gerði enn og aftur breytingar á liði sínu frá því í síðasta leik en í dag voru þær ekki jafn margar og í öðrum leikjum haustsins. Gerrard og Bellamy komu aftur inn í liðið og þá var nýliðinn Dirk Kuyt á bekknum. Liðið í heild var svona:

Reina

Finnan – Hyypiä – Agger – Aurelio

Pennant – Gerrard – Alonso – García

Crouch – Bellamy

**BEKKUR:** Dudek, Kromkamp, Zenden, Gonzalez, Kuyt.

Leikurinn fór frekar hægt af stað, okkar menn sóttu í átt að The Kop-stúkunni sem fagnar hundrað ára afmæli sínu um þessar mundir. Maður vissi að það var erfiður leikur framundan en framan af virtist þetta ætla að vera stórsókn okkar manna, en ekkert gekk að skapa sér færi.

Fyrsta markið kom svo gegn gangi leiksins, en eftir smá baráttu á miðjum vellinum barst boltinn út á hægri væng West Ham-manna þar sem Bobby Zamora fékk hann. Hann ætlaði greinilega að gefa fyrir en hitti boltann illa og hann fór beint á nærstöngina. Pepe Reina hafði hins vegar gert ráð fyrir því að boltinn kæmi út í teiginn og var því kominn allt of utarlega og missti boltann því í netið á nærstönginni. Mjög klaufalegt hjá Reina og ekki við neinn annan að sakast, og West Ham-menn voru komnir yfir.

Eftir þetta sást smá taugatitringur í okkar mönnum. West Ham-menn drógu sig aftar á vellinum og ætluðu að bíða færis en lítið gekk hjá okkar mönnum að skapa sér sóknarfæri. En menn voru þolinmóðir og unnu sig hægt og bítandi aftur inn í leikinn og það bar árangur. Á 41. mínútu fékk Daniel Agger boltann við miðlínu vallarins. Hann hljóp með hann inn á miðjan vallarhelming West Ham og þegar hann sá að hann var óáreittur lét hann bara vaða með vinstri og boltinn söng uppi í markhorninu. Fyrsta mark þessa frábæra, danska varnarmanns sem er svo sannarlega búinn að stimpla sig inn í enska boltann, og eitt af mörkum tímabilsins þori ég að fullyrða!

Eftir það tók við stórsókn og okkar menn komust yfir undir lok hálfleiksins. Luis García fékk boltann á vítalínunni úti til hægri og lék að teignum, laumaði boltanum svo innfyrir vörnina á Peter Crouch sem kom okkar mönnum yfir, 2-1.

Í síðari hálfleik léku eiginlega bæði liðin betri fótbolta en í þeim fyrri og þótt mörkin hafi öll komið í fyrri hálfleik var sá síðari eiginlega samt skemmtilegri. Liverpool-liðið fann loks flæðið í leik sínum og okkar menn höfðu feykimörk færi til að bæta við marki og tryggja sigur, auk þess sem Craig Bellamy skoraði mark undir lokin úr góðri sókn en það var dæmt af vegna mjög tæprar rangstöðu sem ég er ekki sannfærður um að hafi verið réttur dómur.

West Ham-menn fengu á móti nokkur góð færi til að jafna leikinn og stela stigi af Anfield, en það besta kom á 80. mínútu þegar fyrirgjöf frá hægri fann Lee Bowyer á markteig en hann skaut einn og óvaldaður í utanverða stöngina og framhjá. Hefði átt að skora úr því færi og maður andvarpaði bara þegar maður sá boltann rúlla í stöngina.

Á endanum héldu okkar menn út og innbyrtu mikilvægan sigur og geta því farið brosandi inn í enn eitt h—–is landsleikjahléð. Næsti leikur er á laugardegi eftir nákvæmlega tvær vikur, á Goodison Park gegn erkifjendunum í Everton.

Og eitt enn áður en við gerum leikinn upp: ég gæti skrifað ritgerð um það hversu slakur Alan Wiley dómari var í dag en ég nenni því ekki. En dómgæslan hallaði eiginlega á hvorugt liðið, aðallega bara á Bellamy sem einstakling, og var í heildina alveg skelfileg. Það er ömurlegt að horfa á dómara nánast eyðileggja leiki svona.

**MAÐUR LEIKSINS:** Ef ég ætti að velja besta leikmann tímabilsins hjá okkur til þessa væri það sami maður og stóð höfuð og herðar yfir aðra leikmenn vallarins í dag. **DANIEL AGGER** hefur fest sig heldur betur í sessi hjá liðinu í þessum fjórum leikjum sínum til þessa og verið besti maður vallarins eða einn af þeim bestu í þeim öllum. Í dag lék hann aftur frábærlega, þeir Zamora og Harewood sáust ekki og Agger leysti allar flækjur vandræðalaust. Hyypiä stóð sig líka vel í dag og á sama hrós skilið fyrir sterka vörn, en munurinn á þeim er þetta frábæra mark sem Agger skoraði í dag. Það er hans fyrsta fyrir Liverpool og vonandi verða þau mörg fleiri í þessum dúr!

**VARAMAÐUR LEIKSINS:** Þegar klukkutími var liðinn af leiknum skipti Rafa Benítez Peter Crouch útaf, aðallega til að hvíla hann en líka til að gefa nýja leikmanninum okkar séns. Inná kom **DIRK KUYT** og það sem eftir lifði leiks sýndi hann okkur nákvæmlega hvers vegna Rafa eyddi tæplega tíu milljónum punda í þennan leikmann. Á rétt rúmum hálftíma átti hann fimm skot að marki, þar af þrjú á rammann, og bjó til allavega þrjú dauðafæri fyrir samherja sína. Hann smellpassaði inn í leik liðsins og það var frábært að sjá hversu vel hann náði saman við samherja sína. Hann er sívinnandi, kom alla leið aftur á miðju til að sækja boltann og taka þátt í spilinu en var samt alltaf mætur inn í teiginn. Það er einfaldlega langt síðan ég hef séð nýjan leikmann eiga svona jákvæða frumraun fyrir liðið og þótt hann hafi ekki náð að skora í dag er ljóst að ef hann getur haldið áfram eins og hann byrjar verður þessi leikmaður algjör uppgötvun í vetur!

Fín byrjun, fjögur stig eftir tvo leiki og sæti í Meistaradeildinni tryggt. Næst er tveggja vikna landsleikjahlé og svo erkifjendurnir í Everton. Strax þar á eftir fylgja fyrsti leikur í Meistaradeildinni og svo leikur gegn Chelsea, þannig að njótið afslöppunarinnar í fríinu næstu tvær vikurnar vel. Þið verðið á taugum þegar liðið byrjar að spila aftur. 🙂

31 Comments

  1. Já, þetta var fínn sigur og gríðarlega skemmtilegur leikur – sérstaklega í seinni hálfleik, þar sem hraðinn var oft á tíðum frábær.

    Algjörlega sammála um mann og varamann leiksins. Maður gæti auðveldlega gleymt því hversu ungur og óreyndur Agger er, en hann hefur verið algjörlega frábær.

    Og **þvílík innkoma** hjá **Dirk Kuyt**. Hann var algjörlega frábær. Miðað við hversu ógnandi Kuyt og Bellamy voru í leiknum (ef Bellamy hefði fengið smá sjens frá dómaranum, þá hefði hann skorað allavegana eitt mark). Bellamy og Kuyt í staðinn fyrir Cisse og Morientes. Það lítur helvíti vel út.

    Frábært að sjá hversu vel Kuyt vann fyrir liðið og hvað hann var sí-ógnandi. Það átti náttúrulega ekki að vera rangstæða þegar að Kuyt komst einn fyrir og því hefði hann auðveldlega getað skorað auk þess sem Carrol varði vel frá honum.

    En allavegana, virkilega gott veganesti fyrir næsta leik eftir tvær vikur. 🙂

  2. Það er svo mikið að gerast hjá Liverpool þessa dagana….allir þessir nýju leikmenn…og sjá hvað þeir eru góðir…….ég get bara hreinlega ekki beðið eftir því að sjá meira til Kuyt….þvílíkur leikmaður.

    Það var alls ekki sjálfsagt að ná sigri í dag..mikil meiðsli og nýjir leikmenn…nýjir í bókstaflegri merkingu þess orðs… :biggrin:
    að koma inn í liðið.

    Markið hjá Agger var gjörsamlega stórkostlegt. Sjá hvernig hann leit upp og þrumaði af þessu líka færi….í blá vinkilinn …algjörlega óverjandi. :biggrin:
    Seinna markið var líka frábært..svo yndislegt að sjá litla og stóra vinna svona magnað fallegt saman. Og Crouch sem oft hefur verið gagnrýndur fyrir að klára ekki færin sín…en oo my god..hvað hann var yfirvegaður og professional í þessu marki… :biggrin:

    Ég fyrirgef Reina hundrað sinnum fyrir sín mistök..hann er frábær markvörður og ég trúi því að hann eigi eftir að hampa enska meistaratitlinum með Liverpool …innan þriggja ára..kallið mig bjartsýnismann…allt í lagi..ég er í góðu skapi í dag…. 🙂

    Og eitt enn……það er algjörlega óþolandi að sjá línuverði drulla upp á bak í ákvörðunum sínum trekk í trekk. Þetta á ekki að sjást í EPL. Ég varð svo reiður þegar markið var tekið af Bellamy að ég vissi ekki hvert ég ætlaði.. 😡

    Hvernig er það…er það ekki skýrt í reglunum að sóknarmaður eigi að njóta vafans….ég mæli með því að þessi regla verði heftuð við ennið á dómurum sem taka svona ákvarðanir eins og í dag.. 😡

  3. Það er ekki nokkur spurning að hópurinn okkar lítur mun betur út núna en í fyrra. Þessar breytingar hjá Benitez eru að mínu mati frábærar og sýnir enn og aftur hversu heppnir við erum að hafa hann hjá okkar klúbbi. Agger var frábær í dag, Kuyt átti glæsilega innkomu og svo er virkilega gaman að sjá til Bellamy. Hann er endalaust að og heldur varnarmönnum andstæðingana vel við efnið. Ef við verðum þokkalega heppnir með meiðsli í vetur eru okkur allir vegir færir. Við getum vel verið í titilbaráttu í vetur. Þetta lið á bara eftir að verða betra þegar það slípast betur saman.

  4. Danirnir voru þetta litla stoltir þegar Agger smellti tuðrunni inn… usss þetta mark var hreint út sagt FRÁBÆRT.

    Kuyt átti einnig stórgóða innkomu og ef af líkum lætur þá er hann framherjinn sem okkur hefur vantað.

    Fínn leikur og gott samspil fram á við milli manna. Þetta lítur vel út.

    Eina sem mér þykir varhugavert er frammistaða Alonso það sem af er tímabili. Það er eins og hann sé ofþreyttur eða mikið andlegt álag heima fyrir. Vonandi að hann komi tilbaka fyrr en síðar.

  5. Mér leist ágætlega á innkomuna hjá Dirk og það er ljóst að hann er feykilega sterkur leikmaður með næmt auga fyrir spili. Allt annað en maður sá í sumar á HM enda var hann meira notaður sem kantur eða afturliggjandi sóknarmaður ÞEGAR hann fékk að spila.

  6. Alonso er ekki sami náttúrulegi íþróttamaðurinn og aðrir leikmenn liðsins. Þetta hefur margoft komið fram, hann þarf t.d. að teygja aukalega á fótleggjum og öxlum en allir hinir því hann er svo stirður. Nær víst ekki að teygja sig í tærnar, greyið. Hann er því lengur að koma sér í leikform eftir sumarfrí og lengur að spila sig í gott leikform en aðrir, lengur að ná upp snerpu og slíkt.

    Þegar Alonso kom til okkar fyrir tveimur árum átti hann nokkra svona “ókei”-leiki áður en hann virkilega sprakk út í septembermánuði. Var frábær það sem eftir lifði tímabils. Í fyrra byrjaði hann ámóta illa og það er engin tilviljun að liðið hafi farið hægt af stað í upphafi móts með hann í óstuði. En svo small allt eins og árið áður og hann var frábær það sem eftir lifði tímabils.

    Alonso er búinn að vera bara slakur og ekkert annað í þessum leikjum sem eru búnir en liðið hefur þó verið að ná úrslitunum sem þarf og hafa byrjað mótið ágætlega vel. Og þótt Alonso sé að spila illa núna þarf hann nauðsynlega þessa leiki til að koma sér í stand, því án þeirra tekst það ekki. Þetta veit Rafa og því lætur hann strákinn spila þrátt fyrir slappa frammistöðu undanfarið.

    Alonso er bara lengur en hinir að komast í gang, þetta eru staðreyndir og þið getið hreinlega búist við þessu eftir ár og tvö ár og svo framvegis. En um leið og þetta smellur hjá honum, sem verður vonandi í næstu leikjum, þá verða menn líka fljótir að fyrirgefa því við vitum hversu góður og mikilvægur hann er þegar hann hrekkur í gang.

  7. ok Kristján ég hafði ekki hugmynd um þetta. Senda drenginn í Yoga… en þetta skýrir slappa frammistöðu hans undanfarið.

    Ég hlakka til að sjá liðið spila þegar betra jafnvægi er komið milli varnar og sóknar… þá getum við farið langt… og jafnvel alla leið.

    Tottenham er að tapa óvænt, Chelsea búið að tapa og heldur því vonandi áfram. Arsenal er í smávægilegum vandræðum ennþá og eilíft vesen á Reyes og Cole. Eina liðið sem virðist vera 110% klárt er Man U og eru þeir gríðarlega sannfærandi.

  8. MR.Dalglish það er ekkert til sem heitir nýr GUÐ!! En Kuyt er samt frábær leikmaður og frábær kaup.

  9. Aggi og Kristján Atli, þetta þykja mér gríðarlega áhugaverð skrif.

    Fyrirliði okkar Steven Gerrard er búinn að vera ógeðslega lélegur það sem af er tímabils en enginn minnist á það. Hann hefur hreinlega verið átakanlegur og svo keppast menn um að skrifa að Xabi sé ekki að spila vel og annað! Um að gera maður, því ekki má segja það um Gerrard!
    Persónulega finnst mér Xabi hafa staðið sig fínt í fyrstu leikjunum og verið til að mynda mörgum klössum ofar en Gerrard, þó enn eigi hann aðeins í land. Gegn Maccabi heima þá klikkaði Xabi ekki sendingu og ótrúlegt að sjá allar þessar 50 metra sendingar sem virðast aldrei klikka. Endalausir boltar á Pennant til að mynda sem sköpuðu gríðarlegan usla (t.d. í markinu) Hvað vilja menn meira en það?
    Hann er bara ekki sá leikmaður sem er að gera mjög “sýnilega hluti” en hann skilar alltaf sinni vinnu. Hann á alltaf seinustu sendingu fyrir seinustu sendingu og því taka ekki allir eftir.

  10. Ég hef engar áhyggjur af þeim Gerrard og Alonso. Einungis tilhlökkun til þess þegar þeir verða komnir á ról því þá verður liðið svo miklu betra. Fyrir mér þá lofar liðið miklu og þegar skilningur manna á hvor öðrum verður góður og allir verða komnir í form verður þetta lið skuggalega gott.

  11. Jæja til hamingju með úrslitin. Ég sá bara fyrri hálfleik þannig að ég á eftir að sjá Kuyt en samkvæmt ykkar lýsingum hlakkar mig til. Takið þið eftir því hvað við erum allir jákvæðir eftir sigurleiki:) En þetta mark hans Agger var gríðarlega mikilvægt. Þetta býr til alveg nýja hættu og það er ekki séð fyrir endann á þessu held ég. Eina vandamálið við Carra er það að hann skorar mjög sjaldan, ég tek fram að það er eina vandamálið við hann og ég myndi ekki vilja skipta á honum og neinum öðrum. Annars er þetta gríðarlega mikilvægt fyrir Agger, hann kom okkur aftur inn í leikinn og skoraði sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn, þá er það frá. Mjög gott.
    Crouch setti fallegt sentersmark og sólaði meira að segja markmanninn. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af þessari súlu en hann er allur að vinna sig inn og er að standa sig mjög vel. Aftur til hamingju, nú verður helgin bara skemmtileg.

  12. Kuyt kom virkilega sterkur inn í þennan leik og ef fram heldur sem horfir verður hann okkar aðalframherji – óhræddur við að skjóta að marki og með næmt auga fyrir spili. Virðist smellpassa í liðið. Líka gaman að sjá svona duglega framherja.
    Mér finnst nú Gerrard ekki búinn að vera arfaslakur en hann á mikið inni. Hann er nú búinn að bera þetta lið á herðum sínum oft á tíðum en nú virðumst við vera komnir með það sterkan hóp að það ber ekki eins mikið á honum. Alonso á líka mikið inni en hann getur átt það til að gefa sendingar á hættulegum stöðum (fyrir framan vörnina) sem skapast stundum hætta úr.
    En ég held við þurfum engar áhyggjur að hafa – gott að við eigum slatta inni því við erum ekkert búnir að vera brillera.

  13. Stefán…ég verð nú bara að segja að ég er mjög ósammála því sem þú ert að segja hér. Gerrard átti margar stórhættulegar sendingar í leiknum í dag sem hefðu hæglega getað endað með marki, t.d. sendingin á Pennant…boltinn fór inn á milli hafsents og bakvarðar, boltinn fór aldrei hærra en 30-40 cm frá jörðu og Pennant komst upp að endamörkum. Svo segiru Stefán að Alonso eigi alltaf “seinustu sendingu fyrir seinustu sendingu”. Ef ég skil þig rétt, þá áttu við að Alonso eigi alltaf sendinguna fyrir stoðsendinguna. Ef þú tókst ekki eftir því í leiknum í dag þá átti García stoðsendingna á Crouch í öðru markinu….og hver átti sendinguna á García, jú það var Steven Gerrard.

    Það eru bara svo margir sem setja Gerrard á annan pall en hina leikmenn liðsins því það er búist við svoooo miklu af honum í hverjum leik. Ef þú sæir darren fletcher spila hvern leik eins og Gerrard gerði í dag, þá væri hann ekki lengur talinn kjúklingur, heldur meðal betri miðjumanna deildarinnar.

  14. Sammála með Xabi. Það er mjög undarlegt að sjá hann svona rosalega slakann. En líklega skýrir það sem Kristján Atli segir um Xabi málið. Agger er frábær leikmaður, maður sá það strax í leiknum á móti Chelsea. Kuyt var líka frábær, stimplaði sig inn sem besti framherjinn sem hefur verið í Liverpool búning síðan Owen var upp á sitt besta. En ég verð að viðurkenna að Bellamy vældi allt ef mikið fyrir minn smekk…..og hvað var þetta með að fara ekki í treyjuna sína fyrr en hann labbaði inn á völlinn!!!!
    Frekar barnalegt af honum að ætla að stæla Paul Ince. Hann var reyndar mjög duglegur í leiknum en mjög leiðinlegur.

    Ég er líka sammála Kristjáni Atla með dómarann, dæmdi ALLT of mikið. En þessar rangstæður á Liverpool voru oftast réttar og þessi á Bellamy sem var ekki rétt var nánast ómögulegt fyrir línuvörðinn að sjá.

  15. Assgoti fór maður nálægt því í þetta skiptið :biggrin:

    Aðeins Garcia inn fyrir Speedie, og það var wondergoal frá Agger í stað marksins hjá Stevie G 😯 Annað gekk upp. Maður verður nú að fá að njóta augnabliksins :blush:

    Annars er það sem stendur upp úr hjá mér er stórkostleg innkoma hjá “Kájt”. Þvílíkur bolti í þessum framherja. Held að við höfum verið að gera ein bestu kaup síðari ára í þessum strák. Vinnufélagar mínir í Rotterdam hafa greinilega ekkert verið að ýkja. “Guðinn” þeirra er kominn á Anfield, og það til að VERA.

    Ekki besti leikur í heimi, en afar margir jákvæðir punktar sem hægt er að draga fram.

  16. Ég held að menn verði að vera aðeins rólegri yfir Kuyt hér… 🙂 Hann átti ágætis innkomu en við eigum eftir að sjá hvernig honum vegnar í vetur. Vonandi raðar hann inn mörkum.

    Mér finnst undarlegt ef satt er að Rafa sjái fyrir sér að hann komi til með að skyggja á Fowler í sögu okkar manna. Ég er til í að veðja mænu og innyflum að sú verður ekki raunin.
    Hugsanlega er þetta úthugsað komment sem á að efla Fowler til dáða… en annars eru þau afar ógáfuleg og gera Kuyt sjálfsagt lítinn greiða.

    Annars er spurning dagsins þessi: Hvort víkur Hyypia eða Carragher fyrir Agger?

  17. Baros ég held að hvorugur muni víkja fyrir Agger í vetur en hins vegar muni Agger koma inní liðið og spila með bæði Carra og Hyypia. Síðan sé ég fyrir mér að Agger tæki sæti Hyypia í liðinu og smátt og smátt deyi Hyypia út. En ég tel einnig að Hyypia sé leikmaður sem geti vel spilað með okkur næstu 2-3 árin… ef hann er andlega tilbúinn og hungraður áfram.

  18. Baros, ég bendi þér á líknardeildina af þú vilt að mænan og innyflin fari til að bjarga öðrum frekar en í ruslið. Kuyt er miklu betri leikmaður en Fowler var nokkur tíman. En það sem Fowler gat en Kuyt er ekki búinn að gera er að spila á stóra sviðinu og spila af fullri getu. það er stór munur á. En ef Kuyt gerir það líka þá hefur Benítez rétt fyrir sér með þessi ummæli sín.
    Go Kuyt

  19. Bendi mönnum á að El-Hadji, nokkur, Diuof leit gríðarlega vel við fyrstu sýn á sínum tíma (á HM) og menn voru tilbúnir að lofa og fullyrða að þarna væri næsta goðsögn.

    Ég legg til að menn verði rólegir á að lofa Kuyt, svona til að byrja með, því það er ekki hægt að dæma mann alfarið af 38 mínútum. Hins vegar fannst mér hann lýta gríðarlega vel út á vellinum og ef þetta er það sem koma skal þá er bjart á Anfield. En gefum honum tíma og förum þá að lofa því að hann sé næsti GUÐ eða annað.

    Varðandi Gerrard og Xabi þá var “alltaf” (með síðustu sendinguna) aðeins of fast að orði kveðið). Gerrard var í dag loksins e-ð að gera en ég vil sjá miklu miklu meira frá þessum manni sem margir segja besta miðjumann veraldar.

  20. Já, við skulum hætta algjörlega að gleðjast yfir því sem vel er gert. Kuyt, þú varst hreint út sagt ekkert spes. Af hverju í ósköpunum mega menn ekki gleðjast yfir jákvæðum hlutum eins og þessum. Það er ekkert verið að tala um að hann sé búinn að slá markamet Rush og það var enginn að tala um að hann sé næsti Guð. Ég sagði aftur á móti að hann hafi verið Guð þeirra Feyenoord manna, og það er engin lygi.

    Það var enginn að dæma mann alfarið af 38 mínútum, menn voru engu að síður afar ánægðir með eina bestu “debut” sem maður hefur séð hjá Liverpool manni í háa herrans tíð.

    Sé bara akkúrat ekkert sem tengir þá Kuyt og Diouf saman. Diouf átti afar gott HM og væntingarnar því miklar, Dirk átti ekki gott HM en hefur með sínum spiluðu mínútum með Liverpool, sýnt að hann lofar afar góðu. Kannski er maður með þann vonda eiginleika að sjá oft bjartar hliðar á málum, sé bara ekki einn neikvæðan punkt við það að hrósa góðri frammistöðu nýjasta leikmanns okkar.

  21. >Bendi mönnum á að El-Hadji, nokkur, Diuof leit gríðarlega vel við fyrstu sýn á sínum tíma (á HM) og menn voru tilbúnir að lofa og fullyrða að þarna væri næsta goðsögn.

    SSTeinn svarar þessu ágætlega. En við erum nú flest sem sækjum þessa síðu orðin eldri en 10 ára og áttum okkur á þeirri staðreynd að við getum ekki dæmt mann af einni frammistöðu (þótt sumir vilji oft gera það þegar menn leika illa).

    En mér finnst ekkert að því að vera spenntir yfir Dirk Kuyt. Þetta var einfaldlega meiriháttar innkoma og *ef* hann heldur áfram svona, þá erum við í góðum málum.

  22. Bara svona til að skapa meiri umræðu um þennan ágæta leik okkar Liverpool manna, þá langar mig að fá álit ykkar sem þetta lesa um framistöðu vinstribakvarðarins Aurelio. Hann hefur verið dásamaður fyrir framlag sitt í þessum fyrstu leikjum þrátt fyrir að vera frekar slakur varnarlega. Auðvitað getur maður kannski ekki verið að dæma hann svona strax, en í þeim tveimur leikjum sem ég hef séð hann spila bakvörðinn þá hefur hann verið í miklum vandræðum og oftar en ekki kemst kantmaðurinn með boltann fyrir markið. En þetta með framgöngu Dirk Kuyt þá fannst mér hún mjög góð, virkar áræðin og kappsamur.

  23. SSteinn, þetta er eitthvað það ótrúlegasta svar sem ég hef lesið á veraldarvefnum. Persónulega gæti ég ekki verið sáttari með innkomu Kuyt. Hann var hreint út sagt ótrúlegur, vann vel fyrir liðið, var að leggja upp og lofar bara virkilega góðu.

    Það er bara ekkert það sem ég var að segja. Ég er ekki að segja að menn eigi ekki að vera virkilega sáttir með innkomu hans. Var einfaldlega að benda mönnum á að það þarf ansi meira en 38 mínútur til að verða hetja en til þess þurfa menn að standa sig yfir einhvern ákveðin tíma. Ég var bara að benda mönnum á að vera kannski ögn rólegri í lofi sínu en margir segjast eftir þessari 38 mínútur sjá að þarna sé næsti kóngur og GUÐ á Anfield. Til þess þarf hann að sanna sig í mun meiri tíma en ef þessi spilamennska er það sem koma skal þá efast ég ekki um að hann verði gríðargóður, en þá þarf hann að vera á sama dampi.

    “Hins vegar fannst mér hann lýta gríðarlega vel út á vellinum og ef þetta er það sem koma skal þá er bjart á Anfield. En gefum honum tíma og förum þá að lofa því að hann sé næsti GUÐ eða annað.”

    – Þetta skrifaði ég sjálfur og skil ég ekki hvernig SSteinn getur fengið þá niðurstöðu út að megi ekki gleðjast yfir frábærum leik (alla vega er ég glaður og skrifaði það meira að segja!!).

    Þessi samanburður við Diouf var bara til að minna menn á að þó menn líti vel út í byrjun þá veit maður aldrei hvernig dæmið endar. Persónulega vona ég auðvitað að tími þeirra hjá LFC endi ekki eins.

    “Held að Rafa hafi keypt nýjan GUÐ DIRK KUYT” skrifar Mr. Dalglish. Er hann ekki að segja að þarna sé nýr GUÐ? Ég var meðal annars að benda þessum manni á að til að verða næsti GUÐ (sem sagt í klassa við Robbie Fowler) þá þyrfti maðurinn meiri tíma og að sýna heilsteyptan og góðan leik yfir ákveðin tíma (tímabil t.d.).

  24. Algerlega sammála þér Stefán, það er bara einn Guð og hann heitir Robbie Fowler !
    En sannarlega er ástæða til að gleðjast yfir góðri innkomu Hollendingsins, en hann á bara eftir að sanna sig í þessari deild og með okkar elskaða liði.

  25. Þá erum við bara alveg sammála með að vera afskaplega ánægðir með byrjunina hjá kauða og vonum að þetta sé það sem koma skal frá honum 🙂

    Díll?

  26. Sælir. Sá ekki leikinn. Er einhver leið að sjá Agger markið á netinu??? Takk

  27. Plís, plís, plís í milljónasta skipti.

    1. Ekki setja link í fyrstu línu
    2. Ef þið setjið inn link gerið það þá almennilega með a href og slíku.

Liðið gegn West Ham

Lið vikunnar