Liverpool 3 – Olympiakos 1

Góðan daginn!

Við unnum Olympiakos í kvöld. Ég ætla að skrifa leikskýrslu seinna í kvöld, þegar púlsinn fer niður fyrir 200 slög.

gerrardolympiakosgoal.jpg**Uppfært (Einar Örn)**: Jedúddamía!

Er hægt að biðja um meira? Úrslitastund í Meistaradeildinni á Anfield. Liverpool undir í hálfleik. Þrjú mörk í seinni hálfleik og ógleymanlegt sigurmark frá Steven Gerrard fjórum mínútum fyrir leikslok. Þetta var stórkostlegt kvöld!

Ég horfði á leikinn með tveim vinum mínum og höfum við sennilega farið langleiðina í því að gera nágranna okkur endanlega geðveika. Ég reyndar öskraði ekkert í fyrstu tveim mörkunum, en hef sjaldan öskrað eins mikið og þegar Gerrard skoraði. Þetta var ótrúleg hamingja. Við hoppuðum og öskruðum og trúðum vart hvað var að gerast. Þvílíkur leikur.

Við áttum þetta svo innilega skilið. Allir, já ALLIR leikmenn Liverpool eiga hrós skilið fyrir frábæra baráttu. Minni lið hefðu gefist upp þurfandi að skora þrjú mörk í seinni hálfleik gegn gríðarlega sterkri vörn. *En ekki þetta lið*. Allir leikmenn börðust einsog ljón frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks og kláruðu dæmið. Þrátt fyrir að dómarinn væri á móti okkur og hefði dæmt TVÖ fullkomlega lögleg mörk af okkur, þá skipti það bara engu máli á endanum. Frábær sigur og við erum komin í 16 liða úrslit í Meistaradeildinni!

Jæja, Benitez stillti liðinu svona upp:

Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traore

Núnez – Gerrard – Xabi – Riise

Kewell – Baros

Liverpool byrjaði í stórsókn og Baros skoraði löglegt mark með skalla, sem var svo dæmt af. Liverpool var miklu meira með boltann en á 27. mínútu fékk Rivaldo boltann, saumaði sig í gegnum vörn Liverpool og var loks felldur rétt utan teigs. Hann tók lélega aukaspyrnu, Nunez færði sig til í veggnum og boltinn lak í markið. Ömurlegt mark og stórkostlegt þunglyndi í hálfleik.

Ég var verulega svartsýnn í hálfleik. En samt, þá bar maður smá von í brjósti.

Benitez gerði strax breytingar og setti Pongolle inn fyrir Traore. Kewell fór aftur á kantinn og Riise í bakvörðinn. Þessi skipting var SNILLD. Á 47. mínútu fékk Kewell boltann vinstra megin og PAKKAÐI bakverði Olympiakos saman, komst upp að endamörkum og gaf á Pongolle sem skoraði. 1-1.

Á næstu mínútum virtist vera hætta á að allt syði uppúr. Olympiakos menn létu sig detta útum allan völl og Gerrard komst upp með að stappa á einum leikmanni Olympiakos. Mínútu seinna fékk Gerrard boltann og sólaði tvo menn, en sparkaði svo í Olympiakos leikmann. Ég greip fyrir augun, enda hélt ég að Gerrard hefði æst sig of mikið og væri að fá rautt. En spænski dómarinn bjargaði okkur og gaf Gerrard bara gult. Hann verður þó í banni í næsta leik. Á 62. mínútu fékk Baros boltann frammi, boltinn datt til Gerrard, sem klippti hann í markið. En af einhverjum óskilljanlegum ástæðum er markið dæmt af. Tvö lögleg mörk tekin af okkur!

En allavegana, Liverpool hélt áfram að sækja. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum fékk Liverpool aukaspyrnu. Xabi gaf inná teig og loks fékk Carragher boltann og var felldur en ekkert dæmt. Boltinn fór útí teig og svo kom sending fyrir þar sem Nunez skallaði að marki, boltinn varinn en Neil Mellor skoraði af miklu harðfylgi. **2-1** og 10 mínútur eftir.

Stuttu seinna var Mellor felldur en ekkert dæmt. Þrem mínútum fyrir leikslok fékk Steven Gerrard boltann á lofti fyrir utan vítateig og hann ÞRUMAÐI honum í hægra hornið. Óverjandi! **3-1** og allt vitlaust á Anfield og í stofu heima hjá mér. Þvílík hamingja! Ótrúleg stemnning á Anfield og allt liðið fagnaði fyrir framan Kop stúkuna. Þetta gerist ekki mikið betra.


**Maður leiksins**: Ég nenni ekki að gera uppá milli manna. Þetta var frábær leikur hjá öllu liðinu. Frábært frábært frábært. Ætla að nefna nokkra: **Kewell**, fyrir að eiga fyrst markið og vera virkilega sprækur og ógnandi á kantinum. Pongolle fyrir frábæran seinni hálfleik. Hann var ótrúlega sprækur, boltatæknin ótrúleg og það var alltaf hætta þegar hann fékk boltann. Svo skoraði hann líka markið, sem kom okkur af stað. Og svo er auðvitað ekki hægt að gleyma **Steven Gerrard**. Á tímabili var hann orðinn of æstur, en hann náði að róa sig og kláraði leikinn svo með stórkostlegu marki, sem enginn Liverpool stuðningsmaður mun gleyma í bráð.

Eins og vinur minn sagði um miðjan seinni hálfleik, það getur verið frústrerandi að vera stuðningsmaður Liverpool. En það eru svona stundir, sem maður vonast eftir alla leiktíðina og gerir það sannarlega þess virði að styðja Liverpool. Þetta var frábært kvöld. Ógleymanlegur leikur og stærsti sigur okkar undir stjórn Rafa Benitez.

12 Comments

  1. Frábær sigur og ótrúlega mikilvægt fyrir Liverpool að komast áfram. Fjárhagslega að sjálfsögðu en einnig fyrir leikmennina og stuðningsmennina. Já jólin koma snemma fyrir Liverpool stuðningsmenn.
    Við vorum miklu betri allan leikinn og áttum sigurinn svo sannarlega skilinn hins vegar verður að viðurkennast að Gerrard getur þakkað lélegum dómara frá Spáni fyrir að hafa ekki fengið reisupassann í leiknum. Hins vegar getur maður ekki orða bundist yfir slökum dómara leiksins… tók klárlega löglegt mark af okkur þegar Gerrard skoraði, hitt markið er meiri vafi þegar Baros virtist hafa klifrað uppá varnarmanninn til að ná skallanum að markinu.
    Síðan dæmdi þessi dómari hvað eftir annað á okkur þegar við unnum návígi… óþolandi!

    Komnir áfram í 16 liða úrslit og allt að gerast…
    Innileg jól 🙂

  2. Þegar Gerrard skoraði hoppaði ég uppúr sófanum og tók sigurdansinn, og já.. gargaði og gaf öllum fimmu.. vá hvað þetta reddaði deginum!! 😀

  3. Þvílík gargandi snilld. Maður var nú ekkert of bjartur í hálfleik. Óþolandi þegar hlutirnir ganga bara ekki, lögleg mörk dæmd af, stangarskot, og dominera algjörlega leikinn og fá þá á sig ömurlegt mark í gegn um varnarvegginn. En frábær leikur hjá Pongolle, Mellor með sjálfstraustið í lagi og þvílík negla hjá fyrirliðanum. Ég er ennþá með hellur eftir öskrin í sjálfum mér. Svo er spurning hverja við fáum í 16 liða. Er ekki bara Leverkusen, Juventus,AC Milan, Inter eða Lyon sem koma til greina fyrir okkur ? Lið í fyrsta sæti síns riðils og ekki frá Englandi. Eða er Monakó líka í boði ? Ekki Juve takk og helst ekki AC Milan strax. Tökum þessi lið bara seinna 😉 Og ætli sé dregið á morgun eða hvað. :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin:

  4. Vááá!!! Var gaman að vera á Players í kvöld eða hvað???

    Ég faðmaði ókunnuga menn í bak og fyrir, hoppaði um allt, öskraði og svo spiluðu þeir You’ll Never Walk Alone í lokinn og ég gat varla keyrt heim því ég var í svo mikilli VÍMU!!!…..SÆLUVÍMU!!!

    Ég ætla að hrósa ÖLLUM leikmönnum Liverpool í kvöld…nema Josemi, ég varð skíthræddur þegar hann kom inná!

    Vááá…þvílíkt mark STEVEN GERRARD!!!

    🙂

  5. Jú, kannski rétt að taka fram að við getum bara lent á móti þessum liðum:

    Lyon
    Bayer Leverkusen
    Juventus
    Inter Milan
    AC Milan.

    Pant ekki mæta AC Milan eða Juve!!! 🙂

  6. vá hvað það var gaman á troðfullum players…

    ég er gjörsamlega raddlaus og var í raun bara heppinn að löggan sá mig ekki á leiðinni heim… adrenalínkikkið var svo rosalegt….

    vá hvað mér líður vel núna :biggrin2:

  7. Ég neita að tjá mig um þennan leik. Ég hef bara ekkert annað um hann að segja en “JÍÍÍHÍHÍHÍÁÁÁÁÁÁÁ!!!!!!”

    :biggrin:

    Og ég hræðist ekkert af þessum fimm liðum sem við getum mætt. Mér er sama þótt það sé AC Milan eða Juve, við getum unnið alla á Anfield! Það sannaðist í kvöld!

    Samt er lítil rödd í höfðinu á mér sem segist langa alveg rosalega mikið að fá Bayer Leverkusen. Það eina sem er sætara en svona sigur eins og í kvöld … er hefnd. Blóðug hefnd! Og við skuldum Leverkusen nokkur mörk, það er á hreinu!

    En vá, var þetta leikur ársins á Anfield eða hvað?

  8. Óóóóóótttttrrrrúúúllllleegtt!! :biggrin:

    Missti af leiknum en væri til í að borga mikinn pening fyrir að hafa verið á Ölver og séð besta miðjumann veraldar skora mark ársins!!!

  9. Alveg sammála Árna. Ég tók ekki eftir því fyrr en seint að ég var laaangt yfir hámarkshraða og bíllinn skautaði útum allt í slabbinu, svo mikið var adrenalín-kickið eftir að hafa verið í stemmningunni á Players!! :laugh:

  10. Besta? miðjumann? veraldar?
    Var nú ekki alveg laust við að vera heppinn að vera inná eftir líkamsárásina þarna í fyrri hálfleik.
    En markið var… nei, get ekki sagtða

  11. Rólegur á neikvæðninni Björn Friðgeir. Bentu mér á betri alhliða miðjumann en Super Steve. Kvikindið hefur allt!

    Mark ársins! Segi það og skrifa, getur vel verið að við munum sjá fallegri mörk en mikilvægið er bara svo mikið í markinu.

    Annars sé ég fyrir mér AC Milan í 16liða, manu í 8liða, Asnaval í undanúrslitum og Chelskí í úrslitum! :rolleyes:

100.000

Þrjár vikur í nýjan framherja?