L’pool 3 – D. Saprissa 0

Okkar menn unnu lið **Deportivo Saprissa** með töluverðum yfirburðum í morgun. Lokastaðan var þrjú-núll og þótt Saprissa-menn hefðu með smá heppni getað skorað mark í þessum leik var sigurinn einfaldlega aldrei í hættu. Liverpool-liðið mætir því Sao Paulo á sunnudaginn í úrslitaleik þessarar Heimsmeistarakeppni félagsliða, en sá leikur verður alveg svakalega spennandi.

Byrjunarliðið í dag var sem hér segir:

Reina

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

Gerrard – Alonso – Sissoko – Riise

Cissé – Crouch

Pongolle, García og Hamann komu síðan inná í síðari hálfleik fyrir Gerrard, Hyypiä og Alonso.

Allavega, maður var varla sestur í sófann þegar **Peter Crouch** var búinn að koma okkar mönnum yfir. Gerrard og Cissé léku með boltann upp að teignum stra á þriðju mínútu og Cissé lagði hann að endingu á Crouch í teignum. Crouch tók boltann á lofti með svokölluðu sniðskoti og setti hann út við stöngina. Eitt-núll fyrir Liverpool og leikurinn í rauninni búinn.

Undir lok fyrri hálfleiksins kom svo önnur góð sókn, John Arne Riise fékk boltann upp vinstri vænginn og gaf hann fyrir til móts við vítateiginn, yfir á hægri vænginn þar sem **Stevie Gerrard** kom aðvífandi og negldi hann viðstöðulaust í nærhornið. Stöngin-inn og staðan orðin tvö-núll fyrir okkar mönnum.

**Peter Crouch** skoraði síðan þriðja mark leiksins eftir seinagang í vörn Saprissa-liðsins. Hann stakk sér á milli tveggja varnarmanna, hirti boltann og lagði hann framhjá markverðinum. Þrjú-núll og eftir það kláruðu okkar menn þennan leik í hlutlausa gírnum, þannig séð.

Þetta var eiginlega hálfgerður *æfingaleikur* bara, engin spenna í þessu og menn í raun bara gerðu nóg til að vinna leikinn, en um leið spöruðu eins mikla orku og hægt var. Það segir sína sögu að Hyypiä, Gerrard og Alonso skyldu hafa verið teknir útaf í þessum leik – Rafa er að spara menn fyrir stórleikinn á sunnudag, sem verður væntanlega talsvert erfiðari viðureign en þessi leikur í dag.

**MAÐUR LEIKSINS:** Liðið átti svo sem engan stórleik, en þó léku flestir ef ekki allir bara nokkuð vel. Heiðursnafnbótina í dag hlýtur þó **Peter Crouch**, að sjálfsögðu, fyrir að skora tvö mörk. Hann virðist vera að slá í gegn fyrir austan, en Japanirnir ku vera mjög hrifnir af honum. Ekki að furða, hann er helmingi stærri en þeir flestir 😉

Allavega, sigur í höfn og nú geta menn farið að hlakka til stórleiksins á sunnudaginn. Þá verður sko gaman! 🙂

7 Comments

  1. Mér finnst ég knúinn til að minnast á Cissé eftir þennan leik. Hann hefur ekki verið í uppáhaldi hjá mér hvað varðar andlega þáttinn hjá honum, þ.e. skynjun mín á hegðun hans á vellinum. Í þessum leik kom maður auga á augljósa hugarfarsbreytingu hjá honum og hann “hefði-kannski-mögulega” getað sett 2 mörk ef hann hefði látið vaða sjálfur.

    Ég vona svo sannarlega að þessi Cissé sem maður sá þarna sé kominn til að vera því að maðurinn er með hæfileika til að vera einn sá besti í bransanum ef hann lætur ekki hausinn á sér þvælast of mikið fyrir. Hælsendingin hans á Pongolle var algjört bjútí svo að um mann fór nett gæsahúð. Menn voru að vísu að leyfa sér margt þarna sem ekki er gert í Premíunni.

    Ég er feginn að Deportivo Sabbrissa-menn báru of mikla virðingu fyrir okkar mönnum í ca. 75-80 mínútur af þessum leik, enda lýstu þeir því yfir margir hverjir að þetta væri stærsti leikur þeirra ever. Þeir geta augljóslega meira en það sem þeir sýndu okkur þarna.

    Takk fyrir aktíva og lifandi síðu. 🙂

  2. Allir syngja með;
    “He’s big, he’s red, his feet stick out the bed.”

  3. Jamm, þetta var ljómandi fínt alveg hreint. Mörkin virkilega góð.

    Og sammála með Cisse, ég hef ekki séð svona jákvæðan leik frá honum í langan tíma. Hann virtist njóta þess að vera inná vellinum og hann skapaði fyrir félaga sínum í leiknum. Hann hefði eiginlega þurft að setja eitt til að klára dæmið.

  4. Þó svo að þetta Kosta Ríka lið hafi ekki verið upp á marga fiska, þá var frábært að sjá ákveðnina í Liverpool, þeir eru komnir til að sjá og sigra. Sao Paulo leikurinn á sunnudag verður frábær skemmtun og vonandi úrslitin rétt.

    Maður leiksins að mínu mati í dag var Peter Crouch, tvö mörk og hefði getað sett fleiri auðveldlega, en yfir það heila frábær leikur hjá honum. Og Cisse með hausinn í lagi var að gera frábæra hluti fyrir samherjana. Mér fannst auðvitað munur á liðinu þegar máttarstólparnir Gerrard, Hyypia og Alonso voru farnir útaf en þeir sem komu inn á fyrir þá stóðu sig vel.

    Í stuttu máli: virkilega ánægður með boltann í dag, og vonandi heldur þetta success-tímabil hjá okkur áfram. Sjálfstraustið er í fínu lagi og það eru að koma jól!

  5. …og svo var náttúrlega sett nýtt félagsmet, 11 leikir í röð án þess að fá á sig mark!

  6. Crouchinn góður og svo var hann víst að fá vafamarkið á móti Wigan skráð á sig, allt að koma 🙂

Byrjunarliðið gegn Deportivo Saprissa komið.

Okkar maður!