Betís 1 – Liverpool 2 (uppfært)

Jæja, þetta fór vel af stað hjá okkar mönnum í kvöld. Leikmenn Liverpool gerðu sér lítið fyrir og unnu Real Betís – á Spáni – með tveimur mörkum gegn engu. Þetta var á heildina litið mjög kaflaskiptur leikur, jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Liverpool þó með yfirhöndina, og svo einstefna að marki Liverpool í seinni hálfleiknum.

Í hinum leik riðilsins mörðu Englandsmeistarar Chelsea Anderlecht frá Belgíu, 1-0 á Stamford Bridge, og þurftu aukaspyrnu frá Frank Lampard til.

Allavega, Rafael Benítez skaut mönnum skelk í bringu fyrir leikinn með gríðarlega huguðu byrjunarliði:

Reina

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Sissoko – Zenden

Pongolle – Crouch

BEKKUR: Carson, Warnock, Finnan, Gerrard, Riise, Hamann, Cissé

Áhorfendur á Manuel Ruiz de Lópera-vellinum voru varla sestir niður þegar okkar menn voru komnir yfir. Á 2. mínútu leiksins átti Jamie Carragher langa sendingu inn á varnarlínu Betis-manna. Þeir virtust ekki vera vissir um hver ætti að stíga út í boltann, og einnig vera uppteknir við að dekka Peter Crouch, þannig að Florent Sinama-Pongolle var fyrstur að átta sig, tók boltann niður í fyrstu snertingu og lyfti honum svo yfir Toni Doblas, markvörð Betis. 1-0 fyrir Liverpool og Betis-menn slegnir!

Rúmum tíu mínútum síðar vorum við komnir í 2-0. Peter Crouch fékk boltann uppi í vinstra horninu, en í stað þess að senda hann strax fyrir var Crouch yfirvegaður, hélt boltanum og lék honum til baka. Þegar hann var kominn út á vítateigshornið laumaði hann boltanum svo innfyrir vörnina á Bolo Zenden, sem gaf hann fyrir í fyrsta á vítapunktinn. Þar kom Luis “Tumi Þumall” García – herra Meistaradeildarmörk í fyrra – aðvífandi og setti hann í nærhornið. 2-0, og sigurinn nánast unninn!

Eftir það fór hálfleikurinn í mikið miðjuþóf – Alonso, Sissoko og Zenden voru duglegir að halda miðjunni þéttri og drepa niður allt spil Spánverjanna, á meðan García og Pongolle voru út um allt að láta finna fyrir sér. Vörnin stóð þétt og fyrir aftan þá var Reina stöðugur og tók þau fáu færi sem komu að marki.

Í hálfleik virðist Ferrer þjálfari Betis hafa gefið sínum mönnum vítamínssprautu, því það var allt annað Betis-lið sem kom út í seinni hálfleikinn. Þeir voru allt í einu farnir að nýta breidd vallarins, Assuncao var farinn að stjórna spilinu eins og hann er vanur að gera og Joaquín var farinn að ógna æ meira á vængnum. Það borgaði sig og þeir skoruðu snemma í hálfleiknum, eftir að Sissoko lét plata sig á miðjunni barst boltinn innfyrir þar sem Arzu náði honum og klobbaði Reina. 2-1 og hörkuleikur í gangi!

Eftir það kom skrekkur í okkar menn og við hreinlega lögðumst í vörn síðustu 40 mínútur leiksins. Rafa náði að létta aðeins á pressunni með góðum skiptingum – Riise fyrir Zenden, Cissé fyrir Crouch og Gerrard fyrir Pongolle – en á heildina litið var síðari hálfleikurinn algjör einstefna og Betis-menn hefðu hæglega getað jafnað. Reina stóð þó fyrir sínu í markinu og vörnin hélt, og þegar lokaflautan gall gátum við fagnað stórgóðum útisigri í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar!

NEIKVÆTT: Það sama og gegn Chelsea á heimavelli í undanúrslitunum í vor, í rauninni. Við verðum allt of stressaðir þegar líða tekur á svona mikilvæga leiki sem við erum að vinna, og í stað þess að ganga á lagið og klára dæmið leggjumst við í vörn og reynum að halda lífi með einhverjum hætti. Rafa stendur allan tímann á hliðarlínunni og gargar á menn að pressa framar en allt kemur fyrir ekki, hræðslan heldur okkar mönnum í nauðvörn og menn gera lítið annað en að hreinsa sem lengst frá markinu. Rafa verður að stoppa þetta með öllum tiltækum ráðum.

JÁKVÆTT: Taktíkin og baráttan í leikmönnum. Það er löngu sannað að drengirnir hans Rafa hafa viljann til að ná árangri, og það er löngu sannað að Rafa er taktískt séní, en í kvöld var liðið alveg yfirgengilega vel skipulagt. Ég hafði það á orði við sessunauta mína í sófanum í kvöld að Liverpool-liðið hefði aldrei minnt mig jafn mikið á Valencia-lið Rafa og þeir gerðu í fyrri hálfleik í kvöld.

MAÐUR LEIKSINS: Í kvöld lék í raun allt liðið vel og ekki út á neinn að setja. Djimi Traoré tókst það ómögulega og hélt Joaquín niðri í allt kvöld – fyrir utan eina rispu – og Josemi var álíka sterkur gegn Varela og/eða Xisco. Carra og Hyypiä voru týpískir klettar í vörninni á meðan Alonso og Sissoko höfðu tögl og höld á miðjunni, sérstaklega í fyrri hálfleik. Zenden byrjaði vel en datt út úr leiknum í seinni hálfleik, á meðan García og Pongolle voru báðir frábærir og skoruðu mörkin sem skiluðu stigunum. Cissé, Gerrard og Riise komu vel inn í leikinn og náðu að létta undir pressunni hjá okkar mönnum.

Hins vegar langar mig til að velja tvo leikmenn menn leiksins í kvöld, þá PEPE REINA og PETER CROUCH. Crouchy var gjörsamlega frábær í fyrri hálfleiknum, hvar sem hætta skapaðist hjá okkar mönnum mátti maður vera viss um að hann átti hlut að máli og það virtust allar sóknir okkar fara í gegnum hann. Sérstaklega var ein sóknin í fyrri hálfleiknum frábær þar sem boltinn flæddi á milli manna – og hafði þrisvar viðkomu hjá Crouch – áður en hann endaði hjá Pongolle sem átti gott skot að marki.

Crouch mun sennilega ekki skora jafn mörg mörk fyrir Liverpool og t.d. Djibril Cissé mun gera í vetur, en það er í raun orðið algjörlega ljóst hvers vegna Rafa Benítez keypti hann. Hann finnur samherja sína í hvert einasta sinn, heldur boltanum svakalega vel og er sennilega mest skapandi maður liðsins í dag. Ég sé Fernando Morientes ekki fyrir mér komast í liðið eins og Crouchy er að spila núna!

Þá var Reina algjörlega frábær í dag. Það hefur ekki reynt svona mikið á hann áður í Liverpool-treyju en hann sýndi og sannaði hvers vegna Rafa keypti hann. Hann átti fimm eða sex sterkar markvörslur í kvöld, var alls staðar vel staðsettur og átti svo tvær súpergóðar kýlingar á mikilvægu augnabliki. Þá er hann fljótur að koma boltanum í spil, sem gerir okkur að miklu skæðara gagnsóknarliði. Hann var bara einstaklega öruggur í kvöld og kom okkur til bjargar þegar á þurfti að halda – án hans hefðu Betis-menn náð a.m.k. jafntefli. Er ekki góð tilbreyting að þurfa ekkert að kvarta yfir markvörslunni? 😀

Jæja – sigur vannst og þeir Steve Finnan, Stephen Warnock, Steven Gerrard og Djibril Cissé fengu mikilvæga hvíld. Búist við því að sjá þá alla í liðinu um næstu helgi, væntanlega á kostnað Josemi, Traoré, Sissoko og Pongolle – og þá skulu leikmenn Man U vara sig!

Þessi vika byrjar vel … 🙂


Uppfært: (Aggi) Mér fannst við spila meira 4-3-3 í fyrri hálfleik þar sem Pongolle, Garcia og Zenden skiptust á að vera á köntunum og fyrir aftan Crouch en ekki 4-4-2. Einnig voru menn leiksins fyrir mér þeir Pongolle og Traore. Traroe jarðaði Joaquín og Pongolle spilaði ótrúlega vel hvar sem hann var á vellinum (var í fyrrihálfleik allsstaðar). Í seinni var þetta bara spurning að halda og það gekk eftir þrátt fyrir að við bökkuðum of mikið.

Verð að gefa Rafa mikið kredit fyrir að þora að gera 6 breytingar frá annars ágætum leik gegn Tottenham. Menn ættu að koma klárir í leikinn gegn Manchester United á sunnudaginn og hafa trú á [sigri hvar sem er í Evrópu eftir góða útisigur!](http://home.skysports.com/list.asp?hlid=307591&CPID=5&CLID=&lid=2&title=Gerrard+backs+Reds’+belief&channel=football_home)

Nokkrar leikskýrslur á netinu:
BBC sport: [Real Betis 1-2 Liverpool](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/europe/4235224.stm)
SkySports: [Reds the Real deal in Spain](http://home.skysports.com/list.asp?hlid=307558)
The Guardian Online: [Aggression pays for Liverpool](http://football.guardian.co.uk/Match_Report/0,1527,1569489,00.html)
The Times Online: [Benítez gamble pays dividends](http://www.timesonline.co.uk/article/0,,762-1779943,00.html)
The Sun Online: [Liverpool ratings](http://www.thesun.co.uk/article/0,,2002390000-2005420537,00.html)

16 Comments

  1. Flottur sigur, en það þarf að kaupa þennan Joaquin. Hann hefur það sem okkur vantar.

    En hvað er málið með umfjöllun “vitringanna” þriggja á Sýn. Þeir tala ekki um annað en að Liverpool hafi verið heppnir í fyrra, gefa okkar mönnum ekkert hrós fyrir það að vinna CL í fyrra og gefa Benitez ekkert hrós fyrir að skipuleggja liðið fullkomnlega. Guðni góður en þeir félagar Dumb & Dumber eru asnar.

  2. við hverju býstu Ólafur þegar einn af þessum þremur “vitringum” er faðir leikmanns í öðru liði í keppninni sem tapaði fyrir Liverpool í undanúrslitum :confused:

  3. Auðvitað á maður ekki að vera neikvæður eftir svona frábæran sigur en ég er skíthræddur orðinn um Sami Hyypia – Ég skelli marki Betis á hann! 1. þá vissi hann ekkert af þessum manni og 2. þá var hann bara of seinn og átti að ná sendingunni….

    Traore fannst mér mjög góður, frábær tækling í byrjun leiks sem td bjargaði nánast marki auk þess sem hann hélt Joaquin algjörlega niðri. Mér fannst Sissoko líka frábær, ásamt Alonso héldu þeir einum mikilvægasta leikmanni Betis niðri, Assuncao.

    Croch og Pongolle vori einnig mjög góðir sem og auðvitað Reina. Zenden fannst mér slakur en hann lagði upp markið fyrir Garcia sem var ágætur…

    Josemi komst betur og betur inn í leikinn og Carra var bara Carra – Traustur.

    Þetta er góður fyrirboði fyrir leikinn gegn ManU og ég bíð líka í ofvæni eftir, jahh, svipuðum leik þeirra gegn spænsku liði á morgun – Villareal – forvitnilegur slagur þar á ferð….

  4. Djöfull er ég ánægður með þennan sigur!

    Ólafur og þið, get ekki verið meira sammála ykkur varðandi Heimi Karls og félaga! Hvað er eiginlega málið með þá? Halda menn svona rosalega mikið uppá Eidur Gudjohnsen sem nota bene var ekki einu sinni í hópnum í kvöld!

  5. Er að hugsa um að vera sammála leikskýrslu Kristjáns að flestu leyti – enda góð skýrsla 🙂

    Menn leiksins fyrir mér voru Crouch og Pepe, og ef Crouch þróast svona vel inn í liðið og sóknina okkar, þá er voðinn vís hjá andstæðingum. Maðurinn er mun leiknari og skilningsríkari á spil heldur en margir aðrir í hans hæðarflokki… Pepe var traustur í markinu!

    Að öðru leyti stend ég við það, að mér fannst slæmt að sjá breytingu á milli hálfleikja svona skýra. Skiptingarnar gerðu ósköp lítið fyrir okkur fannst mér, og ógnunin í Cisse var lítil, hvort sem honum eða öllu liðinu var að kenna. Ég vona svo sannarlega að fyrri hálfleikurinn í kvöld verði að tveimur álíka í leiknum á móti Manure.

  6. Gott að ná að sigra í fyrsta leik og ágætur leikur. Mér fannst Reina mjög góður en samt finnst mér að kallinn mætti fara að æfa útspörkin soldið…tvö eða þrjú útspörk sem fóru barasta beint útaf.

  7. Ég ætla að vera sammála Robbie Earle hjá ITV og tilnefna MOMO mann leiksins. Momo og Carragher ásamt Traore voru mjög sterkir í kvöld en MOMO bar af eins og svo oft áður. Hvað þessi leikmaður er góð kaup er í raun ekki hægt að útskýra! Hann étur upp ALLT sem éta þarf upp á miðjunni með ÖLLUM þessum löppum sínum. Miðjan okkar var góð fyrir með Gerrard, Alonso og Hamann en hún styrkist mikið við komu MOMO. Glæsilegur sigur!

  8. Já frábært að byrja keppnina svona, sammála með Reina og Crouch hafi verið menn leiksins en svo fannst mér líka Alonso vera virkilega góður, hann stöðvaði sóknir Betis aftur og aftur. Sissoko er nátturulega búin að sanna að hann er klassa leikmaður. Flottur leikur og flott úrslit.

  9. hjalti ég er þér sammála varðandi markið sem Betis skoraði… Hyypia var of seinn og missti af boltanum. Hann stóð sig yfir það heila vel en við þurfum að kaupa topp klassa miðvörð og ég get vel sætt mig við að gera viðskipti við Betis um þennan Joaquín í janúar!

    Þegar Cisse kom inná þá vorum við byrjaðir að liggja mun aftar á vellinum og hann fékk nákvæmlega úr engu að moða! Vann vel fyrir liðið.

  10. Tók enginn eftir því annar en ég að Pongolle var á hægri kantinum og Garcia var í holunni fyrir aftan Crouch.

  11. Gaurinn: Ég er sammála þér og segi það í leikskýrslunni að mér fannst við spila 4-3-3 í fyrri hálfleik með Pongolle á hægri, Zenden á vinstri og Garcia í holunni. Síðan reyndar róteruðu þeir oft í leiknum stöðunum. Pongolle var góður á kantinum og mjög ógnandi.

    Í þeim síðari spiluðum við meira 4-5-1 og bökkuðum alltof mikið.

  12. Þetta var góður sigur, en rosalega duttum við aftarlega í síðari hálfleik. Vonandi höldum við þessu áfram (þ.e. að sigra útileiki).

    Varðandi menn leiksins þá fannst mér Carra sterkur, það er á hreinu að hann var maður seinnihálfleiks hjá okkur, á meðan Pepe og Crouch voru bestir í þeim fyrri.

    Nýji búningurinn er nátturúlega hrein snild og ekki hægt annað en að vinna í svona flottu dressi.

    Kveðja
    Krizzi

  13. Frabaert!!! Ég var verulega stressaður fyrir leikinn, en það var greinilega óþarfi. Var frekar erfitt að fara að sofa án þess að vita úrslitin, þar sem rafmagnið fór af á allri eyjunni. 🙂

    En gaman að heyra með Crouch og Reina og frábært að Flo-Po fái sjens og nýti sér tækifærið. Núna er bara að vinna Man U á sunnudaginn. Ég ætla að leita mér að bar í Gvatemala sem sýnir þann leik!

  14. Hrikalega ánægður með liðið í heild sinni. Ég fíla líka þega menn gefa ekkert eftir og eru alltaf til að berjast fyrir stóru sem litlu. Sissoko lét þá líka heldur betur finna fyrir sér allan leikinn. Greinilega maður sem er til í smá rubbish.

    Annars var ég ánægður með alla. Sérstaklega Zenden sem mér finnst styrkja liðið til mikilla muna.

    Djö… fór í taugarnar á mér þegar Riise var kominn upp að endamörkum og gaf 40 metra sendingu aftur á Traore.

    Ég er svo ekki eins spenntur fyrir Crouch og aðrir hérna á spjallinu. Hann var samt að gera fína hluti í gær.

    Mikið finnst mér svo vanta mann til að leysa Hyppia af. Hann virkar örlítið hægari og ég er viss um að í fyrra hefði hann náð sendingunni sem skóp markið.

    Svo er Reina maður að mínu skapi.

    Það er svo frábært að vera Poolari.

    Góðar stundir.

Gerrard á BEKKNUM!

Reina ánægður með Carra og Crouch hrósað.