Liverpool 2 – Roma 1 (uppfært)

Igor Biscan

Liverpool-liðið lauk Ameríkuför sinni í nótt með góðum sigri á AS Roma frá Ítalíu, 2-1. Eftir að hinn hrútleiðinlegi Delvecchio hafði komið Roma yfir eftir klaufalega varnartilburði hjá Finnan og Carragher á hægri vængnum jafnaði Cissé metin. Owen skoraði svo sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok eftir góða baráttu Hamann sem lagði markið upp.

Byrjunarliðið í gær var, að mínu mati, nokkuð sterk vísbending um það hvað Benítez er að spá fyrir tímabilið. Liðið leit svona út:

DUDEK

CARRAGHER – HYYPIÄ – HENCHOZ – RIISE

FINNAN – BISCAN – GERRARD – KEWELL

BAROS – CISSÉ

Sem sagt, þá byrjaði Dudek annan leikinn í röð og hlýtur að teljast líklegur til að byrja fyrsta leik í marki Liverpool. Þá fannst mér líka athyglisvert að sjá Steve Finnan á hægri kantinum, annan leikinn í röð. Hann spilaði mjög vel þar gegn Porto og var enn betri í gær, ef eitthvað er. Ég myndi hreinlega veðja sterklega á hann sem hægri kantmann í fyrsta leik.

Nú, það sem kom á óvart í gær (en kemur mér ekki á óvart aftur því eftir leikina í Bandaríkjunum býst maður við miklu af kauða) var það að maður leiksins, að mati bæði míns og Einars, var Igor Biscan. Það var sérlega ánægjulegt að sjá, þriðja leikinn í röð, hvað hann spilar ofboðslega flottan leik á miðjunni. Hann étur menn a la Hamann en á það líka til að keyra fram með boltann og skapa hættuleg færi, bæði fyrir sig og aðra. Þannig átti hann þátt í marki Cissé, en Biscan og Kewell unnu þar vel saman áður en Baros sendi Riise inn fyrir vörnina. Riise, sem var í dauðafæri, ákvað í stað þess að skjóta að renna boltanum til hliðar og Cissé setti boltann í tómt markið.

Annað sem gleður mig mikið með Biscan er það að yfirferð hans og styrkur, bæði sóknarlega og varnarlega, tekur augljóslega mikið af herðum Gerrards, sem gat í gær beitt sér fyrir því að virka sem leikstjórnandi. Hann pipraði vörn Roma-manna með ótrúlegum sendingum, öllum hárnákvæmum, auk þess sem hann naut þess að geta skotið sér fram af og til vitandi að Biscan myndi kóvera miðjuna.

Þannig að, Igor Biscan var maður leiksins í mínum huga í gær og verður að teljast miklu líklegri en Hamann, Diao eða Murphy til að byrja tímabilið við hlið Steven Gerrard á miðjunni.

Í seinni hálfleik voru breytingar gerðar, eins og áður. Baros/Cissé fóru út fyrir Owen/Pongolle, Finnan skipti við Murphy, Henchoz skipti við Josemi sem fór í bakvörðinn. Carragher tók við miðverðinum með Hyypiä. Þá skiptu Igor Biscan og Harry Kewell við Salif Diao og Stephen Warnock.

Steven Gerrard fór útaf fyrir lok fyrri hálfleiksins eftir smá hnjask. Hamann kom inná en við vonum svo innnnnnilega að fyrirliðinn sé ómeiddur! Hver haldiði að hafi meitt hann? Jú, fæðingarhálfvitinn Oliver Dacourt. Fokk hvað ég hata þann leikmann. Og átti hann ekki að vera í banni í gær? Ótrúlegt að hann fengi að spila og ótrúlegt hvað hann er heimskur … hann var allan leikinn í gær að leita að veseni, reyna að búa til rifrildi og slagsmál! Hálfviti, ég þoli ekki svona leikmenn!

En allavega. Það var margt gott við leik liðsins í gær: liðið hélt bolta miklu betur (og lengur) en í hinum fyrri tveimur leikjunum. Þá gekk vel að finna svæði, bæði upp báða kantana (sérstaklega á meðan Finnan og Kewell voru inná) og fyrir framherjana. Þá var ég mjög impressaður að sjá hvað við erum alltaf fljótir að vinna boltann aftur. Roma-menn náðu sjaldan meira en tveimur-þremur sendingum sín á milli, þá voru Liverpool-menn búnir að éta þá og hirða boltann.

Það sem betur mætti fara var einfaldlega föst leikatriði. Við gáfum einhverjar 10-15 hornspyrnur í þessum leik og töpuðum hverjum einasta skallabolta eftir auka- eða hornspyrnur. Þetta verður að laga, enda þótt við höfum verið betri aðilinn í gær og átt sigurinn fyllilega skilinn þá vorum við samt ljónheppnir að vera ekki komnir 2-0 undir eða svo áður en við jöfnuðum. Og þá áttu þeir tvö skot í stöngina undir lok leiksins.

En allavega. Sigur vannst og liðið komið heim í dag og farið að undirbúa sig fyrir feykimikilvægan Evrópuleik í næstu viku gegn AK Grazer frá Austurríki. Hvernig verður byrjunarliðið í þessum leik? Það er stóra spurningin, og þótt það viti það enginn nema Rafa Benítez á þessari stundu (ef hann sjálfur veit það þá, þetta verður erfitt val) að þá langar mig að reyna að giska. Sjáum svo til eftir viku hvort ég hef rétt fyrir mér.

Þannig að, ef engin meiðsli eða skakkaföll verða næstu vikuna (né óvænt leikmannakaup) þá mun byrjunarliðið gegn Grazer líta svona út:

DUDEK

CARRAGHER – HENCHOZ – HYYPIÄ – RIISE

FINNAN – BISCAN – GERRARD – KEWELL

OWEN – CISSÉ

Glöggir menn sjá að þetta er í raun byrjunarliðið í gær, utan þess að Owen kæmi inn fyrir Milan Baros. Ég held bara, byggt á því hvað Benítez er búinn að vera að prófa og hvað hefur augljóslega verið að virka í þessum æfingaleikjum í Bandaríkjunum og Kanada, að Benítez muni prófa þessa samsetningu í sínum fyrsta alvöruleik með Liverpool. Sjáum til, ég er viss um að ég hef rétt fyrir mér.


**Uppfært (Einar Örn)**: Já, þetta er alveg hreint magnað með Igor Biscan. Reyndar var það nánast súrealíkst að besti leikmaðurinn í fyrri hálfleik var Biscan og besti maðurinn í seinni hálfleik var Salif Diao!

Biscan var algjörlega frábær. Gríðarlega sterkur, fljótur og ógnandi. Hann er að mínu mati búinn að vinna sér inn byrjunarsæti í liðinu í fyrsta leik.

Nokkrir punktar um þá leikmenn, sem mér fannst vera slappir. Danny Murphy og Dietmar Hamann voru án efa lélegustu leikmenn vallarins. Hamann fór aldrei úr fyrsta gírnum nema þegar hann lagði markið upp fyrir Owen. Murphy var bara einsog hann er nánast alltaf. Hann hljóp um allt en gat varla skilað einni sendingu á samherja.

Einnig sýndi Warnock nánast ekkert á kantinum. Í raun var miðjan í seinni hálfleik afskaplega slöpp með þá Hamann, Warnock, Murphy og Diao. Það segir ýmislegt að Diao skuli hafa verið besti leikmaðurinn.

Ég er núna búinn að sjá Roma og Celtic leikinn og ég er nokkuð sammála spánni hans Kristjáns um byrjunarliðið. Hérna er hins vegar einsog ég vil sjá liðið:

**Kirkland**

**Josemi – Carragher – Hyypia – Riise**

**Finnan – Biscan – Gerrard – Kewell**

**Owen – Baros**

Það segir ýmislegt um ástandið á hægri kantinum að mér finnst Finnan vera besti kosturinn, þrátt fyrir að ég hafi ekki mikið álit á honum.

Ég vil sjá BAROS frammi. Leyfum Cisse að byrja á bekknum. Baros á það skilið eftir frammistöðu sumarsins að fá séns í byrjunarliðinu. Cisse er nýr í enska boltanum og það er engin skömm fyrir hann að byrja á bekknum.

10 Comments

  1. Góð ágiskun en miðað við það sem R&B hefur sagt þá er ekki hægt slá neinu föstu með byrjunarliðið. Það er síðasta æfing sem gildir og segir til um hver er í besta forminu, þannig á það að vera! Enda ef hópurinn er skoðaður þá höfum við efni á því að skipta mönnum út.
    Einnig finnst mér áhrifamikið að sjá LOKSINS Liverpool spila þennan hraða og skemmtilega bolta og batamerkin hjá nýja þjálfaraliðinu eru greinileg strax!

  2. Ég er hjartanlega sammála síðustu ræðimönnum. Biscan er maðurinn til að leysa Hamann af hólmi og spila með Gerrard á miðjunni. Það skemmtilegasta samt er það að sjá hvernig liðið verst vel saman og sækir vel saman sem er vörumerki Herra Benitez. Að sjá liðið pressa andstæðinginn þangað til að hann missir boltann og síðan láta boltann vinna fyrir sig er það sem við viljum sjá. Það er greinilegt að leikmenn fá ekki meira en 5 sekúndur eða eitthvað álíka með boltann því það má greinilega ekki láta flæðið stoppa. Þetta er þverólíkt fyrri stjóra sem vildi helst að leikmenn spiluðu ekkert og fóru bara í sitt hýði og lét lið sækja á sig með tilheyrandi leiðindum.
    Ég hefði áhuga á að sjá Baros og Cissé frammi í fyrsta leik því Owen verður að fá að vita það að hann er ekki fyrstur í röðinni hvað sóknarmenn varðar. Svo hafa Cissé, Baros OG Pongolle verið mun sókndjarfari en Owen í þessu móti þannig að ef rétt ætti að vera staðið að framherjavalinu yrði Owen nr 4 í röðinni.
    Ég vildi samt koma inná meiðsli Smicer og segja LFC hafa lent í miklu láni með þau meiðsli. Afhverju segi ég þetta? Jú, þessi leikmaður hefur verið hjá okkur í nokkur ár og meiri hlutann af þessum tíma hefur hann verið meiddur og ekkert nýst okkur…frekar verið að fylla uppí leikmannahópinn en annað. Það er ljóst að hann er mjög góður leikmaður og væri í raun frábær ef hann væri ekki alltaf meiddur…..en við verðum að fara að átta okkur á því að við getum ekki haldið honum endalaust í hópnum bara af því að hann GÆTI spilað 3-5 leiki á milli nokkurra mánaða meiðsla. Berger var hent út af þessu og hann var svo sannarlega ekki síðri. Ég segi því enn og aftur að meiðsli Smicer komu á FRÁBÆRUM TÍMA fyrir okkur að fjárfesta í öðrum leikmanni á miðjuna. Flott mál!

  3. Sammála þér um Smicer. Ég hef alltaf haldið mjög mikið uppá Smicer, þar sem mér finnst hann vera gríðarlega skemmtilegur leikmaður.

    Eeeeen, það er bara ekki hægt að treysta á svona menn, sem meiðast 2-3svar á tímabili. Við verðum að fá mann, sem við getum treyst á.

  4. Eiki Fr – ég er ósammála þér með Owen, og ég skal útskýra af hverju.

    Owen er Framherji. FRAMHERJI. Sem þýðir að þótt hann hafi ýmsar skyldur innan liðsins er hans hlutverk númer 1, 2 og 3 að skora mörk. Þú segir að hann eigi að vera fjórði kostur því hann sé ekki eins sókndjarfur og Cissé, Baros og Pongolle.

    Mörkin í Ameríku: Cissé 3, Owen 2, Riise 1.

    Sérðu Baros eða Pongolle á þessum lista? Neibb. Þess vegna er Owen ennþá númer eitt hjá okkur, og Cissé mun byrja með honum. Af því að þeir spiluðu nákvæmlega jafn mikið, allir fjórir framherjarnir. Cissé skoraði þrjú mörk í þremur hálfleikjum, Owen tvö í þremur hálfleikjum … en Baros/Pongolle ekkert í þremur hálfleikjum.

    Og það er bottom-line-ið. Líttu á þetta sem hnefaleikakeppni. Owen hefur verið markahæsti maður liðsins undanfarin ár og má því segja að hann sé heimsmeistarinn. Og Cissé sé síðan hinn heimsmeistarinn, þar sem hann kemur inn í liðið sem dýrasti leikmaður í sögu LFC og sá sem skoraði flest mörk í æfingaleikjunum.

    Þannig að þeir tveir eru heimsmeistararnir okkar í þungavigtinni hjá LFC. Hvað þarf að gera til að hirða heimsmeistaratitilinn að hnefaleikakappa?

    Það þarf að sigra hann. Jafntefli þýðir að heimsmeistarinn heldur titlinum.

    Þannig að hvað þurfa Baros og Pongolle að gera til að komast í byrjunarliðið? Svar: skora MEIRA en Owen eða Cissé.

    Owen og Cissé munu byrja tímabilið sem par #1, einfaldlega af því að þeir skoruðu í Ameríku en hinir ekki, auk þess sem þeir eru markahæstur/dýrastur af þeim fjórum. Til að slá þá út þurfa Baros og/eða Pongolle að skora meira en þeir gera í fyrstu leikjunum. Það er alveg hægt, erfitt en hægt.

    Það er málið. Vissulega mun Benítez hvíla og rótera leikmönnum og nota þá alla fjóra mikið og gefa þeim öllum sénsa. En þegar kemur að mikilvægu leikjunum spilar hann alltaf með tvo bestu/heitustu framherjana sína saman og eins og staðan er í dag eru það Cissé og Owen sem eru aðalframherjarnir. Og þeir eru heitastir.

    Ef Baros eða Pongolle vilja sjá það breytast er það þeirra að breyta því. Þeir eru frábærir leikmenn en þeir verða aldrei meira en varamenn fyrir Owen fyrr en þeir fara að skora meira en hann!

    Ókei?

  5. En bíddu, var Baros ekki markahæsti maður EM, á meðan að Owen skoraði eitt mark og Cisse var ekki einu sinni með?

    Á ekkert að gefa mínum manni, Milan Baros, kredit fyrir EM??

  6. Einar, ég er alveg jafn hrifinn af Baros og þú. Yndislegur leikmaður og frábært að sjá hann á EM.

    Það sem hann gerði fyrir sjálfan sig á EM var það að auka orðstír sinn. Hann nýtur núna meiri virðingar og á meiri heimtingu á að sanna sig hjá Liverpool.

    En hann skoraði þessi mörk ekki fyrir Liverpool. Ekki með leikmönnum Liverpool, ekki fyrir Benítez og ekki í Liverpool-leikkerfi. Það er allt önnur ella.

    Þannig að þótt EM hafi aukið orðstír hans og gert honum kleift að setja aukna pressu á Owen og Cissé þá breytir það því ekki að hann skoraði ekkert í fjórum æfingaleikjum LIVERPOOL (sem hafa hér meira gildi en landsliðsleikir) á meðan Owen og Cissé skoruðu. Það er það sem gildir.

    Ég dýrka Baros. Mér finnst hann yndislegur og æðislegur og frábær og súper!!!!! En … hann er ekki búinn að sanna það að hann geti skorað fyrir Liverpool reglulega, eins og Owen hefur. Og þar sem Heskey, hinn fastamaðurinn í liðinu ásamt Owen, fór í sumar var opin staða við hlið Owen í liðinu. Og ef Baros hefði skorað meira eða svipað mikið og Cissé í Ameríku hefði ég alveg viljað sjá Owen/Baros fá að byrja tímabilið saman. Owen er pottþéttur inn í liðið sem markakóngur síðustu ára, hafið það á hreinu. Hann er enn markakóngur #1 hjá Liverpool.

    En þar sem Cissé skoraði þrisvar og Baros aldrei í Ameríku, þrátt fyrir að þeir hafi báðir spilað mjög vel (og Pongolle líka) þá gilda þessi mörk Cissé bara það mikið (sem og verðmiðinn á hann) þannig að þegar kemur að leiknum við Tottenham eftir rúma viku mun Cissé byrja við hlið Owen.

    Ef síðan Cissé eða Owen byrja t.d. hægt en Baros byrjar að skora strax í ágúst-september, þá geri ég fullt ráð fyrir því að Baros hirði byrjunarliðsstöðu af öðrum hvorum þeirra. Og mun ég þá vera einn af þeim sem heimta það að Baros fari inn í byrjunarliðið!

    En ekki núna. Ekki á meðan hann skoraði ekki í Ameríku. Byggt á því, þar sem allir fengu að spila jafn mikið og byrja á sama núllpunkti, er sanngjarnt að Owen og Cissé byrji fyrsta leik saman.

  7. Bara einn punktur til umhugsunar … er Biscan ekki í banni í fyrri leiknum gegn AK Graz?

  8. Jú, góður punktur. Hann fékk náttúrulega rautt á móti Marseille. Ég er ekki klár á því hvort hann verður í banni á móti Grazer eða hvort hann tók bannið út í deildinni eða einhverju öðru.

    Svo var spjaldið náttúrulega rugl að mig minnir, þannig að það er spurning hvort Liverpool áfrýjuðu. Veit einhver hvort hann verður í banni?

  9. Ég las það á Echo-inu að hann yrði í banni. Þeir eru nú væntanlega með þetta á hreinu.

    Þar segir:
    With Igor Biscan suspended for the first leg of the Champions League qualifier against AK Graz, Hamann looks sure to partner Steven Gerrard.

    Reyndar hélt ég að þú gætir bara tekið út bann í Evrópukeppni, ef þú hefur fengið rautt eða ákv. fjölda gulra spjalda í evrópuleik. Svo takirðu bara bann domestically ef þú hefur fengið rautt/ákv. fjölda gulra í domestic keppni.

  10. Reyndi að setja linkinn inn, en virðist bara ekki ráða við það 🙂

    En þetta er allavega á Echo-inu undir frétt sem ber nafnið Hamann loves his return to Reds home.

Vieira er að fara til Madrid

Vignal kominn til Rangers