L’pool 0 – Chelsea 0

Jæja, þessi orrusta er búin en stríð vikunnar er aðeins hálfnað. Við mætum Chelsea-liðinu aftur í deildinni á sunnudag og þá enn á Anfield, en í kvöld gerðum við allavega 0-0 jafntefli við topplið Englands í stórskemmtilegum leik.

Ég var búinn að spá því að það væri svona 0-0 jafntefli í loftinu yfir þessum leik, og ég vissi sem var að fyrir leikinn myndu báðir þjálfarar í raun sætta sig við jafnteflið í þessum slag, en eftir að hafa séð hvernig þessar 90 mínútur spiluðust þá verð ég að viðurkenna að ég er eilítið fúll yfir því að hafa ekki innbyrt 3 stig í kvöld.

Bara svona til að gera langa sögu stutta, þá var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Liverpool miklu, miklu betri í síðari hálfleik. Þannig að 0-0 jafntefli var kannski fyrirfram ásættanlegt, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá verður það að teljast ósanngjarnt, held ég.

Liverpool-liðið hóf leik í kvöld með eftirfarandi liði:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Cissé – Gerrard – Hamann – Alonso – García

Crouch

BEKKUR: Carson, Josemi, Warnock, Riise, Zenden, Potter, Pongolle.

Í fyrri hálfleiknum voru bæði lið frekar varkár, svo virtist sem menn vildu halda hreinu framar öllu. Chelsea-liðið lá mjög aftarlega og virtist nær eingöngu reyna að sækja með því að dæla boltanum langt fram á Drogba og vona að hann næði að búa til eitthvað.

Liverpool-liðið virtist byrja varlega og reyna að koma García eða Cissé í stöður á kantinum, en það gekk illa. Þegar leið á hálfleikinn fórum við að koma framar á vellinum, Peter Crouch fór að fá meira til að moða úr og miðjan fór að sækja meira með. Fyrir vikið opnaðist svæði fyrir framan vörn okkar manna sem að Robben var nærri búinn að nýta sér.

Í raun eru bara þrjú atriði úr fyrri hálfleiknum sem eru eitthvað frásagnarverð. Fyrst, þá áttum við að fá klára vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Crouch skallaði boltann niður í teiginn eftir fyrirgjöf Gerrard og þar kom Hyypiä aðvífandi, tók eina snertingu og var að fara að skjóta þegar Mickael Essien kom aðvífandi og þrumaði upp undir legginn á honum. Víti, en dómarinn dæmdi ekkert. Ekki í fyrsta sinn sem við erum sviknir um augljósar vítaspyrnur gegn Chelsea, og ekki í síðasta sinn heldur.

Nú, Chelsea-menn fengu besta færi leiksins þegar Arjen Robben komst einn á móti Hyypiä, lék á hann og skaut að marki úr góðu færi. Pepe Reina varði boltann vel yfir, en eftir á að hyggja vorum við heppnir að Robben ákvað að skjóta – ef hann hefði gefið á Drogba, sem var aleinn á vítapunktinum, hefðum við sennilega lent undir.

Þriðja atriðið sem vakti athygli í þessum annars spennandi og varkára hálfleik var ótrúleg frammistaða varnarsinnuðu miðjumanna liðanna, þeirra Dietmar Hamann og Claude Makelele. Þeir voru í kvöld, að öðrum ólöstuðum, langbestu leikmenn vallarins og það var hrein unun að sjá hvað þeir unnu marga bolta í fyrri hálfleiknum. Alltaf þegar maður heldur að Hamann sé orðinn gamall, svifaseinn, búinn að vera og allt það, þá kemur hann til baka og treður gagnrýninni upp í mann í næsta stórleik. Hann er aldrei jafn góður og þegar mest liggur við, og í kvöld – á meðan Alonso og Gerrard áttu erfitt með að finna fæturna – var Hamann allt í öllu á miðjunni hjá okkur. Að sama skapi er erfitt að ímynda sér þetta Chelsea-lið jafnsterkt án Makelele, sá gaur er úr gulli gerður og sennilega sá eini í Chelsea-liðinu sem er ómissandi.

Í seinni hálfleik urðu áherslubreytingar hjá báðum liðum, en þó á ólíkum grundvelli. José Mourinho kom greinilega út úr búningsklefanum ákveðinn í að tapa þessum leik ekki, sama hvað það kostaði, því Chelsea-liðið lagðist í vörn frá fyrstu mínútu hálfleiksins. Hinum megin virtist Rafa Benítez hafa barið smá hug og kjark í sína menn og sagt þeim að fara þarna út og reyna að hirða þrjú stigin, því í seinni hálfleiknum voru þeir Traoré og Finnan farnir að pressa upp vængina með sókninni og við hreinlega lágum í sókn.

Ég man einfaldlega ekki eftir sókn hjá Chelsea-liðinu í seinni hálfleiknum. Enn og aftur þá hélt vörnin þeirra og í raun voru einu vonbrigði kvöldsins þau að við skyldum ekki ná að skapa okkur nógu mörk skotfæri, miðað við hvað við vorum mikið í sókn og náðum að pressa þá í síðari hálfleik.

Luis García komst sennilega næst manna þegar hann prjónaði sig framhjá Paulo Ferreira en Cech var árvökull í markinu og greip vel inní hlaup hans. Pongolle, Alonso, Crouch, Cissé og Gerrard voru allir líka nærri því að komast í dauðafæri en allt kom fyrir ekki, Chelsea-múrinn stóðst áhlaupið í kvöld og Mourinho getur ekki annað en verið sáttur með að hafa sloppið með eitt stig frá Anfield í kvöld.

Þá gerðist annað atvik í síðari hálfleiknum sem var jafnvel ennþá umdeildara en brot Essien á Hyypiä í þeim fyrri. Liverpool fengu hornspyrnu um miðjan síðari hálfleikinn, boltinn kom inní teiginn og Jamie Carragher náði góðum skalla að markinu. Boltinn virtist sigla óáreittur að vinstra horni marksins þegar William Gallas gerði sér lítið fyrir og varði hann með útréttri hendinni. Cissé og Carragher, sem voru næst atvikinu, heimtuðu strax víti og Heimir Guðjónsson, sem var að lýsa leiknum ásamt Arnari Björnssyni, varð á orði að það vantaði bara að Gallas hefði gripið boltann og hlaupið með hann út úr teignum. Þetta var augljóst víti og endursýningarnar sýndu að dómarinn var vel staðsettur, en rétt eins og með Tiago á nýársdag þorði dómarinn ekki að dæma vítið. Enn og aftur sluppu Chelsea-menn með skrekkinn, þökk sé heigulsskap dómara kvöldsins.

MAÐUR LEIKSINS: Ég var í raun búinn að segja það. Ég var hrifinn af leik flestra leikmanna okkar – helst Stevie Gerrard og Djibril Cissé sem komust aldrei í snertingu við leikinn – en Dietmar Hamann stóð einfaldlega upp úr í annars mjög góðu liði. Þeirra megin fannst mér William Gallas spila vel og Petr Cech góður í markinu, en þeir hefðu samt einfaldlega skíttapað þessum leik ef Makelele hefði ekki verið inná vellinum. Hann var frábær í þessum leik, ekki síður en Hamann.

HELGIN: Tja, hvað skal segja? Breytir þessi leikur einhverju um það hvernig Rafa eða José nálgast stórleikinn í Úrvalsdeildinni á sunnudag? Ákveður Rafa að blása til sóknar, eða mun José leggja meiri áherslu á sóknarleikinn eftir fjóra daga? Ég veit það ekki … en ég veit það hins vegar að það liggur meira á því að við vinnum þá á sunnudaginn en það gerði í kvöld. Í kvöld hefðum við mátt við því að tapa fyrir Chelsea, við hefðum samt auðveldlega getað komist áfram í riðlinum þrátt fyrir tap í kvöld.

Tap á sunnudaginn þýðir hins vegar að við getum afskrifað sigur í Úrvalsdeildinni, og það rétt í októberbyrjun. Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið melódramatískur og segja að það sé ekki bara mikilvægt fyrir Liverpool heldur fyrir enska knattspyrnu í heild sinni, að við náum að vinna þetta Chelsea-lið á sunnudaginn. Þeir eiga frekar auðvelda leiki framundan, alveg þangað til þeir þurfa að mæta Man U á Old Trafford í nóvember, þannig að ef þeir ná sigri gegn okkur á sunnudag er hætt við að þeir haldi áfram með fullt hús stiga einhverja þrjá mánuði inn í mótið. Ef það gerist gætu þeir verið búnir að nánast vinna deildina áður en jólavertíðin gengur í garð.

Andstæðingar Chelsea í deildinni fá einfaldlega ekki jafn góðan séns á næstunni á að setja rússnesku hraðlestina út af sporinu eins og n.k. sunnudag á Anfield. Hafi allir hlutlausir fótboltaaðdáendur haldið með Liverpool í kvöld er ljóst að jafnvel Man U stuðningsmenn munu hvetja okkur ákaft á sunnudaginn. Við einfaldlega verðum að vinna, okkar vegna og allra hinna liðanna í deildinni.

Hálfleikur. Þessi orrusta kláraðist án þess að sigurvegari væri krýndur … en stríðið er bara hálfnað.

28 Comments

  1. Tek undir með Kristjáni … maður er hálf-fúll yfir því að hafa ekki sigrað helvítin! 🙂 Þeir á Sýn töluðu um 3 vítaspyrnuatvik, en ég taldi bara sanngjörn tvö (Hyypiaa felldur og höndin góða…) en … það eru alltaf atvik í boltanum sem eru umdeild og maður verður bara að sætta sig við það.

    Þetta var alls ekki það steindauða jafntefli sem ég hefði fyrirfram búist við – þetta var fjörugur leikur og góð barátta. Miklu skemmtilegri en t.d. Man U leikurinn um daginn.

    Ég var virkilega ánægður með Crouch, var ekki með Hamann alltaf í sigtinu, en virkilega sáttur við Crouch. Segjum bara að ég velji Crouch og Hamann sem menn leiksins – dettur ekki í hug að velja einhvern Chelsea mann í það!!

    Vonbrigðin tengdust Cisse, ég hefði viljað sjá meira frá honum og í kringum hann. Hvort sem um er að kenna honum sjálfum eða kerfinu hans Rafa – Cisse var einfaldlega ekki að gera það.

    Ég lít ekki á þessa baráttu sem hálfleik, því þetta er nýr leikur á sunnudagurinn í alls ólíkri baráttu. Hvorugt liðið hefur tapað, ég spái 1:0, 0:0 eða 0:1. Annars vil ég aldrei spá tapi. :biggrin2:

    Vítin hefðu átt að koma og eins og Carra segir í viðtali, þá eru 70% líkur að við hefðum skorað og unnið. Það gerðum við ekki og Chelsea getur þakkað stífri vörn og dómaranum fyrir stigið.

    Ég er mjög bjartsýnn um fyrsta sætið í þessum riðli. Í dag alla vega.

  2. þetta var ágætur leikur hjá liðinu og það er ekki á hverjum degi sem chelsea kemst varla yfir miðju eins og raunin var í seinni hálfleik. ég er sammála kristjáni með stórleik hamans og einnig stóð öll vörnin sig vel þó enginn eins og Traore sem átti hreint frábæran leik og var að mínu mati maður leiksins. hann jarðaði gjörsamlega alla kantmenn chelsea í þessum leik og var einnig duglegur að hjálpa til í sókninni. án vafa fyrsti kostur í vinstri bakvörðinn, þrátt fyrir mikla samkeppni.

    nú er bara að taka chelsea á sunnudaginn, við sýndum það í kvöld að við getum vel unnið þá.

  3. Verð að vera ósammála, maður leiksins var Xabi Alonso! Hversu oft tók hann, nei, ekki tók, stal hann boltanum af Robben, Duff og Wiright-Phillips? Hann stjórnaði leiknum frá a-ö og tók Essien í sýnikennslu hvernig á að stjórna miðjuspili enda tók ég eftir því hversu brjálaður Mourinho varð þegar að Essien gleymdi að pressa Alonso enda var það hans verk að dekka hann og hanga í honum allan leikinn. En ég er ekki að taka neitt af Hamann, hann var líka frábær, en Alonso var frábærari 🙂

    Annars voru þetta góð úrslit, og þurfum við aðeins að vinna næstu 2 leiki okkar (gegn Anderlecht) og við erum komnir í gegn.

    Mikilvægasti leikurinn af þessum tveimur er óneytanlega í deildinni og VERÐUM við að vinna þann leik, jafntefli er ekki nógu gott ef að við ætlum að gera tilkalls til titilisins þó svo að það sé ekki nema frá í mars eða apríl.

  4. Ég er í brjáluðu skapi í kvöld og verð að pústa út!!!!

    Af hverju dæmdu þeir ekki víti á helvítin þegar gallas varði með hendi?? Þetta er ekki einu sinni fyndið!
    ANDSKOTANSHELVÍTISDJÖFULSRASSAGATASKEINIR!

  5. Takk, Svavar, fyrir innlegg þitt í umræðuna.

    Að mínu mati mættirðu samt frekar segja rassaskeinir en rassgataskeinir. Það hljómar miklu betur þannig :rolleyes:

    Annars er ég ekkert ósáttur við kvöldið. Hefði tekið jafntefli fyrir leikinn og fyrir vikið eru bæði liðin í góðri stöðu í þessum riðli. Næst mætum við Anderlecht tvisvar á meðan Real Betís tapa líklega tvisvar fyrir Chelsea (maður veit aldrei, en það er líklegt) … þannig að ef við getum staðið okkur gegn Anderlecht og hirt allavega 4 stig, helst öll 6, þá gætum við tryggt okkur farseðil í 16-liða úrslitin gegn Real Betís heima í 5. umferðinni. Þar með yrði lokaleikurinn á Stamford Bridge nánast þýðingarlaus.

    Þannig að, eins og ég segi þá er ekkert til að örvænta yfir í þessum riðli. Við erum enn fyrir ofan Chelsea á markamun og munum vonandi bæta við markatöluna okkar gegn Anderlecht…

    …hlakka bara til sunnudagsins.

  6. RAFA BEN verður að fara að viðurkenna að hann er á rangri leið með sóknarleik liverpool það sjá það allir..burtu með crouch og garcia þeir eru algjörlega að drepa allann sóknarleik liverpool niður..spila 4-4-2 með cisse og pongol frammi miðað við mannskap sem við höfum núna og gerrard-hamann-alonso-riise á miðjunni..
    gerrard hægra megin til að senda inn í boxið eins og hann gerði svo oft undir stjórn meistara HOUILLER

  7. Rangri leið með sóknarleikinn?

    Crouch átti mjög góðan leik í kvöld og spilaði sitt hlutverk vel sem var að halda boltanum uppi og dreifa honum. Ótrúlegt að sjá hvað hann er með góða snertingu á boltann og dreifir honum vel miðað við að vera þetta hávaxinn.

    Við vorum óheppnir að vinna leikinn ekki og gaman að dómínera allan seinni hálfleik í leik sem Mourinho ætlaði sér að vinna miðað við yfirlýsingar undanfarna daga. Post match ummælin hans eru snilld! Sýnir hversu veruleikafirrtur greyið er..

  8. Var ekki umboðsmaður Jaquin a staðnum?? Ætli honum hafi ekki litist vel a liverpool umgjörðina i kvöld… Þar á meðal leik okkar manna 🙂

  9. MR.DALGLISH verður að fara að viðurkenna að hann er á rangri leið með umfjöllun sína um liverpool það sjá það allir..burtu með hann, hann er algjörlega að drepa allt í kringum liverpool niður..

    :laugh:

  10. finnst mönnum skrítið að Chelsea tapi aldrei fyrst þeir fá nánast alltaf dómarana með sér eins og í þessum leik 😡 Ég taldi a.m.k. 3 víti sem við hefðum átt að fá.

    Reina: 6 – hef lítið yfir hans leik að kvarta yfir

    Finnan og Traore + Carragher: 7 – Finnan og Traore náðu að halda kantmönnum Chelsea að mestu leyti algjörlega niðri. Carragher var bara eins og venjulega, góður.

    Hyypia: 5 – hann olli mér vonbrigðum í fyrri hálfleik, t.d. þegar hann skallaði boltann fyrir fætur Lampard og þegar hann lét Robben fífla sig.

    Garcia, Gerrard og Xabi: 6 – er frekar pirraður á hvað Garcia gerir einfalda hluti oft flókna, átti að fá víti þegar það var togað í hann. Gerrard fannst mér aldrei komast nógu vel inní leikinn. Xabi fékk gult spjald snemma og mér fannst hann ekki ná að gera góða hluti.

    Hamann: 8 – besti maður liðsins ásamt Crouch. Hirti mjög marga bolta.

    Cisse: 6 – gerði ekki nógu mikið.

    Crouch: 7 – hélt boltanum vel. Það er óþolandi hversu oft það er dæmt á hann fyrir það eitt að vera stór 🙁

    Sinama: 6 – náði eins og Cisse ekki að gera nógu mikið.

  11. Tengt og ótengt þessum leik langar mig að segja að persónulega finnst mér Reina ekkert hræðilega öruggur í úthlaupum, síðustu leiki hefur mér fundist hann taka skrítnar ákvarðanir um úthlaup og eiga gjörsamlega misheppnuð úthlaup. Bara nýr Grobbelar mættur? :laugh:

  12. Takk fyrir ábendinguna Kristján en mér fannst bara rassagataskeinis lykt af þessu í gærkvöldi.

    Við púllarar eigum ekkert að sætta okkur við jafntefli ef við eigum fullan séns á að vinna leiki.

    Ef menn virkilega hata að tapa og reyna allt til að gera það ekki þá næst meiri árangur. Bendi á að þetta er nú ekki í fyrsta skiptið sem che$&/ koma á Anfield og spila handknattleik. Tiago kýldi boltann fallega í fyrra og bjargaði þeim frá tapi.

    Sammála því að á sunnudaginn nk er okkar síðasti séns í bili til að stimpla okkur inn í deildina sem meistarakandídatar.

    YNWA!

  13. Ég tek undir með Kristjáni í pistlinum hér að ofan. Stórskemmtilegur leikur þar sem sigurinn hefði alveg getað lent okkar meginn. Bara skil ekki af hverju við fengum ekki víti í leiknum.

    Mér fannst allt liðið spila mjög vel. Vil ekki taka neinn einn út.

    Einnig er ég ánægður með viljann í liðinu. Við gáfum hvergi eftir og létum finna vel fyrir okkur.

    Mín tilfinning er að liðið sé á réttri leið og að við vinnum leikinn um helgina. Rafa er að búa til lið þar sem allir eru reyðubúnir að leggja sig fram og bakka hvern annan upp. Maður finnur líka að sjálfstraustið er að aukast í liðinu.

    Góðar stundir.

  14. Ánægður með andann og baráttuna. En leikurinn á sunnudaginn verður jú algjört dæmi um það hvort við höfum sama viljann í ensku deildinni og CL-deildinni. Síðasta ár var svart-hvítt á þeim sviðum. Yrði ekkert hissa á öðru jafntefli á sunnudaginn.

  15. Vill nú bara taka undir með svavari með vítin, þeir á Sky töluðu um að það væri fimm víti sem liverpool hefðu átt að fá gegn Ch. síðasta tímabil, erum við þá að tala um að atvik sex, sjö og kannski jafnvel átta ef Garcia atvikið er tekið með.

    Mourihno er náttúrulega lítið annað en léleg rispuð plata og þessi ummæli hans eftir leikinn að Liverpool væru örugglega ánægðari en Chelsea með stigið eru einhver þau allra fáránlegustu sem ég hef lesið síðasta árið. Gat ekki séð betur en að þeir hafi gert allt sem þeir mögulega gátu til að tefja leikinn og halda jöfnu síðustu fimmtán mín í gær.

    En hvað sem þetta var í gær þá var ekki góð lykt af því og það besta við þessa dómara í gær var hárgreiðslan á öðrum línuverðinum.

  16. Ég vil útnefna DÓMARANN sem mann leiksins. Þetta er mesta #$%:mad:&#$%:mad:$#$# fífl sem hugsast getur.

    Ég er handviss að maðurinn hafi séð einhverja gellu upp í stúku og haft augun á henni allan djöfulsins leikinn.

    Ef eitthvað hefur verið ósanngjarnt þá var það þessi úrskurður, að leikurinn skuli hafa farið 0-0.

    Fínt byrjunarlið og það er greinilegt að Rafa hefur hæfileika á að ná í góða leikmenn – Crouch er bara mjög góður (það verður að segjast). Rosalega ánægður að sjá Cisse í byrjunarliðinu. 🙂

  17. Þessi leikur kom nú ekki mikið á óvart, nema þá það hversu liðsmenn þeirra Bláu lögðu mikið uppúr því að halda þessu leik niðri og ekki sækja. Það sem Rafa hefur lagt upp með fyrir leik var að halda niðri Duff og Robben, hef aldrei séð þá tvo svona gelda í saman leiknum. Bakverðir okkar átu þá algerlega og var Traore frábær í þessum leik, fannst þó Finnan á köflum mistækur en barðist feikilega vel.

    Ekki er hægt að skammast mikið út í okkar sóknarleik í þessum leik. Liverpool gerðu allt sem þeir gátu til að klára þennann leik. Í svona leikjum líta oft framherjar ansi illa út þar sem þeir fá ekki úr neinu að moða. Sjáum bara Cisse, hann gat nú ekki mikið vegna þess að hann fékk ekkert pláss til að vinna úr neinu og jú auðvitað vegna þess líka að hann var ekki í sinni stöðu. Hann verður bekkjaður fyrir næsta leik. Crouch var góður í þessum leik og nýtist hann ekki betur en í svona leikjum þar sem hann verður að halda boltanum og gera miðvörðunum lífið leit.

    Garcia ???? hvað var málið með hann í gær? Í svona leikjum verða menn að halda boltanum innan liðsins. Hann var í meira lagi mistækur í gær. Rafa hefði átt að skipta Riise inn fyrir hann um miðjan seinni. Hef trú á að umfjöllun um Garcia síðustu daga hafi farið eitthvað illa í hann og að hann hafi verið smá strassaður að sýna öllum hvað hann getur. Hann verður vonandi sprækur í næsta leik og sýnir okkur þá hversu góður leikmaður hann er, sem hann og er.

    Mourihno er nú bara snillingur, það sem hann sagði eftir leikinn var alveg út á túni með það að Liverpool hafi verið ánægðari með stig heldur Chelsea. Það getur bara ekki passað kallinn minn. Auðvitað er þetta bara sálfræði stríð hjá honum sem hann vill hefja srax fyrir næsta leik sem við vinnum 1-0.

  18. Það eru mikil vonbryggði fyrir LFC að hafa ekki náð að sigra í gær eins og leikurinn spilaðist. C$$$$$$$ geta þakkað dómara leiksins fyrir stigið.

    Fyrsta sem kom upp í hugan þegar Gallas blakaði boltanum í burtu var að dómarinn hefði nú sennilega verið í slæmri stöðu til að sjá atvikið, en í endursýningunni þá sést að hann stendu í beinni línu, um 4 metra frá atvikinu. Sem þýðir að hann sá þetta örugglega manna best (kannski fyrir utan Carrra) en þorði því miður ekki að blása í helv…. flautuna. Annars dæmdi hann þennan leik vel í gær.

    Varðandi hitt vítið þá var það Drogba sem sparkaði Hyypia niður, í því tilviki átti línuvörðurinn að sjá það og flagga ekki spurning.

    Ég er sammála Hössa þetta var góður leikur hjá liðinu sem heild, en fyrir mitt leiti stóðu bakverðirnir okkar ásamt Alonso sig sennilega best. Robben(fyrir utan eina rispu), Duff og Wright Phillips sáust varla í leiknum.

    Áfram Liverpool.

    Kveðja
    Krizzi

  19. Þetta var stórgóður leikur í gær. Margt afar jákvætt og því hefur öllu verið gerð góð skil hér á síðunni.

    Eins og Krizzi benti á hérna áðan þá stóð dómarinn 4 metrum frá þessu umdeilda atviki (Carra=átti að fá víti). Hann sá þetta!!! Halló.
    Ég er því með smá pælingar hérna:
    Frisk hinn sænski og ágæti dómari hættir dómgæslu í kjölfar skrifa mourihno og umræðna sem fóru af stað eftir leik c$$$$$$$ og barcelona í fyrra.
    Getur verið að dómarar þori hreinlega ekki að dæma á c$$$$$$$ í svona leikjum af ótta við viðbrögð stjórans?
    Ef svo er þá þarf að losa um þetta dómarapungtak strax!!! Nóg er með öll önnur neikvæð áhrif sem þeir eru að hafa á þennan yndilsega leik sem knattspyrnan er.

    Kveðja Geiri.

  20. Var örlítið að kíkja á Chelsea spjall og kom mér náttúrlega ekkert á óvart að þó nokkrir þar neiti því að um víti hafi verið að ræða. Finnst stórkostleg sú vörn nokkurra manna að um bolta í hönd hafi verið að ræða hjá Gallas!!! Með alla þessa dýru menn, og allt þetta dýra umstang í kringum Chelsea, þá finnst mér grátbrosgrátlegt hvernig þó sumir þeirra neita augljósum staðreyndum. Ég ætlaði að svara á spjallsíðu Chelsea manna en þarf að skrá mig þar til að geta það – og það geri ég ekki!

    Þegar maður er með útréttan og beinstífan handlegginn og er í varnarvinnu í fótbolta þá býður hann hættunni heim! Djö… fara sumir Chelsea aðdáendur í mína fínustu, þó svo að fyrirfinnist nokkrir almennilegir. Þið Púlarar eruð náttúrlega gull af mönnum … enda vel upp aldir!!

  21. Eg sa ekki leikinn. Sa bara highlights a ESPN thegar eg kom inna hotel herna i Cancun klukkan 3 i nott eftir ad hafa setid i rutu mestan part dagsins.

    En mer syndist thetta vera asaettanleg frammistada og allt thad, sem eg hef lesid um leikinn hefur verid jakvaett.

    Er tho sammala morgum um ad sunnudagurinn er mikilvaegari, baedi fyrir okkur, sem og oll onnu lid i ensku deildinni. Eg leyfi mer ad fullyrda ad jafnvel hordustu Man U studningsmenn munu halda med okkur a sunnudaginn. Vid verdum ad stoppa thetta Chelsea lid.

    ¿Annars, gera menn ser grein fyrir thvi ad thetta er i fyrsta skipti i vetur sem Chelsea menn vinna ekki og i fyrsta skipti sem their skora ekki mark? Thad er allavegana agaetis arangur. En audvitad er svekkjandi ad vinna ekki thegar vid erum betra lidid.

  22. Einmitt Einar, við erum fyrsta liðið til að stoppa þá. Mér hefði líka þótt það góður árangur fyrir leikinn í gær … en eins og hann spilaðist er maður hálf fúll yfir að hafa ekki bara farið alla leið og unnið þá.

    Gerum það bara á sunnudag. Og báðir leikirnir bíða eftir þér á vídjóspólu þegar þú kemur heim 😉

  23. Ég hef alltaf borið nokkra virðingu fyrir John Terry en mér fannst framkoma hans í gær gagnvart Alonso frekar leiðinleg. Hann tæklar hann tvisvar frekar harkalega og sakar hann svo um leikaraskap, ekki nóg með það heldur reif hann svo bara kjaft að leik loknum. Mér fannt chelsea menn sleppa ansi vel hvað spjöld varðar.

  24. Skemmtilegar pælingar hjá Geira um pungtak Morinho á dómurum. Þetta er kannski eina skýringin á því af hverju við fáum ekki víti á móti þeim.

    Annars vinnum við leikinn á sunnudaginn 3-0. Pottþétt. Hamann með þrennu. Leggur svo skóna á hilluna í kjölfarið. Samt mun Klinsman kalla á hann fyrir úrslitaleikinn á HM þar sem Þýskaland verður heimsmeistari. Það er svo margt fyrirséð í þessum heimi. 😉

  25. 😡 :rolleyes: 😯 🙁 😉 :laugh: :confused: :blush: :biggrin2: :biggrin: 🙂

  26. Nei. Það kemur aldrei til að við United menn höldum með Liverpool. Það gæti komið fyrir að þið þyrftuð að vinna til að tryggja okkur t.d. titil, og þá myndum við svo sem vona að þið ynnuð. En að halda með ‘pool? Nei, þá skilurðu ekki alveg sambandið þarna á milli. Núlnúl á sunnudag verður ágætt (og viðbúið).

Cissé í liðinu!!!

Momo og Nando með á sunnudag!